Fara í efni
Til baka
Líkamleg heilsa Slys

Enginn svikinn af VIRK

Enginn svikinn af VIRK

Magnús árni Gunnlaugssson meiddist á öxl í sjóslysi og varð óvinnufær. Hann er nú kominn aftur til vinnu að lokinni sarfsendurhæfingu á vegum VIRK.

Magnús Árni Gunnlaugsson

„Mér var bent á að fara í samstarf við VIRK af Vilhjálmi Birgissyni formanni Verkalýðsfélags Akraness og sjúkraþjálfaranum mínum, Georgi Janussyni,“ segir Magnús Árni Gunnlaugsson sem var sjómaður en starfar nú hjá Norðuráli.

„Ég hafði verið talsverðan tíma hjá sjúkraþjálfaranum vegna afleiðinga sjóslyss sem ég lenti í árið 2011. Það sökk bátur sem ég var á við Akurey, við vorum tveir á bátnum og björguðumst báðir,“ segir Magnús Árni Gunnlaugsson. „Ég hékk á hægri hendinni þegar báturinn fór hringinn í sjónum og tognaði illa á öxl og handlegg í þeim atgangi. Þetta var í mars og sjórinn kaldur, innan við tvær gráður. Við vorum í sjónum í 25 mínútur, þá kom björgunarsveitin Ársæll og tók okkur upp í gúmmíbát. Ég sleppti ekki takinu á bátnum þegar hann valt um af því að ég hafði ekki komist alveg í björgunargallann, var bara kominn í skálmarnar. Félagi minn komst ekki í galla og ég hjálpaði honum í hann. Við hefðum báðir dáið ef ég hefði ekki hangið á bátnum, það er alveg öruggt.

Eftir þetta sjóslys var ég afskaplega slæmur í öxlinni og handleggnum, var alveg frá. Og verkurinn versnaði er frá leið.  Ég er ekki laus við hann enn í dag.“

Varstu frá vinnu lengi?
„Þegar slysið varð var ég í sumarfríi og var í raun að kenna bátseigandanum hvernig hann ætti að meðhöndla veiðarfæri og sjálfan bátinn. En þetta fór nú svona. Ég var þá sjálfur hættur að sinna sjómennsku sem aðalstarfi og hafði verið starfsmaður hjá Norðuráli þá í fjögur ár.“

Hvernig gekk þér að komast til vinnu eftir slysið?
„Ég gat ekki unnið í eitt og  hálft ár. Ég hafði eftir slysið samband við sjúkraþjálfarann og var hjá honum tvisvar til þrisvar í viku. En þegar ég lagaðist ekki, heldur fremur versnaði, stakk hann upp á að ég færi og talaði við ráðgjafa hjá VIRK. Ég hafði áður samband við Vilhjálm Birgisson og spurði hann hvort ég gæti ekki leitað til VIRK og hann sagði að það skyldi ég gera. Benti mér eindregið á þann möguleika.

Í framhaldi af því fór ég til ráðgjafa VIRK hjá Verkalýðsfélagi Akraness. Ráðgjafinn benti mér á margar leiðir og möguleika. Hann hafði líka samband við atvinnurekanda minn til þess að halda því opnu að ég gæti síðar byrjað að vinna, en hægt í byrjun. Norðuráll, þar sem ég vinn enn, kom mjög vel á móti mér og yfirmaðurinn minn á vaktinni, Birna Björnsdóttir, kom því þannig fyrir að ég mætti mæta þegar ég treysti mér til í byrjun.

Ég sótti um endurhæfingarlífeyri að uppástungu ráðgjafa VIRK og fékk hann og það var mikil hjálp. Ég fékk þann lífeyri í nokkra mánuði og jafnframt var ég í meðferð hjá sjúkraþjálfaranum mínum einu sinni í viku. Smám saman fór ég heldur að lagast en það vantar mikið upp á það enn að ég sé jafngóður. Viðtölin við ráðgjafann og sú aðstoð sem hann veitti og sjúkraþjálfunin var mér mikil hvatning til þess að hefja störf að nýju sem fyrst.

Allir þurfa að finna að þeir séu með í þjóðfélaginu og VIRK veitir mikla hvatningu í þá átt. Það er ekki gaman að vera á bótum. Það mætti gera meira í því að koma fólki sem lendir á örorku í það stand að það geti unnið – sé það mögulegt. Það er andlega og félagslega mikill plús ef það tekst – að ekki sé talað um hve miklu það skiptir fyrir þjóðfélagið.“

Hvernig reiddi þér af andlega eftir þetta slys?
„Það var bara allt í lagi hjá mér. Ég hef stundað sjó frá því ég var ungur strákur, byrjaði snemma á grásleppuveiðum. Maður hefur nú oft í tímans rás lent í slíkum veðrum, að ekki var víst að maður næði landi. Þetta sjóslys var ekki neitt mikið meira en svoleiðis túrar.

Ég er nú 54 ára gamall. Ég var orðinn þreyttur á sjómennskunni. Vildi breyta til og prófa annað. Ég leitaði því í vaktavinnu, það gera margir gamlir sjómenn. Í slíkri vinnu eru góð frí á milli. Meiri frí en á sjónum, þar var maður alltaf „á tánum“, brælurnar gáfu manni ekki frí.“

Ertu fjölskyldumaður?
„Ég er kvæntur maður og á eina uppkomna dóttur og fjögur barnabörn. Konan mín tók slysinu af æðruleysi en henni er illa við að ég sé á sjónum.“

„Ég er nú komin til vinnu og gengur ágætlega nema hvað verkina snertir. Ég vil þakka VIRK fyrir þá góðu aðstoð sem ég fékk. Mitt álit er að starfsemin sem þar er rekin sé mjög uppbyggjandi fyrir þá sem lenda í erfiðum aðstæðum, eins og ég gerði. Ég hvet fólk eindregið til að nýta sér starfsemina hjá VIRK. Það er engin svikinn af aðstoð VIRK.“

Telur þú að VIRK aðkoma VIRK að þínum málum hafi skipt miklu?
„Mér finnst hún hafa skipt mjög miklu. Hún varð mér mjög mikil hvatning og svo fékk ég svo margar góðar ábendingar, hvernig eigi að snúa sér í málum gagnvart kerfinu. Þar þekkir fólk yfirleitt ekki vel til nema að komast í svona aðstæður eins og ég gerði í kjölfar slyssins. Ég vissi lítið um hvaða rétt ég ætti í þessu eða hinu. Nú er ég reynslunni ríkari. Að sjálfsögðu. Mín reynsla hefur mótað hjá mér þá skoðun að mikilvægt sé að starfsemi VIRK haldi áfram og fái að þróast í rétta átt.“

Hvernig gengur þér að vinna núna?
„Það gengur sæmilega nema hvað ég er oft illa haldinn af verkjum. Það voru teknar myndir af skaðanum og í ljós kom að það gæti þurft að gera á mér aðgerð. En ég er að draga það, athuga hvort þetta lagast ekki smám saman. Ég vona að svo verði. En vissulega mun ég fara í aðgerð ef niðurstaðan verður sú að ég þurfi þess.“

Ertu enn í sambandi við VIRK?
„Nei, ekki lengur. Eftir sjóslysið fékk ég áfallahjálp hjá sálfræðingi sem aðstoðar bæði lögreglu og sjúkraflutningamenn sem koma að slæmum slysum. Ég fór með félaga mínum í eitt skipti til sálfræðingsins, en honum fannst ég vera í góðum málum. Ég var ekki talin þurfa á frekari sálfræðiaðstoð að halda.

Þremur dögum eftir sjóslysið var mér boðið að róa á öðrum bát. Ég fór með félaga mínum, sem lent hafði í sjóslysinu með mér á grásleppuveiðar fljótlega eftir það. Ég gat nánast ekkert unnið nema með vinstri hendinni, en þetta hafðist samt. Félagi minn varð ekki fyrir meiðslum en varð mjög kaldur í sjónum. Að öðru leyti varð honum ekki meint af.

Eftir sjóslysið hafði ég farið í skoðun á Landspítalanum í Fossvogi, þar var ég aðeins hitaður upp og fékk svo að fara heim. Meiðslin á handleggnum komu ekki fram að ráði fyrr en nokkru síðar og smátt og smátt ágerðust þau þar til öxlin beinlínis fraus. Eftir það varð ég óvinnufær.

Ég er nú komin til vinnu og gengur ágætlega nema hvað verkina snertir. Ég vil þakka VIRK fyrir þá góðu aðstoð sem ég fékk. Mitt álit er að starfsemin sem þar er rekin sé mjög uppbyggjandi fyrir þá sem lenda í erfiðum aðstæðum, eins og ég gerði. Ég hvet fólk eindregið til að nýta sér starfsemina hjá VIRK. Það er engin svikinn af aðstoð VIRK.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Skessuhorn

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband