Fara í efni

Forvarnaverkefni VIRK

Til baka
Ingibjörg og Líney
Ingibjörg og Líney

Forvarnaverkefni VIRK

Ingibjörg Loftsdóttir sviðsstjóri hjá VIRK
Líney Árnadóttir sérfræðingur hjá VIRK

 

VIRK hefur lagt áherslu á fjölbreytt verkefni á sviði forvarna undanfarin ár. Þessi verkefni skiptst í fjóra flokka: Heilsueflandi vinnustaður, rannsóknir, velvirk.is og vitundarvakningar.

Heilsueflandi vinnustaður - Samstarfsverkefni Embættis landlæknis, Vinnueftirlitsins og VIRK

Árið 2022 var viðburðaríkt hvað varðar Heilsueflandi vinnustað og í haust lauk vinnu við nýja lendingarsíðu fyrir verkefnið, www.vinnustadir. heilsueflandi.is, sem gerir verkfærið mun aðgengilegra fyrir fyrirtæki landsins. Þessa dagana er unnið að gerð fræðslumyndbanda sem fara á vefsíðuna.

Tveir morgunfundir voru haldnir í samstarfinu á sl. ári, sá fyrri var um Heilsueflandi forystu og vellíðan í starfi og aðalfyrirlesari var Sigrún Gunnarsdóttir, prófessor í Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og formaður Þekkingarseturs um þjónandi forystu. Síðari morunfundurinn var um streitu í starfi og aðalfyrirlesari var Marie Kingston, vinnusálfræðingur og höfundur Streitustigans. Báðir þessir viðburðir voru vel sóttir.

Í haust voru síðan haldnar tvær vel heppnaðar vinnustofur fyrir virka notendur verkfærisins. Fleiri morgunfundir eru á döfinni á þessu ári.

Rannsókn VIRK og stéttarfélaganna

Í samvinnu við sjúkrasjóði ellefu stéttarfélaga og Félagsvísindastofnun HÍ var á vormánuðum 2022 sendur út spurningalisti til rúmlega 5.000 einstaklinga sem höfðu þegið bætur frá sjúkrasjóðunum árin 2018 og 2019.

Spurningalistinn var sendur út vegna rannsóknar á forvarnasviðinu á þeim þáttum sem geta mögulega haft áhrif á veikindaleyfi og endurkomu einstaklinga til starfa eftir veikindaleyfi.

Heimtur voru í takt við það sem tíðkast hvað varðar heimtur í könnunum almennt þessa dagana og var svarthlutfall um 32%. Fyrstu niðurstöður voru kynntar í lok febrúar og má lesa nánar um þær hér.

Yfirferð og endurnýjun efnis á velvirk.is

Á árinu 2022 var ráðist í umfangsmikla yfirferð á öllu efni á velvirk.is með það í huga að laga til, endurnýja eða skipta út efni á síðunni. Bætt var við myndböndum og verkfærum fyrir bæði starfsfólk og stjórnendur í tengslum við Streitustigann sem er mjög vinsælt efni á vefsíðunni enda er Streitustiginn myndrænn og auðveldur í notkun.

Þá var bætt við töluverðu efni á vefinn fyrir stjórnendur og starfsfólk. Má þar helst nefna efni um kynferðislega áreitni í tengslum við vitundarvakninguna „Það má ekkert lengur“, efni tengdu streitu og breytingarskeiði og nýju efni tengdu streitu, samskiptum og kulnun sem styður enn frekar þær kenningar að við þurfum að huga betur að stjórnun og hegðun á vinnustöðum.

Einnig var bætt við áhugaverðu efni um verki ásamt nýju starfsþróunarefni með sérstakri umfjöllun um starfslok. Þá var unnið að nýju forvarnaefni fyrir starfsfólk og stjórnendur á vinnustöðum sem hefur verið kallað Velvirk í starfi.

Yfir 200 leiðir til að velja úr við starfslok

Á velvirk.is hefur forvarnasviðið jafnframt tekið saman gagnlegt efni um starfsþróun allt frá leitinni að fyrsta starfinu til starfsloka. Stórir árgangar nálgast nú hinn svokallaða „starfslokaaldur“.

Með bættri heilsu og betra lífi getur fólk gert ráð fyrir að á þessum tímamótum séu framundan kannski 10 – 20 ár við góða heilsu sem gefa færi á innihaldsríku lífi. Það á enginn að láta það koma sér á óvart að breytingar séu framundan og að eðlilegt sé að verja tíma í að finna verðug verkefni, tilgang og hamingju á þessu tímabili lífsins.

Staðan er ekki ósvipuð þeirri sem var um tvítugt því nú gefst aftur færi á að skoða hvað væri gaman að gera í lífinu. Hvort hugurinn stefnir til þess að halda áfram að vinna, leggjast í ferðalög, flytja á nýjan stað, arka um fjöll, passa barnabörnin, skapa sér nýjan starfsvettvang, rækta garðinn, skrifa bók, gera upp gamla bílinn, mastera golfið eða eitthvað allt annað.

Það er þegar upp er staðið í höndum hvers og eins að veita draumum sínum athygli, velja áhugaverð viðfangsefni og plana ferðalag sitt inn í framtíðina. Ef hugmyndir vantar má mögulega finna þær í þeim 200 hugmyndum sem settar eru fram á velvirk.is.

Viðurkenning fyrir Hver ert þú?

VIRK og Líney Árnadóttir, verkefnastjóri hjá VIRK fengu á árinu viðurkenningu Félags náms- og starfsráðgjafa fyrir lofsvert framlag til náms- og starfsráðgjafar á Íslandi. Viðurkenningin var veitt fyrir gagnvirka sjálfshjálparefnið Hver ert þú?

Um er að ræða verkfæri sem einstaklingar geta notað til að finna leið að framtíðardraumum sínum út frá styrkleikum, færni, áhugasviði, viðhorfum, reynslu og menntun. Þetta er nýstárlegt, stafrænt efni sem er sjálfsstyrkjandi og nýtist fólki á öllum aldri við starfsþróun og starfsval.

Hver ert þú? er aðgengilegt öllum á síðunni „Aftur í vinnu“ á virk.is sem gerir notendum kleift að vinna að eigin starfsframa í rólegheitum heima í stofu, eða raunar hvar og hvenær sem er.

Stjórnendahjólið

Á árinu 2022 var hrint af stað vinnu við gerð sérstaks stjórnendaefnis með aðkomu auglýsingastofunnar Hvíta hússins til að minna á hvaða helstu þáttum í vinnustaðamenningunni þurfi að huga að að til að auka vellíðan starfsfólks og draga úr streitu.

Verkefnið byggir á hugmyndafræði Christinu Maslach, eins helsta fræðimanns heims á sviði kulnunar. Niðurstaðan er „Stjórnendahjólið“ þar sem stjórnendur geta snúið pappírsskífu og séð stutta umfjöllun um hvern af þeim sex þáttum sem taldir eru grunnforsendur fyrir vellíðan á vinnustað.

Hægt er að nálgast stjórnendahjólið í höfuðstöðvum VIRK í Borgartúni 18 og lesa má um það á velvirk.is.

Það má ekkert lengur vakti fólk til umhugsunar

Í byrjun ársins 2022 lauk vitundarvakningunni Virkjum góð samskipti sem var mjög vel heppnuð.

Strax var farið að huga að næstu vitundarvakningu um kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Mikil vinna fór í að finna rétta nálgun á svo viðkvæmu efni og fundað ítrekað með aðilum á borð við Vinnueftirlitinu, Stígamótum og fulltrúum kynjafræða við HÍ auk Hvíta hússins. Loks fannst rétta nálgunin og ákveðið að nýta Það má ekkert lengur sem slagorð.

Eftir mikla yfirlegu og fjölda funda hófst framleiðsla á efninu á haustmánuðum 2022 og efnið var frumsýnt í október. Vakningin hefur lifað síðan með mismikilli keyrslu og áherslum. Eins og í öðrum vakningum var stuðningsefni sett inn á velvirk síðuna og var um töluvert mikla vinnu að ræða með tilheyrandi lestri á rannsóknum o.fl.

Í lok árs voru viðbrögð við vakningunni könnuð af EMC rannsóknum að beiðni VIRK og töldu nærri 9 af hverjum tíu aðspurðra að vakningin veki athygli á mikilvægu málefni. 87% svarenda höfðu séð auglýsinguna og ¾ líkaði hún vel. 45% aðspurðra höfðu rætt auglýsinguna eða kynferðislega áreitni á vinnustöðum við fólk eftir að hafa séð auglýsinguna.

Í tengslum við vakninguna voru hönnuð veggspjöld, kort og servíettur og er enn verið að dreifa þeim og geta áhugasamir nálgast efnið í þjónustuveri VIRK í Borgartúni 18.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.


Fréttir

27.04.2024
30.04.2024

Hafa samband