Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Kulnun

Úr hlaupaskónum í gönguskó

Úr hlaupaskónum í gönguskó

„Það gerði gæfumuninn í mínum veikindum að hafa yfirstigið fordóma gagnvart því að þiggja hjálp. Það er ótrúlega mikilvægt að til sé staður eins og VIRK, þar sem hægt er að fá stuðning á eigin forsendum – fá uppbyggilegar leiðbeiningar. Ráðgjafinn kom þannig fram við mig í bataferlinu að ég hélt reisn og sjálfsvirðingu. Slíkt er mikilvægt. Ég er mjög stolt af sjálfri mér að hafa farið og þegið þá aðstoð sem mér stóð til boða hjá VIRK.“

 

Sigríður Arndís Jóhannsdóttir verkefnastjóri

„Ég neita því ekki að ég hafði nokkra innri fordóma gagnvart því að leita til VIRK,“ segir Sigríður Arndís Jóhannsdóttir verkefnastjóri á þjónustumiðstöð Vesturbæjar- Miðbæjar- og Hlíða í Reykjavík.

Sigríður Arndís Jóhannsdóttir er fædd 1972. Hún er félags- og tómstundafræðingur. Hún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólanum og háskólamenntun í sínu fagi í Gautaborg í Svíþjóð.

„Þegar ég kom heim frá námi fór ég að vinna í félagsmiðstöð unglinga á vegum Reykjavíkurborgar í Grafarvogi og varð fljótt stjórnandi þar,“ segir Sigríður Arndís.

„Mér var falin töluverð ábyrgð sem stjórnanda í hverfi sem þá var að byggjast upp. Síðan varð ég stjórnandi í uppbyggingu félagsmiðstöðvarstarfs í Grafarvogi. Það var umfangsmikið starf sem krafðist samþættingar af ýmsu tagi. Mér var falin ábyrgð á uppbyggingu frístundaheimila þegar verið var að koma þeim á fót. Ég fór til Svíþjóðar og Danmerkur til að kynna mér hugmyndafræði á baki slíku starfi. Eftir það tímabil sneri ég við blaðinu og fór á kaf í mannauðsmálin. Fyrst á vegum Reykjavíkurborgar og síðan sem mannauðsstjóri sveitarfélags Skagafjarðar. Að því ævintýri loknu tók ég að mér verkefnastjórn þjónustumiðstöðvar á vegum velferðarsviðs Reykjavíkur. Markmiðið var að minnka álag í starfi.

Ég og maðurinn minn höfum verið saman frá unglingsárum. Við höfum á vegferðinni orðið fyrir erfiðum áföllum í einkalífi. Við eignuðust fimm börn, misstum telpu unga og síðar fæddust okkur mikill fyrirburi. Þetta, ásamt umfangsmikilli vinnu utan heimilis, reyndi mjög á mig. Við bættust veikindi foreldra minna og svo síðar andlát föður míns.“

Hvenær fannst fyrst fyrir einkennum þeim sem leiddi þig til VIRK?
„Fyrstu einkenni sem síðar leiddu til örmögnunar varð ég vör við árið 2015. Ég fór að finna fyrir þreytu og gleymsku sem gerðu mér erfitt fyrir að sinna verkefnum mínum í starfi eins vel og ég vildi gera. Ég reyndi að leita mér aðstoðar hjá heimilislækni en það kom ekki að nægilegu gagni. Ég brást við með því að bæta bara í – hélt áfram „á hnefunum“. Ég var sem sagt með „marga bolta á lofti“ og átti smám saman fullt í fangi með að grípa þá. Ég náði þó að halda þessum erfiðleikum að mestu fyrir mig og mína. Ég keyrði mig þannig áfram á varaforðanum. Ég hef alltaf haft að leiðarljósi að standa mína plikt og sinna vel mínu hlutverki á hvaða sviði sem er.“

Ég keyrði mig þannig áfram á varaforðanum. Ég hef alltaf haft að leiðarljósi að standa mína plikt og sinna vel mínu hlutverki á hvaða sviði sem er.“

Hvað gastu haldið þetta út lengi?
„Ég hélt þetta út í næstum þrjú ár. Svo gerðist það dag einn að mér fannst ég tóm. Ég fór aftur til heimilislæknisins sem benti mér á að hreyfa mig meira og bauð mér svefnlyf – sem ég ekki þáði. Þegar staðan var orðin þessi hafði ég samband við hjúkrunarfræðing sem ég þekkti frá fyrri tíð. Sú kona greip mig, ef svo má segja. Hún skildi á hvaða stað ég var stödd. Hún kom mér til læknis sem var nýlega komin úr sérnámi frá Svíþjóð. Sá læknir setti mig samstundis í veikindaleyfi.“

Vildi standa mína plikt

Hvernig leið þér með það?
„Mér leið ekki vel með þetta og fyrstu viðbrögð mín voru að ég þyrfti að klára ýmis verkefni áður en ég færi í veikindaleyfið. Það gerði ég og það voru mistök. – Þá hefði ég ekki átt að „standa mína plikt“. Í síðasta verkefninu örmagnaðist ég nefnilega alveg. Ég var komin til Kaupmannahafnar á fund og eftir hann fór ég upp á hótelherbergi og lagðist í rúmið. Orkan var búin, varatankurinn tæmdur. Ég lá án þess að geta hreyft mig í nokkra klukkutíma. Loks gat ég með naumindum dregist á fætur, komist á flugvöllinn og heim.“

Hvað tók svo við?
„Við tók sífelld hvíld og svefn. Ég orkaði ekki að hreyfa mig. Skilaboðin frá lækninum var að ég skyldi hvíla mig. Og ég bara svaf og svaf í fjórar eða fimm vikur. Hjúkrunarfræðingurinn fyrrnefndi fylgdist sem betur fer reglulega með mér og leiðbeindi mér með næstu skref. Sjálf hafði ég ekki hugsað mér annað að hvíldinni lokinni en að fara aftur í vinnuna og halda mínu striki.

Ég var með veikindavottorð en vildi ekki hafa það til langs tíma. Ég ætlaði bara að láta þetta ganga yfir og klárast. En þegar ég hafði hvílst og hugurinn fór að skýrast fór ég að hlusta betur á lækninn og hjúkrunarfræðinginn. Það var læknirinn sem stakk upp að ég sækti um þjónustu hjá VIRK.

„Ég held að það sé nú ekkert fyrir mig – en svo sem allt í lagi að sækja um,“ svaraði ég. Ég upplifði mig ekki á þeim stað að ég þyrfti á aðstoð að halda frá því ágæta kerfi. Svo fékk ég skilaboð frá ráðgjafa VIRK hjá Bandalagi ríkis og bæja, BSRB. Ég var boðuð í viðtal.

Ég fann fyrir ákveðinni tegund af innri fordómum. Mér fannst ég ekki geta þegið þessa hjálp þótt ég hefði sjálf beint fólki til VIRK og hefði mikla trú á starfinu sem þar er unnið.

Mér fannst ég skyldug til að fara í viðtalið – en taldi eigi að síður að ég væri að taka tíma frá öðrum sem þyrftu meira á þessu að halda. Ég fann fyrir ákveðinni tegund af innri fordómum. Mér fannst ég ekki geta þegið þessa hjálp þótt ég hefði sjálf beint fólki til VIRK og hefði mikla trú á starfinu sem þar er unnið. Ég var vönust því að höndla með mitt og finnast ég sterk persóna sem ekki þyrfti að þiggja ráðleggingar frá ráðgjafa eða neinum öðrum. Þannig var mitt sjálfsmat.“

Veit ekki hvort ég er á réttum stað…

Hvernig var svo að hitta ráðgjafann? 
„Mér fannst óþægilegt að fara upp og bíða á biðstofunni. En ég gerði það samt. Þegar ég svo kom inn í herbergið þá beið þar yndislegur ráðgjafi. Fyrsta setning mín var: „Ég veit ekki hvort þetta er rétti staðurinn fyrir mig!“

Ráðgjafinn, sem er kona, hafði unnið sína heimavinnu. Hún skildi hvernig mér leið og fór strax að ræða við mig um vissa erfiðleika samfara því að þiggja hjálp af þessu tagi. Hún áttaði sig á sjálfsmynd minni; að ég væri sterk og þyrfti ekki hjálp. Strax í upphafi myndaðist traust á milli okkar. Hún leyfði mér alltaf að stýra ferðinni. Hún leiðbeindi en ég stýrði hvert skyldi halda.“

Hvaða áætlanir höfðu þið í upphafi? 
„Ég byrjaði á að leggja þær línur að ég gæti sjálf séð um að koma mér til heilsu með mínum eigin ráðum. Ráðgjafinn samþykkti að reyna þess leið. Síðan smám saman fórum við að bæta inn nýjum aðferðum. Ráðgjafinn benti mér á hugleiðslunámskeið og ég fór í framhaldinu á slíkt námskeið í Heilsuborg. En það sem hjálpaði mér mest var sú sameiginleg ákvörðun mín og ráðgjafans að ég skyldi fara til vinnusálfræðings. – Mér fannst sálin í mér í lagi en vinnuálagið hefði verið mér ofraun. Ég var vön því að hafa margt í deiglunni í einu. Ég þurfti að læra hvað var eðlilegt vinnuálag fyrir mig, það kenndi vinnusálfræðingurinn mér. Þar hófst bati minn.“

Nýtti hverja stund bataferilsins

Hvað tók þig langan tíma að ná þeirri heilsu að snúa aftur til starfa?
„Ég var í átta mánaða veikindaleyfi og nýtti nánast hverja einustu stund bataferilsins til að gera breytingar hjá mér. Ég tók öllum ráðleggingum sem ég fékk á þessari vegferð – allt frá þeim ráðum sem læknirinn minn gaf mér í upphafi. Ég tileinkaði mér hugleiðsluæfingarnar, passaði upp á hreyfinguna og matarræðið og fann, með aðstoð vinnusálfræðingsins, hvert var mitt þrep hvað vinnuálag snerti. Viðhorfsbreyting varð hjá mér hvað hvíld snerti. Ég lét mér skiljast á að það væri í lagi, ef þörf krefði, að leggja sig og hvíla hugann. Vinnusálfræðingurinn kenndi mér að lesa í þær ábendingar sem líkaminn gaf mér. Ég áttaði mig á „rauðu ljósunum“ og brást við þeim á viðeigandi hátt. Og ég lærði að segja nei ef mér fannst ástæða til – sem er mikilvægt, ekki síst fyrir konur.“

Viðhorfsbreyting varð hjá mér hvað hvíld snerti. Ég lét mér skiljast á að það væri í lagi, ef þörf krefði, að leggja sig og hvíla hugann.

Fórstu aftur í þitt fyrra starf?
„Þegar ég var að ná bata var ég beðin um að taka sæti sem fyrsti varaborgarfulltrúi hjá Reykjavíkurborg. Ég hafði satt að segja kviðið ofurlítið fyrir því að fara aftur í gamla starfið. Ég hafði breyst í þessu veikinda- og bataferli en ég bjóst við að vinnustaðurinn hefði ekki breyst að sama skapi. Ég ákvað því að taka tilboðinu um að sitja sem varaborgarfulltrúi í Reykjavík í níu mánaða afleysingu. Þetta hjálpaði mér að fara út á vinnumarkaðinn á ný, að fara inn í önnur verkefni og í aðrar aðstæður þar sem ég gat nýtt mína þekkingu og reynslu. Ég gat með þessu móti haldið inn á nýjan vettvang. Þurfti ekki að setjast í sama farið á mínum gamla vinnustað.“

Verð að passa orkugeyminn minn

Hvernig gekk þér að koma aftur út á vinnumarkaðinn á þennan hátt?
„Það gekk vel að fara í ný verkefni á nýjum stað. Í þessu nýja starfi stýrði ég för, tók ekki að mér meira en ég taldi ráðlegt, heilsu minnar vegna. Það var líka áskorun fyrir mig koma aftur inn í „raunheima“, úr hinu verndað umhverfi. Ég ákvað að fara nú ekki í „hlaupaskóna“. Ég ætlaði að vera í „gönguskónum“ og ganga á eðlilegum hraða.

Ég ákvað að fara nú ekki í „hlaupaskóna“. Ég ætlaði að vera í „gönguskónum“ og ganga á eðlilegum hraða.

Eftir níu mánuði sem varaborgarfulltrúi tók síðan við annar veruleiki. Ég fór aftur til starfa á mínum gamla vinnustað og það var þá sem reyndi á. Mín biðu hin gömlu verkefni. Þá gerðist það að ég fór aftur í „hlaupaskóna“ og tók af krafti til starfa.“

Gekk þér vel í „hlaupaskónum“?
„Nei. Ég varð að setjast niður og íhuga orð yndislega vinnusálfræðingsins – minna mig á mörkin mín. Minna mig á vísbendingarnar sem líkaminn sendir mér þegar ég fer yfir strikið. Í framhaldi af þessum hugsunum settist ég niður og gerði stundatöflu. Ákvað hve mikilli orku ég gæti eytt í hin ýmsu verkefni. Ég skilgreindi hvað ég gat gefið og hvað mér fannst skipta máli að leggja áherslu á. Ég setti inn hugleiðsluæfingarnar mínar og áttaði mig á hver í umhverfinu eyddi orku minni og hver væri að mæða mig. Ég valdi mér leiðir í samskiptum og það reyndist ótrúlega mikilvægt. Ef eitthvað virtist ruglingslegt þá skilgreindi ég það.“

Gast þú með þessu lagi unnið án þess að verða lasin?
„Með þessum ráðum og skilgreiningum get ég það. En ég verð að passa orkugeyminn minn. Hann er ekki enn fullhlaðinn og ég verð að gæta að orkunotkuninni. Ég er ekki búin að ná fullum bata. Ég er ekki orðin eins og ég var áður en ég veiktist. En ég veit hvað ég þarf að gera og hef fullt af tækjum og tólum í „bakpokanum“ til þess að ég haldi mér á þeim góða stað sem ég er í dag. Ég minni mig oft á hvað það var sem gerðist hjá mér. Ég ætla aldrei aftur á hinn vonda stað. Ég stýri ferðinni svo það gerist ekki.

Það gerði gæfumuninn í mínum veikindum að hafa yfirstigið fordóma gagnvart því að þiggja hjálp. Það er ótrúlega mikilvægt að til sé staður eins og VIRK, þar sem hægt er að fá stuðning á eigin forsendum – fá uppbyggilegar leiðbeiningar.

Það gerði gæfumuninn í mínum veikindum að hafa yfirstigið fordóma gagnvart því að þiggja hjálp. Það er ótrúlega mikilvægt að til sé staður eins og VIRK, þar sem hægt er að fá stuðning á eigin forsendum – fá uppbyggilegar leiðbeiningar. Ráðgjafinn kom þannig fram við mig í bataferlinu að ég hélt reisn og sjálfsvirðingu. Slíkt er mikilvægt. Ég er mjög stolt af sjálfri mér að hafa farið og þegið þá aðstoð sem mér stóð til boða hjá VIRK.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband