Fara í efni

Viðkvæmur hópur fær þjónustu við hæfi

Til baka

Viðkvæmur hópur fær þjónustu við hæfi

Undirritaður hefur verið nýr þríhliða samningur milli VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs, Sjúkratrygginga Íslands, og Janusar endurhæfingar ehf. um samþætta og þverfaglega heilbrigðis- og starfsendurhæfingarþjónustu við ungt fólk á aldrinum 18 til 30 ára með flókinn og fjölþættan vanda.

Samningurinn tryggir þjónustu fyrir 80 einstaklinga sem falla undir skilgreiningu NEET, þ.e. sem eru ekki í vinnu, virkni eða námi og þurfa sérhæfða einstaklingsmiðaða þjónustu til að efla virkni og starfsgetu.

Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK: „Við erum hér að stíga mikilvægt skref í að samþætta betur þjónustu á sviði heilbrigðis og starfsendurhæfingar og koma til móts við viðkvæman hóp sem hefur mikla þörf fyrir þjónustu við hæfi.“

Markhópur verkefnisins eru ungmenni sem eru í ríkri þörf fyrir samþætta heilbrigðis- og starfsendurhæfingarþjónustu og tilheyra eftirfarandi undirhópum NEET-skilgreiningarinnar:

1. Ungmenni með þráláta kvíða- og/eða þráhyggju- og árátturöskun, fælni, þunglyndi, persónuleika- og/eða tilfinningavanda.
2. Ungmenni með röskun á einhverfurófi sem jafnframt eru með hamlandi geðræn vandamál.

Sérstök áhersla er lögð á náið samstarf og samráð VIRK og heilbrigðiskerfisins sem gefur möguleika á góðri, faglegri, heildrænni nálgun og samfellu í þjónustunni. Þjónustan stendur ungmennunum til boða alla virka daga.

Unnið hefur verið að undirbúningi samningsins frá því í byrjun þessa árs. Samningurinn byggir á tilraunaverkefni til tveggja ára og verður árangur verkefnisins metinn reglulega á samningstímanum með það að markmiði að halda áfram að bæta þjónustu við þennan mikilvæga hóp ungmenna.


Fréttir

22.04.2024
03.04.2024

Hafa samband