Fara í efni

Er stuttur þráðurinn?

Til baka
Myndir: unsplash.com
Myndir: unsplash.com

Er stuttur þráðurinn?

Anna Lóa Ólafsdóttir, atvinnulífstengill hjá VIRK

 

Það reynir á samskipti við aðra þegar álag og óvissa sækja að okkur. Þegar við erum í jafnvægi erum við kannski ekki að hugsa mikið út í þessa hluti en skynjum ákveðnar breytingar þegar álag er mikið. Á góðum degi þar sem samskiptin reynast okkur auðveld, erum við gjarnan frjálsleg og afslöppuð í kringum aðra og segjum skoðanir okkar þrátt fyrir að þær séu á skjön við skoðanir annarra. Við erum tilbúin að hlusta á aðra og ræða málin og það er í samræmi við aðra tjáningu, þar sem orðin, andlitið og líkamstjáningin segja sama hlutinn.

Það skín ekki alltaf sólin!

Þegar við erum að fara í gegnum erfiða tíma og áskoranir þá getur framkoma okkar litast mikið af því. Það má segja að hæfileiki okkar til samskipta láti undan í miklu álagi þar sem við bregðum við á ágengan hátt og látum menn og málleysingja heyra það eða bítum á jaxlinn og lokum okkur af með það sem er að truflar okkur með tilheyrandi óþægindum.

Samskipti sem reyna mest á okkur eru þau sem eru í nærumhverfinu. Þessa dagana erum við flest í meiri samskiptum við fjölskyldu, vini og samstarfsfélaga og því er mikilvægt að við áttum okkur á því að við þurfum að vanda okkur meira ef það á ekki allt að sjóða upp úr. Staðreyndin er sú, að það er öllum hollt að skoða sig þegar kemur að samskiptum og samböndum svona almennt en sérstaklega á tímum eins og þeim sem við erum að upplifa núna. Þetta er líka góður tími til að skoða hvers maður þarfnast sjálfur og hvort maður sé tilbúinn að biðja um það, því fólk les bara alls ekki hugsanir!

Hvað ertu að leggja inn?

Við þurfum líka að skoða hvað við erum að leggja inn í samskiptin því það er á ábyrgð okkar allra að hafa þau sem heilbrigðust, en ekki einhverra ákveðinna aðila, hvort sem það er á vinnustaðnum, vinahópnum eða í fjölskyldunni. Við þurfum að vera meðvituð um eigin viðhorf og hegðun en stundum eru samskipti annarra okkur mjög hugleikinn á meðan við áttum okkur ekki á því hvað við erum að leggja inn. 

Þegar við erum meðvituð um hvernig við bregðumst við álagi og þeim áhrifum sem þau hafa á samskipti okkar þurfum við að finna leiðir til að takast á við þessi tímabil.

Mengunarslys í aðsigi!

Ég er engin undantekning þarna og þó mig langi að vera jákvæð, skilningsrík og hlý manneskja á ég það sannarlega til að fá horn og hala og menga frá mér þar til menn og málleysingjar eru í stórri hættu og heilbrigðiseftirlitið mundi gera athugasemdir við reglubundnar mælingar. Sérstaklega er hætta á mengunarslysi þegar ég er undir miklu álagi og þá bitnar það einna helst á fjölskyldunni. Neikvæðni og pirringur ná þá yfirhöndinni og fíflunum fjölgar ótrúlega hratt í kringum mig.

Við breytum engum nema okkur sjálfum og ef við finnum að við erum endurtekið að lenda í sömu vandræðum í samskiptum við maka, börn, fjölskyldu eða vinnufélaga, þá er mikilvægt að skoða okkur sjálf. Fyrsta ráðið sem hefur virkað einstaklega vel fyrir mig þegar ég finn hvernig álagið er á ná tökum á mér er að staldra við áður en ég „gýs“ og hugsa; hvað er í gangi hjá mér núna og hvernig get ég brugðist við – spegla mig en ekki bara aðra.

Bjargráðin mín

Það sem virkar fyrir mig (og þá vonandi fleiri) er:

  • Eiga samtalið, segja hvernig mér líður, spegla mig og fá jafnvel lánaða dómgreind
  • Nota bjargráðin mín - fara í göngutúr, passa mig á kaffinu, sleppa hugbreytandi efnum, hlusta, veita athygli og forðast að auka enn frekar á álagið, slökun og hugleiðsla, svefninn, mataræðið o.fl
  • Eiga kælitíma eftir erfiða daga þar sem ég næ aftur í skottið á mér
  • Biðjast afsökunar ef ég þarf - ekki nota þögn og fýlu (afleiddar samskiptaaðferðir)

Svo verðum við að muna eftir húmornum. Hann er alltaf mikilvægur en lífsnauðsynlegur í aðstæðum sem reyna á okkur og því enda ég þessu:

Ég heyrði einu sinni af hjónum sem fóru oft í fýlu og töluðu ekki saman svo dögum skipti og ef þau þurftu að tjá sig þá hentu þau miðum í hvort annað. Í einu fýlukastinu lét maðurinn konuna sína fá miða og á honum stóð: VEKTU MIG KLUKKAN 10. Morguninn eftir vaknaði maðurinn of seint, en við hlið hans var miði og á honum stóð: KLUKKAN ER 10, VAKNAÐU, ÉG ER FARIN ÚT!!

Gangi okkur öllum vel!


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband