Fara í efni
Til baka

Fáum fólk sterkara til baka

Fáum fólk sterkara til baka

„Almennt gengur þetta vel, viðkomandi hefur unnið vel í sínum málum og kemur sterkari til baka með góð verkfæri til að nýta sér jafnt í starfi sem í einkalífi."

Sigríður Indriðadóttir mannauðsstjóri hjá Póstinum

„Við hjá Póstinum höfum verið í afar jákvæðum samskiptum við VIRK varðandi starfsfólk okkar sem hefur verið í þjónustu þar. Við fáum fólk sterkara til baka eftir að það hefur verið í þjónustu hjá VIRK “ segir Sigríður Indriðadóttir mannauðsstjóri hjá Póstinum.

„Það starfsfólk sem um ræðir hefur vegna veikinda af ýmsum toga orðið að hætta störfum tímabundið. VIRK býður fólki í slíkum aðstæðum upp á margskonar úrræði sem miða að því að styrkja það og styðja til að koma aftur til starfa af endurnýjuðum krafti.“

Hefur margt fólk frá Póstinum notið þjónustu hjá VIRK?
„Þó nokkrir einstaklingar hér hafa nýtt sér þjónustu VIRK í samráði við trúnaðarlækni fyrirtækisins. Ég veit fyrir víst að þeir sem það hafa gert eru afskaplega ánægðir með úrræðin sem þar hafa boðist. Sem dæmi get ég nefnt að fyrir nokkru síðan sat ég með stjórnanda sem var að koma til baka úr löngu veikindaleyfi. Við vorum í sameiningu að undirbúa hvernig það ætti að fara fram. Það var verulega gaman að heyra hann lýsa því hvernig úrræðin sem hann var í hjá VIRK höfðu veitt honum styrk á ný sem manneskju. Og hvernig hann sá fyrir sér að hann gæti nýtt reynslu sína til að styrkja sitt fólk á vinnustaðnum. Þarna sá ég kristallast hvað þessi úrræði og stuðningur sem VIRK býður upp á skiptir gríðarlega miklu máli varðandi endurkomu til vinnu.“

Reynum að koma til móts við fólk eftir bestu getu

Hvað er það helst sem þjáir ykkar fólk sem þarf á starfsendurhæfingu VIRK að halda?
„Ástæðurnar eru margvíslegar sem liggja þar að að baki. Allt frá afleiðingum alvarlegra sjúkdóma á borð við krabbamein og til álagseinkenna af ýmsu tagi, kulnunar eða geðheilsuvanda.“

Þegar starfsfólk kemur aftur til starfa úr þjónustu hjá VIRK býðst því þá að koma fyrst í hlutastarf?
„Við metum hvert og eitt tilvik fyrir sig í samráði við einstaklinginn sem um ræðir og trúnaðarlækni okkar. Stundum kemur fólk aftur í lægra starfshlutfall eftir að við höfum metið möguleikana á að slíkt sé gerlegt. Það fer eftir samspili aðstæðna hvort þetta er hægt – svo sem heilsu einstaklingsins, eðli starfs sem hann gegnir, aðstæðum á vinnustaðnum og fleiru. Við þurfum að taka tillit til ólíkra aðstæðna hverju sinni. Við gerum allt sem við getum til að koma til móts við fólk og fá það til baka.

Almennt gengur þetta vel, viðkomandi hefur unnið vel í sínum málum og kemur sterkari til baka með góð verkfæri til að nýta sér jafnt í starfi sem í einkalífi.

Það er hins vegar ekki í ákvæðum kjarasamnings réttur til endurkomu á vinnustað í hlutastarf. Hins vegar er heimildarákvæði til að hæfa það inn aftur. Það ákvæði nýtum við þegar unnt er. Stundum er viðkomandi enn í þjónustu hjá VIRK. Þá reynum við að hafa sem mesta samfellu í úrræðum þar og kringumstæðum á vinnustaðnum. Almennt gengur þetta vel, viðkomandi hefur unnið vel í sínum málum og kemur sterkari til baka með góð verkfæri til að nýta sér jafnt í starfi sem í einkalífi.“

Hvenær hófst þetta samstarf milli Póstsins og VIRK?
„Það hefur staðið í nokkuð mörg ár. Ég hef verið mannauðsstjóri hjá Póstinum í þrjú ár en ég þekkti vel til starfsemi VIRK áður. Ég kynntist þeim góðu úrræðum sem þar bjóðast strax þegar VIRK var komið á laggirnar, þá var ég mannauðsstjóri í Mosfellsbæ. Á þeim vettvangi fór fram farsælt samstarf við VIRK.

Reyndar hef ég ákveðnar skoðanir á því hvernig mætti bæta enn samstarfið við VIRK hvað varðar endurhæfingu starfsfólks sem fær þar þjónustu. Nú er vinnustaðnum haldið utan við allt sem viðkemur endurhæfingunni en þannig var það ekki áður. Þá var samráð milli einstaklingsins, VIRK, trúnaðarlæknis og vinnuveitanda.

Mín ósk er sú að VIRK hafi meira samráð við vinnuveitanda varðandi endurhæfingu starfsfólks. Við vildum gjarnan eiga meiri möguleika á að eiga samráð varðandi endurhæfinguna og undirbúning endurkomu til starfa. Á þann hátt held ég að hægt væri að ná enn betri árangri í endurhæfingu og stytt tímann sem viðkomandi er frá vinnu. Þannig myndi þjónusta VIRK ná hæstu hæðum að mínu mati.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2021.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband