Fara í efni
Til baka

Ekki fórnarkostnaður, heldur nauðsyn

Ekki fórnarkostnaður, heldur nauðsyn

„Þeir, sem eru fjarverandi vegna veikinda, ætla oft að bæta fjarvistirnar upp með því að leggja margfalt harðar að sér þegar þeir snúa aftur til starfa. Í Smiðjunni ríkir hins vegar fullur skilningur á að menn verða að fara rólega af stað, á meðan þeir eru að ná upp fyrri starfsgetu." 

Jakobína Jónsdóttir, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Alcan á Íslandi

Jakobína Jónsdóttir segir að sér lítist mjög vel á starfsemi VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, þótt fyrirtækið hafi ekki enn kynnst starfsemi sjóðsins í raun. „Mér finnst gott að vita að nú get ég vísað starfsmönnum á einn stað, þar sem hlutlaus aðili getur rætt við þá um stöðu þeirra. Stundum er vandinn ekki augljós; starfsmaðurinn kvartar kannski undan þrálátum verk, en raunverulegi vandinn getur verið af félagslegum eða andlegum toga. Slíkan vanda á starfsmaðurinn kannski erfitt með að ræða við samstarfsmenn sína. Ég er viss um að ráðgjafar geta orðið starfsmönnum Alcan, rétt eins og öðrum, innan handar við að finna réttu leiðina, ef á þarf að halda.“

Meðalstarfsaldur þeirra 450 starfsmanna, sem starfa í álverinu í Straumsvík, er 15 ár. Í svo fjölmennum hópi er óhjákvæmilegt að ýmis vandamál komi upp, um lengri eða skemmri tíma. Ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir hafa lengi tíðkast, fyrir utan strangar öryggisreglur. Þannig er sérstök áhersla lögð á heilsueflingu af ýmsu tagi, t.d. er fylgst með næringarinnihaldi máltíða í mötuneyti, starfsmenn fá styrki til líkamsræktar, trúnaðarlæknir hittir alla reglulega og allir fá ferska ávexti daglega.

Raunveruleg úrræði, öllum til góða

Fyrirtækið hefur ýmis úrræði fyrir starfsmenn með skerta starfsgetu. Barnshafandi konur eru fluttar í störf við hæfi, ef þær geta ekki lengur sinnt fyrra starfi, léttavinna er í boði eftir veikindi eða slys og eldri starfsmenn eiga kost á að draga úr vinnuskyldu, án þess að það komi niður á eftirlaunum. „Þau úrræði, sem við þurfum oftast að grípa til, eru þau sem snúa að eldri starfsmönnum okkar og þeim sem missa vinnugetu vegna heilsubrests,“ segir hún. „Því miður vita vinnuveitendur oft ekki hvernig þeir eiga að bregðast við slíkum málum og grípa jafnvel til þess ráðs að búa til störf, sem allir vita að eru í raun óþörf. Hér hefur hins vegar lengi verið lögð áhersla á raunveruleg úrræði, sem koma bæði vinnuveitanda og starfsmanni til góða. Í tilfelli þeirra, sem vilja draga úr vinnu á efri árum, þá býðst þeim að minnka vinnuskyldu sína um allt að 2 mánuði á ári. Það gera þeir ýmist með því að vinna hlutastarf, eða með því að taka 2 mánaða auka frí í kringum sumarfrístímann. Launin eru hins vegar jöfnuð út, svo fólk er aldrei launalaust. Jafnframt greiðir fyrirtækið áfram í lífeyrissjóð eins og um fullt starf væri að ræða. Eldri starfsmenn geta líka sótt um flýtt starfslok en þá geta þeir hætt fyrr en ella hjá fyrirtækinu og verið á sérstökum launum í allt að 3 ár.“

Það úrræði, sem einna mesta athygli hefur vakið utan vébanda fyrirtækisins, er starfsstöð innan álversins sem kallast Smiðjan. „Í Smiðjunni starfa þeir sem ekki hentar lengur að starfa á fyrri vinnustað vegna umhverfis, vinnufyrirkomulags eða af öðrum orsökum, um lengri eða skemmri tíma. Sumir starfa í Smiðjunni í skamman tíma, eftir veikindi eða slys, en aðrir eftir mat hjá trúnaðarlækni. Svo eru þeir, sem óska eftir að fá að starfa þar vegna þess að þeir treysta sér ekki lengur í vaktavinnu, vinnusvæðið hentar þeim illa af ýmsum ástæðum eða fjölskylduaðstæður kalla á breytingar.“

„Í raun byggir þetta starf á sömu forsendum og VIRK. Skert starfsgeta þýðir ekki að fólk geti ekki lagt sitt af mörkum áfram.“

Smiðjan nýtur virðingar

Um 12 starfsmenn starfa í Smiðjunni að jafnaði og þeir hafa nóg við að vera. „Þeir sinna störfum, sem þarf hvort sem er að leysa af hendi,“ segir Jakobína. „Við höfum skilgreint ákveðin störf, sem núna falla eingöngu undir Smiðjuna, en væru annars unnin í kerskála eða steypuskála. Þar má til dæmis nefna sýnatöku, sem er hluti af gæðaeftirliti steypuskálans, viðhald og þrif á slökkviliðsbílum, áfyllingu og eftirlit með handslökkvitækjum á öllu vinnusvæðinu, útkeyrslu á ávöxtum og kaffi, sorphirðu innan svæðis, flutning á hráefnum, framleiðslu á háþrýstislöngum, hleðslu á rafgeymum og ýmsa viðhaldsvinnu.“

Starfið í Smiðjunni er engin atvinnubótavinna eða fórnarkostnaður, heldur nauðsyn. „Smiðjan nýtur virðingar sem einn af nauðsynlegu hlekkjunum í keðjunni. Um starfsemi hennar er gerð sértök rekstraráætlun og aðrar deildir kaupa þjónustu hennar. Við vitum því fyrir víst að starfsemin borgar sig. Hins vegar er ekki gerð krafa um sama hraða í starfi Smiðjunnar eins og annars staðar innan girðingar, menn ganga ekki vaktir og tekið er fullt tillit til þess ef starfsmenn þurfa að vera fjarverandi um lengri eða skemmri tíma vegna veikinda.“

Jakobína segir að víðast hvar sé það svo, að álag aukist á aðra starfsmenn, ef einn er oft fjarverandi vegna veikinda. „Slíkt getur valdið óróa á vinnustað, enda ekki sanngjarnt að störfin hlaðist á aðra. Við bregðumst við þessu, ýmist með því að flytja viðkomandi starfsmann í Smiðjuna, eða með því að færa stöðugildi hans undir Smiðjuna. Starfsmaðurinn getur þá verið áfram á sinni starfsstöð, en hann tilheyrir Smiðjunni. Þetta þýðir, að starfsstöð hans getur ráðið einn starfsmann til viðbótar og þannig er búið að koma í veg fyrir óánægju vegna veikindafjarvistanna. Fyrir starfsmanninn skiptir þetta miklu, því hann fær að vera áfram á sínum vinnustað .“
Á eigin forsendum.

Jakobína segist fullviss um að margir starfsmenn hefðu þurft að hætta störfum, ef ekki væri boðið upp á þetta úrræði. „Þessir starfsmenn eru ekki á sjúkradagpeningum eða örorkulífeyri, heldur ná að halda áfram að vinna á eigin forsendum. Þeir hafa áfram hlutverki að gegna. Þeir, sem eru fjarverandi vegna veikinda, ætla oft að bæta fjarvistirnar upp með því að leggja margfalt harðar að sér þegar þeir snúa aftur til starfa. Í Smiðjunni ríkir hins vegar fullur skilningur á að menn verða að fara rólega af stað, á meðan þeir eru að ná upp fyrri starfsgetu. Í raun byggir þetta starf á sömu forsendum og VIRK. Skert starfsgeta þýðir ekki að fólk geti ekki lagt sitt af mörkum áfram.“

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband