Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa

Gat ekki einu sinni rekið inn nagla

Gat ekki einu sinni rekið inn nagla

„Í öllu þessu ferli hefur eðlilega verið dagamunur á líðan minni. En að öllu samanlögðu er staðan hjá mér góð og það á ég ekki síst aðstoðinni frá VIRK að þakka.“

Gísli Jónmundsson

Í afgreiðslu íþróttahússins Kaplakrika í Hafnarfirði hittum við fyrir Gísla Jónmundsson. Hann vindur sér fram og gengur rösklega áleiðis að fundarherbergi þar sem hann ætlar að segja frá reynslu sinni af þjónustunni hjá VIRK. En fundarherbergið reynist upptekið og einnig það næsta. Eftir nokkuð langa göngu um ranghala þessa stóra húss fáum við inni í aðstöðu fjölmiðlafólks, þaðan sem sést yfir stóran íþróttavöll.

„Hér er alltaf mikið um að vera. Ég var heppinn að fá hér starf eftir að hafa dottið útaf vinnumarkaði,“ segir Gísli þegar við höfum komið okkur fyrir.

Ég spyr hvað hafi orðið til þess að Gísli leitaði eftir þjónustu hjá VIRK?
Yfirvegaður og rólegur réttir Gísli fram hendur sínar. Langatöng vinstri handar er aflöguð og einnig er hægri hendi mörkuð af handarkreppu sem olli því að Gísli gat ekki lengur stjórnað stórum vinnuvélum eins og hann hefur próf til og vann við um langt árabil.

„Ég átti orðið bágt með að sinna því sem slíku starfi fylgir vegna handarkreppunnar. Ég fór því til handaskurðlæknis sem sprautaði í lófa vinstri handar við löngutöng. Sú aðgerð tókst ekki betur en svo að ég varð óvinnufær. Þannig var nú það,“ segir Gísli.

Hvenær byrjaði þessi handarkreppa?
„Hún byrjaði fyrir 5-6 árum síðan. Ég hafði þá í mörg ár verið með kúlur í lófunum. Svo fóru fingurnir hægt og rólega að kreppast inn í lófann, aðallega löngutöngin á hvorri hendi. Ég hafði sem fyrr s agði aðallega fengist við að keyra vinnuvélar og stóra bíla, var að vinna hjá Eimskip í átján ár. Þá bjó ég í Reykjavík. Svo kynntist ég konunni og við settumst að í Vogunum, keyptum hálfklárað hús sem ég lauk við að standsetja. Þá var ég farinn að vinna á Keflavíkurflugvelli hjá Iclandair. Vann þar í vaktavinnu við „keiteringu“ – að færa aðföng í vélarnar, mat og „djútí frí“ sem var selt í fluginu,, maður keyrði þetta í vörubílum og lyfti því svo inn í flugvélarnar. Ég vann í þrettán ár hjá Icelandair.“

Hvenær fór þessi handarkreppa verulega að baga þig?
„Í um það bil eitt og hálft ár var þetta mjög erfitt. Ef eitthvert tog kom á krepptu fingurna þá var það afskaplega sárt. Ég vann alveg þangað til ég fór í aðgerðina. Ég kvaddi félaga mína og sagðist myndu sjá þá eftir viku. En ég fór ekki út á vinnumarkaðinn fyrr en tveimur árum síðar.“

„Satt að segja hafði ég ekki mikla trú á því að ég fengi vinnu í bráð. Ég taldi að það myndi taka töluvert langan tíma.“

Hvernig lýstu vandræðin með hendina sér?
„Með miklum verkjum. Einhverju efni var sprautað í sin í vinstri hendi með þeim afleiðingum að allir fingur vinstri handar stífnuðu upp og ég gat ekkert notað hana. Nokkrum mánuðum eftir sprautuna var skorið lítið stykki úr lófanum neðan við löngutöng. Þetta gekk því miður ekki eins vel og vonast var til.

Ég fékk spelkur á höndina og var sendur til sjúkraþjálfara. Í framhaldinu leitaði ég til annars læknis sem myndaðir hendurnar í bak og fyrir. Að því loknu vildi hann helst taka löngutöng vinstri handar af mér, en ég tók það ekki í mál. Ég vildi heldur reyna að þjálfa höndina betur upp. Fingurinn er allur fastur, mér skilst að allt þar um kring sé slitið. Óskandi væri að eitthvað væri hægt að gera en ég býst ekki við að það sé mögulegt.“

Hvers vegna fékkstu handarkreppu?
„Læknarnir segja að þetta sé ættgengt. Ég virðist hafa veitt þetta djúpt upp úr genabankanum því enginn af nánum skyldmennum mínum er með þetta. Ég tók því svo sem ekkert sérstakt mark á því þegar ég fór að fá kúlur í lófana sem yngri maður. Ég ræddi þetta samt við lækna, ég er með sykursýki og minnst þá stundum á þetta þegar fram í sótti. Það eru tvær ættir á Íslandi þar sem sykursýki II er arfgeng og ég er af annarri þeirra. En handarkreppan mun vera alveg ótengd sykursýkinni. Þegar ég sýndi lækninum kúlurnar þá sagði hann bara: Já-já, láttu kíkja á þetta seinna.“

Var frá vinnu í tvö ár

Fórstu í þjónustu hjá VIRK strax eftir aðgerðina á hendinni?
„Nei. Það gerðist síðar. Fyrst var ég í endurhæfingu á Reykjalundi í sex mánuði, bjó þar á virkum dögum en fór heim um helgar. Á Reykjalundi var ég í starfsendurhæfingu sem tók til bæði líkamlegra og andlegra þátta. Ég var í sundi fyrir hádegi og líkamsrækt eftir hádegi, svo fór ég í vinnuna. Ég sinnti alls konar vinnu, sem trésmíði, pappírsvinnu alls konar og loks var ég settur við saumavél.“

Hvernig gekk þér að sauma með hendurnar svona?
„Ég útbjó mér verkfæri. Var dálítið latur, nennti ekki alltaf að vera setja einhverja títiprjóna hér og þar, svo ég útbjó mér langt prik og saumaði meðfram því. Við vorum í því að sauma grjónapoka til að setja yfir axlirnar. Ég var þarna yfir jól og grjónapokarnir voru heilmikið keyptir sem jólagjafir. Ruku út eins og heitar lummur. Þegar svo þeir á Reykjalundi gátu ekki haft mig lengur vegna Kóvídástandsins ræddi læknir þar við mig og í framhaldi af því var sótt fyrir mig um þjónustu hjá VIRK.

Það var vorið 2020 sem fór ég til VIRK. Ég er í Verslunarmannafélagi Reykjavíkur og fór til ráðgjafa VIRK í Grindavík að lokinni dvölinni á Reykjalundi. Þegar ég kom til VIRK var ég sendur í líkamsrækt upp í Ásbrú í Keflavík. Þar var ég hjá íþróttafræðingi. Svo fór ég í sjúkraþjálfun í Hafnarfirði. Þetta var dálítil keyrsla. Það var svona verið að reyna að hressa strákinn við og láta hann hafa eitthvað að gera.“

Fékkstu sálfræðiþjónustu?
„Nei, hvorki á Reykjalundi né í VIRK. Ég var það opinn að ég þurfti ekki á því að halda. Ég byrgði ekkert niðri. Ég var hins vegar algerlega óvinnufær út af höndunum og það var auðvitað óskemmtilegt.“

 

Hvaða áætlun lögðuð þið upp með hjá VIRK?
„Þá að reyna að koma mér í gott stand og koma mér út á vinnumarkaðinn sem allra fyrst. Satt að segja hafði ég ekki mikla trú á því að ég fengi vinnu í bráð. Ég taldi að það myndi taka töluvert langan tíma.“

Var þetta ástand erfitt fyrir fjárhaginn?
„Ég átti inni veikindaleyfi og svo vorum við svo heppin að konan mín var í ágætri vinnu á þessum tíma. Hún studdi mig vel í gegnum þessi veikindi. Á Reykjalundi var gengið í að sækja um endurhæfingarlífeyri fyrir mig og var ég á honum í rúmlega ár. Ég átti veikindarétt í 6 mánuði hjá vinnuveitanda, síðan fékk ég um tíma lífeyri hjá VR og þá var skert það sem ég fékk frá TR. En ég var ekki mikið að pæla í þessu. Félagsráðgjafar, fyrst og Reykjalundi og svo hjá VIRK, sáu um þetta allt saman fyrir mig.“

Meðferðin hjá VIRK veitti mér von

Hvað fannst þér gera þér best í starfsendurhæfingunni hjá VIRK?
„Hvað allir voru jákvæðir og reyndu að byggja mig upp. Sjúkraþjálfunin gerði mér gott, þar lærði ég æfingar til að styrkja hendurnar. Mest voru þetta teygjuæfingar. Ég hafði fengið blað með æfingum á Reykjalundi sem ég reyndi að fara eftir. Ráðgjafinn hjá VIRK hvatti mig mjög til að halda þeim æfingum áfram. Þetta stríð með hendurnar breytti öllu. Maður gat ekki einu sinn i rekið inn nagla.

En það þýðir ekkert að vera þunglyndur. Ég hélt bara áfram að gera það sem ég gat. Nei, ég hef ekki dottið í þunglyndi, en erfiðleikarnir vegna handarinnar bættust við sykursýkina sem hefur verið mér dálítið erfið.“

Hvernig er staðan hjá þér núna?
„Hún er framar vonum. Ég kom hingað í Kaplakrika í starfsviðtal. Mönnum leist það vel á mig að ég var beðinn um að koma í vinnu daginn eftir. Ég hóf störf 14. september 2020 og hef verið hér síðan. Þetta er allt öðruvísi vinna en ég hef nokkurn tíma unnið áður en gengur ágætlega – nema ég á dálítið erfitt með að reima skó fyrir litlu krakkana sem vilja tvöfalda hnúta. Ég er lengi að þessu, en þau sýna aðdáunarverða þolinmæði. “

Varst þú íþróttamaður á yngri árum?
„Já, ég spilaði körfubolta og fótbolta. Var líka skíðamaður og endaði í hestamennsku. Ég var alltaf í sveit sem krakki, enda er ég Skagfirðingur í báðar ættir.“

„Þetta er allt öðruvísi vinna en ég hef nokkurn tíma unnið áður en gengur ágætlega – nema ég á dálítið erfitt með að reima skó fyrir litlu krakkana sem vilja tvöfalda hnúta. Ég er lengi að þessu, en þau sýna aðdáunarverða þolinmæði.“

Hvaða viltu segja um þjónustuna hjá VIRK?
„Hún veitti mér von og ég hitti fólk sem var til í að hjálpa mér. Það gerði mig opnari fyrir öllu. Það var frábært að vera hjá sjúkraþjálfaranum og fara svo til atvinnulífstengils VIRK í Reykjanesbæ. Hann hvatti mig áfram og benti mér á allskonar möguleika. Ég sótti svo um nokkur störf og reyndi að vera opinn fyrir sem flestu. Með réttindi á vinnuvélar og vörubíla var ýmislegt í boði. Svo kom þessi vinna í Kaplakrika beinlínis upp í hendurnar á mér. Það er mjög gaman að vinna hérna og mikið um að vera. Auðvitað var vesen þegar kóvídið stóð sem hæst, rýmið hólfaskipt og allir grímuklæddir – allt krafðist þetta mikils undirbúnings. Um langt skeið var lítil starfsemi í húsinu.“

Hvernig var með þig sjálfan, gast þú stundað þína heilsurækt?
„Já, ég gerði það fyrst á heilsuræktarstöðinni sem ég sótti fyrir tilverknað VIRK. Síðan fór ég að fara í líkamsræktarstöðina sem er hér í Kaplakrika. Þar get ég gert æfingarnar mínar og þjálfað mig. Staðan hjá mér núna er sem sagt ágæt, atvinnulega séð er ég góður og ég er ekki lengur með verki.“

Fannstu fyrir fordómum gagnvart því að fá þjónustu hjá VIRK?
„Nei, sannarlega ekki, það talar enginn illa um þá stofnun. VIRK er orðin vel þekkt og nýtur mikils álits. Ég tel mig mjög heppinn að hafa komist fyrst á Reykjalund og síðan til VIRK.“

Heldurðu að þú værir í vinnu ef þú hefðir ekki farið í VIRK?
„Það efa ég stórlega. Líklegra væri að ég væri á örorkubótum. Slíkt er ekki góð staða, þá fer fólk að missa trú á sér. Ég neita því ekki að ég var farinn að fá svolitlar efasemdir um sjálfan mig. Ég hugsaði: hver vill fá mann í vinnu sem er svona illa farinn til handanna. Má því segja að sjálfsmynd mín hafi fengið „púst“ þegar ég fór að vinna hérna. Það – og að vera jákvæður og þolinmóður – hjálpar mikið. Maður þarf að hugsa hlutina og finna lausnir.“

Hef alltaf verið lausnamiðaður

Hefurðu alltaf verið lausnamiðaður?
„Já, ég hef verið það. Ég hef alltaf sagt að uppfinningamenn hljóti að vera latir. Þeir hafa fundið ýmislegt upp til að auðvelda sér og öðrum vinnuna. Ég hef þurft að finna lausnir á ýmsu. Allt hefur þetta gengið framar vonum. – Mér fannst mikilvægt að hitta ráðgjafann að geta spjallað við hann og konan mín dreif mig líka áfram, hvatti mig til að smíða hitt og þetta, svo sem gróðurkassa.“

Þú býrð í Vogunum, getur þú ekið á milli vandræðalaust?
„Já, já – ég get vel keyrt. Ég er svona tuttugu mínútur úr Vogum og hingað í Hafnarfjörðinn. Ég vinn frá klukkan sjö til þrjú á daginn og frá klukkan þrjú til ellefu á kvöldin á þriggja daga vöktum. Svo fæ ég þriggja daga frí á milli. Ég hef ekki tekið veikindadag síðan ég byrjaði hérna og aldrei komið of seint. En fólk hér er hjálpsamt hvað við annað ef eitthvað kemur uppá.

Ég er ekki lengur í sjúkraþjálfun, en sannarlega þurfti ég þess með á sínum tíma. Vinstri handlegurinn rýrnaði um þrjá sentímetra í þessum veikindum en ég er að ná upp fyrri styrk aftur. Sundleikfimi hefur líka hjálpað mér og alls konar teygjur. Það er mikilvægt að teygja líkamann allan.

„Í öllu þessu ferli hefur eðlilega verið dagamunur á líðan minni. En að öllu samanlögðu er staðan hjá mér góð og það á ég ekki síst aðstoðinni frá VIRK að þakka.“

Mér gekk hins vegar illa að ganga úti. Fékk verki í mjaðmirnar. En svo fór ég að nota stafi. Þá fór ég að ganga öðruvísi og síðan hef ég ekki fundið fyrir bakveikinni. Nú geng ég með stafi á hverjum degi allt upp í þrjá kílómetra. Í vetur skráði ég mig svo hjá Ferðafélagi Íslands í hóp sem heitir Fyrsta skrefið og fór að ganga á fjöll. Við gengum fyrst á smærri hóla en enduðum á Esjunni, Snæfellsjökli og fórum meira að segja til Vestmannaeyja í fjallgöngu. Ég hef gengið þetta bara á mínum hraða með stafina. Þetta var erfitt fyrst, en svo léttist það. Dóttir mín sautján ára er í Flensborg. Hún þurfti að skila ákveðnum kílómetrafjölda í göngu vikulega síðastliðinn vetur. Um helgar gengum við því, ég og dóttir mín, í þrjá klukkutíma eða um það bil 12 kílómetra.“

Í öllu þessu ferli hefur eðlilega verið dagamunur á líðan minni. En að öllu samanlögðu er staðan hjá mér góð og það á ég ekki síst aðstoðinni frá VIRK að þakka.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband