Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa Slys

Þurfti að læra að biðja um hjálp

Þurfti að læra að biðja um hjálp

„Staðan hjá mér núna er bara góð,“ segir Sigurlaug Ýr Sveinbjörnsdóttir sem býr og starfar á Akureyri. Sigurlaug lauk þjónustu hjá VIRK í lok árs 2018. Hún slasaðist illa fyrir sex árum er hún var þrjátíu og sex ára gömul.

Sigurlaug Ýr Sveinbjörnsdóttir 

 „Staðan hjá mér núna er bara góð,“ segir Sigurlaug Ýr Sveinbjörnsdóttir sem býr og starfar á Akureyri. Sigurlaug lauk þjónustu hjá VIRK í lok árs 2018. Hún slasaðist illa fyrir sex árum er hún var þrjátíu og sex ára gömul.

„Forsaga þess að ég leitaði til VIRK er sú að í sumarfríi seint í júlí árið 2015, þegar ég var ásamt manni mínum og sonum að skoða landið okkar, varð ég fyrir slæmum meiðslum. Við fjölskyldan vorum komin á Hvammstanga til tengdaforeldra minna og vorum á leið að skoða Hvítserk þegar slysið varð. Ég var að ganga að útsýnispallinum við þennan þekkta klett þegar ég rak fótinn í stein og flaug á hausinn,“ segir Sigurlaug Ýr Sveinbjörnsdóttir þegar hún rifjar upp aðdraganda slyss sem breytti lífi hennar verulega.

Meiddist þú mikið?
„Já, ég mölvaði á mér olnbogann á vinstri handlegg. Sjúkrabíll kom og sótti mig því ég var svo kvalin að ég gat engan veginn haldist við. Á Heilsugæslunni á Hvammstanga var olnboginn myndaður til þess að skoða hvort hann væri brotin. Svo reyndist vera og í framhaldi af því var ég flutt með sjúkrabíl á Sjúkrahúsið á Akureyri.“

Var þetta slæmt olnbogabrot?
„Já, þetta var mjög slæmt brot. Ég fór í aðgerð daginn eftir. Þetta var rétt fyrir verslunarmannahelgina. Ég var búin að vera mjög kvalin fram að aðgerðinni. Læknirinn sem tók myndina af mér um kvöldið þegar ég kom til Akureyrar sagðist ekki skilja hvernig ég hefði getað haldið mér vakandi, ég var búin að fá svo mikið morfín.“

Lífið hefur snúist um meiðslin síðustu árin

Hvernig tókst svo að púsla olnboganum saman?
„Því miður tókst það ekki neitt sérstaklega vel. Ég er búin að fara í fimm aðgerðir síðan til þess að laga olnbogann. Það ferli endaði með því að liðurinn var tekinn og reynt að setja í handlegginn gervilið. Því miður það tókst ekki sem skyldi. Líf mitt hefur snúist um þessi meiðsli síðustu árin má segja. Aðgerðin þar sem gerviliðurinn var settur í mig var gerð í Noregi. Slíkar aðgerðir eru ekki gerðar hér á Íslandi. Hinar aðgerðirnar voru allar gerðar á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Gerviliðurinn var tekinn úr handlegg mínum eftir hálft ár. Það vantar því helminginn af olnbogaliðnum í vinstri handlegg mínum en það háir mér furðu lítið.“

Hvaða áhrif hafði þetta slys á atvinnulíf þitt?
„Ég er menntaður sjúkraliði en get ekki lengur unnið slíka vinnu. En ég var svo heppin að yfirmaður minn á Öldrunarheimili Akureyrar, þar sem ég starfaði sem sjúkraliði áður, bauð mér starf á skrifstofunni hjá þessari stofnun. Þar er ég að vinna núna en þangað réð ég mig árið 2018.“

Fór grátandi heim af vöktum

Hvar kemur VIRK inn í sögu þína?
„Ég fór aftur að vinna sem sjúkraliði ári eftir að ég lenti í slysinu, eða haustið 2016. Ég varð smám saman svo kvalin vegna álags í starfinu að ég fór beinlínis grátandi heim af vöktum. Þannig var ástandið nokkru eftir að ég hóf störf og ljóst varð að ég gat alls ekki sinnt þessu starfi. Ég fór í veikindaleyfi eftir slysið og svo að ráði læknis í veikindaleyfi á ný í mars árið 2017. Læknirinn minn sótti um fyrir mig að komast í þjónustu hjá VIRK og þangað komst ég í október. Ég var í það heila í þjónustu hjá VIRK í fjórtán mánuði. Ég útskrifaðist þaðan í desember 2018.“

Ráðgjafi VIRK og ég sjálf mótuðum saman markmið sem ég svo stefndi að því að ná.

Hvaða úrræðum var ákveðið að þú leitaðir eftir?
„Ráðgjafi VIRK og ég sjálf mótuðum saman markmið sem ég svo stefndi að því að ná. Ég byrjaði á að fá tíma hjá einkaþjálfara í heilsurækt hér á Akureyri. Nokkru síðar fékk ég tíma hjá sálfræðingi sem vinnur hér á Akureyri. Einnig fór ég í sjúkraþjálfun. Ég hafði áður verið í sjúkraþjálfun eftir slysið og hélt áfram að fá þjálfun á sama stað.“

Markmiðið var að komast út á vinnumarkaðinn

Stefndir þú á að komast aftur til starfa sem sjúkraliði? 
„Nei, ég vissi af reynslu að það myndi ekki ganga. Ég setti mér samt það markmið að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ég var dálítið lengi að hugsa mig um hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur. Mig langaði auðvitað mest að fara aftur að vinna sem sjúkraliði. En það var ekki í boði.

Eftir viðræður við ráðgjafann varð mér ljóst að mögulegt væri fyrir mig að gera eitthvað annað. Ráðgjafinn ýjaði að því að ég gæti sótt um skrifstofunám, spurði hvort mér þætti það ekki sniðugt. Viku eftir að þessi hugmynd kom upp hafði ég ákveðið mig að fara í skrifstofunámið. Ég var reyndar ekki viss um að ég gæti sinnt slíku starfi vegna olnbogans. En ég ákvað að láta reyna á það.“

Hvernig gekk skrifstofunámið?
„Það gekk mjög vel, miklu betur en ég þorði að vona. Ég hafði lært fingrasetningu og mér gekk ótrúlega vel að skrifa á tölvu. Ég var fyrirfram ekki viss um að ég gæti það. Ég hélt að olnboginn myndi ekki þola skrifin. Ég tel að sjúkraþjálfunin og æfingar henni tengdar hafi gert útslagið. Ég gerði það sem ég þurfti að gera fyrir skólann og þetta gekk. Námið var ein önn og eftir hana fékk ég, sem fyrr sagði, tilboð um starf á skrifstofu öldrunarheimilisins sem ég hafði áður unnið hjá.“

Allt tók þetta mjög mikið á

Hvernig leið þér andlega vegna þessara miklu breytinga í lífi þínu?
„Allt tók þetta mjög mikið á. Ég gat ekki lengur gert sömu hluti og ég áður var vön að gera. Ég þurfti að læra margt nýtt, ekki síst þurfti ég að læra að biðja um hjálp. Ég hafði alltaf átt bágt með að biðja um hjálp. Ég hafði jafnan verið mjög sjálfbjarga og varð döpur yfir að vera það ekki lengur. Maður verður óneitanlega dálítið þunglyndur þegar maður getur ekki gert ýmsa hluti sem áður voru ekkert mál. Ég tek gjarnan skúringarnar sem dæmi. Eftir slysið gat ég ekki skúrað og ég var ansi lengi að ná því að vinda tuskur. Maðurinn minn hefur alfarið tekið að sér að skúra á heimilinu. Ég fann verulega fyrir því fyrst eftir slysið hvað erfitt er að vera upp á aðra komin. Ég gat til dæmis ekki keyrt, varð að fá einhvern til þess að skutla mér hingað og þangað nema að veðrið væri þannig að ég gæti farið ferða minna gangandi. Reyndar fór ég að ganga meira en ég hafði áður gert vegna þessa sem er jákvætt.“

Eitt er ég alveg viss um; ef ég hefði ekki komist í þjónustu hjá VIRK veit ég ekki hvar ég væri stödd í dag. Hvort ég hefði yfirleitt komist aftur út á vinnumarkaðinn.

Ákvað að fara eftir því sem ráðgjafi VIRK lagði til

Hver var stefna þín í lífinu eftir slysið?
„Ég ákvað fljótlega að fara í einu og öllu eftir því sem ráðgjafi VIRK lagði til. Ég taldi að það væri líklegast til að skila þeim árangri að ég næði að komast aftur út á vinnumarkaðinn. Ég tel að sú markvissa ákvörðun mín hafi skilað mér lengst í þessum efnum. Áður en ég fór í þjónustu hjá VIRK efaðist ég um að ég kæmist nokkurn tíma út á vinnumarkaðinn aftur. En fljótlega eftir að ég byrjaði að hitta ráðgjafann minn hjá VIRK þá fékk ég trú á að ég gæti farið að vinna. Segja má að það verið nokkur opinberun fyrir mig að frétta hjá ráðgjafanum að það væri eitthvað annað í boði fyrir mig en að vera sjúkraliði! Ég elskaði sjúkraliðastarfið og það er mér uppörvun í daglegu lífi að vinna á öldrunarheimilinu og geta farið á vettvang sjúkraliðanna af og til, hitt mína gömlu starfsfélaga og kannski hellt í bolla fyrir heimilisfólkið eða sett graut í disk.“

Þakklátari nú en áður

Hver er niðurstaða þín eftir þá reynslu sem slysið var?
„Ég er þakklátari fyrir allt núna en ég var áður. Ég veit nú að það er ekki allt sjálfgefið í þessu lífi. Í einkalífinu hefur reyndar lítið breyst nema hvað maðurinn minn og ég erum samhentari í heimilisstörfunum. Eitt er ég alveg viss um; ef ég hefði ekki komist í þjónustu hjá VIRK veit ég ekki hvar ég væri stödd í dag. Hvort ég hefði yfirleitt komist aftur út á vinnumarkaðinn. Mér hefur tekist með heimaæfingum að halda olnboganum þokkalegum, í það minnsta þannig að ég get sinnt mínu starfi. Og ég fer í göngutúra á hverjum degi sem halda andlegri heilsu minni í góðu lagi. Staðan hjá mér nú er sem sagt góð.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband