Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa

VIRK reyndist heppilegur áfangastaður

VIRK reyndist heppilegur áfangastaður

„Það kom reglu á líf mitt að fara að vinna hjá Bakarameistaranum, fara í skóla og stunda reglubundna hreyfingu. Allt þetta hefur komið lífi mínu í ákveðið form sem mér líkar vel.“

Garðar Friðrik Harðarson

Starfsendurhæfingin sem ég fór í gegnum hjá VIRK gekk bæði hratt og vel fyrir sig,“ segir Garðar Friðrik  sem undanfarið hefur tekið mikilvæg skref út í atvinnulífið, jafnframt því að feta sig aftur inn á menntabrautina. 

„Ég hitti atvinnulífstengil hjá VIRK sem aðstoðaði mig við að finna störf á netinu sem hugsanlega gætu verið heppileg fyrir mig. Við fórum saman yfir þetta nokkrum sinnum á skrifstofu hans og ræddum málin.

Ýmislegt var í boði en við nánari athugun þá datt okkur í hug að skoða starf sem laust var hjá Bakarameistaranum. Ég byrjaði á að fara í prufu. Síðan fékk ég samning til þriggja mánaða. Ég var svo ráðinn áfram eftir þann reynslutíma og er nú þar í föstu hlutastarfi.“

Hvað vinnur þú við hjá Bakarameistaranum?
„Ég byrjaði strax sem frostmaður og er í því starfi enn. Ég byrjaði í fimmtán prósent vinnu en hef aukið við mig starfshlutfallið upp í þrjátíu prósent.“

Hvað gerir frostmaður?
„Ég sé um að setja í kassa djúpfryst deig, brauðmeti sem fer til verslana út í bæ, ostaslaufur og fleira. Þetta er geymt í frysti þannig að ég þarf að vinna í miklum kulda. Ég þarf að hafa kassana tilbúna til sendinga. Þetta er mikilvægt starf að því leyti að afgreiðslan gengur hratt fyrir sig ef allt er tilbúið til afhendingar.“

Einn af „Bakarameistarafjölskyldunni“

Hvernig gengur þér félagslega á vinnustaðnum?
„Það gengur vel, manni líður eins og maður sé hluti af fjölskyldu, „Bakarameistarafjölskyldunni“. Reyndar er það fjölskylda sem á fyrirtækið en svo bætumst við inn í sem vinnum þarna. Við erum um tuttugu sem vinnum á efri hæðinni í Suðurveri við ýmis störf, bakstur og fleiru því tengt.“

Hvernig fannst þér samstarfið við VIRK?
„Ég var frekar stutt þar í samstarfi. Ég frétti af VIRK í gegnum Laugarás, þar sem ég hafði verið. Framan af skólagöngu minni gekk mér þokkalega í skóla en þegar leið á unglingsárin þá varð ég illa haldinn af einbeitingarskorti og féll út úr námi. Eftir það lá leið mín í Laugarás. Í samstarfinu við VIRK ákvað ég að taka mikið stökk, fara aftur í nám. Ég er í tveimur fögum, ensku og félagsfræði, í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og það gengur ágætlega. Ég var svolítið stressaður fyrst, hafði ekki verið í skóla í rúm tvö ár, en fljótlega eignaðist ég félaga. Þeir sem ég hafði verið með voru þá komnir lengra í náminu og ég átti ekki samleið með þeim.

Skilningur á að ég vildi fara hægt af stað

Á Laugarási frétti ég fyrst af VIRK. Mér var sagt að VIRK væri mjög heppilegur áfangastaður til þess að komast út á vinnumarkaðinn – án þess þó að „hoppa beint út í djúpu laugina“. Mér fannst ég ekki geta það á þeim tíma. Ég var rösklega tvítugur þegar ég sneri mér til VIRK og hafði þá aðeins unnið í vinnuskóla og borið út Morgunblaðið. Ég hafði því litla reynslu af hinum harða vinnumarkaði. Því var sýndur skilningur að ég vildi fara hægt af stað.“

Gerðir þú eitthvað meðfram því að vinna og fara í skóla til að bæta líðan þína?
„Já, í samráði við VIRK þá fór ég að hreyfa mig miklu meira en ég gerði áður. Það finnst það kannski sumum fyndið en ég hef lést um rúmlega tuttugu kíló síðan ég fór að vinna hjá Bakarameistaranum – margur kynni að halda að það yrði á hinn veginn. Ég léttist vegna aukinnar hreyfingar, fer í ræktina, fótbolta og sund – svo er líkamlega erfitt það sem ég geri í vinnunni. Ég vinn inni í átján gráðu frosti líkamlega erfiða vinnu, lyfti kössum og þess háttar, það reynir á.“

Hvernig ertu klæddur í vinnunni?
„Ég fer í sérstaka úlpu, húfu og vettlinga. Annars gæti maður ekki þolað að vinna í svona miklu frosti. Kuldinn er meiri en gráðurnar segja til um því það er alltaf kæliblástur inni í klefanum. Mér fannst þetta dálítið erfitt í fyrstu en allt venst og þetta gengur ágætlega. Það kom reglu á líf mitt að fara að vinna hjá Bakarameistaranum, fara í skóla og stunda reglubundna hreyfingu. Allt þetta hefur komið lífi mínu í ákveðið form sem mér líkar vel. Ég fer stundum ennþá inn í Laugarás, þar hef ég fengið góðan stuðning.“

Gott að hafa atvinnulífstengilinn sem bakhjarl

Hvað hjálpaði þér mest fyrstu dagana í vinnunni?
„Að kynnast nýju og skemmtilegu fólki. Það sýndi mér frá upphafi gott viðmót, heilsar þegar ég kem og kveður þegar ég fer. Ég hafði aldrei verið í „alvöru starfi“ áður, þetta var því ný reynsla. Atvinnulífstengillinn hjálpaði mér líka.“

Varstu í miklu sambandi við atvinnulífstengilinn?
„Já, ég hafði oft samband við hann og hann fylgdist reglulega með hvernig mér gekk. Hann bað mig að láta sig vita ef eitthvað kæmi upp á. Það var mjög gott að hafa slíkan bakhjarl. Nú er liðið ár og ég er enn í starfi og kann því vel. Fínt að fá laun, góðan félagsskap og taka þátt í lífinu á þennan hátt. Mig langar að geta þess að mikilvægur þáttur í hve vel mér hefur gengið var Pepp Upp námskeið sem ég tók þátt í síðasta haust. Það gerði ég í samstarfi við VIRK og Laugarás. Það hjálpaði mér ekki síst til þess að hefja aftur nám. Markmiðið hjá mér er að komast í fullt nám og vinnu. Ég er þakklátur fyrir þá aðstoð og þjónustu sem ég hef fengið hjá VIRK til að komast út á vinnumarkaðinn og í skólann.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband