Stundum berast beiðnir um starfsendurhæfingu á vegum VIRK fyrir einstaklinga sem uppfylla ekki skilyrði fyrir þjónustu samkvæmt lögum nr. 60/2012. Þeim er vísað frá og bent á viðeigandi aðstoð eftir því sem hægt er.
Í flestum tilfellum falla mál sem vísað er frá undir eftirtalda flokka:
Læknisfræðilegri greiningu/meðferð/endurhæfingu er ekki lokið
Greiningarferli/læknisfræðilegri meðferð og nauðsynlegri endurhæfingu innan heilbrigðiskerfisins vegna þess heilsubrests sem er meginástæða óvinnufærni er ólokið. Starfsendurhæfing er því hvorki tímabær né líkleg til árangurs. Hægt er að senda nýja beiðni þegar það er tímabært og læknir metur að starfsendurhæfingar sé þörf.
Ef endurhæfing í heilbrigðiskerfi er fyrirhuguð á næstunni þarf að ljúka henni áður en til starfsendurhæfingar kemur. Þetta á til dæmis við þegar endurhæfing er fyrirhuguð á Reykjalundi, Geðheilsusviði LSH, Kristnesi, Stykkishólmi, HNLFÍ eða Þraut.
Ef fæðingarorlof er fyrirhugað á næstu mánuðum kann að vera ótímabært að hefja starfsendurhæfingu. En það er þó metið út frá aðstæðum hverju sinni.
Einstaklingur hefur ekki tök á að sinna starfsendurhæfingu
Starfsendurhæfing getur verið ótímabær vegna þess að ekki næst eðlileg samfella í þjónustu. Þetta getur átt við ef einstaklingur er á leið í afplánun á fangelsisdómi eða fyrirhuguð er löng fjarvera af öðrum ástæðum. Dagvistunarvandi getur líka fallið hér undir.
Virkur fiknisjúkdómur
Ef fíknivandi hefur verið til staðar er metið hverju sinni hjá fíkniteymi VIRK hvort starfsendurhæfing teljist raunhæf og/eða tímabær. Horft er til stöðugleika í edrúmennsku, hefur einstaklingur sinnt edrúmennsku sinni og lokið viðeigandi meðferð.
Einstaklingur getur verið beðinn um að skila inn niðurstöðu úr fíkniefnaprófi bæði við úrvinnslu beiðni og meðan á starfsendurhæfingu stendur. VIRK getur gert þá kröfu, í vafatilfellum, að tilvísandi læknir hafi sannreynt edrúmennsku með neikvæðum fíkniefnaprófum áður en til þjónustu getur komið.
Ekki er þörf á sérhæfðri starfsendurhæfingu
Dæmi um slíkar aðstæður eru eftirfarandi:
a. Ekki er þörf á þverfaglegri starfsendurhæfingu vegna tímabundinnar færniskerðingar
Dæmi um þetta er þegar einstaklingur er að jafna sig eftir meðferð/aðgerð. Í flestum tilfellum er ekki þörf á þverfaglegri starfsendurhæfingu við slíkar aðstæður. Sé þörf á sértækari eftirmeðferð, svo sem sjúkraþjálfun, er það hluti heilbrigðisþjónustu en telst ekki til verkefna starfsendurhæfingar.
Sama getur átt við um nýlegt áfall eða atburð sem hefur áhrif á heilsufar og starfsgetu. Í þessum tilfellum er mælt með að einstaklingar nái vissu jafnvægi áður en hugað er að þörf fyrir starfsendurhæfingu.
Barnshafandi konum er vísað frá ef eingöngu beinar afleiðingar þungunar valda starfsgetumissi.
b. Einstaklingur er í vinnu sem svarar til 70% starfsgetu eða í námi umfram 21 ECTS námseiningu á önn. Einstaklingur sem hefur þurft að minnka við sig vinnu af heilsufarsástæðum og er þar af leiðandi tímabundið í hlutastarfi getur átt rétt á þjónustu VIRK, en starfsendurhæfing miðar þá markvisst að því að auka verulega vinnugetu viðkomandi einstaklings.
c. Ef einstaklingur telur sig ekki færast nær vinnumarkaði á næstu 6-12 mánuðum þrátt fyrir aðstoð og stuðning er ekki tímabært að hefja starfsendurhæfingu. Einstaklingur þarf að vera kominn á þann stað að hann sé að stefna markvisst að þátttöku á vinnumarkaði þegar hann hefur starfsendurhæfingu.
d. Einstaklingur er ekki óvinnufær vegna heilsubrests og þarf fyrst og fremst aðstoð við atvinnuleit. Bent er á hlutverk og þjónustu Vinnumálastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaga varðandi aðstoð.
Starfsendurhæfing er ekki talin raunhæf
Dæmi:
a. Ekki er talið raunhæft að einstaklingur verði vinnufær vegna alvarleika
heilsufarsvanda, t.d. hratt minnkandi starfsgetu, fjölþætts og/eða alvarlegs heilsubrests.
b. Ef einstaklingur er óvinnufær vegna varanlegrar færnisskerðingar og á rétt á þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks er ekki talin þörf á starfsendurhæfingu, en líklegt að þörf sé á þjónustu Vinnumálastofnunar.
c. Einstaklingur er með örorkuúrskurð hjá TR eða lífeyrissjóði og ekki er talið raunhæft að hann nái starfsgetu á almennan vinnumarkað að nýju með starfsendurhæfingu í ljósi þess heilsubrests sem liggur til grundvallar örorkuúrskurði.
d. Ekki er farið af stað í starfsendurhæfingu nema einstaklingur vilji og horfur bendi til að raunhæft sé að stefna að a.m.k. 40% starfsgetu á almennum vinnumarkaði.
Starfsendurhæfing er talin fullreynd
Einstaklingur hefur áður lokið umtalsverðri endurhæfingu og/eða starfsendurhæfingu og ekki orðið slík breyting á heilsufari eða aðstæðum að talið sé líklegt að endurtekin starfsendurhæfing beri árangur.
Aðstæður og skortur á félagslegum stuðningi koma í veg fyrir getu og þátttöku
Einstaklingur er ekki fær um að taka þátt í athöfnum daglegs lífs og taka þátt í starfsendurhæfingu sem krefst mætinga og ástundunar í talsverðan tíma og oft í viku hverri. Íarfsendurhæfingu er gerð krafa um a.m.k. 80% mætingu í úrræði og virkni auk getu til að taka þátt í verkefnum sem hafa þýðingu fyrir almennan vinnumarkað.
Ef aðstæður einstaklings koma í veg fyrir framangreint er starfsendurhæfing ekki líkleg til árangurs. Einstaklingur gæti hins vegar þurft aðstoð innan heilbrigðiskerfisins eða hjá félagsþjónustu sveitarfélaga.