Fara í efni

Það borgar sig að fjárfesta í fólki

Til baka

Það borgar sig að fjárfesta í fólki

Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK

 

Á árinu 2020 komu 2.331 nýir einstaklingar inn í þjónustu VIRK og 1.601 einstaklingar luku þjónustu. Þetta er mesti fjöldi nýra og útskrifaðra einstaklinga frá upphafi. Um 2.600 einstaklingar voru í þjónustu í árslok.

Á undanförnum tveimur árum hefur fjöldi í þjónustu á hverjum tíma verið á bilinu frá 2.500 einstaklingar upp í 2.766 þegar mest hefur verið. Af þeim 1.601 einstaklingum sem luku þjónustu á árinu 2020 fóru 79% eða um 1.265 einstaklingar í fulla eða einhverja virkni á vinnumarkaði, þ.e. fóru í launað starf, í nám eða í atvinnuleit. Nánari upplýsingar um árangur VIRK undanfarin ár má finna í ársritinu 2021.

Auk þess að taka á móti miklum fjölda nýrra einstaklinga í þjónustu á árinu 2020 unnu starfsmenn og ráðgjafar VIRK ötullega að því að þróa enn skilvirkari vinnuferla, draga úr bið eftir þjónustu, auka samstarf við fagaðila og bæta upplýsingagjöf bæði til einstaklinga í þjónustu og samstarfsaðila um allt land. Ný vefsíða var tekin í notkun á árinu þar sem lögð er áhersla á mikla og góða upplýsingagjöf til bæði einstaklinga í þjónustu og samstarfsaðila VIRK um allt land. Þar er m.a. að finna mjög gott yfirlit yfir virkniúrræði um allt land en virkniúrræði eru fjölbreytt gjaldfrjáls úrræði sem einstaklingar geta nýtt sér eftir þörfum og aðstæðum. Þetta yfirlit er einstakt og gagnast bæði einstaklingum með skerta starfsgetu, fagaðilum og samfélaginu í heild sinni. Á nýjum vef VIRK er einnig að finna efni sem sett er upp á gagnvirkan hátt og spannar allt ferli atvinnuleitar. Þessi síða heitir  „Aftur í vinnu“ og nýtist bæði einstaklingum í starfsendurhæfingu sem og öllum sem eru í atvinnuleit. Líney Árnadóttir gerir betur grein fyrir þessari þjónustu á vefsíðu VIRK í ársritinu 2021.

Undanfarin ár hefur verið gert átak í því hjá VIRK að aðstoða sérstaklega þá einstaklinga sem ekki hafa fulla vinnugetu í lok starfsendurhæfingar og þurfa því meiri þjónustu og aukna aðstoð út á vinnumarkaðinn.

Gæði og fagmennska

Frá upphafi hefur verið lögð rík áhersla á að þjónusta VIRK sé fagleg og standist tiltekin gæðaviðmið. Öll starfsemi VIRK er vottuð samkvæmt ISO 9001 staðlinum og gæðaúttektir hafa nú um margra ára skeið verið framkvæmdar af ytri aðilum og niðurstaða þeirra hefur verið með ágætum. Sífelld vinna á sér stað við að straumlínulaga ferla hjá VIRK og ávallt er stefnt að því að gera þjónustuna bæði hagkvæmari og betri. VIRK er einnig með jafnlaunavottun ÍST 85:2012 og stefnt er að því að fá vottun á sviði upplýsingaöryggis ISO 27001 í lok þessa árs. Til viðbótar við þetta hefur VIRK nú um nokkurra ára skeið fengið viðurkenningar sem Framúrskarandi fyrirtæki hjá Creditinfo, Opinbert fyrirmyndarfyrirtæki hjá Viðskiptablaðinu og Keldunni og Fyrirmyndarfyrirtæki ársins hjá VR.

Þjónusta VIRK á tímum Covid-19

Árið 2020 var erilsamt í starfsemi VIRK því auk mikils fjölda nýrra einstaklinga í þjónustu þurftu bæði þjónustuþegar, ráðgjafar og starfsmenn VIRK að takast á við ýmsar áskoranir sem fylgdu Covid–19. Lögð var áhersla á að halda uppi góðri þjónustu þrátt fyrir samkomutakmarkanir og aðrar hindranir og bæði ráðgjafar, starfsmenn og þjónustuaðilar sem starfa fyrir VIRK eiga mikinn heiður skilinn fyrir útsjónarsemi og snör viðbrögð. Á mjög skömmum tíma var talsverðum hluta þjónustunnar komið yfir í fjarþjónustu með aðstoð tækninnar og í kjölfarið urðu til mörg ný rafræn úrræði og þjónustuleiðir. Einstaklingar í þjónustu kunnu vel að meta snögg viðbrögð VIRK við breyttum aðstæðum eins og eftirfarandi tilvitnun í þjónustuþega ber með sér:

„Sérstakt hrós fyrir skjót viðbrögð við fyrstu Covid bylgjunni, fyrirvaralaust sáu fagaðilar VIRK sér fært um að snara námskeiðum og fundum yfir í fjarskipti sem er algerlega aðdáunarvert og virkaði hnökralaust að mínu mati. Ég er endalaust þakklát fyrir alla þá góðu þjónustu sem ég fékk frá VIRK.“

Í ársritinu 2021 er að finna upplýsingar um ýmsar niðurstöður úr þjónustukönnun VIRK á árinu 2020 ásamt nokkrum tilvitnunum í ummæli einstaklinga sem svöruðu könnuninni.

Forvarnir fyrir alla

Starfsendurhæfingarþjónusta er gríðarlega mikilvæg og skilar miklum ávinningi bæði til einstaklinga og samfélagsins í heild sinni. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að leggja áherslu á að koma í veg fyrir að einstaklingar þurfi á starfsendurhæfingarþjónustu að halda og þar skipta forvarnir miklu máli ásamt því að tryggja að innviðir, stuðningskerfi og menning samfélagsins hvetji og styðji einstaklinga til þátttöku og virkni.

Forvarnir eru hlutverk okkar allra. Við berum þar ábyrgð bæði sem einstaklingar og samfélag. Hluti af starfsemi VIRK felst því í forvörnum og á undanförnum árum hefur VIRK lagt meiri áherslu á þennan þátt starfseminnar. Í starfsendurhæfingarferlinu verður til mikil þekking og reynsla sem mikilvægt er að koma áfram með það að markmiði að draga úr þörf fyrir starfsendurhæfingu til framtíðar. Í því samhengi heldur VIRK m.a. úti vefsíðunni www.velvirk.is þar sem er að finna mikið efni sem gagnast bæði einstaklingum og stjórnendum í atvinnulífinu. Efnið á vefsíðunni byggir einnig á nýjustu rannsóknum og viðmiðum í stjórnunar- og vellíðunarfræðum. Í gegnum www.velvirk.is hefur VIRK miðlað fræðslu, ráðleggingum, hugmyndum, tækjum og tólum sem hafa það að markmiði að aðstoða bæði einstaklinga og fyrirtæki við að standa vörð um heilsu og vinnugetu starfsmanna. Sérstök fræðslusíða vegna Covid-19 var byggð upp á þessum vef þar sem m.a. er fjallað um hreyfingu, útivist, nám, heimavinnu og ráð til stjórnenda á þessum sérstöku tímum.

Hluti forvarnarverkefnis VIRK felst einnig í að aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að byggja upp heilsueflandi umhverfi á vinnustöðum og á vormánuðum 2019 var ákveðið að VIRK færi í formlegt samstarf með Embætti landlæknis og Vinnueftirlitinu við þróun viðmiða fyrir „Heilsueflandi vinnustað“ en markmiðið er að stuðla að betri heilsu og vellíðan á vinnustöðum. Um 13 stofnanir og fyrirtæki taka þátt í þróun viðmiðanna og stefnt er að því að þau geti orðið aðgengileg fyrir alla vinnustaði seinni hluta ársins 2021.

Aukin atvinnutenging í starfsendurhæfingu

Mikil þróun hefur átt sér stað hjá VIRK í að auka atvinnutengingu í starfsendurhæfingu. Þetta er í takt við nýjustu rannsóknir og reynslu í þróun starfsendurhæfingar. Ráðgjafar VIRK hafa frá upphafi verið í góðu samstarfi við atvinnulífið en undanfarin ár hefur verið gert átak í því hjá VIRK að aðstoða sérstaklega þá einstaklinga sem ekki hafa fulla vinnugetu í lok starfsendurhæfingar og þurfa því meiri þjónustu og aukna aðstoð út á vinnumarkaðinn.

Sérstakir atvinnulífstenglar hafa verið ráðnir til starfa sem hafa m.a. það hlutverk að byggja upp góð tengsl við fyrirtæki og stofnanir á vinnumarkaði og finna störf við hæfi fyrir einstaklinga sem eru að ljúka starfsendurhæfingarferlinu hjá VIRK. Á árinu 2020 fengu 432 einstaklingar aðstoð atvinnulífstengla VIRK í lok þjónustu. 189 fóru í starf og 20 í nám og um áramótin voru 135 af þessum einstaklingum enn í þjónustu VIRK. Þetta er gríðarlega góður árangur, sérstaklega í ljósi ástandsins á vinnumarkaði á árinu 2020. Hér hafa atvinnurekendur lagt sig fram um að aðlaga störf við hæfi fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu og unnt er að fullyrða að flestir þessara einstaklinga hefðu ekki farið í launað starf við lok þjónustu ef þessi möguleiki hefði ekki verið í boði. Í ársritinu 2021 má finna ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um þessa þjónustu og árangur hennar.

Bætt líf og lífsgæði þeirra þúsunda einstaklinga sem hafa notið þjónustu VIRK hafa síðan ekki eingöngu áhrif á þá eina heldur einnig fjölskyldur þeirra, vini og umhverfi. Það er vel hugsanlegt að áhrif starfsendurhæfingar dragi jafnvel úr þörf þessara einstaklinga fyrir aðra heilbrigðis- og félagsþjónustu, s.s. læknisaðstoð, lyfjanotkun og fleira. 

Góður árangur starfsendurhæfingar

Árangur VIRK á árinu 2020 er góður. Auðvitað hafði Covid-19 talsverð áhrif á möguleika einstaklinga til starfa í kjölfar starfsendurhæfingar en þrátt fyrir það þá fór mikill meirihluti einstaklinga sem útskrifaðist frá VIRK á árinu 2020 í starf eða nám. Hærra hlutfall fór þó á atvinnuleysisbætur en árið á undan og það er eðlilegt í ljósi ástandsins.

Sífellt er unnið að því að þróa mælikvarða á árangur starfseminnar. Nýtt upplýsingakerfi var tekið í notkun á árinu 2018 og á síðasta ári og þessu ári er unnið að þróun nýrra mælikvarða sem gera okkur kleift að mæla árangur einstaklinga jafnt og þétt í starfsendurhæfingarferlinu. Þessar upplýsingar munu gera þjónustuna enn markvissari en ella og auðvelda okkur ákvarðanir um úrbætur í þjónustunni. Nánari upplýsingar um framfærslustöðu og stöðu á vinnumarkaði í lok starfsendurhæfingar hjá VIRK er að finna í ársritinu 2021 og hér þar sem fjallað er um tölfræði og árangur VIRK með mismunandi mælikvörðum.

Núna í maí 2021 eru 13 ár síðan fyrsta skipulagsskrá VIRK var staðfest á stofnfundi og í ágúst verða 13 ár liðin frá því að sú sem þetta skrifar tók til starfa og hóf uppbyggingu á starfi VIRK. Á þessum tíma hafa um 20 þúsund einstaklingar hafið þjónustu hjá VIRK og um 12 þúsund lokið þjónustu. Af þeim hafa um 77% eða ríflega 9 þúsund einstaklingar útskrifast með getu til að taka þátt á vinnumarkaði að hluta eða öllu leyti. Þeir einstaklingar sem ekki ná að fara út á vinnumarkaðinn í lok þjónustu lýsa því oft yfir í þjónustukönnunum að þrátt fyrir þá stöðu þá hafi þjónusta VIRK haft bætandi áhrif á líf þeirra og almenna líðan.

Þannig telja 90% einstaklinga sem hafa svarað þjónustukönnun VIRK að þjónustan hafi bætt lífsgæði þeirra og telja 81% að þjónustan hafi aukið starfsgetu sína. Bætt líf og lífsgæði þeirra þúsunda einstaklinga sem hafa notið þjónustu VIRK hafa síðan ekki eingöngu áhrif á þá eina heldur einnig fjölskyldur þeirra, vini og umhverfi. Það er vel hugsanlegt að áhrif starfsendurhæfingar dragi jafnvel úr þörf þessara einstaklinga fyrir aðra heilbrigðis- og félagsþjónustu, s.s. læknisaðstoð, lyfjanotkun og fleira. Það er því ljóst að starfsemi VIRK hefur haft mikil og jákvæð áhrif á íslenskt samfélag.

Mat á árangri VIRK verður að byggja á þeim þáttum sem VIRK hefur stjórn á. Árangursrík starfsendurhæfing er vissulega mikilvæg forsenda þess að unnt sé að draga úr nýgengi örorku en hún dugar ekki til ein og sér. Mikilvægir þættir sem VIRK hefur enga stjórn á ráða miklu um nýgengi örorku.

Starfsendurhæfing, örorka og áhrifaþættir

Starfsemi VIRK er stundum sett í samhengi við þróun á fjölda örorkulífeyrisþega hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR) og lífeyrissjóðunum. Þetta er að mörgu leyti eðlilegt í ljósi þess markmiðs VIRK að draga úr líkum á því að einstaklingar missi starfsgetu, fari af vinnumarkaði og verði örorkulífeyrisþegar. Það er þó hægara sagt en gert að stilla þessu upp á þennan hátt því í því felst sú áskorun að áætla hver þróun nýgengis örorku hefði orðið ef þjónustu VIRK hefði ekki notið við.

Mat á árangri VIRK verður að byggja á þeim þáttum sem VIRK hefur stjórn á. Árangursrík starfsendurhæfing er vissulega mikilvæg forsenda þess að unnt sé að draga úr nýgengi örorku en hún dugar ekki til ein og sér. Mikilvægir þættir sem VIRK hefur enga stjórn á ráða miklu um nýgengi örorku. Áhrifaþættirnir eru fjölmargir og flóknir og rannsóknir og reynsla sýna að árangur næst yfirleitt ekki nema tekið sé heildstætt á öllum þáttum sem skipta máli.

Við búum í flóknu samfélagi þar sem áhrifaþættir vinnugetu og skertrar starfsgetu eru mjög margir, flóknir og tengdir saman á marga vegu. Hér má t.d. nefna fyrirkomulag bóta- og stuðningskerfis, aðgengi að og þróun heilbrigðisþjónustu, tækniþróun, sveigjanleika og möguleika á vinnumarkaði, stuðning í skólakerfi og síðast en ekki síst menningu, viðhorf og andlega líðan í samfélaginu og hjá einstaklingunum sjálfum. Til að ná árangri í að auka vinnugetu og þátttöku einstaklinga í samfélaginu þarf að vinna í öllum þessum þáttum og mikilvægt er að afnema kerfislægar hindranir fyrir atvinnuþátttöku en þær er að finna í miklum mæli í uppbyggingu á því framfærslukerfi sem er til staðar hér á landi í dag fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Þegar VIRK var stofnað átti VIRK að vera einn þáttur í miklu breytingarferli á þessu sviði en niðurstaðan eftir 12 ár er hins vegar að nær engar kerfislegar breytingar hafa átt sér stað aðrar en uppbygging á þjónustu VIRK.

Faraldur skertrar starfsgetu

Á þeim 12 árum sem VIRK hefur starfað hefur faglegri þekkingu á eðli og umfangi skertrar starfsgetu fleygt fram. Þessar rannsóknir benda til að það séu ýmis teikn á lofti um minnkandi starfsgetu í hinum vestræna heimi og hafa menn jafnvel talað um faraldur í þessu samhengi. Þetta hefur verið staðfest af WHO og hagstofum ýmissa landa1. Ástæðurnar eru fjölmargar og flóknar og mikilvægt er að skoða, rannsaka og ráðast hér að rót vandans. Þessi þróun hefur átt sér stað núna um áratuga skeið og virðist bæði tengjast geðheilbrigði og geðrænum vanda af ýmsum toga og ýmsum lífsstílssjúkdómum2.

Í  grein Svandísar Nínu Jónsdóttur í ársritinu 2021 er m.a. fjallað um þróun geðraskana út frá ýmsu talnaefni sem gefur til kynna að andlegri líðan einstaklinga í íslensku samfélagi fari hnignandi. Bent er m.a. á mikla aukningu í notkun þunglyndislyfja, aukna eftirspurn eftir geðheilbrigðisþjónustu ungs fólks sem og uggvænlega þróun í mati einstaklinga á andlegri líðan sinni í könnunum Landlæknisembættisins og Rannsókna og greiningar. Í þessu samhengi má einnig benda á að ýmsum sjúkdómsgreiningum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum áratugum. Hegðun og líðan sem áður var talin merki um margbreytileika einstaklinga og mismunandi viðhorf er nú meðhöndluð sem heilsufarslegt vandamál. Slík sjúkdómavæðing á aðstæðum einstaklinga getur dregið úr virkri þátttöku þeirra í samfélaginu og á vinnumarkaði þó vissulega sé mikilvægt að greina vanda einstaklinga og veita þeim þjónustu og tækifæri í samræmi við hæfni og getu. Þessi þróun hófst löngu áður en VIRK tók til starfa og svipar til þess sem hefur átt sér stað í öðrum vestrænum samfélögum.

Þegar horft er á velferð og velsæld innan samfélagsins þá er ekki nægjanlegt að skoða bara tölur um hagvöxt og efnahagsleg gæði. Það þarf líka að gæta þess að uppbygging, kröfur og viðhorf í samfélaginu stuðli einnig að andlegri vellíðan, jafnrétti og jafnvægi milli einstaklinga og hópa.

Langvinnir lífsstílssjúkdómar og fjölveikindi eru í dag taldir vera eitt stærsta heilbrigðisvandamál heimsins. Á árinu 2005 áætlaði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að um 61% af öllum dauðsföllum mætti rekja til þessara sjúkdóma3. Áætlað er að til ársins 2030 muni dauðsföllum vegna þessara sjúkdóma fjölga um 70% og byrði þeirra á heilbrigðiskerfið aukast um 56%. Þessi þróun hefur núna átt sér stað um áratugaskeið og ljóst að hún hefur mikil áhrif á heilsu og vinnugetu einstaklinga og mun væntanlega hafa það einnig á næstu áratugum ef ekkert verður að gert.

Í þessu samhengi er góð og öflug þjónusta á sviði þverfaglegrar starfsendurhæfingar bæði mikilvæg og nauðsynleg en hún tekst að mestu á við afleiðingar þessarar vanlíðunar og heilsubrests en ekki mögulegar orsakir. Mikilvægt er að skoða þessa þróun betur, greina orsakir og áhrifavalda og finna fleiri færar leiðir. Þegar horft er á velferð og velsæld innan samfélagsins þá er ekki nægjanlegt að skoða bara tölur um hagvöxt og efnahagsleg gæði. Það þarf líka að gæta þess að uppbygging, kröfur og viðhorf í samfélaginu stuðli einnig að andlegri vellíðan, jafnrétti og jafnvægi milli einstaklinga og hópa. Einnig þarf að huga sérstaklega vel að velferð, uppeldi og umgjörð barna og ungs fólks. Það er forsenda þess að okkur takist að byggja upp gott og sjálfbært samfélag til framtíðar.

Áhrif efnahagslegra áfalla

Á sama tíma og VIRK hefur verið að byggjast upp hafa átt sér stað mikil áföll og miklar breytingar í íslensku samfélagi. Við höfum gengið í gegnum djúpar dýfur eins og fjármálahrunið og nú síðast Covid-19. VIRK var stofnað á árinu 2008, rétt fyrir fjármálahrunið. Byrjað var að veita þjónustu á árinu 2009 og fljótlega kom í ljós gríðarleg þörf fyrir starfsendurhæfingarþjónustu og sú þörf hefur ekkert dvínað, frekar aukist ef eitthvað er. Það hefur líka komið í ljós að margir einstaklingar hafa verið að kljást við afleiðingar hrunsins árum saman með tilheyrandi áföllum og heilsubresti.

Þegar þetta er skrifað er samfélagið að hluta til lokað vegna Covid-19, atvinnuleysistölur í hæstu hæðum og margir sem eiga erfitt með að ná endum saman. Slíkt ástand í lengri tíma getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir heilsu og vinnugetu einstaklinga. Það er því alveg ljóst að það getur orðið mikil þörf fyrir starfsendurhæfingarþjónustu á næstu árum.

Örorka og árangur

Þegar tölur eru skoðaðar og metnar um fjölda einstaklinga á örorkulífeyri er mikilvægt að skoða nýgengi á hverjum tíma og þá í hlutfalli við fjölda einstaklinga í samfélaginu. Með nýgengi er átt við fjölda nýrra einstaklinga sem fara á örorku á hverjum tíma sem hlutfall af heildarfjölda íbúa í landinu á vinnumarkaðsaldri.

Mynd 1 hér að ofan inniheldur upplýsingar um nýgengi 75% örorkumats hjá TR á hverja 1000 íbúa. Myndin inniheldur einnig upplýsingar um staðlað nýgengi út frá aldri en þá er búið að taka tillit til þess að aldurssamsetning þjóðarinnar er önnur í dag en hún var fyrir áratug síðan. Þjóðin í heild sinni er að eldast og það hefur eðlilega áhrif á örorkutölur þar sem heilsubrestur er að jafnaði algengari meðal eldra fólks en yngra.

Allar þær mælingar sem unnt hefur verið að framkvæma bæði innan VIRK og af utanaðkomandi aðilum sýna að árangurinn er mikill og þær sýna glöggt hversu miklu máli skiptir fyrir samfélagið að fjárfesta í fólki og aðstoða fólk í vanda.

Eins og sjá má á mynd 1 þá er nýgengi örorkumats hjá TR (mælt á hverja 1000 íbúa) á árinu 2020 lægra en það var árið 2008 þegar VIRK var stofnað og enn lægra ef tekið er tillit til breyttrar aldurssamsetningar þjóðarinnar. Nýgengi örorku sveiflast milli ára og ýmsir þættir geta haft þar áhrif. Má þar nefna bæði samsetningu þjóðarinnar, samfélagslega stöðu og ýmsar ákvarðanir sem teknar eru og varða afgreiðslu örorkulífeyris. Þannig getur verið varasamt að lesa of mikið í sveiflur milli einstakra ára og oft er betra að líta á þróunina í heild sinni yfir lengri tíma og þá í samhengi við ýmsa orsakavalda og þróun í samfélaginu.

Mjög margir þættir hafa áhrif á nýgengi örorku og VIRK er aðeins einn af þeim. Lægra nýgengi örorku undanfarin tvö ár má t.d. skýra að hluta til með því að TR hefur í meira mæli en áður beint ungu fólki inn í endurhæfingu og á endurhæfingarlífeyri með það í huga að allra leiða sé leitað til að auka vinnugetu ungra einstaklinga áður en örorkumat er framkvæmt. Til að TR geti gert slíkar ráðstafanir þurfa að vera til endurhæfingaraðilar eins og VIRK sem geta boðið upp á slíka þjónustu. Lægra nýgengi örorku undanfarin tvö ár má þannig skýra með bæði ákvarðanatöku og aukinni þjónustu og samspili ólíkra stofnana hvað þetta varðar og þar skiptir þjónusta VIRK miklu máli.

Um helmingur þeirra sem er á örorkulífeyri hjá TR fær einnig greiddan örorkulífeyri úr lífeyrissjóðum. Mynd 2 hér að ofan sýnir upplýsingar um þróun örorkulífeyrisgreiðslna frá lífeyrissjóðum settar fram sem hlutfall af hverjum aldurshópi. Eins og sjá má þá eru þessir ferlar frekar stöðugir yfir langan tíma og benda ekki til almennrar hækkunar á tímabilinu þótt oft hafi verið rætt um þessa þróun á öðrum nótum. Ef þessir ferlar eru settir í samhengi við þær örorkulíkur sem lífeyrissjóðir hafa notað í sínum útreikningum þá eru rauntölur heldur lægri en líkurnar4.

Ef mynd 1 er skoðuð þá sést að á undanförnum áratug hefur nýgengi örorku frekar lækkað ef eitthvað er og mynd 2 gefur ekki til kynna hlutfallslega fjölgun örorkulífeyrisþega lífeyrissjóða frá 2007 – 2018 þó eðlilega séu einhverjar sveiflur á milli ára. Reyndar þarf að taka inn í myndina að samsetning einstaklinga á vinnumarkaði hefur líka breyst þar sem fleiri erlendir ríkisborgarar eru við störf hér á landi í dag en fyrir áratug síðan. Við getum hins vegar velt því fyrir okkur hvort við höfum ekki, þrátt fyrir mikil efnahagsleg áföll, gallað framfærslukerfi og þann faraldur skertrar starfsgetu sem lýst var hér að framan, náð þó nokkrum árangri í að viðhalda vinnugetu og virkni einstaklinga. Án efa hefðum við getað gert margt betur en það er samt sem áður full ástæða til að benda á það sem vel hefur verið gert og almennt hafa fagaðilar, fyrirtæki og stofnanir í íslensku velferðarkerfi lagt sig fram um að gera sitt allra besta við oft erfiðar aðstæður.

Starfsemi VIRK hefur þannig, ásamt ýmsum öðrum þáttum, mildað verulega áhrif efnahagslegra áfalla á starfsgetu einstaklinga ásamt því að draga úr áhrifum þess faraldurs minnkaðrar starfsgetu sem farinn var af stað hér á landi og í öðrum vestrænum ríkjum talsvert áður en VIRK var stofnað.

VIRK hefur frá upphafi lagt áherslu á að mæla árangur starfseminnar. Allar þær mælingar sem unnt hefur verið að framkvæma bæði innan VIRK og af utanaðkomandi aðilum sýna að árangurinn er mikill og þær sýna glöggt hversu miklu máli skiptir fyrir samfélagið að fjárfesta í fólki og aðstoða fólk í vanda. Niðurstaðan er sú sama hvort heldur sem mælikvarðarnir eru fjárhagslegir eða mat einstaklinga á líðan sinni og lífsgæðum (sjá nánar nokkrar helstu niðurstöður þessara mælinga hér).

Það verður hins vegar aldrei hægt að meta árangur VIRK á heildstæðan hátt með því að skoða hvað hefði gerst ef VIRK hefði ekki verið til staðar. Sú sviðsmynd er ekki til. Það er hins vegar hægt að fullyrða með þeim rökum og mælingum sem að framan greinir að VIRK hefur haft mikil og jákvæð áhrif á þátttöku, lífsgæði og líðan þúsunda einstaklinga á undanförnum árum. Það má einnig leiða að því líkum að staðan hér á landi hvað varðar fjölda á örorku væri mun verri í dag ef VIRK hefði ekki verið til staðar undanfarinn áratug. Starfsemi VIRK hefur þannig, ásamt ýmsum öðrum þáttum, mildað verulega áhrif efnahagslegra áfalla á starfsgetu einstaklinga ásamt því að draga úr áhrifum þess faraldurs minnkaðrar starfsgetu sem farinn var af stað hér á landi og í öðrum vestrænum ríkjum talsvert áður en VIRK var stofnað.

Heimildir

  1. Alize J. Ferrari, Amanda J. Baxter, Adele Jane Somerville o.fl. Global variation in the prevalence and incidence of major depressive disorder: A systematic review of the epidemiological literature. Psychological Medicine 2013; 43: 471-483.
  2. Talnabrunnur Landlæknisembættisins, ágúst 2017.
  3. Fatma Al-Maskari. Lifestyle Diseases: An Economic Burden on the Health Services. UN Chronicle. Sameinuðu þjóðirnar.
  4. Talnakönnun. Örorka á Íslandi - þróun frá 2007 og samanburður eftir aldri og kyni. Skýrsla fyrir VIRK – Starfsendurhæfingarsjóð, febrúar 2021.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2021


Fréttir

29.01.2024
23.01.2024

Hafa samband