Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Kulnun

VIRK hefur gert mig að betri manni

VIRK hefur gert mig að betri manni

„Ég var þá orðinn vægast sagt leiður á lífinu en ákvað við umhugsun að hafa aftur samband við lækninn og reyna að takast á við þessa miklu vanlíðan af karlmennsku.“

Jón Aðalsteinn Jónsson vélstjóri

„Þéttir á velli og þéttir í lund, þrautgóðir á raunastund“ – tilvitnun í táp og fjör – ljóð Gríms Thomsens. Einmitt þannig tilfinningu fær blaðamaður við þétt og hlýtt handtak Jóns Aðalsteins Jónssonar vélstjóra sem nýlega lauk starfsendurhæfingu hjá VIRK. „Eigum við nokkuð að hræðast Kórónuvírusinn – bæði búin að þvo okkur vandlega um hendurnar,“ segir hann og brosið ber vott um gamansemi í bland við æðruleysi. Jón Aðalsteinn segist hafa verið ákafur að komast aftur til vinnu og byrjað strax og hann gat aftur í fullu starfi á sínum gamla vinnustað.

„Ég lét mig bara hafa það að byrja,“ segir hann og býður mér í bæinn. Þegar inn í eldhúsið er komið kemur fljótlega á borðið myndarlegt drykkjarílát með kaffi og síðan hefst spjall sem væntanlega er fróðlegt fyrir þá sem velta fyrir sér kulnun og ástæðum hennar.

„Ég fór til heimilislæknisins míns, var alltaf svo þreyttur og orðinn ansi þungur á brún. Mér leið raunar eins og kletti sem brotnað hafði niður í hafið. Þegar ég sagði frá líðan minni sagði læknirinn samstundis: „Þú ert kulnaður“. Ég var ekki alveg á því að þetta gæti verið rétt. Hafði fordóma gagnvart þessu orði. Trúði ekki að kulnun væri til í raun og veru.

Ég hélt svo áfram að vinna í nokkra mánuði þótt mér liði illa. Svo var það einn daginn að ég „gekk á vegg“, komst engan veginn til vinnu. Sat bara á stól og treysti mér ekki út. Ég var þá orðinn vægast sagt leiður á lífinu en ákvað við umhugsun að hafa aftur samband við lækninn og reyna að takast á við þessa miklu vanlíðan af karlmennsku,“ segir Jón Aðalsteinn og skellir kaffifantinum á borðið til að leggja áherslu á orð sín.

Hann býr í fallegu húsi, er löngu fráskilinn og faðir tveggja uppkominna barna sem hann hefur gott samband við. „Ég á líka fjögur barnabörn og tvö systkini sem eru mér náin svo ég er ekki einn í heiminum eins og þar stendur. Það er ekki málið,“ bætir Jón Aðalsteinn við.

Meðvirkni í aðalhlutverki

Hvað skyldi hafa leitt hann í kulnunarástand?
„Meðvirkni – ef ég ætti að nefna eina ástæðu. En auðvitað eru fjölþættar ástæður fyrir kulnun, líka í mínu tilviki. Samt finnst mér meðvirknin hafi verið í aðalhlutverki. Eitt sinn hringdi síminn meðan ég var í sturtu í ræktinni. Ég stökk út úr sturtunni rennblautur og nakinn, greip handklæði og vafði utan um mig og tók símann. Svona var ég meðvirkur,“ segir Jón Aðalsteinn og hlær. Hann er sem fyrr sagði vélstjóri að mennt og hefur bæði unnið á sjó og í landi. Lengst af í vélsmiðju.

„Ég er alinn upp í sveit. Var elsta barn móður minnar og mjög náinn henni. Hún dó árið 2017. Fráfall hennar hafði ekki góð áhrif á heilsu mína, ég saknaði hennar mikið og geri raunar enn. Hún dvaldi oft hjá mér síðari árin. Einnig var um þær mundir afskaplega mikið að gera í minni vinnu.

Ég hef löngum haft þann háttinn á að bíta á jaxlinn og halda áfram, hvað sem á hefur dunið.

Ég hef löngum haft þann háttinn á að bíta á jaxlinn og halda áfram, hvað sem á hefur dunið. Ég hef líka gripið til óheppilegra ráða þegar mér hefur liðið illa. Á tímabili hér áður fyrr huggaði ég mig gjarnan við mat. Ég borðaði snúða eins og enginn væri morgundagurinn. Afleiðingin varð sú að ég þyngdist og þyngdist. Áður en ég tók til minna ráða var ég orðinn tvöföld útgáfa af sjálfum mér. Ég fór á Reykjalund til að leita mér aðstoðar við lífsstílsbreytingu. Til greina kom að ég færi í svokallaða magaminnkun. En við nánari umhugsun hætti ég við þá aðgerð. Ákvað að megra mig upp á gamla mátann. Ég fór í Heilsuborg eftir að hafa verið á Reykjalundi og tókst að léttast um fimmtíu kíló og stefni að því að verða einföld útgáfa af sjálfum mér. Þar er ég enn staddur,“ segir Jón Aðalsteinn.

Tók slaginn við hvern „drauginn“ af öðrum

Hvað gerði VIRK fyrir þig?
„Þegar ég fór aftur til heimilislæknisins þá skrifaði hann beiðni til ráðgjafa míns stéttarfélags og óskaði eftir þjónustu fyrir mig hjá VIRK. Því hafði læknirinn raunar stungið upp á í fyrri heimsókn minni til hans. Þegar svona illa var komið fyrir mér, andlega og líkamlega, þá ákvað ég að grípa boltann og leita til VIRK. Ráðgjafinn reyndist mér frábærlega. Í sameiningu lögðum við á ráðin. Ég vildi fyrst og fremst komast til sálfræðings.

Það er nú svona í lífinu að það safnast í pokann, ef svo má segja. Ég fann að ég burðaðist með ýmislegt allt frá æsku og fram á þann dag sem ég tók ákvörðunina að leita til VIRK. Það var því margt sem ég þurfti að greiða úr og ganga frá. Eftir að ég komst til sálfræðingsins tók ég slaginn við hvern „drauginn“ af öðrum. Ég er ekki búinn að ganga frá þeim öllum og er því enn hjá sálfræðingnum að vinna í mínum málum.“

Hvað varstu lengi í þjónustu hjá VIRK?
„Ótrúlega fljótt komast ég í þá þjónustu. Ég var kominn á fullt í byrjun maí árið 2019, hafði aðeins þurft að bíða í einn mánuð. Þann mánuð nýtti ég mér aðstöðuna hjá Heilsuborg sem fyrr. Þar eru mörg úrræði í boði. Ég var þar öllum hnútum kunnugur. Í samráði við ráðgjafa VIRK hélt ég áfram að stunda úrræðin hjá Heilsuborg. Bætti bara við mig, fór á núvitundarnámskeið, í hugræna atferlismeðferð sem ég hafði raunar áður farið í gegnum, sótti hugleiðslunámskeið auk þess að bæta við mig æfingum og þrekþjálfun. Ég fann varla fyrir því að hætta að vinna því ég hafði svo mikið að gera við að bæta líðan mína andlega og líkamlega.“

Fordómarnir voru mestir hjá sjálfum mér

Hvernig tók fólk í umhverfinu þessum veikindum þínum?
„Það var oft hringt í mig í veikindaleyfinu og sumir spurðu hvað væri að mér. Ég gaf lítið fyrir það og þess vegna héldu sumir að ég væri lífshættulega veikur. Svo tók ég mig á og fór að segja að ég væri kulnaður. Ég fann þá hve viðbrögðin voru fordómalaus. Fordómarnir voru mestir hjá mér sjálfum. Ég hvet fólk sem finnur fyrir kulnunareinkennum að gera fljótt eitthvað í sínum máum."

Hefur þú nokkra hugmynd um hvers vegna þú fórst svona langt niður?
„Já, þetta kom auk þess sem fyrr er nefnt til af því að ég var alltaf að. Mér leið oft illa en tók á því með því að vinna meira. Ég var meðfram erilsömu starfi að gera upp íbúð og rétt fékk lágmarkshvíld. Svo kom að því að ég gat ekki sofið. Þá fór verulega að syrta í álinn. Ég velti mér fram og aftur í rúminu og hugsaði, gat ekki hvílst, var alltaf að hugsa um allt sem ég ætti eftir að gera. Smám saman varð ég þreyttari og þreyttari. Samfara þessu jókst álagið á vinnustaðnum.

„Svo tók ég mig á og fór að segja að ég væri kulnaður. Ég fann þá hve viðbrögðin voru fordómalaus. Fordómarnir voru mestir hjá mér sjálfum. Ég hvet fólk sem finnur fyrir kulnunareinkennum að gera fljótt eitthvað í sínum máum."

Ég var meðvirkur, eins og ég sagði áðan, það lýsti sér í því að ég tók allt að mér, meira að segja óbeðinn. Hugsaði sem svo: „Æ, það er bara best að ég geri þetta sjálfur“, þannig jók ég sjálfur smám saman álagið. Alltaf var ég fyrsti maður til að bjóðast til að vinna verkin, áttaði mig ekki á að ég væri að ganga freklega á sjálfan mig. Þannig liðu vikurnar, mánuðirnir og árin. Svo gat ég bara allt í einu ekki meira. Það var hræðileg líðan. Mig langaði ekki að vera til þannig á mig kominn.“

Gat ekki lengur skýlt mér á bak við endalausa vinnu

Hvernig var félagslífið hjá þér þegar svona var komið?
Jón Aðalsteinn hlær og fær sér meira kaffi. Hann er brosmildur maður og virðist við fyrstu sýn ekki líklegur til að verða kulnun að bráð. „Félagslífið? Ja, það var satt að segja harla lítið fyrir utan nánustu fjölskyldu. Ég var alltaf að vinna. Meðan mamma var á lífi þá hafði ég athvarf hjá henni, svona félagslega séð.

Núna eru börnin mér nánust. En á þeim tíma sem ég vann eins og brjálæðingur þá var ég lítið í félagskap við annað fólk nema það sem ég vann með. Eftir að íbúðin kláraðist þá var ég algerlega búinn á því. Gat ekki lengur skýlt mér á bak við endalausa vinnu. Það var þá sem ég fór alveg niður og fannst ég einn í heiminum og allt ómögulegt.“

Hefur þú lengi verið einn?
„Ég hef löngum lifað æði mikið í karlaheimi þótt vitanlega hafi ég átt í kunningsskap við konur eftir að ég skildi. Ég neita því ekki. En ég hef ekki bundið mig til langframa. Og ég hef ekki unnið með konum síðan ég var um tvítugt.“

Hvernig er félagsleg staða hjá þér núna?
„Hún er satt að segja mikið að lagast. Ég hef opnast svo mikið við að ræða við sálfræðinginn. Hann er kvenkyns. Ég bað um að fá meðferð hjá beinskeyttri konu og fékk það. Hún hefur verið dugleg að hjálpa mér að rista til flísa í sálarlífi mínu. Það hefur vissulega oft verið sárt en slíkt er nauðsynlegt þegar fólk er alveg komið upp að vegg og sér ekkert nema svartnættið framundan. Þá þarf að skera á sálarkýlin.

„VIRK hefur gert mig að betri manni. Svo einfalt er það. Ég hef, fyrir það sem VIRK bauð mér upp á – Heilsuborg, námskeið og sálfræðiþjónustu, orðið miklu skyggnari á hvað skiptir máli í lífinu og hvað ekki.

Núna er ég kominn á þann stað sem ég hefði aldrei trúað að ég myndi komast á. Ég er farinn, ásamt kunningja mínum, að stunda Zumbadans í hópi margra kvenna. Mér líkar sú hreyfing og félagsskapurinn harla vel. Ég er að átta mig á að ég er orðinn líkari því sem áður var. Dóttir mín sagði um daginn: „Gamli pabbi er kominn aftur.“ Þetta fannst mér ánægjulegt að heyra.

Ég hef ekki slegið af því sem ég lærði hjá VIRK þótt ég sé farinn að vinna fulla vinnu aftur. Ég viðurkenni að ég fór kannski full fljótt að vinna. Ráðgjafinn og sálfræðingurinn álitu að ég væri ekki alveg tilbúinn. En ég vildi komast af stað aftur. Mér datt ekki hug að fara í hálft starf, ég dreif mig bara í fulla vinnu. Ég finn reyndar að ég má gæta mín og reyni að gera það. Ég var ekki í veikindaleyfi nema í fjóra mánuði. En ég nýtti þá mánuði vel til að ná mér út úr kulnuninni.“

Yfirtek ekki lengur annarra verk í meðvirkni

Ertu þá laus við vanlíðanina?
„Nei ekki alveg. Hún kemur stundum yfir mig, ég viðurkenni það. Ég var satt að segja orðinn verulega þunglyndur og kvíðinn þegar ég komst í þjónustuna hjá VIRK. Ég svaf illa einmitt vegna þess. En ég er fyrir margt löngu farinn að sofa ágætlega. Mikilvægt er að gæta þess að fara ekki fram úr sér. Ég er samt ennþá að berjast við meðvirknina, hún er þó að minnka, sömuleiðis kvíðinn.“

Hvernig skilgreinir þú meðvirkni?
„Sko, segjum svo að það sé skafl fyrir utan húsið hjá manni. Ef þú segir við manninn: „Ég skal bara moka skaflinn frá húsinu,“ þá ertu meðvirkur, tekur í raun stjórnina frá viðkomandi manni. Ef þú hins vegar sérð að maðurinn er byrjaður að moka og þú býður kurteislega fram hjálp, þá er það ekki meðvirkni heldur hjálpsemi. Ég var áður fyrr gjarnan rokinn til og farinn að taka fram fyrir hendurnar á fólki í kringum mig í meðvirkni minni. Nú hugsa ég mig um og held mig til hlés, býð fram hjálp en yfirtek ekki annarra verkefni í meðvirkni.“

Varstu ánægður með þjónustuna hjá VIRK?
„VIRK hefur gert mig að betri manni. Svo einfalt er það. Ég hef, fyrir það sem VIRK bauð mér upp á – Heilsuborg, námskeið og sálfræðiþjónustu, orðið miklu skyggnari á hvað skiptir máli í lífinu og hvað ekki. Ég held áfram að byggja mig upp með aðstoð sálfræðingsins á sjálfs míns vegum. Einnig held ég áfram hjá Heilsuborg við allskonar æfingar og námskeið. Allt þetta hefur skilað mér miklu betri líðan. Ég er ekki lengur í neinu kulnunarástandi en ég þarf að gæta mín, hvíla mig og hafa yfirsýn á líðan mína, þá gengur þetta vonandi allt hjá mér. Ég hélt dagbók meðan á ferlinu hjá VIRK gekk og kíki stundum í hana til þess að sjá hvað ég þarf að forðast.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband