Fréttir
26.11.2012
Samstarfsverkefni VIRK og endurhæfingardeildar á Laugarásvegi
VIRK og endurhæfingardeild Landspítalans að Laugarásvegi eru um þessar mundir að fara af stað með samstarfsverkefni með það að
markmiði að byggja upp árangursríka starfsendurhæfingu fyrir ungt fólk með geðrofssjúkdóma á Íslandi. Í upphafi
verður sett upp tilraunaverkefni þar sem unnið verður eftir hugmyndafræði IPS (individual placement and support) með fimm ungum einstaklingum sem eru í
þjónustu á Laugarásveginum.
Ástæða þess að ákveðið var að fylgja hugmyndafræði IPS er sú að rannsóknir benda til þess að þetta sé
áhrifaríkasta leiðin við að aðstoða fólk með þungar geðgreiningar út á vinnumarkað. Rannsóknir sýna að
fólk með þungar geðgreiningar sé þrisvar sinnum líklegra til þess að verða virkt á almennum vinnumarkaði í hlutastarfi eða
fullu starfi ef farið er eftir hugmyndafræði IPS frekar en annarri hugmyndafræði.
14.11.2012
Nýr ráðgjafi
Steinhildur Sigurðardóttir er nýr ráðgjafi sem ráðinn hefur verið til starfa hjá stéttarfélögum í Hvalfirði,
Borgarfirði, á Mýrum, á Snæfellsnesi og í Dalasýslu í samstarfi við VIRK. Steinhildur útskrifaðist sem sjúkraliði
árið 1986 og hóf þá störf á Borgarspítalanum þar sem hún starfaði á handlæknisdeildum í 16 ár.
Hún lauk B.A. prófi í félagsfræði frá H.Í. árið 2001 og starfsréttindanámi í félagsráðgjöf
frá H.Í. árið 2002. Undanfarin tíu ár hefur hún starfað hjá Félagsþjónustu Hafnarfjarðar með
starfsendurhæfingu sem sérsvið.
Starfsstöð Steinhildar er hjá Stéttarfélagi Vesturlands í Borgarnesi.
05.11.2012
Veikindafjarvera Dana í einkageiranum 7,3 dagar
Þriðja árið í röð fækkar veikindadögum á dönskum vinnustöðum og voru þeir að meðaltali 7,3 dagar árið
2011 í einkageiranum hjá fólki í fullu starfi eða 3,3%. Árið 2008 voru fjarverudagarnir að meðaltali 8,7. Einnig hefur dregið
úr fjarveru hjá hinu opinbera en töluvert minna.
Fyrirtækjaráðgjafi hjá CABI (Center for Aktiv BeskæftigelsesIndsats) segir að þennan árangur megi þakka því mikla átaki sem
hafi átt sér stað á dönskum vinnumarkaði þar sem unnið er markvisst með fyrirtækjum til að ná þessu
markmiði. „Það er kominn skilningur á því að veikindafjarvera stafar ekki einungis af bakteríum eða vírusum og
að allir bera ábyrgð á vinnustaðnum og geta lagt sitt af mörkum,“ segir Camilla Høholt Smith í viðtali
í septemberhefti Agenda. Hún bendir á að séu vandamál á vinnustaðnum sé mikilvægt að
ræða þau í hreinskilni því þau geti verið ástæða fjarverunnar. Þetta krefjist ákveðinna hæfileika hjá
stjórnendum. Prófessor við Árósaháskóla segir að á þeim vinnustöðum þar sem tilkynna á veikindi beint til
yfirmanns séu fjarvistir marktækt færri en þar sem einungis þarf að tilkynna veikindi til móttökunnar.
31.10.2012
Ný myndbönd um starfsvin á vinnustað
Víða erlendis hafa vinnustaðir góða reynslu af því að vera með starfsvin þegar starfsfólk er að koma til baka á eigin
vinnustað eftir langtímaveikindi eða þegar nýtt starfsfólk er ráðið inn sem hefur ekki verið á vinnumarkaði lengi. VIRK er um
þessar mundir að skilgreina hlutverk starfsvina (mentora) á vinnustöðum sem getur verið margbreytilegt eftir aðstæðum.
Með því að smella á hnappinn hægra megin á síðunni sem heitir Fræðslumyndbönd er hægt að skoða myndbönd um fjarverustjórnun og myndbönd um starfsvin. Taka skal þó fram að
hér um dönsk myndbönd að ræða sem byggjast á dönskum aðstæðum og vinnureglum og því er ekki endilega um hliðstæðu
að ræða við hlutverk starfsvinar eins og VIRK mun kynna þau. Myndböndin eru með íslenskum texta.
16.10.2012
Nýr ráðgjafi
Stéttarfélögin Efling, Hlíf og Sjómannafélag Íslands hafa ráðið nýjan ráðgjafa til starfa í samstarfi við
VIRK, með aðsetur hjá Eflingu en það er Pétur Gauti Jónsson.
Pétur Gauti útskrifaðist með starfsréttindi í félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands árið 2003, en hann
hafði áður lokið BA námi í guðfræði. Hann hefur reynslu af ýmsum störfum sem tengjast heilbrigðis- og
endurhæfingarmálum. Pétur vann í um þrjú ár á Krabbameinsdeild Landspítalans. Hann hefur svo unnið síðastliðinn
fjögur ár hjá Félagsþjónustu Hafnarfjarðar þar sem hann hefur m.a. komið að starfsendurhæfingarmálum og tekið
þátt í endurhæfingarverkefnum á borð við Grettistak í samvinnu við Tryggingastofnun.
10.10.2012
Viltu senda hrós?
Í tilefni af geðverndarvikunni þá hefur VIRK sett upp á heimasíðu sína skemmtilegan möguleika þar sem fólk getur sent
rafræn póstkort til vinnufélaga, vina, fjölskyldu eða einhvers sem það telur að eigi hrós skilið – svokölluð gleðikort
– þar sem komið er á framfæri hrósi og jákvæðum umsögnum. Allir geta nýtt sér þessi kort án endurgjalds og
ekki bara í geðverndarvikunni heldur allt árið um kring. Sjá sérstakan hnapp hægra megin á heimasíðunni.
Það eykur starfsánægju og almenna vellíðan fólks að byggja upp og stuðla að gleði og jákvæðu andrúmslofti á
vinnustöðum sem og í samfélaginu almennt. Hluti af ánægju og vellíðan er að fá hrós og það kostar þann ekkert
sem gefur. VIRK vill því hvetja alla til að nýta sér gleðikort VIRK og stuðla á þann hátt að aukinni jákvæðni og
vellíðan í samfélaginu.
04.10.2012
Fjarverusamtalið uppfært
Eftir góðar ábendingar frá þátttakendum í verkefninu Virkum vinnustað og frá starfsfólki stéttarfélaga hefur
Fjarverusamtalið verið uppfært og er hægt að nálgast þriðju útgáfuna hér. Fjarverusamtalið er dæmi um samtalsramma sem hægt er að nota í
trúnaðarsamtali milli stjórnenda og starfsmanns sem hefur verið í skammtímafjarveru frá vinnu. Samtalið er liður í fjarverustefnu
vinnustaðarins.
27.09.2012
Nýr ráðgjafi á Akureyri
Nýr ráðgjafi í starfsendurhæfingu, Dalrós Jóhanna Halldórsdóttir, hefur tekið til starfa hjá
stéttarfélögum á Akureyri og á Eyjafjarðarsvæði, í samstarfi við VIRK.
Dalrós útskrifaðist sem félagsráðgjafi frá Háskólanum í Árósum í janúar 2004. Undanfarin sjö og
hálft ár hefur hún starfað hjá Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar, lengst af við vinnslu barnaverndarmála. Hún útskrifaðist sem PMT
meðferðaraðili fyrir rúmu ári, en hún hefur síðastliðin þrjú ár unnið að hluta við að þróa
meðferðarúrræði byggt á hugmyndafræði PMT fyrir foreldra unglinga í vanda. PMT stendur fyrir Parent manegement training ( foreldrafærni )
með það að markmiði að fyrirbyggja alvarlega hegðunarerfiðleika og taka markvisst á hegðun barna með því að auka færni foreldra
með hugmyndafræði PMT.
Dalrós er með aðsetur hjá Einingu – Iðju á Akureyri.
25.09.2012
Leiðbeiningar um samskipti í skammtímaveikindum
Reynslan hefur sýnt að opinská umræða á vinnustöðum um fjarveru vegna veikinda er jákvæð og getur dregið úr fjarveru.
Tilgangurinn er ekki að taka réttmæta veikindadaga af starfsfólki heldur að skapa skýrar línur um veikindafjarveru, samskiptaferli og búa til
formlegan vettvang til að ræða fjarveru starfsmanns frá vinnu þegar við á.
Æskilegt er að á hverjum vinnustað sé til stefna um vellíðan, fjarveru og endurkomu til vinnu. Hér má finna dæmi um slíkar stefnur, en í þeim er lögð áhersla á að starfsfólki sé gerð grein fyrir þeim
viðmiðum sem gilda á vinnustaðnum um tilkynningar fjarveru, skil á læknisvottorði eða hvenær fjarverusamtal fer fram. Aðalatriðið er
að allir viti hvaða reglur gilda og að reglurnar eigi við um allt starfsfólk. Sjá leiðbeiningar til starfsfólks um samskipti yfirmanns og starfsmanns í
skammtímaveikindum.