Fara í efni

Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný

Til baka

Þegar kona brotnar – og leiðin út í lífið á ný

Þorsteinn Gauti Gunnarsson, ráðgjafi hjá VIRK

 

Bókin „Þegar kona brotnar - og leiðin út í lífið á ný” eftir Sigríði Arnardóttur (Sirrý) kom út árið 2019. Sirrý fékk hugmyndina að bókinni þegar hún var fundarstjóri á ráðstefnu Geðhjálpar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs „Þegar kona brotnar” í maí 2018 á Grand Hótel. Á fundinum fann Sirrý fyrir sterkri undiröldu í íslensku samfélagi, þegar konur upplifa yfirþyrmandi líðan í sínu lífi og lýsa því sem ákveðinni brotlendingu. Hún lýsir því í inngangi bókarinnar hvernig hún fann köllun til þess að rannsaka viðfangsefnið við að heyra frásagnir af persónulegum reynslusögum kvenna af áföllum frammi fyrir troðfullum sal á Grand Hótel. Áhuginn var mikill og augljóst að fjölmargir væru að velta því fyrir sér hvers vegna fólk væri í síauknum mæli að upplifa hamlandi líkam leg og andleg einkenni í sínu lífi. Eðlilega spurðu margir sig hvers vegna konur væru í miklum meirihluta í þessum hóp? Þegar bókin var skrifuð voru 70% einstaklinga í starfsendurhæfingu hjá VIRK konur.

Bókin er vel sett fram, hún byggist að stórum hluta á fjölmörgum sögum kvenna af hamlandi andlegri líðan og hvernig þær unnu úr sínum málum. Þá er farið vel í hvaða aðstoð þær sóttu sér og hvaða gagnlegu bjargráð þær tileinkuðu sér í sínu ferðalagi og stóðu að lokum uppi sem sigurvegarar. Sirrý nefnir réttilega „Við þurfum á sögum að halda, ekki stuttum glanssögum eins og finnast oft á samfélagsmiðlum, heldur raunverulegum sögum af sorg og sigrum, áföllum og úrræðum”. Við fáum oft ansi bjagaða mynd af raunveruleikanum á samfélagsmiðlum sem getur haft neikvæð áhrif á líf okkar og þá sér í lagi geðheilsuna.

Sirrý hefur unnið lengi sem fjölmiðlakona og tekið mörg viðtöl við einstaklinga um erfiða reynslu. Hún segir frá því hvernig hún hefur sjálf upplifað örmögnun sem gerir það að verkum að hún ber skilning til viðmælenda sinna. Það skín í gegn í bókinni þar sem áfallasögur eru þræddar með vel orðuðum spurningum. Sirrý leiðir viðtölin meistaralega vel og nær að draga saman kjarnann og leiðir til lausna í hverri sögu á fætur annarri.

Viðmælendur bókarinnar spanna allt samfélagið: listakona, sjúkraliði, bankastarfsmaður, yfirþroskaþjálfi, íslenskufræðingur, skólastjóri og heimspekingur svo fátt eitt sé nefnt. Viðmælendur segja söguna sína og hvernig margir álagsþættir leiddu til örmögnunnar. Oft er minnst á samanburð á samfélagsmiðlum, óraunhæfar hugmyndir vinnuveitanda og yfirmanna um raunhæft vinnuálag, háar kröfur einstaklinga til síns sjálfs, óhóflega samviskusemi, hamlandi kvíða- og depurðareinkenni og ýmiskonar stoðkerfisvandamál. Sögurnar bera með sér að það er hægt að mæta hvaða vanda sem er, mæta honum sem verkefni og styrkjast við ferlið. Það tekur eðlilega á og það getur tekið tíma, en hver sem er getur kosið það að breyta sinni sögu, sögunni sem hann segir sjálfum sér um sig.

Sirrý fær tvo meðhöfunda til að skrifa innlegg í bókina. Fyrst Margréti Guðmundsdóttur, sérfræðing, til að skrifa um atvinnusögu kvenna og svo Dr. Lindu Báru Lýðsdóttur, sálfræðing og sviðsstjóra hjá VIRK, til að skrifa um hvað gerist hjá konum sem upplifa örmögnun. Þessi nálgun bindur bókina skemmtilega saman og lesandi öðlast skýra yfirsýn á viðfangsefnið, sögurnar, samfélagið, fræðin og leiðum til lausna.

Margrét skrifar um atvinnusögu íslenskra kvenna og stöðu þeirra innan samfélagsins, kröfurnar sem þær upplifðu og hvernig nútímakonan kemur til sögunnar ásamt öllu sem því fylgir. Þarna sést vel hvernig kröfur hafa aukist með tímanum og hvernig samfélagið okkar hefur breyst, hvernig fólkið, viðhorfin og takturinn breytist, hvernig tíðarandinn þróast og þar með kröfur til einstaklinga. Það að fólk örmagnist á oftast margar samverkandi skýringar.

Í lok bókar skrifar Linda Bára Lýðsdóttir frábært innlegg um hvað gerist í raun þegar konur upplifa hamlandi einkenni sem leiða til þess að þær upplifi örmögnun. Fræðsla getur flutt heilu fjöllin og tekst Lindu Báru að útskýra mjög vel á mannlegu máli hvaða áhrifaþættir eru að verki, allt frá því hvað streita er yfir í hvernig sjúkleg örmögnun er skilgreind. Linda Bára kortleggur hugarheim margra þeirra sem örmagnast og varpar sálfræðilegri innsýn inn í viðfangsefnið. Við erum öll mannleg og hver sem er getur örmagnast. Það að einstaklingur öðlist skilning á því sem hann er að upplifa er gríðarlega öflugt, þannig er hægt að mæta vandanum sem verkefni og sjá verkefnið fyrir það sem það er.

Linda Bára bendir réttilega á að kulnun stafar oft af langvarandi álagi, mikill munur er á viðvarandi álagi og álagi sem líður hjá. Í þessum kafla skrifar Linda Bára einnig um algengar aðstæður sem geta leitt til viðvarandi álags eins og áföll, heimilisofbeldi, fjárhagslega erfiðleika, umönnun langveikra fjölskyldumeðlima og fullkomnunaráráttu svo fátt eitt sé nefnt. Linda Bára kemur inn á mjög góða punkta, eins og mikilvægi svefns og hreyfingar og að stilla samfélagsmiðlum í hóf. Að lokum bendir hún réttilega á mikilvægan punkt, „skref fyrir skref er hægt að ná bata, stundum fljótt en oftar en ekki tekur það nokkurn tíma. Segja má að það sé stöðug vinna að öðlast og viðhalda jafnvægi, eyða út neikvæðum, ógagnlegum viðhorfum og finna leiðir til að líða vel”. Eins og sést vel þá er þetta lífsins verkefni.

Þegar kona brotnar er einstaklega fræðandi og vel uppbyggð bók. Hún veitir verðmæta innsýn inn í fjölmargar ástæður þess að konur á Íslandi upplifa hamlandi líkamleg og andleg einkenni og jafnvel kulnunareinkenni. Rauði þráður bókarinnar er sterkur og ber með sér að hver sem er getur breytt sinni sögu, lært af erfiðleikum sínum og snúið reynslu sinni yfir í styrkleika. Þegar litið er í baksýnisspegilinn vaknar oft þakklæti hjá þeim sem gengið hefur veginn, veginn sem oftast er torfær og erfiður en líka oft ævintýralegur. Vegferð sem þessi getur þegar upp er staðið fært fólk á betri staði þó að það sjáist kannski ekki alltaf fyrir fram. Mikilvægasta skrefið er að taka eitt skref í einu og allt í réttri röð, stíga fram og tala um það sem maður er að upplifa til að öðlast skilning og yfirsýn og vinna svo í sínu lífsins verkefni.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2020.


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband