Fara í efni

Horft til framtíðar: IPS – Individual placement and support

Til baka
Anna Lóa og Jónína
Anna Lóa og Jónína

Horft til framtíðar: IPS – Individual placement and support

Jónína Waagfjörð sviðstjóri og Anna Lóa Ólafsdóttir sérfræðingur hjá VIRK

 

Einstaklingsmiðaður stuðningur við starfsleit - Individual placement and support (IPS) – er alltaf að festa sig betur í sessi hér á Íslandi sem og annars staðar en um er að ræða gagnreynda aðferðafræði sem hefur skilað góðum árangri þegar kemur að því að aðstoða einstaklinga inn á vinnumarkaðinn. Á mynd 1 eru listuð upp þau átta grunnatriði sem einkenna IPS aðferðafræðina.

Upphaflega þegar IPS kom fram á sjónarsviðið var áherslan á að aðstoða einstaklinga með alvarlegan geðrænan vanda að komast í vinnu á hinum almenna vinnumarkaði með stuðningi atvinnulífstengils1. Nýlegar rannsóknir hafa hins vegar sýnt að mun fleiri geta nýtt sér IPS á árangursríkan hátt2. Norðmenn hafa t.d. verið að skoða þetta í rannsóknum og hafa niðurstöður þeirra sýnt að aðferðin hentar einnig vel fyrir fólk með vægari andlegan vanda og fyrir ungt fólk sem er í ákveðinni hættu á að fara á örorku3.

Það sem er ólíkt með almennri starfsendurhæfingu og IPS aðferðafræðinni er að samkvæmt IPS er vinnan talin mikilvægur hluti af endurhæfingunni og áhersla er á að finna vinnu strax fyrir þá einstaklinga sem láta í ljós vilja til að fara að vinna samhliða því sem þeir stunda starfsendurhæfingu. Talað er um „place and train“ í staðinn fyrir að endurhæfa þau fyrst og finna vinnu í kjölfarið eða „train and place“ sem hefur verið algengt í hefðbundinni starfsendurhæfingu fram til þessa.

SEED verkefnið í Noregi

Það er forvitnilegt að skoða góðan árangur SEED verkefnisins (SEED = Supported employment & preventing early disability) sem sett var af stað í Noregi en í því verkefni var IPS aðferðin nýtt með ungum einstaklingum (18-29 ára) sem voru án formlegrar menntunar, með félagslega brotið bakland ásamt fleiri þáttum sem eru taldir auka líkur á að einstaklingar fari á örorku4. SEED verkefnið miðaði að því að kanna hvort IPS aðferðafræðin gæti nýst þessum unga hópi í Noregi sem er í aukinni hættu á að fara snemma af vinnumarkaðinum. Markmiðið var einnig að meta árangur IPS módelsins í samanburði við hefðbundna starfsendurhæfingu hvað varðar þátttöku á almennum vinnumarkaði auk þess að skoða áhrifin á líkamlega og andlega heilsu og vellíðan þátttakenda.

Um var að ræða samanburðarrannsókn (slembiröðun/RCT) þar sem þátttakendum var fylgt eftir í eitt ár og var áherslan á að skoða þátttöku þeirra á vinnumarkaði að þeim tíma loknum auk áhrifa á líkamlega og andlega heilsu og vellíðan3. Dr. Vigdís Sveinsdóttir rannsakandi hjá NORCE (Norwegian Research Centre AS) var ein af þeim sem kom að SEED verkefninu en í nýlegri grein hennar má lesa um niðurstöður verkefnisins. Þar kemur m.a. fram að mikill munur var á þeim einstaklingum sem tilheyrðu IPS hópnum í samanburði við þá sem tóku þátt í hefðbundinni starfsendurhæfingu en 48% þátttakenda í IPS hópnum voru þátttakendur á vinnumarkaði eftir 12 mánuði á móti 8% í samanburðarhópnum.

VIRK hefur verið að þróa IPS þekkingarsetur þar sem megin markmiðið er að styðja við starfsendurhæfingarstöðvar og aðra stofnanir sem vilja vinna út frá IPS aðferðafræðinni.

Þessar niðurstöður hafa orðið til þess að í Noregi er verið að skoða að nota IPS aðferðafræðina með fleiri hópum og hafa fjárframlög til innleiðingar á IPS verið aukin til muna. Atvinnuþátttakan var að sjálfsögðu jákvæður þáttur en ekkert síður að einstaklingarnir sem tilheyrðu IPS hópnum töluðu um að eftir 6 mánuði upplifðu þau minni kvíða, færri heilsufarsvandamál, minna vonleysi og eiturlyfjanotkun minnkaði. Eftir 12 mánuði í IPS töluðu þau enn um þessa þætti en einnig að þau fyndu fyrir meiri bjartsýni þegar horft var til framtíðar. Stefnt er að því að fylgja þátttakendum eftir í 5 ár og er þá von á frekari niðurstöðum og kostnaðarábatagreiningu á verkefninu.

Í framhaldi af rannsókninni var m.a komið á nýju úrræði í samvinnu við NAV (Arbeids- og Velferdsetaten) sem ber heitið #syktbrajobb5. Verkefnið býður upp á einstaklingsbundinn stuðning við leit að starfi fyrir einstaklinga sem eru yngri en 35 ára, sem hafa verið á örorkubótum en vilja fara að vinna á almennum vinnumarkaði. Atvinnulífstenglar sem vinna eftir aðferðafræði IPS fylgja einstaklingnum eftir inn í vinnu og styðja bæði við hann og vinnustaðinn eftir þörfum.

Mikilvægt hlutverk atvinnulífstengla

Þrátt fyrir að rannsóknir sýni að IPS aðferðafræðin sé árangursríkari en hefðbundin starfsendurhæfing þá er samt sem áður stór hluti þátttakenda ekki að finna vinnu. Því fór fram samhliða IPS rannsóknunum í Noregi3 ferlismat á hvernig innleiðingu á aðferðafræðinni var háttað og þá reynt að skoða hvort hún hafi náð til þeirra hópa sem henni var ætlað, hve vel hún fylgdi eftir öllum ferlum og hvort hægt væri að finna ákveðin atriði sem voru hindrandi og/eða auðvelduðu innleiðingu á IPS6.

Niðurstöðurnar sýndu að inngripið náði til ætlaðra markhópa en það voru ákveðin atriði á tryggðarskalanum (IPS mælitæki sem mælir tryggð við 25 gæðaviðmið) sem sýndu að útfærsla á atriðum eins og samskiptum við vinnuveitendur, samfélagslegri þjónustu og samþættingu við heilbrigðisþjónustuna var ábótavant. Niðurstöður sýndu einnig að innan við helmingur þátttakenda litu á veikindi sín sem hindrun á þátttöku í IPS. Þau töluðu einnig um að sú aðstoð sem þau fengu hjá atvinnulífstenglinum, varðandi hvernig hátta skyldi upplýsingagjöf um sjúkdóma þeirra til vinnuveitenda, væri mikilvæg.

Viðtöl við þátttakendur veittu einnig frekari innsýn í hlutverk atvinnulífstengla í IPS en þátttakendur lögðu áherslu á mikilvægi þess að þeir voru ávallt til staðar fyrir þau og mikilvægi þessarar miklu áherslu hjá þeim á að finna starf. IPS atvinnulífstenglarnir spiluðu mikilvægt hlutverk í hugum þátttakenda og var þeim lýst sem jákvæðum, ýtnum á jákvæðan hátt og hvetjandi. Meiri þekking á hvað einkennir farsæla IPS atvinnulífstengla gæti aukið frekar skilvirkni IPS íhlutunar.

Það sem skiptir þessa einstaklinga mestu máli er að vita af atvinnulífstenglinum sem þeir geta leitað til ef eitthvað kemur upp á er varðar atvinnuþátttöku þeirra.

IPS þekkingarsetur

VIRK hefur verið í samstarfi við Laugarás meðferðargeðdeild (LMG) undanfarin ár þar sem IPS atvinnulífstenglar sinna þjónustuþegum LMG sem vilja fara að vinna. Samstarfið hefur gengið vel og sú þekking sem er til staðar og sá lærdómur sem hefur komið frá þessu samstarfi hefur verið mjög mikilvægur fyrir þróun IPS hér á Íslandi. Miðað við þá þróun sem hefur átt sér stað í löndunum í kringum okkur þá er spurning hvort ekki sé tímabært að nýta aðferðina víðar hér á landi. Til að ýta undir þessa þróun var VIRK með kynningu á IPS aðferðafræðinni fyrir allar starfsendurhæfingarstöðvar á landinu þann 17. janúar 2020 og kom þar fram mikill áhugi á að skoða betur hvort og þá hvernig væri hægt að innleiða IPS víðar hér á landi.

Í gegnum samstarfið við LMG þá hefur VIRK einnig verið að skoða hvernig innleiða megi IPS aðferðafræðina inn í almennan starfsendurhæfingarferil hjá VIRK. Í byrjun árs 2019 fór samstarfsverkefni af stað á vegum Félagsmálaráðuneytisins sem VIRK er þátttakandi í ásamt öðrum stofnunum innan velferðarkerfisins en markmið verkefnisins er að hækka virknihlutfall (auka atvinnuþátttöku) ungs fólks á aldrinum 18 – 29 ára. Samhliða þessu verkefni fór af stað átaksverkefni fyrir ungt fólk (UNG19) í starfsendurhæfingu hjá VIRK en meðal þess sem hefur verið í boði fyrir einstaklinga í verkefninu er þjónusta IPS atvinnulífstengils. Þar er verið að nýta IPS á svipaðan hátt og Norðmenn hafa verið að gera með ungu fólki og hefur það gefist mjög vel en sjá má niðurstöður UNG19 verkefnisins í grein sem skrifuð var í Ársrit VIRK 20207.

VIRK hefur verið að þróa IPS þekkingarsetur þar sem megin markmiðið er að styðja við starfsendurhæfingarstöðvar og aðrar stofnanir sem vilja vinna út frá IPS aðferðafræðinni. Þar stendur þeim til boða bæði fræðsla og stuðningur þegar kemur að innleiðingu auk þess sem handleiðsla er í boði fyrir nýja atvinnulífstengla. Í þessu sambandi hefur sérfræðingur í IPS hugmyndafræðinni verið með fræðslu um IPS hjá félagsþjónustum Reykjavíkurborgar og Hafnarfjarðar, Fjölsmiðjunni í Reykjavík, Vinnumálastofnun, Fangelsismálastofnun og víðar. Með því að nýta IPS aðferðafræðina víðar þá getum við tekið mikilvæg skref í að efla starfsendurhæfingu enn frekar hér á landi.

Hvað segja þeir sem vinna eftir IPS aðferðafræðinni?

 

Linda Huld Loftsdóttir atvinnulífstengill hjá VIRK 
Linda hefur unnið sem IPS atvinnulífstengill hjá VIRK í um 3 ár og telur að aðferðafræðin henti íslenskum vinnumarkaði mjög vel. Fyrirtæki taka mjög vel í að ráða einstaklinga í vinnu og eru opin fyrir því að styðja einstaklinga hægt og rólega inn í starf. Stuðningurinn sem þeir fá frá atvinnulífstenglinum er líka mikilvægur fyrir fyrirtækin og þeirra starfsmenn. IPS skilar líka miklum árangri fyrir einstaklingana þar sem þau leita að vinnu samhliða því að taka þátt í starfsendurhæfingu og er mikilvægt að fara að íhuga tengingu við vinnumarkaðinn um leið og einstaklingurinn telur sig tilbúinn til þess. Áhugahvöt einstaklingsins skiptir hér mestu máli.

„Ég væri svo til í að sjá IPS á fleiri stofnunum t.d. í félagsþjónustunni, öllum starfsendurhæfingarstöðvum og Vinnumálastofnun. Það væri frábært ef við myndum komast á þann stað að það myndi ekki skipti máli hvar einstaklingur fær þjónustu, þar sem það væri alltaf möguleiki á að komast í IPS atvinnutengingu.“

Elín Gestsdóttir ráðgjafi VIRK hjá Eflingu
Elín hefur verið ráðgjafi í starfsendurhæfingu í um 3 ár en hún er í UNG-teyminu hjá VIRK og er IPS atvinnulífstengill einnig í því teymi. Samkvæmt Elínu þá eru einstaklingar oft á tíðum tilbúnir að hefja starf snemma í starfsendurhæfingarferlinum en vantar stuðning, hvatningu og einhvern sem getur fylgt þeim eftir og þá hefur IPS aðferðafræðin nýst vel.

„Það sem skiptir þessa einstaklinga mestu máli er að vita af atvinnulífstenglinum sem þeir geta leitað til ef eitthvað kemur upp á er varðar atvinnuþátttöku þeirra.“

Elín telur að þessi aðferðafræði gæti nýst fyrir fleiri hópa en eru í þjónustu VIRK eins og t.d. fyrir einstaklinga sem hafa verið lengi frá vinnumarkaðinum eða þá sem hafa endurtekið misst vinnuna vegna samskiptavandamála. Þá er hægt að vinna með vandann á meðan einstaklingurinn er að fóta sig í nýju starfi. Hún telur að IPS ætti í framtíðinni að vera í boði innan fleiri kerfa eins og hjá Vinnumálastofnun og heilsugæslunni og þá gætu einstaklingar farið á milli kerfa og haldið áfram að fá stuðning frá IPS atvinnulífstengli.

Valur Bjarnason verkefnastjóri IPS hjá þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar
Valur er félagsráðgjafi og hefur unnið með IPS hugmyndafræðina frá árinu 2012. Hann kom að innleiðingu á IPS aðferðafræðinni hjá Laugarás meðferðargeðdeild (LMG) Landspítalans í samstarfi við VIRK það ár og allar götur til vors 2019 þegar hann var ráðinn til að verkstýra innleiðingu á IPS fyrir fólk á fjárhagsaðstoð hjá þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Tveir atvinnulífstenglar starfa nú í þessu verkefni og hafa 14 einstaklingar í þjónustu farið í vinnu á síðustu sex mánuðum. Hann telur IPS aðferðafræðina virka mjög vel í íslensku umhverfi sem kemur vel fram í eigindlegri rannsókn sem Karen Sturludóttir gerði um IPS verkefnið á Laugarásnum og birtist í meistararitgerð hennar13. Valur telur að nýta megi IPS aðferðafræðina með fleiri hópum en eru að þiggja þessa þjónustu í dag og bendir þá sérstaklega á niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið í Noregi [sjá umfjöllun um rannsóknir hér í greininni].

„Ég á mér þann draum að IPS verði alltumlykjandi þegar kemur að starfsendurhæfingu hér á landi.“ Í Noregi þá er IPS aðferðafræðin algjörlega búin að taka yfir flesta hópa sem þurfa aðstoð til að komast í vinnu og/ eða nám og telur Valur að við þurfum ekki að vera eftirbátar frændþjóða okkar í þeim málum. Í framtíðinni sér hann möguleika á auknu samstarfi milli kerfa eins og t.d. VIRK, Vinnumálastofnunar og Reykjavíkurborgar sem tækju við tilvísunum í þjónustu. „Það mætti auðvitað búast við ýmsum hindrunum, en allt er hægt og „sky is the limit“ þegar IPS er annars vegar. Við eigum að hugsa stórt og láta vaða!“

Sjá nánar: Lífið er ekki alltaf réttlátt - viðtal við Heba Lind Wium Hjartardóttir

Heimildir

  1. Modini M, Tan L, Brinchmann B, et al. Supported employment for people with severe mental illness: systematic review and metaanalysis of the international evidence. Br J Psychiatry 2016; 209: 14–22.
  2. Bond GR, Drake RE, Pogue JA. Expanding Individual Placement and Support to Populations With Conditions and Disorders Other Than Serious Mental Illness. Psychiatric services. 2019;70(6): 488-498 .
  3. Sveinsdottir V, Lie SA, Bond GR, Eriksen HR, Tveito TH, Grasdal AL, Reme SE (2020). Individual placement and support for young adults at risk of early work disability (the SEED trial). A randomized controlled trial. Scand J Work Environ Health. 2020;46(1): 50-59.
  4. The SEED-TRIAL http://www.seed-trial.com/
  5. #syktbrajobb https://www.nav.no/no/lokalt/ vestland/satsinger-og-aktiviteter/syktbrajobb
  6. Fyhn T, Ludvigsen K, Reme SE, Schaafsma F. A structured mixed method process evaluation of a randomized controlled trial of individual Placement and Support (IPS). Implement Sci Commun, 2020;95.
  7. Gunnhildur Kristjánsdóttir, Sigurlaug Lilja Jónasdóttir og Svandís Nína Jónsdóttir. Ungt fólk í starfsendurhæfingu. Ársrit VIRK. 2020;34-39.
  8. Marsden J, Anders P, Clark H, et al. Protocol for a multi-centre, definitive randomised controlled trial of the effectiveness of Individual Placement and Support for employment support among people with alcohol and drug dependence. Trials. 2020;21:167.
  9. Bond G, Drake R, Pogue J, Marbacher J, Carpenter-Song E, Ressler D. The IPS young adult project: Helping Young adults succeed at work and school through IPS supported employment. https://ipsworks.org/index.php/ study/the-ips-young-adult-project-helpingyoung-adults-succeed-at-work-and-schoolthrough-ips-supported-employment/
  10. IPSCenter Danmark https:// ipscenterdanmark.dk/
  11. Christensen TN, Wallström IG, Stenager E, et al. Effects of Individual Placement and Support Supplemented With Cognitive Remediation and Work-Focused Social Skills Training for People With Severe Mental Illness A Randomized Clinical Trial. JAMA Psychiatry. 2019;76(12):1232-1240.
  12. Christensen TN, Kruse M, Hellström L, Eplov LF. Cost-utility and cost-effectiveness of individual placement support and cognitive remediation in people with severe mental illness: Results from a randomized clinical trial. European Psychiatry. 2021;64(1): e3, 1–9.
  13. Karen Sturludóttir (2018). „Það er stór partur af lífinu að vera í vinnu“: Náms- og starfsferill ungmenna með alvarlega geðsjúkdóma og reynsla þeirra af IPS starfsendurhæfingu (óútgefin meistararitgerð). Háskóli Íslands, Reykjavík.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2021


Fréttir

30.09.2024
18.09.2024

Hafa samband