Fara í efni

Vinnuprófunin bar góðan árangur

Til baka
Steingrímur R. Guðmundsson
Steingrímur R. Guðmundsson

Vinnuprófunin bar góðan árangur

Steingrímur R. Guðmundsson verslunarstjóri

Færst hefur í vöxt að fólk fái tímabundna ráðningu í framhaldi af vinnuprófun. Steingrímur R. Guðmundsson verslunarstjóri hjá Pennanum á Ísafirði var með einstakling í vinnuprófun í samstarfi við VIRK. Sú vinnuprófun bar góðan árangur.

„Þetta hófst með því að ráðgjafi frá VIRK sem starfar á Ísafirði hafði samband við mig og spurði hvort ég væri tilbúinn að taka í vinnuprófun einstakling sem hefði verið í samstarfi við VIRK og væri að leita sér að vinnu. Ég var til í þetta. Ég, ráðgjafinn og viðkomandi einstaklingur settumst niður og gerðum plön um hvernig vinnuprófuninni skyldi háttað,“ segir Steingrímur R. Guðmundsson verslunarstjóri hjá Pennanum á Ísafirði.

„Þetta byrjaði hægt, einstaklingurinn kom til vinnu fyrst í fjóra til sex tíma á viku. Það gekk fínt. Markmiðið var að þessi einstaklingur myndi enda sem fastur sumarstarfsmaður hjá okkur. Samstarfið hófst fyrir ári, eða í mars 2015.“

Markmiðið náðist

Hvernig gekk að ná markmiðinu?
„Markmiðið náðist. Starfsmaðurinn fékk, eftir vinnuprófunina, fastar vaktir hjá okkur og vann sem starfsmaður í fullri vinnu hjá okkur í fyrrasumar og er enn hlutastarfsmaður hjá okkur meðfram námi sem hann stundar.“

Krafðist þetta ferli mikillar skipulagningar?
„Nei, svo reyndist ekki vera þegar til kom. Ég vissi svo sem ekki fyrst hverju ég átti von á. Við höfum áður tekið við starfsmönnum í ferli sem kallað var; atvinna með stuðningi og var í samstarfi við Ísafjarðarbæ. Þetta var líkt því að ég hélt - en þegar til kom var þetta talsvert öðruvísi.

„Ég fékk þarna inn fullorðinn og sjálfstæðan einstakling sem smám saman þróaðist upp í að hafa fulla starfsgetu. Að vísu tók það nokkurn tíma fyrir hann að venjast því að falla inn í vinnuskipulagið hjá okkur. En þetta kom allt og gekk ágætlega.“

Hvað var viðkomandi einstaklingur látinn gera?
„Hann fékk sömu verkefni og aðrir, var í afgreiðslu og áfyllingu frammi í versluninni og ekkert komið öðruvísi fram við hann aðra. Maður hafði þó kannski bak við eyrað að þarna var um að ræða einstakling sem ekki hafði verið á vinnumarkaði í nokkuð langan tíma.“

Reglulegt samband við ráðgjafa VIRK

Hvernig líkaði samstarfsfólkinu þetta?
„Það tók þessu mjög vel. Það gerði sér líklega varla grein fyrir að þetta væri sérstakt verkefni. Fyrst var því sagt að viðkomandi einstaklingur væri í vinnuprófun og svo að hann væri ráðinn í hlutastarf. Svo þegar leið að sumri var tilkynnt að einstaklingurinn yrði fastur sumarstarfsmaður.“

Varstu í samstarfi við ráðgjafa VIRK meðan á þessu ferli stóð?
„Já við vorum í reglulegu sambandi meðan á þessu ferli stóð og við funduðum, ráðgjafinn, einstaklingurinn og ég, saman í lok prófunartímabilsins. Þar var farið yfir málin og ekki minnist ég þess að neitt sérstakt vandamál hafi komið upp, þetta var ósköp líkt og gerist í venjubundnum starfsmannaviðtölum. Í lok þessa tímabils var einstaklingurinn, að ég held, útskrifaður frá VIRK og markmiðinu sem sagt náð.“

Hvað með laun viðkomandi einstaklings?
„Hann fékk ekki laun fyrstu vikurnar frá fyrirtækinu, meðan hann var í vinnuprófuninni. En þegar hann var ráðinn í hlutastarfið fór hann að fá laun frá okkur á sama hátt og aðrir starfsmenn.“

Bókhneigður tungumálamaður

Bókaverslun er nokkuð sérhæfður vettvangur, hentaði þetta starf einstaklingnum vel?
„Já, hann hefur ýmis áhugamál sem tengd eru bókum og er mikill tungumálamaður þannig að þarna var kominn einstaklingur sem hentaði vel að hafa í starfi hér, einkum yfir sumartímann þegar ferðamannastraumurinn er hér talsvert mikill.“

Býstu við að þessi einstaklingur komi í fullt starf hjá ykkur þarna hjá Pennanum í sumar?
„Já, ég býst við því. Þeir sem hafa verið hér í starfi meðfram námi hafa gjarnan komið í fast sumarstarf og líklega gegnir sama máli með viðkomandi einstakling. Þetta hefur allt gengið vel og skilað góðum árangri.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Viðtalið birtist í ársriti VIRK 2016.

Lestu fleiri reynslusögur stjórnenda hér.


Hafa samband