Fara í efni

Góður liðsandi ríkir hjá VIRK

Til baka

Góður liðsandi ríkir hjá VIRK

Þorsteinn Gísli Hilmarsson, atvinnulífstengill hjá VIRK

 

„Vinnan göfgar manninn“ segir í forngrísku kvæði. Þessi gömlu sannindi snerta meginmarkmið VIRK; að endurhæfa fólk til þátttöku á vinnumarkaðinum eftir fjarveru þaðan af ýmsum ástæðum.

Þorsteinn Gísli Hilmarsson starfar sem atvinnulífstengill hjá VIRK. Í björtu fundarherbergi á fjórðu hæð í höfuðstöðvum VIRK, Guðrúnartúni 1 í Reykjavík, hittum við Þorstein Gísla til þess að leita fregna um starfið sem hann gegnir og árangur þess.

„Hjá VIRK hef ég starfað í rösklega ár. Vinnuandinn er góður og ánægjulegt þegar tekst að finna störf fyrir þá sem eru komnir það langt í endurhæfingu að geta og vilja koma til starfa á ný í samfélaginu,“ segir Þorsteinn Gísli. Fas hans, rödd og nærvera ber vott um fjölþætta reynslu í bland við gætni og vekur forvitni um bakgrunn hans?

„Ég er viðskiptafræðingur að mennt og markaðsfræðingur. Bakgrunnur minn er því á sviði viðskipta og markaðsmála. Ég var lengi markaðsstjóri hjá Securitas og vann líka um árabil í markaðsdeild Frjálsrar fjölmiðlunar meðal annars. Ég sá auglýsingu frá VIRK í árslok 2018 og fannst starfið forvitnilegt. Ég sótti um og var tekinn í viðtal. Að því loknu leist mér harla vel á umhverfið og starfið, hugsaði með mér að þetta væri starf sem skipti máli og væri gefandi að fást við,“ segir Þorsteinn Gísli.“

Hefur það reynst vera svo?
„Já algjörlega. Maður sér hér hvað líf fólks getur gjörbreyst eftir að það kemst aftur til vinnu. Þetta er lifandi starf sem tengist mörgu fólki og margvíslegum fyrirtækjum. Hér nýtast mér þau tengsl sem ég hafði úr fyrri störfum við alls konar fyrirtæki, þar kom ég sæmilega sterkur inn. Hitt er nýtt fyrir mér, að taka viðtöl við þá einstaklinga sem hyggja á atvinnuþátttöku á ný.“

Fólk þarf mismikla hjálp í atvinnuleit

Hvernig byrjar sá ferill þegar fólk sem nýtur þjónustu VIRK fetar sig út á atvinnumarkaðinn á ný?
„Við erum hér þrettán atvinnulífstenglar á svæðinu. Við skiptum með okkur stéttarfélögunum, ef svo má að orði komast. Ég og annar atvinnulífstengill til höfum með að gera starfsmálefni fólks sem á aðild að VR. Ráðgjafar VIRK hjá VR hafa samband við okkur og láta vita þegar þjónustuþegi á þeirra vegum er að verða tilbúinn til að leita sér að vinnu. Þá tökum við viðtal við viðkomandi einstakling. Á hinn bóginn eru líka einstaklingar sem kjósa sjálfir að leita sér að vinnu eftir endurhæfinguna.

Þeir sem til okkar leita eru stundum búnir að vera nokkuð lengi frá vinnumarkaði, sjálfstraustið á því sviði hefur minnkað og þiggja gjarnan aðstoð við að koma sér í gang á ný hvað atvinnuþátttöku snertir. Fólk þarf mismikla hjálp í atvinnuleit. Sumir þurfa bara upplýsingar og ábendingar um starfsmöguleika hjá fyrirtækjum, aðrir þurfa mun meiri aðstoð, svo sem við gerð ferilskrár og fleira í þeim dúr. Þá kemur viðkomandi og ráðgjafi hans og málin eru skoðuð í sameiningu.“

Fylgja atvinnulífstenglar fólki eftir þegar það er komið út á vinnumarkaðinn?
„Ef viðkomandi er enn í þjónustu hjá VIRK þá fær hann eftirfylgni ef hann óskar eftir því. Þetta er þó mjög misjafnt, sumir komast í vinnu og við heyrum ekki meira frá þeim, aðrir vilja og þurfa aðstoð og fá hana.“

Ert þú sem atvinnulífstengill í sambandi við yfirmenn hjá fyrirtækjum sem ráða þjónustuþega frá VIRK?
„Það fer algjörlega eftir því hvernig ráðning viðkomandi hefur farið fram. Ekki öll fyrirtæki vita að viðkomandi er að koma úr þjónustu frá VIRK. Ekki nema fólkið segi sjálft frá því í starfsviðtali. Sumir sem til mín leita vilja ekki að ég sem atvinnulífstengill sé í fyrirsvari fyrir þá. Vilja fá aðstoðina í formi ábendinga en kjósa svo að sjá sjálfir um að senda inn umsóknir og annað sem vinnuleit fylgir. Aðrir eru opnari hvað þetta snertir og segja óhikað frá VIRK. Loks eru einstaklingar sem þurfa mikla aðstoð, þeim hjálpum við að gera ferilskrá, sækja um og leggjum þeim ráð eftir föngum og höfum jafnvel samband við fyrirtæki til að leita eftir starfi fyrir viðkomandi. Í þeim tilvikum höfum við atvinnulífstenglar eðlilega mun meiri samskipti við atvinnurekandann. Þetta fer mikið eftir aðstæðum fólks og persónugerð. En eðlilega höfum við atvinnulífstenglar að jafnaði samband við fjölmörg fyrirtæki þess utan.“

Menntun mikils metin – reynslan kostur

Hvernig er staðan á vinnumarkaðinum núna samkvæmt þinni reynslu?
„Við finnum fyrir því að sérstakt andrúmsloft er ríkjandi um þessar mundir í samfélaginu. Fyrirtæki sýna varkárni í mannaráðningum en ég finn ekki fyrir uppgjöf þar sem ég hef komið. Við lesum hér atvinnuauglýsingar daglega og það er heilmikið auglýst eftir fólki. Núna er ekki síst verið að auglýsa sumarstörf.“

Er fólk tilbúið til að fara í vinnu sem er kannski gagnólík þeirri sem það áður stundaði?
„Allur gangur er á því. Sumir vilja skipta um starfsvettvang, hafa óþægilega reynslu af þeim fyrri. Aðrir vilja nýta reynslu frá fyrri störfum, finnst freistandi að leita á sömu mið aftur vegna menntunar og starfsreynslu. Þá eru ótaldir þeir sem koma í þjónustu VIRK í veikindaleyfi frá vinnustað og snúa þangað aftur eftir endurhæfingu. Segja má að það sé afar einstaklingsbundið hvað fólk vill og gerir í þessum efnum.“

Hvort er algengara að fólk komi vegna álags í starfi eða vegna veikinda og slysa?
„Mér finnst fólk oftar koma vegna veikinda – þau geta þó vissulega verið tengd vinnu. Sjaldnast er þó starfinu alfarið um að kenna hvernig komið er. Oftast er um að ræða samspil margra þátta. Félagsmenn í VR starfa á breiðum grundvelli, ef svo má segja og menntunarstigið er misjafnt eftir því.“

Hvort finnst þér vega þyngra hjá atvinnurekendum reynsla eða menntun?
„Menntun er mikils metin, mikið horft til hennar. Þeir einstaklingar sem hafa litla menntun eiga erfiðara með að skipta um starfsvettvang. Í slíkum tilvikum hefur fólk hvorki reynslu né menntun. Það skapar hindrun. Reynslan er þó auðvitað mikill kostur.“

Hve langan tíma tekur almennt fyrir þjónustuþega VIRK að fá vinnu?
„Við atvinnulífstenglar höfum þriggja mánaða viðmið. Helst viljum við koma viðkomandi einstaklingum í vinnu á þeim tíma. Þetta er stefnan en svo er auðvitað allur gangur á hvernig til tekst. Sumir einstaklingar „lenda hlaupandi“, byrja strax að sækja um og eru fljótt komnir í vinnu. Aðrir fara sér hægar og sumir þurfa allan þann stuðning sem í boði er. Þetta ferli mótast mjög af því hvernig fólk er gert. Í raun er þetta þó þannig að fólkið þarf sjálft að fara í starfsviðtalið og landa starfinu. Þetta er sem sagt misjafnt enda er það þverskurðurinn af þjóðfélaginu sem kemur í þjónustu til VIRK.“

Skemmtilegt þegar vel gengur að útvega fólki vinnu

Hvað er þér minnisstætt af skemmtilegum hliðum í starfi atvinnulífstengils?
„Mér finnst ofboðslega skemmtilegt þegar vel gengur að útvega fólki vinnu. Að ekki sé talað um þau tilvik þar sem fólk kemst í draumastarfið sitt. Slíkt hefur gerst á þessu röska ári sem ég hef verið atvinnulífstengill hjá VIRK og er beinlínis ógleymanlega gaman. Maður fær álíka tilfinningu eins og að skora mark í fótbolta.

Starf atvinnulífstengils er að mörgu leyti erfitt en það koma sem sagt toppar. Þetta starf tekur á í ýmsum skilningi, bæði það að heyra um erfiðleika fólks og einnig þegar maður fær ekki jákvæð svör frá fyrirtækjum. Það er lýjandi. En þegar já-ið kemur er það allt gleymt.

Ekki er því þó að neita að stundum finnur maður fyrir vonbrigðum. Hefur kannski séð í atvinnuleitanda neista sem svo daprast vegna kvíða viðkomandi sem verður til að hann hafnar starfi sem honum býðst. Þá er mikilvægt að minna sig á að þessir einstaklingar eru oft að koma úr starfsendurhæfingu vegna veikinda af ýmsum toga.“

Hvernig hvetur þú fólk til dáða í atvinnuleitinni?
„Ég nota áhugahvetjandi samtal og nálgast viðkomandi á jafningjagrundvelli. En einnig ræði ég við einstaklinginn um höfnun, það eru margir að sækja um starfið og því eðlilegt að margir fái höfnun. Það fá nánast allir sem eru í atvinnuleit. Mikilvægt er að muna að höfnunin á ekki rætur í neinu persónulegu heldur því að bara einn úr stórum hópi getur fengið viðkomandi starf. Það getur verið streð að fá vinnu.“

Nýtir þú persónulegan kunningsskap í starfi þínu sem atvinnulífstengill?
„Já, ég hef oft gert það en þá á fagmannlegum nótum. Ég þekki vel til á markaði einkafyrirtækja og núna erum við að hefja svolítið átak í vinnuleit hjá hinu opinbera. Vel hefur gengið að fá fyrirtæki til samstarfs. Í slíkum heimsóknum er gjarnan undirrituð samstarfsyfirlýsing sem er án skuldbindinga. Nauðsynlegt er að fylgja slíku eftir, athuga hvað sé að frétta og hvort einhverjar ráðningar séu framundan. Mér finnast fyrirtæki almennt hafa mjög jákvætt viðhorf gagnvart VIRK. Flestir þekkja til þjónustu VIRK og kunna vel að meta hana.“

Er erfitt að finna hinn rétta tímapunkt til atvinnuleitar?
„Já það getur verið það. Fólk kemur kannski fullt af áhuga og vilja en svo gerist eitthvað sem hindrar framganginn. Kvíði sækir að sem er mjög eðlilegt. Það fá flestir hnút í magann þegar kemur að nýju starfi.“

Mikilvægast í atvinnuviðtali að vera maður sjálfur

Hvernig á fólk að bera sig að í starfsviðtali?
„Fólk á að vera snyrtilegt til fara og í framgöngu og reyna að lesa í aðstæður eftir föngum. Gott er að kynna sér fyrirfram starfið sem sótt er um, fyrirtækið sem viðkomandi fer í atvinnuviðtal hjá og þann geira sem það starfar í. Heppilegt er að móta með sér nokkrar spurningar. Almennt talað tel ég þó ekki ráðlegt að brjóta upp á umræðum um laun í fyrsta viðtali. Gott er að gera sér grein fyrir styrkleikum sínum og af hverju einstaklingurinn er að sækja um viðkomandi starf. Stundum koma vandræðalegar spurningar, svo sem: „Af hverju ætti ég að ráða þig?“ Flestum hugnast lítt sjálfhælni en eigi að síður þarf atvinnuleitandi að hafa ákveðna reisn og geta „markaðssett“ sig. Mikilvægast af öllu er þó að vera maður sjálfur, standa með sjálfum sér. Gott er að muna að atvinnuleitandinn er líka að meta aðstæður á vinnustaðnum og að sá sem tekur viðtalið ber sína ábyrgð á hvernig til tekst. Þessi atriði og fleiri ræði ég við þá þjónustuþega VIRK sem koma til mín í atvinnuleitinni.“

Hvað viltu segja um reynslu þína af starfi innan VIRK?
„Mér er efst í huga hið jákvæða viðhorf sem hér ríkir. Ekki aðeins í garð þjónustuþega heldur líka innanhúss – það viðhorf er nokkuð ólíkt því umhverfi sem ég starfaði í fyrrum. Hér er meiri mýkt og samheldni en ég hef áður kynnst á vinnustað. Ef vel tekst til samgleðjast allir og það er gaman að mæta hér til vinnu. Stjórnendum VIRK hefur tekist að koma á góðum og heilbrigðum liðsanda.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Viðtalið birtist áður í ársriti VIRK 2020.


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband