Fara í efni

Brjálað að gera?

Til baka
Ingibjörg Loftsdóttir
Ingibjörg Loftsdóttir

Brjálað að gera?

Er brjálað að gera? er vitundarvakning sem VIRK Starfsendurhæfingarsjóður hleypti af stokkunum í desember. Mikilvægt er að koma í veg fyrir brotthvarf af vinnumarkaði vegna heilsubrests sem má rekja til álags og streitu.

Sífellt fleiri í samfélaginu heltast úr lestinni vegna tímabundinna eða langvarandi veikinda. Svo virðist sem hluti af þessum veikindum sé tilkominn vegna langvarandi álags bæði í starfi og einkalífi. VIRK er starfsendurhæfingarsjóður sem hefur það hlutverk að hjálpa fólki sem þarf aðstoð við að komast á vinnumarkað eftir veikindi eða slys. „VIRK hefur verið starfandi á ellefta ár og rúmlega 15.000 manns hafa leitað til VIRK frá upphafi og tæplega 9.000 hafa lokið þjónustu. Í dag eru um 2.400 manns í þjónustu. Árangurinn hefur verið mjög góður en rúmlega 70% af þeim sem ljúka þjónustu eru virk á vinnumarkaði; í vinnu, í atvinnuleit eða námi við útskrift,“ segir Ingibjörg Loftsdóttir, sviðsstjóri rýnisviðs VIRK.

Metnaðarfullt verkefni

Stjórn VIRK ákvað á síðasta ári að auka áherslu á forvarnir í starfseminni. „Okkur langar að hafa áhrif í þá veru að fyrirbyggja brotthvarf af vinnumarkaði.“

Fyrir ári var svo farið af stað með forvarnarverkefni. „Við erum með stýrihóp sem styður við verkefnið en í honum eru aðilar úr stjórn VIRK og fulltrúar frá velferðarráðuneytinu, Landlæknisembættinu og Vinnueftirlitinu,“ segir Ingibjörg sem sjálf er verkefnastjórinn.

Ákveðið var að þrískipta verkefninu. „Í fyrsta lagi viljum við rannsaka ástæður þess að fólk hverfur af vinnumarkaði vegna heilsubrests og er stór rannsókn í undirbúningi í samstarfi við Vinnueftirlitið og fleiri aðila. Markmiðið er að finna þær breytur sem valda því að fólk hverfur af vinnumarkaði eftir veikindaleyfi eða sem sagt hvernig Heilandi sá hópur sker sig frá þeim sem fer í veikindaleyfi en á afturkvæmt til starfa.“

Í öðru lagi var ákveðið að leggja áherslu á fræðslu. „Við settum síðuna www.velvirk.is í loftið til að veita einstaklingum upplýsingar um jafnvægi og vellíðan í lífi og starfi og til að styðja við bakið á stjórnendum og leiðtogum á vinnustöðum. Á síðunni er m.a. fræðsla um góða stjórnunarhætti og ýmis verkfæri sem stjórnendur geta nýtt sér. Einnig er þó nokkuð af upplýsingum sem snúa að vellíðan og hvernig hægt sé að halda streitu í skefjum.“

Brjálað að gera

Í þriðja lagi var ákveðið að hrinda af stað vitundarvakningu í samfélaginu til að vekja fólk til umhugsunar um álag almennt og einnig hvernig sífelld notkun á rafrænum miðlum getur aukið streitu. „Fyrir utan álag í einkalífinu og á vinnustaðnum teljum við líklegt að menningin og þær kröfur sem samfélagið setur geti átt þátt í því að fólk sé undir of miklu álagi og kannski eitthvað þar sem við þurfum að endurhugsa,“ segir Ingibjörg.

VIRK fékk til liðs við sig auglýsingastofuna Hvíta húsið sem vann með þeim að vitundarvakningunni „Er brjálað að gera?“. Farið var af stað í desember með skemmtilegar auglýsingar sem hafa vakið mikla athygli en líklega kannast flestir við konuna sem mætti of seint á tónleika dóttur sinnar bara til að uppgötva að dóttirin var ekki á staðnum því það gleymdist að sækja hana. Í kringum áramótin voru síðan birtar auglýsingar sem snúa að því að setja mörk í vinnunni, nota skýr samskipti og vera í núinu.

„Við höfum fengið mjög jákvæð viðbrögð við auglýsingunum enda var vandað til verka,“ segir Ingibjörg en allar auglýsingarnar má skoða á vefsíðunni www.velvirk.is.

Heilsueflandi vinnustaðir

Fjórði þátturinn bættist nýverið við en VIRK er að fara að taka þátt í samstarfi við Landlæknisembættið og Vinnueftirlitið varðandi heilsueflandi vinnustaði. „Þetta er mjög spennandi verkefni. Markmiðið er að setja fram viðmið sem vinnustaðir geti sett sér til að geta kallað sig heilsueflandi vinnustað. Í framhaldinu er stefnan að fara af stað með tilraunaverkefni með nokkrum vinnustöðum.“

Viðtalið birtist í Konur í atvinnulífinu sérblaði Fréttablaðsins 31. janúar 2019.


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband