Fara í efni

Endurkoma til vinnu að afloknu veikindaleyfi

Til baka
Ingibjörg og Svandís Nína
Ingibjörg og Svandís Nína

Endurkoma til vinnu að afloknu veikindaleyfi

Ingibjörg Loftsdóttir sviðsstjóri hjá VIRK
Svandís Nína Jónsdóttir verkefnastjóri hjá VIRK

 

Rannsókn VIRK og stéttarfélaga

 

Í þessari grein er fjallað um fyrstu niðurstöður umfangsmikillar rannsóknar á vegum VIRK og sjúkrasjóða tíu stéttarfélaga á atvinnustöðu einstaklinga sem höfðu fengið greidda sjúkradagpeninga vegna veikinda árið 2018 og 2019.

Stéttarfélögin sem tóku þátt voru: Afl – starfsgreinafélag, BHM, BSRB, Efling, Eining – Iðja, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Kennarasamband Íslands, Verkvest (Verkalýðsfélag Vestfirðinga), Verkfræðingafélag Íslands og VR.

Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort einstaklingar í veikindum snúi aftur til vinnu og hvaða þættir í umhverfi þeirra, á vinnustað eða í einkalífi gætu mögulega haft áhrif þar á. Rannsóknin var á vegum Forvarnasviðs VIRK en forvarnir VIRK snúast um að sporna gegn brotthvarfi af vinnumarkaði, þá sér í lagi vegna álagstengdra einkenna. Rannsóknin (sem er oft kölluð forvarnarannsóknin til einföldunar) á sér nokkurra ára sögu og má rekja til samstarfs VIRK við ýmsa aðila, m.a. VR stéttarfélag, Vinnueftirlitið o.fl.

Í þessari grein eru fyrstu niðurstöður birtar og í ljósi umfangs rannsóknarinar er einungis stiklað á stóru í umfjölluninni. Á næstu vikum og mánuðum er stefnt að því að birta fleiri niðurstöður, m.a. um álagsþætti í starfi og daglega streitu, svo fátt eitt sé nefnt.

Framkvæmd og heimtur

Til gagnaöflunar var ítarlegur spurningalisti sendur til allra einstaklinga sem fengið höfðu greiðslur úr sjúkrasjóðum viðkomandi stéttarfélaga og höfðu ekki sagt sig frá könnun í upphafi. Spurningarnar voru þess eðlis að þær spönnuðu allt tímabilið frá því fyrir veikindaleyfi og til þess tíma er könnunin var lögð fyrir (mars til september 2022). M.a. var spurt um starf, starfsvettvang, vinnufyrirkomulag, fjárhagsstöðu, einelti og áreitni og afstöðu til vinnustaðar fyrir veikindaleyfi sem og ástæður veikindaleyfisins.

Einnig var spurt um atriði í veikindaleyfinu sjálfu, m.a. hvort þátttakendur hefðu leitað til læknis eða í önnur úrræði, farið í starfsendurhæfingu, í líkamlega endurhæfingu, til sálfræðings o.s.frv. Að síðustu var spurt út í aðstæður eftir veikindaleyfið, m.a. stöðu á vinnumarkaði, upplifaða streitu, heilsufar og persónulegt viðhorf. Framkvæmd rannsóknarinnar var í höndum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands. Líkt og algengt er í rannsóknum núorðið voru heimtur – eða svarhlutfall - lágt en gild svör fengust frá 1.840 einstaklingum sem svarar um 31% svarhlutfalli (brúttó).

Fyrirvarar

Þó lágt svarhlutfall sé nánast orðið reglan í rannsóknum í dag er það óheppilegt í þessu tilviki þar sem breytileiki í þýði er umtalsverður. Störfin innan stéttarfélaganna - sem þátttakendur í könnuninni voru meðlimir í - eru afar ólík. Ekki einungis eru þau ólík á milli félaga heldur einnig innan þeirra. Það er t.a.m. nokkuð líklegt að meðal félagsfólks í Félagi hjúkrunarfræðinga sé minni breytileiki en á meðal félagsmanna Eflingar eða VR.

Annað sem veldur vandkvæðum í úrvinnslunni er að lítið er vitað um eðli og umfang veikindanna sem þátttakendur í rannsókninni hökuðu við. Við vitum að það voru vissulega veikindi til staðar. Það sem við vitum ekki - hins vegar – er hversu alvarleg veikindin voru. Nokkuð líklegt er að í svarendahópnum sé öll flóran til staðar, allt frá einstaklingum með minni eða tímabundin veikindi til mjög veikra einstaklinga sem áttu það á hættu að detta varanlega út af vinnumarkaði.

Í þriðja lagi var yngra fólk langtum ólíklegra til að taka þátt í rannsókninni en eldra fólk og hið sama gilti um karla. Vegna þessa voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og stéttarfélagsaðildar í þýðinu, þ.e. í hópi þeirra sem fengu sjúkradagpeninga á umræddu tímabili. Með hliðsjón af hinu flókna sambandi sem jafnan er á milli heilsufars fólks, viðhorfa og vinnumarkaðsþátttöku er ráðlegt að stíga varlega til jarðar við túlkun niðurstaðna og varast ályktanir um orsakasamband.

Bakgrunnur svarenda og starfsvettvangur fyrir veikindaleyfi

Heilt á litið er algengara að konur sæki um sjúkradagpeninga hjá sjúkrasjóðum stéttarfélaga1 en karlar. Niðurstöður þessarar könnunar eru í samræmi við það, en um 66% svarendahópsins eru konur og 34% karlar. Hvað varðar skiptingu eftir aldri (mynd 1) eru hlutfallslega flestir á aldrinum 30-39 ára (25%) en fæstir í aldurshópunum 50-59 ára (17%) og 60 ára og eldri (16%). Um 32% þátttakenda höfðu lokið háskólaprófi, 37% eru með framhaldsskólapróf eða starfsmenntun/iðnskólapróf og um þriðjungur hefur ekki lokið prófi umfram grunnskóla (31%).

Líkt og VIRK hefur fjallað um áður hafa rannsóknir sýnt fram á tiltölulega sterk tengsl á milli heilsufars og menntunar. Alla jafna eru langveikir einstaklingar líklegri en aðrir til að vera með minni menntun og lægri tekjur2. Niðurstöður rannsóknarinnar virðast styðja það. Á mynd 1 má sjá að um 32% svarenda eru með háskólamenntun að baki sem er svipað og hjá þjónustuþegum VIRK en nokkrum prósentustigum lægra en gengur og gerist á íslenskum vinnumarkaði (37%)3.

Starfsvettvangur fyrir veikindaleyfi

Á mynd 2 má sjá að hlutfallslega störfuðu flestir þátttakenda við afgreiðslu- og þjónustustörf og ýmis konar viðgerðir (m.a. á bifreiðum). Næst á eftir koma svokölluð umönnunarstörf (28%) en til þeirra teljast öll störf í heilbrigðisþjónustu og kennslu burtséð frá menntunarstigi. Í þriðja lagi má nefna sérfræði- og skrifstofustörf (12%) en störf í iðnaði og stóriðju (2%), listum og skapandi greinum (2%) og almannavörnum og öryggismálum (2%) reka svo lestina. Hafa ber í huga að störf á hverjum starfsvettvangi fyrir sig geta verið afar ólík og því er áríðandi að túlka niðurstöður með það í huga.

í fullu starfi fyrir veikindaleyfið (80%) en fjórðungur hafði þurft að minnka starfshlutfallið áður en taka veikindaleyfis hófst. Um 71% svarenda unnu dagvinnustörf í aðdraganda veikindaleyfis, en 23% unnu vaktavinnu (ekki sýnt á mynd).

Ástæður veikindaleyfis: Sjúkdómaflokkar og ýmsir þættir í umhverfi einstaklinga Spurt var um helstu ástæður veikindaleyfis.

