Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Líkamleg heilsa Slys

Hjá VIRK öðlaðist ég styrk

Hjá VIRK öðlaðist ég styrk

Kristján Rúnar varð óvinnufær eftir slys og glímdi við kvíða og þunglyndi. Í starfsendurhæfingunni öðlaðist hann styrk, andlegan og líkamlegan, til að takast á við erfiðleikana.

Kristján Rúnar Egilsson nemi í prentsmíði

Fyrir rétt um ári útskrifaðist Kristján Rúnar Egilsson úr samstarfi við VIRK. „Ég hef tvisvar verið í samstarfi við VIRK, fyrra skiptið árið 2001 til 2012 og svo aftur í eitt ár, frá 2014 til febrúarbyrjunar 2015“ segir Kristján Rúnar. 

„Ég leitaði fyrst samstarfs við VIRK í gegnum stéttarfélagið mitt BSRB eftir að ég lenti í vinnuslysi árið 2011. Ég skaddaðist á hendi þegar ég fékk vinnuhurð á hendina. Ég starfaði þá sem sundlaugarvörður og hafði unnið sem slíkur í eitt ár.

Ég var óvinnufær eftir þetta slys, varð að fara í skurðaðgerð með hendina. Ég er frá náttúrunnar hendi það sem kallað er „ofurliðugur“, það þýðir að ég er í meiri hættu á að fá meiðsl en gerist og gengur. Ég hef fimm sinnum farið í aðgerðir vegna áverka þessu tengdu.

Starfsmaður hjá sjúkrasjóði BSRB benti mér á að leita samstarfs við VIRK. Ráðgjafi VIRK hjá BSRB vann með mér að batnandi heilsu minni með ýmsum úrræðum. Í fyrstu vissi ég ekkert um það hvað starfsemi VIRK fól í sér. Fyrstu úrræðin voru sjúkraþjálfun og einnig fór ég í sálfræðitíma. Ég fór tólf sinnum til sálfræðingsins. Það gerði mér gott. Sjúkraþjálfarinn var meira í að finna út með mér hvað ég gæti gert líkamlega til að ná vinnuþreki. Ég er fæddur 1988 og það stóð aldrei annað til af minni hálfu en að komast aftur út á vinnumarkaðinn.

Ég og ráðgjafinn minn byrjuðum á að leita að vinnu sem gæti hentað mér. Við náðum vel saman, ég og ráðgjafinn og enduðum á þeirri niðurstöðu að best hentaði mér að fara í skóla. Ég var búinn að læra prentsmíði en ég hafði stefnt að því að verða ljósmyndari. Árið 2012, með hjálp ráðgjafans og sálfræðingsins, ákvað ég að sækja um að komast í skóla sem mig hafði alltaf langað til að fara í.

Sá skóli er í Danmörku og heitir Medieskolerne Viborg, þar er ljósmyndadeild þessa skóla sem starfar á nokkrum stöðum í Danmörku. Haustið 2012 komst ég inn í skólann. Þá var ég orðinn nokkuð góður í hendinni eftir aðgerðina enda þá liðið rösklega ár frá slysinu. Kærastan mín fór með mér út og var líka í námi.

„Allt þetta hefur skilað mér á góðan stað í lífinu. Kvíðinn og þunglyndið hafa minnkað mikið og líkamleg heilsa er mun betri en hún var. Ég hugsa oft til þess að ég veit ekki hvar ég væri staddur ef ekki hefði komið til samstarfið við VIRK. Þar fékk ég styrk, andlegan og líkamlegan til að takast á við erfiðleikana.“


Kvíði og þunglyndi tók sig upp

Það var mjög fínt í skólanum en þegar á leið þá fór ég að finna aftur til í hendinni og gat ekki sinnt náminu eins og ég vildi. Samhliða því tók sig upp hjá mér kvíði og þunglyndi. Ég vissi um tilhneigingu mína til þunglyndis frá unglingsárum en sálfræðingurinn vill meina að kvíðinn hafi líka verið undirliggjandi þó ég hafi ekki gert mér grein fyrir því.

Ég þrjóskaðist við í skólanum í eitt ár en hætti svo vegna verkja í hendinni, þetta ástand olli mér vaxandi kvíða og þunglyndi. Ég var lítið í sambandi við ráðgjafann minn hjá VIRK á þeim tíma. Hann fylgdi mér eftir í fyrstu en svo lauk því samstarfi þegar ég var búinn að vera úti í um það bil hálft ár.

Eftir árið mitt í Medieskolerna í Viborg var ég í Danmörku þar til kærastan mín hafði lokið sínu námi. Þá komum við heim, það var um áramótin 2013-2014.

Stuttu eftir heimkomuna talaði ég við heimilislækni minn og hann lagði til að ég myndi aftur leita til VIRK og athuga hvort ég gæti komist í samstarf þar á ný. Það gekk, ég var svo heppinn að lenda á sama ráðgjafa og áður hafði unnið með mér.

Í framhaldi af þessu sendi ráðgjafinn mig í samráði við lækni í sérhæft mat. Þar var lagt mat á líkamlega og andlega færni mína. Þar kom fram að líkamlegt ástand mitt, það að vera ofurliðugur og afleiðingarnar af slysinu, kæmi í veg fyrir að ég gæti unnið hvaða vinnu sem væri. Þetta kom mér ekki á óvart. Þarna myndaðist samt dapurleiki innra með mér því ég áttaði mig á að ég myndi aldrei geta unnið fulla vinnu við ljósmyndun. Þá var strax ákveðið að fyrsta úrræðið ætti að vera sálfræðiþjónusta. Ég fór aftur til sama sálfræðingsins sem hafði sinnt mér áður. Við fórum saman í þá vinnu að ég gæti sætt mig við að snúa mér að einhverju öðru starfi. Mér fannst þetta frekar fúlt allt saman.

Á meðan ég var að ákveða mig þá var mér af hálfu VIRK boðið að fara á námskeið hjá NTV (Nýja Tölvu- og Viðskiptaskólanum) í myndvinnslu (Photoshop). Það var auka púst fyrir sjálfsmyndina og kveikti á áhuga mínum á prentun.

Á endanum, af því að ég var búinn að ljúka prentsmíðanámi sem hefur mikla tengingu við ljósmyndun, þá ákvað ég að fínt væri að stefna á að starfa við prentsmíði.

Þegar þarna var komið sögu var ég sendur á námskeið við félagskvíða og samhliða því var ég sendur í sjúkraþjálfun og einkaþjálfun til þess að koma mér í betra líkamlegt ástand. Svo fór ég líka á námskeið sem fól í sér að læra að lifa og vinna þótt maður sé með verki. Flestir sem voru á þessu námskeiði voru með bakverki en þetta hentaði mér líka því ég er einnig með bakverki. Þessi ofurliðleiki hefur áhrif á allan líkamann. Nú er verið að rannsaka möguleika á ofurliðleika sem heilkenni, kallað Ehlers Danlos. Fáir eru með þetta svo vitað sé, kannski einn af hverjum tíu þúsund manns.

Stefni á sveinspróf í vor

Þess má geta að í fyrra skiptið sem ég var í samstarfi við VIRK fékk ég endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun Íslands en hann fékk ég aftur á móti ekki í seinna samstarfinu. Mér var synjað um endurhæfingarlífeyri þá vegna þess að ég hafði búið of lengi erlendis. Ég hefði þurfti að bíða í þrjú ár til að fá slíkan lífeyri. Þannig eru reglurnar. Ég varð því að lifa mjög ódýrt. Þetta gekk af því kærastan mín var að vinna og einu sinni fékk ég fjörutíu þúsund krónur frá Félagsþjónustu Kópavogs.

Í áliðnum ágústmánuði 2014 þá var álit sálfræðings og ráðgjafans míns hjá VIRK og ekki síst hjá mér sjálfum að nú væri kominn tími á að ég færi í vinnuprófun í einn mánuð. Það gekk mjög vel, eiginlega lyginni líkast hve vel það gekk. Ég er svo heppinn að tengdafaðir minn rekur prentfyrirtæki og þar fékk ég vinnu og vinn þar enn og líkar vel. Ég stefni á að taka sveinspróf í greininni í vor.

Samstarfi mínu við VIRK lauk í febrúarbyrjun 2015. Áður hafði ég komist í samband við iðjuþjálfa sem leiðbeindi mér við líkamsbeitingu í sambandi við vinnuna. Allt þetta hefur skilað mér á góðan stað í lífinu. Kvíðinn og þunglyndið hafa minnkað mikið og líkamleg heilsa er mun betri en hún var. Ég hugsa oft til þess að ég veit ekki hvar ég væri staddur ef ekki hefði komið til samstarfið við VIRK. Þar fékk ég styrk, andlegan og líkamlegan, til að takast á við erfiðleikana. Fólkið þar er svo tilbúið til að hjálpa.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband