Rannveig Júníana Bjarnadóttir leikskólastjóri Gullborg
Leikskólinn Gullborg við Rekagranda hefur tekið þátt í Virkum vinnustað, þróunarverkefni á vegum VIRK. Rannveig Júníana Bjarnadóttir er leikskólastjóri á Gullborg.
„Aðdragandinn var sá að Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar leitaði til Gullborgar og fleiri leikskóla í borginni varðandi það, hvort áhugi væri á að taka þátt í þessu þróunarverkefni VIRK, í tengslum við starfsmannastefnu og fjarvistastefnu Reykjavíkurborgar,“ segir Rannveig Júníana Bjarnadóttir leikskólastjóri.
Hvað varð til þess að þú ákvaðst að slá til?
„Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar hafði samband við mig ekki síst vegna þess að í Gullborg hefur verið lítið um fjarvistir vegna langvarandi veikinda. Þess vegna var Gullborg fengin inn í þetta þróunarverkefni til viðmiðunar við hina leikskólana og fyrirtækin sem tóku þátt í verkefninu.“
Hvers vegna er svona lítið um fjarvistir hjá ykkur?
„Hér er mjög jákvæður starfsandi og mjög góð samvinna á milli deilda og starfsmanna að leysa úr þeim málum sem upp koma. Við fáum tölur mánaðarlega um fjarvistir starfsfólks sem starfar á sviði Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur. Við hjá Gullborg höfum komið vel út í þessum tölum.“
Hefur þátttakan í þróunarverkefninu Virkur vinnustaður breytt einhverju hjá ykkur?
„Hún hefur orðið til þess m.a. að við unnum starfsmannastefnu fyrir leikskólann. Allir starfsmenn Gullborg komu að því starfi. Einnig unnum við stefnu varðandi fjarvistir, hvort sem þær eru vegna skemmri eða lengri tíma eða að starfsmenn komi of seint til vinnu. Einnig unnum við heilsustefnu fyrir leikskólann. Þetta hefur hjálpað okkur að halda utan um þessa þætti í góðu samstarfi við starfsmenn, þannig að þeir finni til ábyrgðar.“
Hefur enginn starfsmaður hjá Gullborg nú átt í langtímaveikindum?
„Nei, það hafa jú komið flensur, slíkt er óhjákvæmilegt. En ég hef ekki verið með starfsmenn sem hafa farið í langt veikindafrí. En á þessum þremur árum sem þróunarverkefnið Virkur vinnustaður hefur staðið, hafa þrjár konur farið í fæðingarorlof. Þær hafa snúið til baka til vinnu á réttum tíma, þ.e. eftir eitt ár. Þá leggst við fæðingarorlofið sumarleyfi.“
„Samstarfið við VIRK hefur verið mjög gott. Ráðgjafar þaðan hafa verið okkur innan handar við gerð starfsmannastefnu og fjarverustefnu. Þessi málaflokkar eru nú unnir á markvissari hátt en áður vegna þessa samstarfs."
Fræðsla og stuðningur frá VIRK
Hvernig hefur þér líkað sú fræðsla sem VIRK hefur staðið fyrir í þessu verkefni?
„Fræðslan frá VIRK hefur verið mjög góð, sem og sá stuðningur sem þetta verkefni hefur veitt okkur. Hingað hafa komið aðilar sem haldið hafa fyrirlestra. Sá fyrsti var um álag, streitu, kvíða, kulnun og jafnvægi og vellíðan og gleði. Annar fyrirlesturinn var um líkamsbeitingu, sem kom sér vel. Góð líkamsbeiting skiptir máli hér, því starfið reynir á bak og er líkamlega erfitt. Þriðji fyrirlesturinn var um fjölskylduvænan vinnustað. Loks var fyrirlestur um heilsueflingu á vinnustað. Við fórum í framhaldi af honum að skoða okkar umhverfi okkar á vinnustaðnum og hvað við gætum gert til þess að bæta heilsuna, svo sem að ganga úti eða gera eitthvað skemmtilegt saman. Allir þessir fyrirlestrar voru okkur mjög til hagsbóta.“
Eru margir leikskólakennarar starfandi í Gullborg?
„Gullborg er fimm deilda leikskóli og hér starfa fjórir menntaðir leikskólakennarar af tuttugu og átta starfsmönnum. Við erum með fjóra karlmenn hér í starfi.“
Er gott samkomulag milli faglærðra og ófaglærðra?
„Já, mjög gott. Við höfum komið vel út úr öllum starfsmannakönnunum hvað það varðar. Við tölum hér um ábyrgð í starfi en ekki stéttaskiptingu. Reynt er að sjá til þess að allir hafi vissa ábyrgð fyrir utan þá ábyrgð sem við öll höfum í daglegu starfi með börnunum. En þess utan er hver starfsmaður með visst verkefni. Á kannski sæti í einhverri nefnd eða einhverju slíku. Við störfum talsvert mikið í nefndum hér.“
Hafði þróunarverkefnið áhrif á vinnulag ykkar?
„Þróunarverkefnið hafði einkum áhrif á hvernig tekið er á málum sem varða fjarvistir, en það efni er öllu starfsfólki er kynnt um leið og það byrjar að vinna í leikskólum. Í fyrsta viðtali er farið í gegnum starfsmannastefnu, fjarvistarstefnu og heilsustefnu ásamt því að kynna tilvonandi starfmanni almennt starf leikskólans. Ég sé um að ráða fólk og fara í gegnum þessa þætti.“
Samstarfið mjög gott
Talað um álag á starfsfólk leikskóla, er það of mikið að þínu mati?
„Auðvitað er þetta erfið vinna en hún er ekki síður skemmtileg. Ég legg áherslu á að ef koma upp vandamál, þá leysum við þau og látum þá önnur mál bíða. En börnin eru alltaf í forgangi og við reynum að finna leiðir til að létta okkur vinnuna. Ef við erum ekki glöð og ánægð í vinnunni þá eru börnin ekki glöð og ánægð í leikskólanum. Við erum dugleg að forgangsraða, þetta gengur ekki upp öðruvísi. Mér finnst líka hafa mikil áhrif á starfsfólkið að finna að ég er að reyna að finna lausnir sem henta, þá verður það ánægt.
Við erum með hundrað og sex börn hér á þessum fimm deildum og talsvert af sérkennslu. Þessu sinna sem sagt tuttugu og átta starfsmenn og fjarvistir eru ekki meiri en svo að við ráðum við að bjarga málum. Oft koma upp flensur eða aðrar umgangspestir. Þá þarf að stilla saman strengi ef margir leggjast um leið í rúmið. Fyrir kemur einstöku sinnum að það þarf að biðja foreldra að sækja börnin fyrr ef margir starfsmenn eru skyndilega veikir. En slíkt er afar sjaldgæft og foreldrarnir eru mjög samvinnuþýðir í svona tilvikum, kannski af því að þetta gerist svo sjaldan.“
Hvað viltu segja um árangurinn af samstarfinu við VIRK?
„Samstarfið við VIRK hefur verið mjög gott. Ráðgjafar þaðan hafa verið okkur innan handar við gerð starfsmannastefnu og fjarverustefnu. Þessi málaflokkar eru nú unnir á markvissari hátt en áður vegna þessa samstarfs. Í fyrri viðhorfskönnun, sem gerð var í upphafi verkefnisins fyrir um þremur árum kom fram að starfsfólkið var almennt ánægt. Gullborg kom í heild vel út úr þeirri könnun. Núna fyrir skömmu var ný könnun gerð, en niðurstöður hennar liggja ekki fyrir ennþá.
Svona þróunarverkefni eins og Virkur vinnustaður á vissulega ríkt erindi inn á vinnustaði og tekst betur til ef starfsfólkið leggur sig fram og einhver utanaðkomandi, í okkar tilviki VIRK, heldur utan um þróunarferlið.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir