Fara í efni

Blásið til sóknar í rannsóknum

Til baka

Blásið til sóknar í rannsóknum

Sett hefur verið fram ný rannsóknastefna VIRK og verklag um rannsóknasamstarf. Leitast verður eftir rannsóknarsamstarfi við öflugt vísindafólk á vettvangi starfsendurhæfingar og sérstök áhersla lögð á samstarf við nemendur á meistara- og doktorsnámsstigi og leiðbeinendur þeirra.

VIRK er í lykilstöðu á vettvangi starfsendurhæfingar bæði hérlendis og erlendis. Hvergi annars staðar er að finna jafn víðtæka starfsemi á sviði heilsueflingar þar sem unnið er með fjölþættan og flókinn vanda einstaklinga sem missa starfsgetuna tímabundið eða til frambúðar.

Í Framtíðarsýn VIRK 2025 er áhersla lögð á aukið umfang rannsókna og þróunar á sviði starfsendurhæfingar, þróun árangursmælikvarða og gildandi löggjöf hverju sinni. Stefna VIRK er að verða leiðandi afl í þróun hagnýtrar þekkingar á eðli og orsökum skertrar starfsgetu fólks og nýtingu úrræða sem auka virkni og framlag einstaklinga til samfélagsins.

Af þessum sökum var í lok árs 2020 sett fram ný rannsóknastefna VIRK og verklag um rannsóknasamstarf. Líkt og stefna VIRK kveður á um er mikilvægt að vernda einstaklinga og hópa í þjónustu sjóðsins. Mannleg reisn er lykilatriði í velsæld einstaklinga og hefur áhrif á bataferli og framtíðarhorfur á vinnumarkaði. Því er lögð sérstök áhersla á að niðurstöður rannsókna VIRK vegi aldrei að ímynd og heiðri einstaklinga út á við með vísun í hópa sem þeir tilheyra.

Aðrar megináherslur rannsóknarstefnu VIRK eru áreiðanlegar upplýsingaskrár sem fylgja ströngustu gæðakröfum, aukið samstarf við vísindafólk og aukin miðlun og sýnileiki rannsóknarniðurstaðna.

Rannsóknaráð VIRK

Nýstofnað Rannsóknaráð VIRK mun framfylgja rannsóknastefnunni og móta verklag. Leitast verður eftir rannsóknarsamstarfi við öflugt vísindafólk á vettvangi starfsendurhæfingar og sérstök áhersla verður lögð á samstarf við nemendur á meistara- og doktorsnámsstigi og leiðbeinendur þeirra.

Rannsóknaráðið er skipað sérfræðingum VIRK í vísindalegum rannsóknum, uppbyggingu gagnaskráa og starfar náið með persónuverndarfulltrúa VIRK.


Fréttir

03.04.2024
29.01.2024

Hafa samband