Fara í efni

Þjónustukönnun VIRK 2022-2023

Könnun Gallup á þjónustu VIRK 2022-2023

Þjónustukönnun VIRK var með óvenjulegu sniði þetta misserið. Samkvæmt venju sér VIRK um að senda rafræna þjónustukönnun til einstaklinga sem lokið hafa þjónustu tiltölulega stuttu eftir að þjónustu lýkur. Í þetta sinn réði VIRK Gallup til að framkvæma könnunina, líkt og gert var síðast árið 2017. Þjónustukönnunin var lögð fyrir 3.034 þjónustuþega VIRK sem luku þjónustu á tímabilinu janúar 2022 til nóvember 2023 og bárust 1.240 svör (41% svarhlutfall). Spurningum könnunarinnar má skipta í nokkra efnisflokka. Spurt var um biðtíma, upplýsingagjöf, frammistöðu ráðgjafa og líðan þátttakenda við upphaf og lok starfsendurhæfingar.

Beðið eftir þjónustu

Ríflega tveir af hverjum þremur töldu biðtímann, frá því beiðni þeirra um þjónustu var samþykkt og þar til þjónusta VIRK hófst, hæfilegan á meðan 25% töldu hann nokkuð langan og 6% alltof langan (mynd 1). Meirihluti þátttakenda voru jafnframt ánægð(ir) með upplýsingagjöf frá VIRK á biðtímanum, um 74% (sjá mynd 2). Jafnframt taldi meirihluti aðspurðra (76%) að VIRK stæði sig vel í að kynna starfsemi sína (sjá mynd 3).

Mikil ánægja með þjónustuna

Á mynd 4 má sjá að mikill meirihluti að-spurðra eru frekar eða mjög ánægð með þjónustuna árin 2022/2023 og mælist ánægjan lítið eitt hærri nú en í síðustu Gallupmælingu árið 2017. Hvorki er að sjá mikinn mun á ánægju eftir kyni (88% kvenna voru ánægðar með þjónustu VIRK borið saman við um 86% karla) né búsetu (sjá myndir 5 og 7) en öðru máli gegnir um aldur. Á mynd 6 kemur fram að hlutfallslega eru fleiri ánægðir með þjónustu VIRK í eldri aldurshópum en þeim yngri, 93% í elsta hópnum og 78% í yngsta.

Um 81% aðspurðra töldu starfsendurhæfingarferlið vel skipulagt (mynd 8) og svipað hlutfall taldi að úrræðin sem þeim buðust í starfsendurhæfingunni hafi hentað þeim vel (mynd 9).

Mikill meirihluti aðspurðra telja líklegt að þeir myndu mæla með VIRK við þá vini og kunningja sem gætu nýtt sér þjónustuna samkvæmt umreiknaðri meðmælaeinkunn (NPS) á kvarðanum 0 til 10. Í könnuninni nú er hægt að líta svo á að VIRK fái meðaleinkunnina 8,8 borið saman við 8,3 árið 2017 (sjá mynd 10).

Afstaða til ráðgjafans

Líkt og fyrri ár eru nær allir svarendur þjónustukönnunar VIRK ánægðir með ráðgjafann sinn. 94% aðspurðra segja að viðmót og framkoma ráðgjafans hafi verið gott (mynd 11), 90% segjast hafa fengið frekar eða mjög mikla hvatningu frá ráðgjafanum (mynd 12) og 88% segja að ráðgjafanum hafi tekist vel að virkja þau til þátttöku í mótun endurhæfingaráætlunar um endurkomu til vinnu (mynd 13).

Mat á árangri starfsendurhæfingarinnar

Svarendur voru beðnir um að meta ávinn-inginn af starfsendurhæfingunni sem og eigin líðan í upphafi og lok þjónustunnar. Alls sögðu um 82% að þjónustan og úrræðin á vegum VIRK hafi aukið starfsgetu þeirra að nokkru eða miklu leyti (mynd 14) og samtals 87% töldu að þjónusta VIRK hefði bætt lífsgæði þeirra að nokkru eða miklu leyti (mynd 15).

Þátttakendur voru beðnir um að meta starfsgetu sína, andlega og líkamlega líðan og sjálfsmynd í upphafi þjónustu og við lok þjónustu á kvarðanum 0 til tíu. Á mynd 15 má sjá að þátttakendur upplifa bætingu í þessum fjórum þáttum en sem dæmi má nefna þá gáfu þeir starfsgetu sinni einkunnina 2,2 í upphafi þjónustu en 5,9 í lok þjónustu að jafnaði (sjá mynd 16).

Þjónustukönnunin birtist fyrst í ársriti VIRK 2024.

Hafa samband