Fara í efni

Hvar getur þú kynnt þig?

Á LinkedIn, samfélagsmiðlum, ráðningarstofum og Vinnumálastofnun getur þú kynnt þig eða nálgast fyrirtæki með starf í huga.

LinkedIn

Linkedin er vefsíða sem gerir einstaklingum kleyft að byggja upp veflæga ferilskrá og atvinnurekendum mögulegt að finna nýtt starfsfólk. Þar getur þú byggt upp tengslanet sem styrkir þig í atvinnuleitinni.

 • Tengslanet - Linkedin getur þú notað til að byggja upp og viðhalda tengslanetinu þínu. Þú getur sent skilaboð innan Linkedin til aðila sem eru tengdir þér og einnig tengst fagaðilum út í heimi (Linkedin Premium). Íslendingar á Linkedin eru ýmist með síðurnar sínar á íslensku eða ensku. Fer það eftir tilgangi og markmiði hvers og eins hvort tungumálið er valið. Sé stefnan sett á starf erlendis eða að mynda tengsl við erlenda sérfræðinga er nauðsynlegt að vera með upplýsingarnar á ensku eða tungumáli viðeigandi lands.
 • Störf - Á Linkedin auglýsa fyrirtæki laus störf undir flipanum „jobs“. Þar getur þú vaktað atvinnuauglýsingar. Íslensk fyrirtæki hafa ekki mikið auglýst á Linkedin, en þó eitthvað.
 • Fyrirtæki geta einnig leitað að starfsfólki í gegnum Linkedin með því að skoða Linkedin prófíla einstaklinga.
 • Meðmæli - Aðrir einstaklingar á Linkedin geta mælt með þér sem starfsmanni. Það gera þeir með því að skrifa umsögn um þig sem tengist prófílnum þínum. Þeir geta líka mælt með einhverjum af styrkleikum þínum s.s hæfni í teymisvinnu, leiðtogafærni, markaðsmálum og skapandi hugsun.
 • Fróðleikur - Linkedin býður einnig upp á greinar, fróðleik og kennslumyndbönd sem gott er að nýta til að bæta við þekkingu sína. Þar getur þú vaktað greinar um málefni sem eru þér hugleikin. Þetta er góð leið til þess að fylgjast með umræðunni í bransanum, þá sérstaklega alþjóðlegri umræðu. Flest efni á Linkedin er á ensku, en einnig er hægt að velja önnur tungumál. Á vefnum finnur þú leiðbeiningar um hvernig fylla eigi út Linkedin prófíl.

Samfélagsmiðlar

Samfélagsmiðlar geta gagnast vel í atvinnuleit. Í rafrænum heimi nútímans færist sífellt í aukana að einstaklingar fái störf í gegnum samfélagsmiðla eða að fyrirtæki leiti eftir einstaklingum til starfa á samfélagsmiðlum. Gerðu ráð fyrir því að fyrirtæki muni slá þér upp í leitarvélum eða skoði þig á samfélagsmiðlum þegar þú sækir um störf.

Hér eru nokkur atriði sem er gott að hafa í huga ef þú ætlar að koma þér á framfæri á samfélagsmiðlum.

 • Hugaðu að aðgangsstillingum. Ef þínar síður eru opnar öllum er mikilvægt að efnið sé vandað, uppfært og viðeigandi.
 • Prófílmyndin sem þú notar þarf að gefa jákvæða mynd af þér.
 • Kynntu þig á réttu stöðunum. Veldu að vera á þeim samfélagsmiðlum sem gera þér kleift að tengjast fyrirtækjum eða störfum sem þú ert að leita eftir.
 • Eigðu samskiptum við fyrirtæki á þeim miðli sem hann hefur nálgast þig á. Svaraðu til dæmis „messenger“ skilaboðum á „messenger“.
 • Best er að síðan þín sé á þínu nafni, en ef þú ert með notendanafn sem er tengt ímynd þinni þá ættir þú að hafa sama notandanafn á öllum miðlunum.
 • Gættu þess að efni síðunnar gefi góða mynd af þér sem eftirsóknarverðum valkosti í þau störf sem þú ert að stefa að.
 • Hafir þú skapað þér jákvæða starfstengda ímynd á samfélagsmiðlum vísaðu þá endilega í hana í ferilskránni þinn eða öðru kynningarefni.
 • Ef þú ert með eigin vefsíðu, hefur gefið út áhugavert efni eða langar að sýna dæmi um verk þín getur þú kynnt það á áberandi stað á miðlunum þínum.

Ráðningaskrifstofur

Á Íslandi eru starfræktar fjölmargar ráðningaskrifstofur sem sérhæfa sig í að þjónusta fyrirtæki við að finna einstaklinga í störf sem eru að losna eða verða til. Þú getur skráð þig hjá ráðningarstofu til að eiga möguleika á þeim störfum sem hún er með í miðlun. Þegar þú skráir þig hjá ráðningarstofu er mikilvægt að vanda til verka þannig að skráningin þín sýni vel hvað þú hefur að bjóða.

Sumar ráðningarskrifstofur eru með ákveðin sérsvið eða þjóna ákveðnum atvinnugreinum. Það er því gott að skoða hvaða ráðningarstofur henta þér best. Þá birta ráðnigarstofurnar líka auglýsingar á vefsíðum sínum sem þú getur fylgst með til að sjá hvaða störf eru í vinnslu hjá þeim. Þegar þú sérð þar áhugavert starf er æskilegt að sækja sem fyrst um það til að auka líkur á að eftir þér verði tekið. Það styrkir einnig umsóknina þína að senda með góða ferilskrá og kynningarbréf.

Vinnumálastofnun

Einstaklingar geta leitað til Atvinnutorgs Vinnumálastofnunar til að fá aðstoð við atvinnuleit. Á vef Vinnumálastofnunar er jafnframt hægt að sjá upplýsingar um störf sem eru í miðlun hjá stofnuninni.

Eures vinnumiðlun Vinnumálstofnunar býður þeim sem vilja skoða að starfa erlendis upplýsingar um störf og vinnumarkað í Evrópu. Þá geta erlendir ríkisborgarar einnig leitað til Eures skrifstofu Vinnumálstofnunar til að fá upplýsingar um íslenskan vinnumarkað.

Vinnumálastofnun heyrir undir félagsmálaráðuneytið og fer hún með lögbundna þjónustu við atvinnuleitendur, afgreiðslu Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofssjóðs, Ábyrgðarsjóðs launa auk fjölmargra annarra vinnumarkaðstengdra verkefna.

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband