Fara í efni

Gæðaúttekt á IPS

Til baka

Gæðaúttekt á IPS

Líney Árnadóttir sérfræðingur hjá VIRK

 

Niðurstöður fyrstu formlegu gæðaúttektar á þeirri IPS þjónustu sem veitt er af atvinnulífstenglum VIRK, meðferðargeðdeild LSH á Laugarási og geðheilsuteymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins austur lofar góðu um árangur.

Tilgangur úttektarinnar er að kortleggja hver staðan er á IPS verkefninu nú þegar um fimm ár eru liðin frá upphafi þess og meta hversu vel gæðaviðmiðum IPS er fylgt. Verkefnið fór hægt af stað en síðustu þrjú árin hefur það eflst verulega með auknum mannafla og bættum verkferlum.

Við gæðaúttektina var lagður fyrir tryggðarskali (e. fidelity scale) sem þróaður hefur verið af upphafsmönnum IPS aðferðafræðinnar. Tryggðarskalinn setur IPS þjónustunni ákveðin viðmið sem þarf að ná til að hún geti talist IPS þjónusta og við fyrirlögn skalans þarf að fylgja ákveðnum reglum um hvernig mæla skuli tryggð við viðmiðin. Fyrirlögn tryggðarskalans nú var í höndum Hildar Ævarsdóttur iðjuþjálfa hjá LSH og Líneyjar Árnadóttur sérfræðings hjá VIRK.

Æskilegt er við innleiðingu og viðhald á IPS þjónustu að leggja tryggðarskalann fyrir reglulega til að mæla tryggð við gæðaviðmið skalans. Á niðurstöðum úttektar geta ábyrgðaraðilar síðan byggt upp þjónustu sína og sett markmið um að bæta þau atriði sem þarf til að ná betri árangri. Gagnreyndar rannsóknir sýna að þegar fylgni við gæðaviðmið er góð eða framúrskarandi næst mestur árangur af IPS(1).

Niðurstöður gæðaúttektarinnar nú sýna að tekist hefur að ná allgóðri tryggð við viðmið tryggðarskalans en fylgni í þessari fyrirlögn gefur 89 stig af 125 mögulegum(2). Góður árangur telst vera þegar þjónustan nær 100 stigum og tekur oftast nokkurn tíma að ná þeim árangri. Fyrirmyndar árangur telst síðan hafa náðst við 115 stig.

Viðmið fyrir atvinnulífstengla

Þegar litið er yfir niðurstöður má sjá að mjög vel hefur tekist til við innleiðingu á viðmiðum fyrir atvinnulífstengla og fæst fullt hús fyrir tvö af þremur viðmiðum þar (sjá mynd 1 hér að ofan) eða fyrir hámarksfjölda í þjónustu og verkefni atvinnulífstengla. Til að ná fullu húsi í þessum flokki þarf hins vegar að bæta skráningu á vinnutíma atvinnulífstengla.

Viðmið fyrir skipulag og framkvæmd

Þegar horft er yfir viðmið fyrir skipulag og framkvæmd (sjá mynd 2 hér að ofan) fæst einnig fullnægjandi fylgni fyrir viðmiðin um samstarf atvinnulífstengla, meðferðaraðila og málastjóra. Þessi niðurstaða er glæsileg og mikils virði fyrir verkefnið að þessir aðilar vinni vel saman.

Þegar þau fjögur viðmið eru skoðuð sem úttektin leiðir í ljós að æskilegt væri að setja í forgang til að ná enn betri árangri við skipulag og framkvæmd er gott að hafa eftirfarandi í huga. Atvinnulífstenglar þyrftu að sitja allan fundartíma klínísku teymanna. Þeim er ætlað samkvæmt aðferðafræðinni að sitja fundi klínískra teyma til að halda á lofti þeim möguleika að velja atvinnu sem úrræði fyrir þá þjónustuþega sem gætu haft áhuga á að fara að vinna. Þá þarf jafnframt að huga að því að allir þeir sem koma að þjónustu við þátttakendur í IPS hafi aðgang að sömu upplýsingum um hvernig gangi hjá einstaklingunum þann tíma sem þeir fá IPS þjónustu. Einnig er mikilvægt að skilgreina mun betur hlutverk verkefnastjóra en þeim er ætlað veigamikið hlutverk samkvæmt aðferðafræðinni. Þá þurfa ábyrgðaraðilar líka að ræða hvernig hægt sé að tryggja að allir sem þess óska og áhuga hafa á vinnu eigi greiðan aðgang að IPS. Almennt þarf svo að standa betur að kynningu á IPS sem valkosti fyrir þjónustuþega bæði á Laugarásnum og heilsugæslunni.

Viðmið fyrir þjónustu

Þegar horft er yfir viðmiðin fyrir þjónustu má sjá að þar liggja tækifæri til að gera betur á nokkrum sviðum (sjá mynd 3 hér að ofan). Framúrskarandi árangur hefur náðst í viðmiðum fyrir fjölbreytni starfa og fyrirtækja sem lýsir því vel hvernig atvinnulífstenglar leggja sig fram um að leita fjölbreyttra leiða fyrir þátttakendur. Tækifærin liggja hins vegar í umbótum á þeim fimm viðmiðum sem skora lægst.

Ljóst er að bjóða þarf þátttakendum upp á vandaða ráðgjöf um laun og framfærslu en slík ráðgjöf þarf að standa öllum til boða sem taka þátt í IPS. Þá þarf almennt að bæta skráningu atvinnulífstengla við undirbúning atvinnuleitar og skráningu á samskiptum þeirra við atvinnurekendur. Móta þyrfti stefnu um tímalengd vinnusamninga og halda betri skrá yfir þau störf sem þátttakendur hafa farið að sinna og þann stuðning sem atvinnulífstenglar og meðferðaraðilar veita þátttakendum í starfi. Almennt séð væri aukin skráning til góðs.

Fyrsta úttekt lofar góðu

Þegar á heildina er litið geta þeir sem að IPS þjónustunni standa vel við unað. Þeir hafa nú öll tromp á hendi með þennan ágæta grunn sem kominn er og þær ábendingar sem koma úr úttektinni. Það verður því spennandi að fylgjast með áframhaldandi uppbyggingu á enn öflugra IPS á Íslandi.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2019.

Heimildir

1. Bond GR, Peterson AE, Becker DA et al. Validation of the Revised Individual Placement and Support Fidelity Scale (IPS-25), Psychiatric Services. 2012.
2. VIRK - Starfsendurhæfingarsjóður og Landspítali háskólasjúkrahús. Úttekt. á IPS þjónustu 2018. 2019 (óútgefið).


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband