Fara í efni
Til baka

Samkennd, alúð og sveigjanleiki

Samkennd, alúð og sveigjanleiki

Í Skeifunni 3 í Reykjavík stendur myndarleg húsalengja sem meðal annars hýsir fyrirtækið Rafver. Það hefur fengið viðurkennnguna VIRKT fyrirtæki 2025 fyrir að sinna samstarfinu við atvinnutengingu VIRK sérlega vel. Hjá Rafveri hittum við Hildi Ágústsdóttur rekstrarstjóra sem segir okkur frá fyrirtækinu og samstarfinu við atvinnutengingu VIRK.

Hildur Ágústsdóttir

Í Skeifunni 3 í Reykjavík stendur myndarleg húsalengja sem meðal annars hýsir fyrirtækið Rafver. Það hefur fengið viðurkennnguna VIRKT fyrirtæki 2025 fyrir að sinna samstarfinu við atvinnutengingu VIRK sérlega vel. Hjá Rafveri hittum við Hildi Ágústsdóttur rekstrarstjóra sem segir okkur frá fyrirtækinu og samstarfinu við atvinnutengingu VIRK.

„Rafver var stofnað 1956. Fyrst var þetta einungis raffyrirtæki, en kaflaskil urðu 1984 þegar farið var að flytja inn vörur frá Kärcher í Þýskalandi. Um er að ræða alls kyns iðnaðarvörur, allt frá iðnaðarryksugum og upp í bílaþvottastöðvar. Nýjast í dag er að fá vélmenni, skúringavélmenni fyrir stórfyrirtæki. Slík nýjung leysir ákveðinn vanda. Vélmennin geta unnið á nóttunni! Þá geta starfsmennirnir unnið önnur verkefni á daginn. Við vorum með kynningu á vélmenninu nú fyrir skömmu. Rafver sér um sölu, verslun og viðgerðir. Hliðarfyrirtæki okkar Raftengi sér um vélavinnuna – þar vinna rafvirkjarnir. Hjá báðum þessum fyrirtækjum eru átta í fullu starfi, einn starfsmaður í hlutastarfi og svo erum við með tvo nema,“ segir Hildur.

Hvernig orsakaðist það að þið réðuð starfsmann frá atvinnutengingu VIRK?
„Við vorum að leita eftir starfsfólki á síðasta ári og þannig vill til að ég hef sjálf verið í starfsendurhæfingu hjá VIRK. Ég þekki því vel til starfsins hjá VIRK og mér datt í hug að hafa samband við atvinnutenginu VIRK og athuga hvort þar gæti ég fengið heppilegan starfsmann. Ég ræddi við atvinnulífstengil hjá VIRK. Hann tók mér mjög vel og sagði mér að hann teldi sig hafa starfsmann sem hentaði í þetta starf, sem er vélavinna. Við vorum opin fyrir því að taka starfsmann í hlutastarf sem myndi svo byggja upp vinnuþol sitt hjá okkur. Þetta gerðist mjög hratt.“

Eftir viku var starfsmaðurinn kominn til starfa

Fórst þú þessa leið eftir starfsendurhæfinguna hjá VIRK?
„Þannig var að ég hóf samstarf við VIRK en varð svo ófrísk af tvíburum, svo ég þurfti að taka hlé í starfsendurhæfingunni í tvö ár. Þá byrjaði ég aftur í endurhæfingu hjá VIRK. Þegar ég fór svo að vinna eftir að henni lauk þá hóf ég störf hjá Reykjalundi í sextíu prósent starfi. Ég var deildarritari. Þetta var gefandi starf – yndislegt umhverfi og gott verk sem unnið er á Reykjalundi. Þetta var verulega nærandi tímabil í lífi mínu.“

Hvað kom til að þú fórst að vinna hjá Rafveri?
„Rafver er fjölskyldufyrirtæki. Pabbi á það núna, en áður áttu Einar Ó. Ágústsson afi minn það, Jón Ingi bróðir hans og þeir Haraldur Hermannsson og Sigurður Sveinsson. Mér rann því blóðið til skyldunnar og núna vinnur sonur minn Róbert Dagur Jónsson hér líka, sem er þá fjórði ættliðurinn.

Áður en ég fór í starfsendurhæfingu hjá VIRK hafði ég starfað í ferðaþjónustu í mörg ár. Í tengslum við endurhæfinguna fór ég í jógakennaranám og markþjálfun. Ég fór einnig á námskeið hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands: konur í atvinnurekstri og stofnaði í framhaldi af því fyrirtæki sem ég rak um tíma meðfram vinnu hjá Reykjalundi.

Það er mikilvægt að skilja hvaðan einstaklingurinn er að koma og taka bara spjallið.

Með þennan bakgrunn hafði ég því áhuga á að fá starfsmann hingað í gegnum atvinnutengingu VIRK. Þetta gekk fljótt fyrir sig, eftir viku var viðkomandi kominn til starfa. Við sögðum honum að við værum tilbúin til að hjálpa honum að feta sig inn á vinnumarkaðinn aftur. Hann fór svo að vinna á verkstæðinu hjá okkur og hækkaði starfshlutfall sitt tiltölulega hratt.“

Hefur þetta ferli gengið áfallalítið?
„Hafi þess þurft höfum við stigið inn og styrkt starfsmanninn. Ég hef fullan skilning á hvernig tilfinning hans er gagnvart þessu ferli; skil vel hvernig það er að þurfa að vinna upp starfsþrek sitt, mæta í vinnu og hafa þol til að vinna allan daginn. Við erum ánægð að geta gert þetta og að það hafi tekist vel.

Þess má geta að við erum líka með annan starfsmann hér sem hefur verið í starfsendurhæfingu hjá VIRK, en hann kom ekki til okkar fyrir tilstilli atvinnutengingar. Og svo er það ég sjálf. Við störfum því hér þrjú sem höfum góða reynslu af starfsendurhæfingu hjá VIRK. Það er nokkuð hátt hlutfall hjá einu litlu fyrirtæki. Þetta hefur gengið mjög vel hjá okkur sem ekki er sjálfgefið.

Ég þekki af eigin reynslu að það er töluvert erfitt verkefni að fara í gegnum starfsendurhæfingu en þegar horft er til baka þá finnur maður að það eykur styrk að hafa gengið í gegnum slíkt ferli. Andleg veikindi voru eitthvað sem maður skildi ekki áður, en eftir að hafa sjálfur reynt á eigin skinni einkenni þreytu og álags hefur maður miklu meiri skilning á slíkum aðstæðum.“

Almennt gildir að fyrirtæki hugsi vel um sitt fólk

Áttu einhverjar ráðleggingar til þeirra sem taka við starfsfólki frá VIRK í skertu starfshlutfalli út frá ykkar reynslu?
„Ja, það er mikilvægt að skilja hvaðan einstaklingurinn er að koma og taka bara spjallið, hvað er það sem einstaklingurinn þarf að fá frá vinnuveitanda. Vera vakandi fyrir líðan starfsmannsins. Við spyrjum gjarnan: „Hvernig gengur?“ Verði viðkomandi lasinn, þá gæti ég þess að heyra í honum. Og almennt að styðja hann áfram á þessari vegferð.

Mér finnst mikilvægt að leggja áherslu á alúð, samkennd, skilning og sveigjanleika. Það getur alltaf komið bakslag þegar fólk er að feta sig inn í vinnu á ný. Fyrst er það kannski uppveðrað að byrja aftur að vinna, svo líður einhver tími og þá kann það að finna fyrir þreytu. Sveigjanleiki innan fyrirtækisins er nauðsynlegur til að takast á við slíkt. Kannski þarf ekki nema einn dag til að viðkomandi nái sér aftur á strik. En auðvitað fer það eftir því hvers eðlis málið er hverju sinni. Almennt gildir hjá fyrirtækjum að hugsa vel um sitt fólk.“

Ef fyrirtækið sýnir sveigjanleika og skilning þá gerir starfsmaðurinn það líka og slíkt er mikilvægt í litlu starfsumhverfi.  

Hvernig er reynsla ykkar af starfsfólkinu frá VIRK?
„Mín reynsla er sú að fólk sem er að koma til baka á vinnumarkaðinn vill sanna sig. Það hefur verið frá í einhvern tíma, hver sem ástæðan er fyrir því, og það vill standa sig vel, bæði sjálfs sín vegna og umhverfisins. Mín upplifun er að endurhæfingin geri fólk sveigjanlegra og skilningsríkara. Ef fyrirtækið sýnir sveigjanleika og skilning þá gerir starfsmaðurinn það líka og slíkt er mikilvægt í litlu starfsumhverfi. Þær aðstæður geta komið upp að starfsfólk þarf að geta stokkið til og gengið inn í önnur störf en það er vant; sinnt verkefnum sem ekki eru skilgreind í ráðningarsamningi.

Starfsmaðurinn á verkstæðinu sem kom til okkar frá atvinnutengingu VIRK hefur sýnt mikinn áhuga á að vaxa í starfi. Við höfum sent hann á námskeið og hann var mjög ánægður með það. Reynsla okkar af samstarfinu við atvinnutengingu VIRK er sem sagt mjög góð. Atvinnulífstengillinn brást skjótt við, samskiptin voru í alla staði góð og starfsmaðurinn var kominn til starfa eftir viku. Hann gat leitað til atvinnulífstengils VIRK ef hann þurfti fyrst eftir hann byrjaði hjá okkur. Þegar eitthvað kom uppá hvöttum við hann til að fá ráðleggingar hjá atvinnulífstenglinum. Það held ég að hafi verið viðkomandi þýðingarmikið.“

Starfsfólk frá atvinnutengingu VIRK reynst vel

Er þá samstarf við atvinnulífstengil hjá VIRK eitthvað sem þið getið mælt með við önnur fyrirtæki?
„Já, sannarlega. Starfsfólk sem kemur frá VIRK er eins gott og annað starfsfólk og sem fyrr greindi jafnvel betra að sumu leyti.“

Er náið samstarf í svona fjölskyldufyrirtæki?
„Já, við erum ekki það mörg þannig að við vinnum eðlilega mikið saman. Og eins og fyrr sagði, göngum í ýmis störf. Fyrirtækið hefur alltaf starfað hér á þessum sama stað og á þetta húsnæði. Ég byrjaði að koma hingað og sinna ýmsum smáviðvikum, strax þegar ég var lítil stelpa. Þetta fyrirtæki hefur því alla tíð verið hluti af lífi mínu þótt ekki séu nema tvö ár síðan ég fór að vinna hérna með pabba í fullu starfi. Maður hefur því fylgst með öllu og þekkt starfsfólkið frá því maður man eftir sér. Ég vil taka það fram að ég hef afar góða reynslu sjálf af starfsendurhæfingunni hjá VIRK og að starfsmaðurinn sem við fengum hjá atvinnutengingunni er að standa sig afar vel.“

Eftir spjall við Hildi bauð hún upp á skoðunarferð um vettvang Rafvers. Í versluninni hittum við fyrir föður Hildar, Ágúst Einarsson. Þau feðgin létu bæði í ljós mikla ánægju með að Rafver hafi verið valið sem VIRKT fyrirtæki.

„Það gleður okkur mjög og eykur enn áhuga okkar á að fá fleira starfsfólk frá atvinnutengingu VIRK ef þörf krefur,“ bættu þau við að endingu.

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Viðtal úr ársriti VIRK 2025.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband