Fara í efni

Gerum betur – saman

Til baka

Gerum betur – saman

Vigdís Jónsdóttir forstjóri VIRK

VIRK er núna að hefja sitt sextánda starfsár en VIRK var stofnað af aðilum vinnumarkaðarins í kjarasamningum á árinu 2008. Ég hef verið svo lánsöm að fá það verkefni að byggja upp þessa stofnun og stjórna henni frá upphafi og fyrir það er ég mjög þakklát. Um er að ræða mikla og flókna uppbyggingu á þjónustu sem er afar nauðsynleg í nútíma velferðarsamfélagi.

Um síðustu áramót höfðu ríflega 22 þúsund einstaklingar komið í þjónustu VIRK. Nokkur fjöldi einstaklinga þarf að koma oftar en einu sinni í starfsendurhæfingu og því eru starfsendurhæfingarferlarnir fleiri en sem nemur þessum fjölda, eða um 26 þúsund talsins. Um 17 þúsund einstaklingar hafa lokið þjónustu hjá VIRK og af þeim hafa ríflega 13 þúsund einstaklingar náð þeim árangri að vera virkir á vinnumarkaði annað hvort að hluta til eða öllu leyti.

Það er því ljóst að VIRK hefur haft góð og jákvæð áhrif á íslenskt samfélag enda kom það fram í könnun sem Maskína gerði fyrir VIRK á árinu 2022 að 81% svarenda töldu VIRK hafa mikla þýðingu fyrir íslenskt samfélag og um 6 af hverjum 10 einstaklingum þekkti einhvern sér nákominn sem hafði verið í þjónustu VIRK.

Á síðasta ári komu 2.303 einstaklingar í þjónustu til VIRK. Um er að ræða svipaðan fjölda nýrra þjónustuþega og hefur verið undanfarin fjögur ár. Talsverðar sveiflur eru þó í umsóknum á milli mánaða og ára og hefur heildarfjöldi einstaklinga í þjónustu VIRK á undanförnum árum sveiflast frá því að vera um 2.200 og upp í um 2.600 manns. Þegar þetta er skrifað í mars 2024 eru um 2.600 einstaklingar í þjónustu VIRK auk þess sem 524 beiðnir um þjónustu eru í vinnslu.

Flókin og viðkvæm þjónusta

Þjónusta á sviði starfsendurhæfingar er bæði viðkvæm og flókin. Um er að ræða þjónustu við einstaklinga með heilsubrest auk þess sem margir þjónustuþegar VIRK glíma einnig við félagslegan og/eða persónulegan vanda á ýmsum sviðum. Auk heilsubrests er ekki óalgengt að einstaklingar glími við erfiðar fjölskylduaðstæður, fjárhagserfiðleika eða eru með umfangsmikla áfallasögu. Auk þess skiptir verulegu máli hvaða réttindi einstaklingurinn hefur bæði hjá hinu opinbera og á vinnumarkaði. Í myndinni hér að neðan er gerð tilraun til að gefa yfirsýn yfir ýmsa áhrifaþætti í starfsendurhæfingarferlinu. Í starfsendurhæfingunni þarf að taka tillit til og vinna með alla þessa þætti með það að markmiði að auka getu einstaklingsins til þátttöku á vinnumarkaði. Þjónustan er því í eðli sínu margþætt og flókin og krefst samstarfs við marga og ólíka aðila.

Breytingaferli

Á margan hátt má segja að starfsendurhæfingarferli sé breytingaferli þar sem unnið er markvisst með bæði veikleika og styrkleika einstaklinga í flóknu umhverfi nútímans. Þjónustan þarf að vera markviss og fagleg og taka mið af aðstæðum hvers og eins þjónustuþega. Setja þarf skýr markmið og mikilvægt er að einstaklingurinn taki þátt og axli sína ábyrgð í ferlinu.

Starfsendurhæfingarferli er þannig ekki alltaf auðvelt fyrir einstaklinginn því breytingar eru í eðli sínu stundum erfiðar. Þeir sem ljúka starfsendurhæfingu hjá VIRK hafa því oft á tíðum náð að yfirstíga miklar hindranir og fara út á vinnumarkaðinn með aukna sjálfsþekkingu og ný verkfæri sem gerir þeim kleift að takast betur á við fjölbreyttar áskoranir lífsins. Þetta eru því oft sterkir einstaklingar sem atvinnurekendur ættu svo sannarlega að gefa aukin tækifæri á vinnumarkaði.

Fagleg þróun

Til að geta mætt öllum þeim fjölbreyttu áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í þjónustu VIRK er nauðsynlegt að vera vakandi fyrir sífelldum breytingum og áskorunum í umhverfi okkar og aðstæðum einstaklinga. Þjónusta VIRK þarf stöðugt að þróast og breytast í takt við samfélagið á hverjum tíma. Þetta gerir kröfur til þess að við séum ávallt tilbúin til að hlusta og breyta, að við séum dugleg að afla okkur nýrrar þekkingar og taka þátt í rannsóknum og þróun.

Starfsemi VIRK gekk vel á árinu 2023. Mikil fagleg þróun átti sér stað á árinu og starfsemin efldist á mörgum sviðum. Við höfum náð því fyrst íslenskra velferðarstofnana að öll starfsendurhæfingarþjónusta okkar er m.a. byggð á grundvelli ICF flokkunarkerfisins og upplýsingakerfið okkar tekur mið því. Í kerfinu er því haldið utan um starfsendurhæfingarferla einstaklinga frá upphafi til enda og komast fagaðilar í raun ekki hjá því að hafa heildarsýn á málin út frá ICF hugmyndafræðinni. Öll mál eru síðan flokkuð eftir þyngd og eðli og þurfa úrræðakaup að taka mið af þeirri flokkun. Þannig er tryggt að keypt úrræði séu ætíð við hæfi og aldrei flóknari eða dýrari en nauðsynlegt er.

Eðli málsins samkvæmt hefur innbygging ICF hugmyndafræðinnar í upplýsingakerfið okkar því stuðlað að mikilli hagræðingu í rekstri og markvissari vinnubrögðum fagaðila innan VIRK. Við erum þó hvergi nærri hætt í þróunarstarfinu. Þegar þetta er skrifað er t.d. unnið að því að straumlínulaga mikilvæga þjónustuferla hjá VIRK með það að markmiði að bæta og hagræða í þjónustunni. Ýmsar greinar í ársriti VIRK 2024 gefa nánari mynd af því faglega starfi sem unnið er hjá VIRK alla daga svo sem grein Jónínu Waagfjörð um notkun ICF hjá VIRK auk ýmissa greina um mat, rýni, ráðgjafa, atvinnulífstengingu og úrræði.

Ávinningur

Ávinningur af starfsemi VIRK verður ekki mældur með útgjöldum eða tekjum sjóðsins. Ávinningurinn felst í því að einstaklingar ná að verða virkir þátttakendur í atvinnulífinu og ná þannig auknum lífsgæðum og, oft á tíðum, auknum tekjum. Ávinningurinn kemur einnig fram í sparnaði hjá launagreiðendum, lífeyrissjóðum og ríki. VIRK hefur unnið að því að þróa marga og mismunandi árangursmælikvarða á starfið og hér í ársritinu er að finna upplýsingar um hluta þessara mælinga. Þar kemur m.a. fram að um 86% af þeim einstaklingum sem luku þjónustu á árinu 2023 voru í vinnu, atvinnuleit eða í námi við útskrift.

Ráðgjafafyrirtækið Talnakönnun hf. hefur einnig lagt tryggingastærðfræðilegt mat á ávinning VIRK út frá tilteknum forsendum undanfarin 8 ár og niðurstaðan fyrir árið 2023 er 19,4 milljarða króna ávinningur. Hér er um að ræða reiknaða tölu út frá tilteknum hóflegum forsendum. Skýrslur Talnakönnunar er að finna hér á vefsíðu VIRK.

Ánægðir þjónustuþegar

VIRK býður öllum einstaklingum sem ljúka þjónustu upp á að svara þjónustukönnun og þannig er fylgst með viðhorfi einstaklinga til þjónustunnar á hverju ári. Á árinu 2023 var einnig ákveðið að fá utanaðkomandi aðila til að framkvæma þjónustukönnun meðal þjónustuþega VIRK á árunum 2022 og 2023. Gallup tók þetta verkefni að sér en þeir gerðu svipaða könnun á þjónustu VIRK á árinu 2017. Af þeim sem svöruðu þessari könnun hjá Gallup sögðu 82% að þjónusta og úrræði á vegum VIRK hafi aukið starfsgetu þeirra og á myndinni hér að neðan má sjá hvernig einstaklingar sem tóku þátt í þessari könnun mátu starfsgetu sína og andlega og líkamlega líðan bæði í upphafi og lok þjónustu borið saman við niðurstöður sambærilegra mælinga í þjónustukönnun Gallup á árinu 2017.

Ánægjulegt er að sjá að í öllum þessum þáttum og í raun í öllum niðurstöðum könnunarinnar þá er meiri ánægja með þjónustu VIRK á árinu 2023 en var árið 2017 þó niðurstöðurnar hafi bæði árin verið mjög góðar. Helstu niðurstöður þessarar þjónustukönnunar Gallup má finna í samantekt ársriti VIRK 2024 og á vef VIRK.

Atvinnutenging VIRK

Atvinnutenging VIRK efldist mikið á síðasta ári og sú þróun mun halda áfram á þessu ári. Um níu sérhæfðir atvinnulífstenglar eru starfandi hjá VIRK í Borgartúni 18 auk þess sem þrír atvinnulífstenglar eru starfandi á landsbyggðinni; á Akureyri, Selfossi og í Reykjanesbæ. Auk þessa þá eru allir ráðgjafar VIRK einnig að sinna verkefnum á sviði atvinnutengingar fyrir sína þjónustuþega. Þeir einstaklingar sem þurfa á þjónustu atvinnulífstengla að halda eru oft á tíðum þeir sem ljúka þjónustu með skerta starfsgetu, hafa ekki starf til að snúa til baka í og þurfa sérstakan stuðning út á vinnumarkaðinn.

Hlutverk atvinnulífstengla er fyrst og fremst að vinna með fyrirtækjum og stofnunum í að finna fleiri störf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu auk þess að styðja og hvetja einstaklinga til dáða. Atvinnutenging VIRK skilar frábærum árangri. Á árinu 2023 urðu þannig t.d. til um 270 ný störf fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu með tilstilli atvinnulífstengla. Frá árinu 2017 þegar VIRK fór markvisst að ráða til starfa sérhæfða atvinnulífstengla hafa alls um 1.500 störf orðið til fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu og það munar um minna á íslenskum vinnumarkaði. Nánari umfjöllun um atvinnutengingu VIRK má finna í umfjöllun í ársriti VIRK 2024.

IPS einstaklingsmiðaður stuðningur við starfsleit hjá VIRK

Hluti af atvinnutengingu VIRK er svokölluð IPS þjónusta (Individual Placement and Support). Um er að ræða einstaklingsmið-aðan stuðning við starfsleit hjá VIRK atvinnu-lífstenglum samkvæmt aðferðafræði sem upphaflega var þróuð í Bandaríkjunum og er nú notuð um allan heim með góðum árangri. VIRK var fyrsta stofnunin sem veitti þessa þjónustu hér á landi.

Hjá VIRK hefur nú verið þróað sérstakt IPS þekkingarsetur þar sem fagfólk VIRK leggur sig fram um að bæði efla starf VIRK að þessu leyti og ekki síður að efla aðrar stofnanir og fagaðila til að veita þjónustu á þessu sviði og samhæfa hana annarri þjónustu t.d. innan heilbrigðiskerfisins. Nánari upplýsingar um IPS og þróun þessarar þjónustu innan VIRK er að finna í grein Jónínu Waagfjörð og Elvu Daggar Baldvinsdóttur í ársriti VIRK 2024.

Forvarnir

Í skipulagsskrá VIRK er m.a. kveðið á um það að eitt af hlutverkum VIRK sé að taka þátt í verkefnum sem snúa að eflingu forvarna og velferðar á vinnustöðum. VIRK hefur í ljósi þessa unnið að ýmsum mikilvægum verkefnum á undanförnum árum sem hafa það að markmiði að koma í veg fyrir að einstaklingar þurfi á starfsendurhæfingu að halda. Um er að ræða bæði þjónustu, vitundarvakningar og rannsóknir. Vefurinn  www.velvirk.is er einnig hluti af forvarnarverkefnum VIRK en þar er að finna mikið efni sem nýtist bæði stjórnendum og starfsmönnum á vinnumarkaði.

VIRK stóð fyrir stórri rannsókn í samstarfi við sjúkrasjóði ýmissa stéttarfélaga og samtaka stéttarfélaga um allt land og áhugaverð grein Svandísar Nínu Jónsdóttur um langtímaveikindi og líðan á vinnustað hér í ársriti VIRK 2024 er m.a. unnin upp úr gögnum þessarar rannsóknar. Við munum halda áfram að vinna úr gögnum rannsóknarinnar sem var mjög viðamikil og nýta hana til þekkingaröflunar og frekari rannsókna m.a. í samstarfi við háskóla landsins.

Samhliða mannabreytingum á sviði forvarna hjá VIRK var á árinu 2023 ákveðið að skerpa betur á áherslum forvarna þar sem markmiðið er að nýta betur þá þekkingu sem er til staðar í starfsendurhæfingarþjónustu VIRK, byggja á rannsóknum og gera forvarnastarfið markvisst og árangursríkt. Þessi vinna er í fullum gangi og er fjallað um hana í grein Berglindar Stefánsdóttur og Guðrúnar Rakelar Eiríksdóttur í ársritinu 2024.

Einstaklingar í þjónustu VIRK með annað þjóðerni en íslenskt

Innflytjendur voru á árinu 2023 18,4% af þjóðinni og 23,4% af vinnuafli hér á landi. Á árinu 2023 voru um 11% þeirra sem komu í þjónustu VIRK með annað þjóðerni en íslenskt og á fyrstu mánuðum ársins 2024 er þetta hlutfall 13%. Um er að ræða tvöföldun frá árinu 2020. Þetta má m.a. sjá á myndinni hér að neðan. Næsta mynd sýnir síðan hlutfallslega skiptingu á fjölmennustu hópunum. Eins og sjá má þá eru langflestir þjónustuþegar VIRK, sem eru með erlent þjóðerni, frá Póllandi.

Gera má ráð fyrir að innflytjendum muni fjölga talsvert í þjónustu VIRK á næstu árum ef sú þróun heldur áfram sem sjá má á mynd 3. Einstaklingar sem koma til landsins þurfa ekki endilega á starfsendurhæfingarþjónustu að halda í upphafi en eftir því sem innflytjendum fjölgar hér á landi þá má gera ráð fyrir að þeim muni einnig fjölga í starfsendurhæfingu.

VIRK hefur gripið til ýmissa ráðstafana til að tryggja faglega og góða þjónustu við þessa einstaklinga. Þeim stendur t.d. öllum til boða túlkaþjónusta hjá ráðgjöfum VIRK og eins hefur VIRK samið við þjónustuaðila um sérhönnuð úrræði til að mæta þörfum þessara einstaklinga. Þessi þróun mun halda áfram m.a. í samstarfi við fleiri þjónustuaðila.

Einstaklingar af erlendum uppruna sem lokið hafa þjónustu hjá VIRK hafa í mörgum tilfellum náð góðum árangri. Ef skoðaðar eru tölur fyrir tímabilið janúar 2021 – febrúar 2024 þá komu einungis 12% stöðugilda þessara einstaklinga inn með laun í veikindum á vinnumarkaði en við útskrift eru 42% stöðugilda með laun á vinnumarkaði.

Starfsendurhæfing, tími og árangur

Bæði reynsla og rannsóknir sýna fram á mikilvægi réttra og viðeigandi tímasetninga þegar um er að ræða starfsendurhæfingarþjónustu. Ef vandi einstaklinga er margþættur og flókinn þurfa þeir oft starfsendurhæfingu til að komast á vinnumarkað í kjölfar veikinda og slysa. Þá er mikilvægt að það líði ekki of langur tími frá því að einstaklingur missir vinnugetu þar til hann fær viðeigandi starfsendurhæfingarþjónustu. Bara það að vera frá vinnumarkaði er áhættuþáttur í sjálfu sér og eftir því sem lengri tími líður þá minnka líkurnar á því að viðkomandi komist aftur í vinnu.

Hér þarf samt sem áður að hafa í huga að það er sjaldan árangursríkt að beina einstaklingum strax í starfsendurhæfingu um leið og þeir veikjast eða slasast. Fyrst þarf að ná tilteknu jafnvægi með aðstoð heilbrigðiskerfisins og síðan eru það alls ekki allir sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda. Margir komast í vinnu með aðstoð heilbrigðiskerfisins en það eru sérstaklega þeir einstaklingar sem glíma við margþættan og flókinn vanda sem þurfa aukna aðstoð í formi starfsendurhæfingar og getur sú aðstoð skipt öllu máli til að tryggja þátttöku þeirra á vinnumarkaði til framtíðar.

Þegar gögn VIRK eru skoðuð í þessu samhengi sést vel að betri árangur næst í starfsendurhæfingu hjá þeim einstaklingum sem ekki hafa verið mjög lengi frá vinnumarkaði áður en til þjónustu kom. Auðvitað skipta aðrir þættir líka máli og það ber að skoða þessi gögn með það í huga að þau segja ekki alla söguna en það er mjög greinilegt samhengi á milli tímalengdar frá vinnumarkaði og árangurs í starfsendurhæfingu. Reynsla og rannsóknir erlendis sýna einnig svipaðar niðurstöður hvað þetta varðar.

Þetta má t.d. sjá á mynd inni hér að neðan þar sem stöðugildi framfærslutegundarinnar „laun á vinnumarkaði“ eru 80% í lok þjónustu hjá þeim sem komu inn í þjónustuna á launum í veikindum samanborið við 55% hjá þeim sem voru með aðra framfærslu en laun í veikindum við upphaf þjónustunnar. Gera má ráð fyrir að þeir sem enn eru á veikindalaunum í upphafi þjónustunnar séu alla jafna búnir að vera styttri tíma frá vinnu en þeir sem komnir eru á aðra framfærslu við upphaf þjónustu VIRK.

Næsta mynd hér að neðan sýnir framfærslu við útskrift eftir því hversu lengi einstaklingar hafa verið frá vinnumarkaði við upphaf þjónustu og er niðurstaðan svipuð og fram kemur í myndinni hér að ofan. Þarna má sjá að af þeim sem hafa verið skemur en 3 mánuði frá vinnumarkaði við upphafi þjónustu útskrifast 81% með laun á vinnumarkaði borið saman við 54% þeirra sem hafa verið lengur en 2 ár frá vinnumarkaði við upphaf þjónustu hjá VIRK. Önnur gögn og aðrir mælikvarðar hjá VIRK sýna einnig svipaðar niðurstöður.

Í ljósi þessa er eðlilegt að velta fyrir sér hvort við getum gert betur hér á landi varðandi það að tryggja einstaklingum starfsendurhæfingarþjónustu á réttum tíma. Við verðum vör við það hjá VIRK að einstaklingar í þjónustu telja stundum að þeir hafi komið of seint til VIRK og ef þeir hefðu komið fyrr þá hefði það getað stytt verulega tíma þeirra frá vinnumarkaði og aukið þannig lífsgæði og vinnugetu. Hver mánuður frá vinnumarkaði hjá einstaklingum er dýr bæði fyrir hann sjálfan, atvinnurekandann og samfélagið í heild sinni.

Ástæða þess að einstaklingar koma of seint til VIRK er oftar en ekki sú að þeir hafa ekki nægilegar upplýsingar um að þjónustan sé viðeigandi fyrir þá í þeirri stöðu sem þeir eru í. Aðgengi að læknum er mismunandi auk þess sem læknar eru misduglegir að nýta VIRK fyrir sína skjólstæðinga.

Réttindi til launa í veikindum hér á landi liggja hjá hverjum og einum atvinnurekanda og það er í sjálfu sér ekki hlutverk eða réttur atvinnurekanda að hlutast til um faglega þjónustu við einstaklinga með heilsubrest. Víða erlendis eru kerfin byggð þannig upp að reynt er að tryggja ákveðna tengingu milli ábyrgðar á framfærslu einstaklinga í veikindum og ábyrgðar á starfsendurhæfingarþjónustu. Það er hins vegar erfitt að koma þessu við þegar langur réttur til launa liggur hjá hverjum og einum atvinnurekanda eins og raunin er hér á landi.

Páll Ásgeir Guðmundsson, forstöðumaður málefnasviðs SA, Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra og Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, skrifa undir viljayfirlýsingu um stóraukinn einstaklingsmiðaðan stuðning við ungt fólk í viðkvæmri stöðu.

Framfærslukerfi og nauðsyn breytinga

Það er auðvitað mjög mikilvægt að einstaklingar eigi rétt á góðri og tryggri framfærslu í veikindum en það má velta því fyrir sér hvort ekki sé unnt að ná betri árangri og réttindum fyrir einstaklinga í öðru fyrirkomulagi en nú er. Til dæmis með því að tryggja einstaklingum góðan rétt hjá tryggingasjóði sem rekinn væri sameiginlega af stéttarfélögum og samtökum atvinnurekenda í stað þess að einstaklingar eigi svo langan rétt til launa hjá hverjum og einum atvinnurekanda. Það má vel leiða líkur að því að slíkt fyrirkomulag geti aukið verulega réttindi og velferð launamanna umfram það sem nú er.

Það er líka mikilvægt að hafa það í huga að það fyrirkomulag að langur réttur til launa í veikindum sé hjá hverjum og einum atvinnurekanda mun sennilega að óbreyttu hafa það í för með sér að heildarréttindi launamanna á vinnumarkaði dragist saman. Vinnumarkaðurinn er að breytast, einstaklingar eru styttri tíma en áður í hverju starfi og auk þess færist það í vöxt að einstaklingar ákveði að „gigga“ á vinnumarkaði – þ.e. vinna í raun sem verktakar fyrir hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir. Réttur til launa í veikindum vex með auknum starfsaldri hjá sama atvinnurekanda og því getur þessi þróun leitt til þess að heildarréttur launamanna til launa í veikindum á vinnumarkaði dragist saman með tímanum. Það er ábyrgðarhluti fyrir þá sem bera ábyrgð á framfærslukerfi í veikindum á vinnumarkaði að bregðast ekki við þessari þróun og tryggja öryggi og góð réttindi til framtíðar.

Auknir möguleikar í nýju örorkulífeyriskerfi

Þegar þetta er skrifað liggur fyrir frumvarp frá félags- og vinnumarkaðsráðherra þar sem áformað er að breyta verulega því örorkulífeyriskerfi sem hefur verið nær óbreytt undanfarna áratugi. Frumvarpið inniheldur marga mikilvæga þætti sem geta svo sannarlega bætt stöðu ein-staklinga í starfsendurhæfingu og eins aukið möguleika einstaklinga með skerta starfsgetu til aukinnar atvinnuþátttöku og velsældar. Í þessu frumvarpi er bæði lögð áhersla á starfsendurhæfingu og þá hugmyndafræði að mæta og aðstoða einstaklinga eftir þörfum en jafnframt skiptir máli að gefa þau skýru skilaboð út í samfélagið að við berum öll ábyrgð á að nýta starfsgetu okkar til góðra verka.

Framfærsla einstaklinga í veikindum verður betur tryggð með nýjum sjúkra- og endurhæfingargreiðslum og einstaklingar sem ljúka starfsendurhæfingu með skerta vinnugetu munu hafa meiri möguleika til atvinnuþátttöku með greiðslu hlutaörorkulífeyris á móti atvinnutekjum. Frumvarpið tekur ekki á öllum vanköntum núverandi kerfis en það er sannarlega stórt skref fram á við í að bæta kerfið og möguleika einstaklinga til virkni og þátttöku.

Annar mikilvægur þáttur í frumvarpinu eru áform um að þróa nýtt mat á starfsgetu einstaklinga með nýju þverfaglegu samþættu sérfræðimati í stað núgildandi örorkumatsstuðuls. Þetta er löngu tímabært og mikilvægt í öllu samhengi. Ramminn utan um hið nýja mat er ICF flokkunarkerfið og er það í takt við þá leið sem okkar nágrannaþjóðir hafa verið að fara. Megináhersla verður á færni, valdeflingu og stuðning við fólk til að nýta sína hæfileika og getu. Þetta er í takt við markmið starfsendurhæfingar og VIRK lýsir sig reiðubúið til að taka þátt í þessari þróun og leggja m.a. til þá þekkingu og þróun sem hefur átt sér stað innan VIRK á þessu sviði.

Gerum betur - saman

Í frumvarpi um nýtt örorkulífeyriskerfi er gert ráð fyrir að lögfest sé skylda þjónustu-kerfa til að eiga með sér aukið samstarf með það að markmiði „að stuðla að heildstæðri nálgun og samfellu við veitingu þjónustu ...“. Sett verða á laggirnar sérstök samhæfingarteymi þar sem sitja fagaðilar frá mismunandi þjónustukerfum. Gert er ráð fyrir að þjónustukerfin þrói þetta samstarf og semji um það sín á milli. VIRK er eitt af þessum þjónustukerfum og fulltrúar VIRK eru nú þegar farnir að undirbúa þetta samstarf í samvinnu við hin kerfin.

VIRK fagnar þessum ákvæðum frumvarpsins. Aukið samstarf mismunandi kerfa getur án efa opnað nýjar leiðir fyrir einstaklinga sem glíma við langvarandi heilsubrest af ýmsum toga. Einstaklingar í starfsendurhæfingu eru oft að glíma við það flókinn og margþættan vanda að aðeins er hægt að ryðja hindrunum úr vegi með samstarfi ólíkra kerfa. Okkar reynsla hjá VIRK er sú að almennt vinna fagaðilar mismunandi þjónustukerfa vel saman og allir leggja sig fram um að mæta þörfum einstaklinga í vanda. Formlegra samstarf á þessum vettvangi mun hins vegar án efa verða til þess að fundnar verða nýjar lausnir og einstaklingum þannig tryggð betri þjónusta til framtíðar.

Í velferðarþjónustunni hér á landi er unnið gott starf sem skilar miklum árangri. Velferðarþjónustan er full af fólki sem brennur fyrir starfinu sínu og leggur mikið á sig til að aðstoða sína þjónustuþega til betri heilsu, lífsgæða og starfsgetu. Það eru hins vegar víða tækifæri til að gera betur sérstaklega ef við vinnum betur saman með þarfir okkar þjónustuþega í huga. Nýtt örorkulífeyrisfrumvarp hefur þessa skýru stefnu sem er afar ánægjuleg og ef vel tekst til þá munum við öll gera betur – saman.

Grein úr ársriti VIRK 2024.


Fréttir

27.04.2024
30.04.2024

Hafa samband