Þátttakendur voru fyrst beðnir um að haka við einn eða fleiri af neðangreindum sjúkdómaflokkum:

  • Stoðkerfisvandi (m.a. langvarandi verkir, gigt, liðskipti)
  • Andlegur vandi/geðraskanir (m.a. þunglyndi, kvíði, áfallastreita, fíknisjúkdómar)
  • Aðrir sjúkdómar en andlegur vandi og stoðkerfisvandi (t.a.m. hjartaog æðasjúkdómar, krabbamein, efnaskiptasjúkdómar o.fl.)

Síðan var spurt um viðbótarástæður, þ.e. ýmsa erfiðleika sem almennt eru ekki skilgreindir sem sjúkdómar en geta engu að síður haft veruleg áhrif á heilsufar:

  • Kulnun tengd starfi
  • Erfið lífsreynsla (t.a.m. ástvinamissir, hjónaskilnaður, o.fl.)
  • Ytri aðstæður (t.a.m. fjárhagsvandi, fjölskylduerfiðleikar o.fl.)
  • Samskiptaerfiðleikar á vinnustað

Á mynd 3 er skýrt frá hlutfalli svarenda sem hökuðu við áðurnefnda sjúkdómaflokka. Í samræmi við niðurstöður ýmissa heilsufarsrannsókna eru fjölveikindi að verða æ tíðari í íslensku samfélagi en almennt er hugtakið notað til að lýsa veikindum þeirra sem eru með a.m.k. tvo langvinna sjúkdóma í mismunandi sjúkdómaflokkum4 . Fjölveikindi eru talin fela í sér aukna sjúkdómabyrði fyrir einstaklinginn og eru meðferðarþung (e. treatment burden) í heilbrigðiskerfinu. Ástæðurnar eru m.a. þær að fjölveikir einstaklingar þarfnast oft heildrænna meðferða sem heilbrigðiskerfi nútímans eru ekki alltaf vel til þess fallin að meðhöndla5.

Með áðurnefndum fyrirvara um lágt svarhlutfall virðast niðurstöður þessarar rannsóknar renna stoðum undir fjölveikiskenninguna. Á mynd 3 má sjá svör þátttakenda við spurningu um sjúkdóma um ástæður veikindaleyfisins. Svör voru reiknuð annars vegar út frá hlutfalli þeirra sem hökuðu við einn sjúkdómaflokk og ekkert annað og hins vegar hlutfalli þeirra sem hökuðu við tvo eða fleiri sjúkdómaflokka. Líkt og sjá má á myndinni sögðust 27% svarenda einungis vera með andlegan vanda/geðraskanir, 20% með stoðkerfisvanda eingöngu og 12% hökuðu við aðra sjúkdóma og ekkert annað. Á hinn bóginn hakaði nær þriðjungur (27%) – eða jafn hátt hlutfall og hakaði við andlegan vanda/geðraskanir - við tvo eða fleiri sjúkdómaflokka, og eru þá hugsanlega fjölveikir.

Þegar litið er til niðurstaðna um mögulegar viðbótarástæður þess að svarendur fóru í veikindaleyfi - er dreifingin ólík því sem kemur fram þegar litið er til sjúkdómaflokka (sjá mynd 4 ). Þá er óalgengt að svarendur haki einungis við einn þátt. Um 8% svarenda haka eingöngu við kulnun í starfi, um 5% við erfiða lífsreynslu og um 3% við samskiptaerfiðleika á vinnustað eða ytri aðstæður (3%).

Á hinn bóginn er langtum algengara að þátttakendur haki við tvo eða fleiri viðbótarþætti, eða um 52% þeirra (borið saman við um 27% sem hökuðu við tvo eða fleiri sjúkdómaflokka á mynd 3). Hvað þetta þýðir er erfitt að segja til um en hugsanlega má draga af þessu þá ályktun að samspil veikinda og aðstæðna í umhverfinu sé svo flókið og margþætt að erfitt sé að draga upp einfalda mynd af því.

Í nýlegri bandarískri rannsókn er fjallað um tengsl á milli fjölveikinda og aukinnar fjárhagsbyrðar vegna kaupa á lyfjum og annarri heilbrigðisþjónustu6. Önnur langtíma rannsókn á félagsþátttöku fólks með líkamleg fjölveikindi leiddi í ljós marktækt minni þátttöku í félagslífi eftir því sem sjúkdómarnir ágerðust og einstaklingarnir urðu eldri7. Af þessu má ráða að þó veikindi heilt á litið hafi áhrif á aðstæður fólks eigi það sérstaklega við um þá sem eru fjölveikir og/eða eru í langtímaveikindum.

Staða á vinnumarkaði að loknu veikindaleyfi

Spurt var um stöðu á vinnumarkaði að afloknu veikindaleyfi, þ.e. hvort einstaklingur væri í launuðu starfi, í námi, í atvinnuleit, á eftirlaunum, í fæðingarorlofi, í veikindaleyfi eða orðinn óvinnufær. Í töflunni hér fyrir neðan er að sjá fjölda svarenda eftir stöðu. Alls tóku 1.683 afstöðu til spurningarinnar. Þar af voru 1.037 í launuðu starfi eða í námi samhliða vinnu, 216 voru á örorkulífeyri, 102 voru á endurhæfingarlífeyri og 62 í veikindum. Þeir sem voru í atvinnuleit eða í námi (án þess að vinna með) voru 181 talsins, 74 á eftirlaunum og 11 í fæðingarorlofi.

Til að gæta samræmis voru svarendur á eftirlaunum eða í fæðingarorlofi fjarlægðir úr úrvinnslunni hér á eftir og má þá sjá að hlutfall starfandi verður 65% á móti 24% í veikindum eða á örorku og 11% í atvinnuleit eða í námi (ekki sýnt á mynd). Munur milli kynja er óverulegur þegar litið er til launþega (67% karla á móti 65% kvenna) en eykst í hópi þeirra sem eru í veikindum (sjá mynd 5). Hér er þó vert að taka fram að fleiri konur en karlar voru á eftirlaunum þegar könnunin var lögð fyrir og voru jafnframt allir svarendur í fæðingarorlofi kvenkyns.

Þetta er þó ekki öll sagan. Ýmsar vísbendingar eru um það að endurkoma til vinnu sé jafnvel tíðari en þessi 65% segja til um. Í ljósi þess hve langur tími hefur liðið á milli greiðslu sjúkradagpeninga (2018/2019) og fyrirlagningu könnunarinnar (2022) voru þátttakendur spurðir að því hvort þeir hefðu hætt í starfi eða misst starf á tímabilinu. Í ljós kom að tæp 39% svöruðu spurningunni játandi en 61% neitandi (ekki sýnt á mynd).

Athyglisverðast er þó að sjá niðurstöðurnar (á mynd 6) greindar eftir núverandi stöðu á atvinnuþátttöku meðal svarenda fyrr en um og eftir miðjan aldur. Á bilinu 64-71% svarenda 49 ára og yngri eru í launuðu starfi þegar könnun er svarað borið saman við um nokkuð færri (60%) í hópi 50-59 ára og og 52% í hópi þeirra sem eru 60 ára og eldri.

Nokkuð skýr tengsl virðast vera á milli stöðu svarenda á vinnumarkaði eftir menntunarstigi. Á mynd 8 má sjá að vinnuþátttaka eykst jafnt og þétt með aukinni menntun, frá um 50% þeirra sem eru með grunnskólapróf að baki og allt til 79% svarenda sem hafa lokið meistaraeða doktorsgráðu.

Atvinnuþátttaka virðist ráðast nokkuð af því hvort einstaklingar haki við einn sjúkdómaflokk eða fleiri. Á mynd 9 má sjá að 40% einstaklinga - sem haka við tvo sjúkdómaflokka eða fleiri – eru í launuðu starfi eftir veikindaleyfi borið saman við um 67-73% þeirra sem haka einungis við einn sjúkdómaflokk. Hér er þó mikilvægt að hafa í huga aðra undirliggjandi þætti sem gjarnan eru taldir hafa áhrif á tíðni sjúkdóma, þá ekki síst aldur. Heilt á litið eru eldri einstaklingar líklegri en þeir sem yngri eru til að vera heilsulitlir og jafnvel fjölveikir. Á þessu stigi úrvinnslunnar er því óvist hvort fjölveikindi séu ráðandi þáttur í atvinnustöðu fólks í öllum aldurshópum eða sumum.

Þátttakendur voru spurðir að því hvort þeir hefðu nýtt sér þjónustu VIRK – Starfsendurhæfingarsjóðs í veikindaleyfinu. Í ljós kom að um 42% (708) höfðu lokið starfsendurhæfingu hjá VIRK þegar könnunin var lögð fyrir (ekki sýnt á mynd).

Líkt og VIRK hefur fjallað um áður – m.a. í ársritum og öðru kynningarefni - bendir margt til þess að þjónustuþegar VIRK glími við erfið og flókin veikindi, jafnvel erfiðari en almennt gerist á íslenskum vinnumarkaði8. Niðurstöður rannsóknarinnar renna frekari stoðum undir þetta. Á mynd 10 er að sjá hlutfall svarenda sem voru í þjónustu VIRK í veikindaleyfinu eða ekki, skipt eftir sjúkdómaflokki. Í ljós kemur að 71% þeirra sem voru í þjónustu VIRK hökuðu við tvo sjúkdómaflokka eða fleiri – og eru þá hugsanlega fjölveikir - borið saman við 29% sem voru ekki í starfsendurhæfingu.

Sama starf að afloknu veikindaleyfi?

Þátttakendur á vinnumarkaði voru spurðir að því hvort þeir væru í sama starfi og þeir voru í fyrir veikindaleyfi. Nær 7 af hverju 10 (68%) svöruðu spurningunni neitandi á móti 32% sem svaraði henni játandi. Ekki var spurt um ástæður þessa en í ljósi þess hve langur tími hefur liðið frá veikindaleyfinu er varhugavert að geta sér til um ástæðurnar. Þó að ein ástæðan geti verið sú að starfið og/eða vinnustaðurinn hafi ekki mætt þörfum viðkomandi einstaklinga þá er einnig hugsanlegt að svarendur hafi einfaldlega fengið ný og betri tækifæri annars staðar. Líklegast er þó að bæði tilvikin eigi við, þ.e. að sumir svarendur hafi ákveðið að hætta starfi á meðan aðrir hafi misst starf á tímum farsóttar eða fengið ný tækifæri annars staðar.

Veikindi eru sjaldnast af eða á fyrirbæri. Hjá sumum kemur batinn hægt, hjá öðrum skjótt á meðan einhverjir ná bata tímabundið og veikjast aftur. Það er því ekki alltaf útséð með endurkomu til vinnu, þrátt fyrir veikindi og/eða erfiðar aðstæður. Þátttakendur - sem voru ekki starfandi þegar könnunin var lögð fyrir (þ.e. voru í veikindum, í atvinnuleit eða í námi) - voru spurðir að því hvort þeir stefni á vinnumarkað síðar meir.

Í ljós kom að langtum hærra hlutfall svarenda stefnir á vinnumarkað, eða um 68%, á móti 32% sem sögðust vera óvinnufærir. Þessar niðurstöður eru afar áhugaverðar, sérstaklega frá sjónarhóli starfsendurhæfingar. Í mörgum tilvikum tekur batinn ef til vill lengri tíma en talið er og ef einstaklingur telur sig ekki vera óvinnufæran á einhverjum tímapunkti er endurkoma á vinnumarkað alltaf í sjónmáli.

Líkt og svarendur sem voru starfandi þegar könnunin var lögð fyrir voru þeir sem ekki voru starfandi – en stefndu þó á vinnumarkað síðar meir – spurðir að því hvort gætu hugsað sér að snúa aftur í starfið sem þeir voru í fyrir veikindaleyfið ef þeim gæfist þess kostur. Niðurstöður má sjá á mynd 13. Um 22% svara spurningunni játandi, 65% svara henni neitandi á meðan 13% eru ekki vissir í sinni sök. Í raun svipar svörum þeirra sem eru ekki komnir til vinnu, nokkuð til hinna sem voru starfandi þegar könnunin var lögð fyrir. Meirihluti í báðum hópum hefur annað hvort skipt um – eða misst – starf eða langað til að starfa annars staðar en þeir gerðu fyrir veikindaleyfið.

Samantekt

Í þessari grein hefur verið stiklað á stóru í fyrstu niðurstöðum stórrar rannsóknar á vegum VIRK og sjúkrasjóða tíu stéttarfélaga. Forvarnasvið VIRK er ábyrgðaraðili rannsóknarinnar en markmið hennar voru m.a. þau að skoða hugsanleg tengsl á milli heilsufars, líðan í vinnu, aðstæðna í einkalífi og brotthvarfs af vinnumarkaði. Gild svör fengust frá um 1.840 þátttakendum og var svarhlutfall því um 31%. Lýsandi niðurstöður benda til þess að flestir í þessum hópi hafi farið aftur til starfa að loknu veikindaleyfi, a.m.k. 65%, þó endurkoman sé ekki endilega varanleg.

Líkt og fjallað er um í greininni er vel hugsanlegt að fleiri einstaklingar - en þeir sem voru starfandi þegar könnunin var lögð fyrir - hafi komist til starfa að loknu veikindaleyfi en annað hvort misst það starf eða hætt í því á tímabilinu sem leið frá því veikindaleyfi lauk og þar til könnunin var lögð fyrir. Það er því nokkuð líklegt að endurkoma til vinnu sé ferli en ekki einn atburður, ef svo má að orði komast.

Vinnumarkaðsþátttaka ræðst nokkuð af menntunarstigi og því hvort einstaklingar séu með fjölveikindi (haki við a.m.k. tvo sjúkdómaflokka) eða ekki. Sérstaklega voru niðurstöðurnar athyglisverðar um framtíðarhorfur þeirra sem voru ekki í vinnu þegar könnunin var lögð fyrir. Um 68% þeirra segjast stefna á vinnumarkað síðar meir jafnvel þó meirihluti hópsins hafi verið í veikindum þegar könnuninni var svarað. Af þessu má ráða að tækifærin til endurhæfingar séu umtalsverð, þ.e. ef einstaklingur telur sig ekki vera óvinnufæran á einhverjum tímapunkti er endurkoma á vinnumarkað alltaf í sjónmáli.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.

Heimildir

  1. Sjá m.a. ársskýrslur sjúkrasjóða Eflingar og VR.
  2. Sjá ársrit VIRK 2022.
  3. Hagstofan, tölur um menntunarstig árið 2021.
  4. Iris Szu-Szu Ho (2021). Examining variation in the measurement of multimorbidity in research: a systematic review of 566 studies, The Lancet 6 (8).
  5. Margrét Ólafía Tómasdóttir (2017). Fjölveikindi meðal íbúa NorðurÞrændalaga (HUNT-rannsóknin): Faraldsfræðileg rannsókn með vísan til streituþátta. Óbirt doktorsritgerð, Háskóli Íslands og norski Vísinda- og tækniháskólinn í Þrándheimi.
  6. Steven S. Coughlin o.fl. (2021). A crosssectional study of financial distress in persons with multimorbidity. Preventive Medicine Report 23.
  7. Amy Ronaldson o.fl. (2021). Physical multimorbidity, depressive symptoms, and social participation in adults over 50 years of age: findings from the English Longitudinal Study of Ageing, Ageing & Mental Health, 27 (1).
  8. Sjá m.a. umfjöllun í ársriti VIRK 2022.

Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband