Fara í efni

Hvað kostar kulnun? Efnahagsleg áhrif vinnutengdrar streitu

Til baka

Hvað kostar kulnun? Efnahagsleg áhrif vinnutengdrar streitu

Jósef Sigurðsson dósent við Hagfræðideild Stokkhólmsháskóla

 

Ef horft er yfir nokkra áratugi er ljóst að geipilegar breytingar hafa orðið á atvinnu og vinnumörkuðum um allan vestrænan heim. Tvær grundvallarbreytingar standa uppúr.

Í fyrsta lagi hefur eðli starfa breyst með tækniframförum (Autor o.fl., 2024). Störf hafa orðið sveigjanlegri og mörg störf er nú hægt að vinna nánast hvar sem er og hvenær sem er, sem gerir mörkin milli vinnu og einkalífs óskýrari. Tækniframfarir hafa jafnframt valdið því að álag við vinnu hefur breyst úr því að vera að megninu til líkamlegt yfir í að vera að mestu leyti andlegt (Autor o.fl., 2003).

Í öðru lagi hefur samsetning vinnuaflsins breyst. Með aukinni atvinnuþátttöku kvenna eru nú tveir útivinnandi í flestum fjölskyldum, sem sinna bæði sínu starfi og skyldum heima fyrir (Goldin, 2006).

Samhliða þessum breytingum sýna mælingar að streita hefur vaxið jafnt og þétt. Gallup hefur framkvæmt könnun á streitu á heimsvísu þar sem starfsfólk er spurt hvort það hafi upplifað mikla streitu daginn á undan (Gallup, 2023). Frá árinu 2009 til ársins 2023 hækkaði hlutfall þeirra sem svara því játandi úr 30% í 44%.

Samhliða þessum breytingum sýna mælingar að streita hefur vaxið jafnt og þétt. Gallup hefur framkvæmt könnun á streitu á heimsvísu þar sem starfsfólk er spurt hvort það hafi upplifað mikla streitu daginn á undan (Gallup, 2023). Frá árinu 2009 til ársins 2023 hækkaði hlutfall þeirra sem svara því játandi úr 30% í 44%.

Sérfræðingar hafa vaxandi áhyggjur af þessari þróun og þeim afleiðingum sem hún kann að hafa. Ein birtingarmynd streitu er að fjöldi starfsfólks fer í kulnun ár hvert. Sálfræðingar hafa í meira en 50 ár rannsakað neikvæð áhrif streitu og hvernig viðvarandi streita getur leitt til kulnunar (Freudenberger, 1974; Maslach, 1976; Maslach og Leiter, 2022). Frá árinu 2000 hafa níu Evrópulönd með sterk velferðarkerfi, t.d. Holland og Svíþjóð, nýtt þessar rannsóknir til að þróa sjúkdómsgreiningu á kulnun og innleiða hana í sín sjúkratryggingakerfi (Lastovkova o.fl., 2018).

Þrátt fyrir þessar breytingar á vinnumarkaði og að stjórnvöld víðs vegar hafi byrjað að bregðast við, hafa efnahagslegar afleiðingar aukinnar vinnutengdrar streitu lítið verið rannsakaðar. Tölur sýna þó að umfang kulnunar er slíkt að mikilvægt er að veita því sérstaka athygli. Sem dæmi fóru árið 2019 rúmlega 1% starfsmanna í Svíþjóð í veikindaleyfi vegna kulnunar, og námu heildargreiðslur vegna þessa um helmingi af öllum atvinnuleysisbótum það ár.

Í nýlegri rannsókn skoðum ég og meðhöfundar mínir áhættuþætti kulnunar og metum efnahagslegan kostnað hennar (Nekoei, Sigurdsson og Wehr, 2024). Greining okkar byggir á gögnum frá Svíþjóð um læknisfræðilegar greiningar og veikindaleyfi frá starfi á árunum 2006 til 2020, sem samkeyrð hafa verið við ýmsar stjórnsýsluskrár. Mikilvægt er að taka fram að í rannsókn okkar mælum við kulnun þannig að einstaklingur hafi verið greindur með streitutengdan sjúkdóm og fari í veikindaleyfi í að minnsta kosti 14 daga. Þessi stutta grein tæpir á nokkrum af niðurstöðum þeirrar rannsóknar.

Streita og kulnun

Vinnustreita er, samkvæmt skilgreiningu, meginorsök kulnunar. Til að varpa ljósi á þetta samband notum við gögn um streitueinkenni úr sænsku vinnuumhverfiskönnuninni. Við byggjum á læknisfræðilegum greiningarskilyrðum fyrir einkennum kulnunar og búum til vísitölu streitueinkenna. Vísitalan tekur gildi frá -4 til 4, þar sem einstaklingar sem ekki sýna nein streitueinkenni fá gildið -4 og einstaklingar sem sýna öll einkenni fá gildið 4.

Mynd 1 sýnir sambandið milli þessarar vísitölu og líkindanna á kulnun árið eftir. Eins og myndin sýnir er sterk jákvæð fylgni milli vinnustreitu og kulnunar í kjölfarið. Meðal þeirra sem sýna engin streitueinkenni eru líkurnar nánast 0%. Hins vegar aukast líkurnar stigvaxandi með auknum einkennum streitu, og meðal þeirra sem sýna öll einkenni mikillar vinnustreitu eru líkurnar á kulnun árið eftir um 5%.

Þó streita auki hættuna á kulnun er ekki ljóst hvort sú hætta sé sú sama fyrir alla. Þar kemur tvennt til. Annars vegar eru störf í eðli sínu ólík og sum störf valda meiri streitu en önnur. Hins vegar eru einstaklingar ólíkir í því hversu vel þeir þola streitu. Spurningin er því hvort ólík áhætta á kulnun endurspegli ólík störf, ólíka einstaklinga eða blöndu af báðu. 

Streituvaldandi störf og streituþol starfsmanna

Þó streita auki hættuna á kulnun er ekki ljóst hvort sú hætta sé sú sama fyrir alla. Þar kemur tvennt til. Annars vegar eru störf í eðli sínu ólík og sum störf valda meiri streitu en önnur. Hins vegar eru einstaklingar ólíkir í því hversu vel þeir þola streitu. Spurningin er því hvort ólík áhætta á kulnun endurspegli ólík störf, ólíka einstaklinga eða blöndu af báðu. Til að svara þessari spurningu nýtum við gögn um streituþolskröfur starfa og streituþol einstaklinga. Bandaríski O*NET gagnagrunnurinn inniheldur miklar upplýsingar um einkenni starfa, verkefni og kröfur, þar með talið streituþolskröfur. Gögn um streituþol einstaklinga fáum við úr gagnagrunnum sænska hersins. Við 18 ára aldur fara sænskir karlmenn í gegnum umfangsmikil próf vegna herskylduskráningar þar sem margvíslegir eiginleikar eru metnir með prófum og í sálfræðimati. Eitt af því sem sálfræðingar sænska hersins leggja mat á er streituþol einstaklinga.

Mynd 2 sýnir samband þessara tveggja þátta við líkurnar á kulnun. Myndin sýnir að starfsmenn með lágt streituþol eru mun líklegri til að fara í kulnun en þeir sem hafa meira streituþol, og á það sérstaklega við ef þeir gegna streituvaldandi störfum. Meðal þeirra sem starfa í hástreitustörfum eru líkurnar á kulnun þrefalt hærri meðal þeirra sem hafa lægst streituþol, borið saman við þá sem eru streituþolnastir.

Hvað kostar kulnun?

Starfsmenn sem fara í kulnun verða fyrir verulegu tekjutapi. Í samanburði við samanburðarhóp sambærilegra starfsmanna, sem annaðhvort fara aldrei í kulnun eða gera það síðar, hefur kulnun neikvæð, umtalsverð og viðvarandi áhrif á vinnutekjur. Eins og sýnt er á mynd 3 mælist tekjutapið tæplega 15% í kjölfar kulnunar. Í upphafi endurspeglar þetta fjarveru frá vinnu vegna veikindaleyfis, sem varir að jafnaði í um þrjá mánuði, en tekjutapið er viðvarandi og sjö árum síðar mælist það enn um 12%. Þar kemur tvennt til. Helmingur tekjutapsins endurspeglar brottfall einstaklinga af vinnumarkaði en hinn helmingurinn langvarandi áhrif á framleiðni þeirra sem halda áfram að starfa, m.a. vegna færslu í önnur störf eða minnkaðs starfshlutfalls. Þótt almannatryggingar dragi úr tekjutapinu með veikindagreiðslum og öðrum tilfærslum, mælist langvarandi tap í ráðstöfunartekjum þeirra sem fara í kulnun meira en 6%.

Við rannsökum enn fremur hvernig áhrif kulnunar ná út fyrir einstaklinginn sjálfan og hafa áhrif á fjölskyldur þeirra. Þegar litið er á maka kemur í ljós kynjamunur. Kvenkyns makar þeirra sem fara í kulnun verða fyrir tafarlausu og viðvarandi tekjutapi upp á 4,0%, á meðan áhrifin á tekjur karlkyns maka eru mun minni, eða 1,1%. Þegar foreldrar fara í kulnun á námsárum barna sinna hefur það einnig neikvæð áhrif á árangur barnanna á samræmdum prófum og á líkurnar á því að þau fari í framhaldsskóla. Líkur á framhaldsskólagöngu minnka um 2,5 prósentustig eða sem samsvarar um 8% minni líkum í samanburði við börn foreldra sem ekki upplifa kulnun á námsárum barna sinna.

Þegar litið er heildrænt á áhrif kulnunar – bein áhrif á einstaklinga, áhrif á fjölskyldur þeirra og afleidd áhrif á framleiðni – metum við að kulnun hafi valdið 2,3% tapi á heildarlaunatekjum í Svíþjóð árið 2019.

Þegar litið er heildrænt á áhrif kulnunar – bein áhrif á einstaklinga, áhrif á fjölskyldur þeirra og afleidd áhrif á framleiðni – metum við að kulnun hafi valdið 2,3% tapi á heildarlaunatekjum í Svíþjóð árið 2019. Þetta mat er þó líklega vanmat á raunverulegu langtímatapi, þar sem gögn um greinda kulnun ná aðeins aftur til ársins 2006. Við spáum því að þetta tap muni aukast í 3,5% í jafnvægi, ef aðstæður haldast óbreyttar frá árinu 2019.

Hvernig má fyrirbyggja kulnun?

Hagrænn kostnaður vegna vinnutengdrar streitu er verulegur og tekjutap vegna kulnunar er mikið. Það er því til mikils að vinna með forvörnum sem, líkt og á við um önnur geðræn vandamál, eru áhrifaríkari en meðferð við kulnun (Tetrick and Winslow 2015, Aust et al. 2023). Árangurinn af forvörnum veltur hins vegar á getu til að auðkenna einstaklinga í áhættuhópi (Demerouti et al. 2021).

Við notum vélnámslíkan til að spá fyrir um líkur á kulnun. Spáin byggir á gríðarmiklu magni skráargagna um einstaklinga, s.s. um lýðfræðilega þætti, menntun, starfsreynslu, læknisfræðilegar greiningar og veikindi. Líkanið spáir rétt fyrir um líkur á kulnun eitt ár fram í tímann í um 82% tilfella, miðað við pör einstaklinga þar sem annar einstaklingurinn fer í kulnun en hinn ekki. Við sýnum hins vegar að rauntímaupplýsingar um streitu innihalda viðbótarupplýsingar umfram það sem fæst úr skráargögnum og auka þannig spágetuna enn frekar.

Niðurstöðurnar sýna raunar að spá sem byggir á einföldum upplýsingum um kyn, aldur og menntun, að viðbættum rauntímaupplýsingum um streitu, er nákvæmari en spá sem byggir á nær öllum skráargögnum um einstaklingana sem við höfum aðgang að.

Niðurstöðurnar sýna raunar að spá sem byggir á einföldum upplýsingum um kyn, aldur og menntun, að viðbættum rauntímaupplýsingum um streitu, er nákvæmari en spá sem byggir á nær öllum skráargögnum um einstaklingana sem við höfum aðgang að. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi þess hve einfalt og ódýrt getur verið að safna slíkum upplýsingum. Reyndar safnar stór hluti evrópskra fyrirtækja nú þegar slíkum upplýsingum um starfsmenn sína (Howard o.fl., 2022) en slíkar upplýsingar eru lítið notaðar í forvörnum.

Við hönnum líkan af forvarnakerfi og metum ábata þess að nýta rauntímaupplýsingar um streitu starfsmanna í slíkum forvörnum. Við notum mat okkar á efnahagslegum kostnaði einstaklinga vegna kulnunar og spá um líkur á kulnun til að meta hagkvæmustu stærð slíks forvarnakerfis. Kostnaðar- og ábatagreining sýnir að hagkvæmasta stærð kerfisins minnkar um helming og hreinn ábati þess eykst 2,5-falt þegar rauntímaupplýsingar um streitu eru notaðar til að auðkenna einstaklinga í áhættuhópi. Ábatinn felst annars vegar í því að spáin er betri í að auðkenna þá sem raunverulega eru í hættu á kulnun og draga þannig úr kostnaði þeirra, og hins vegar í því að betri spá dregur úr umfangi kerfisins með tilheyrandi kostnaðarlækkun.

Stefnumörkun og nýting upplýsinga til að draga úr kulnun

Niðurstöður okkar benda til þess að vinnutengd streita hafi í för með sér verulegan efnahagslegan kostnað. Kulnun hefur neikvæð og varanleg áhrif á framleiðni einstaklinga og getu þeirra til að sinna störfum sínum, með tilheyrandi tekjutapi fyrir einstaklingana sjálfa og kostnaði fyrir fyrirtæki og hið opinbera. Það er því mikið í húfi að draga úr þessum kostnaði.

Niðurstöður okkar sýna jafnframt að líkurnar á kulnun aukast þegar einstaklingar með lágt streituþol veljast í streituvaldandi störf, og að hægt er að spá fyrir um kulnun með nokkurri nákvæmni.

Niðurstöður okkar sýna jafnframt að líkurnar á kulnun aukast þegar einstaklingar með lágt streituþol veljast í streituvaldandi störf, og að hægt er að spá fyrir um kulnun með nokkurri nákvæmni. Af þessu má ráða að umtalsverð tækifæri felist í frekari stefnumörkun til að draga úr líkum á kulnun. Reynslan sýnir að með stefnumótun og tækniþróun hefur fyrirtækjum tekist að gera mörg störf öruggari og auðveldari, sem hefur leitt til fækkunar vinnuslysa. Þetta gefur vísbendingu um að stjórnendur og mannauðsstjórar geti með markvissri nýtingu upplýsinga um starfsfólk, bæði varðandi eiginleika þess og rauntímaupplýsingar um streitu, miðlað einstaklingum í störf við hæfi og stýrt álagi betur. Slík nálgun gæti reynst árangursrík leið til að draga úr kulnun, með tilheyrandi ávinningi fyrir starfsfólk, fyrirtæki og samfélagið í heild.

Heimildir

Aust, B., Møller, J. L., Nordentoft, M., Frydendall, K. B., Bengtsen, E., & Jensen, A. B. (2023). „Workplace stress management interventions and health promotion.“ Scandinavian Journal of Work, Environment & Health, 49, 315.

Autor, D. H., Chin, C., Salomons, A., & Seegmiller, B. (2024). „New frontiers: The origins and content of new work, 1940–2018.“ The Quarterly Journal of Economics.

Autor, D. H., Levy, F., & Murnane, R. J. (2003). „The skill content of recent technological change: An empirical exploration.“ The Quarterly Journal of Economics, 118(4), 1279–1333.

Demerouti, E., Bakker, A. B., Peeters, M. C., & Breevaart, K. (2021). „New directions in burnout research.“ European Journal of Work and Organizational Psychology, 30(5), 686–691.

Freudenberger, H. J. (1974). „Staff burn-out.“ Journal of Social Issues, 30, 159–165.

Gallup (2023). „State of the global workplace.“ Retrieved April 8, 2024.

Goldin, C. (2006). „The quiet revolution that transformed women’s employment, education, and family.“ American Economic Review, 96(2), 1–21.

Howard, A., Antczak, R., & Albertsen, K. (2022). Third European survey of enterprises on new and emerging risks (ESENER 2019): Overview report: How European workplaces manage safety and health. Publications Office of the European Union.

Lastovkova, A., Carder, M., Rasmussen, H. M., Sjoberg, L., de Groene, G. J., Sauni, R., Vevoda, J., Vevodova, S., Lasfargues, G., Svartengren, M., et al. (2018). „Burnout syndrome as an occupational disease in the European Union: An exploratory study.“ Industrial Health, 56, 160–165.

Maslach, C. (1976). „Burned-out.“ Human Behavior, 5, 16–22.

Maslach, C., & Leiter, M. P. (2022). The burnout challenge. Harvard University Press.

Nekoei, A., Sigurdsson, J., & Wehr, D. (2024). „The economic burden of burnout.“ CEPR Discussion Paper 19091.

Tetrick, L. E., & Winslow, C. J. (2015). „Workplace stress management interventions and health promotion.“ Annual Review of Organizational Psychology and Organizational Behavior, 2(1), 583–603.

Greinin birtist í ársriti VIRK 2025.


Fréttir

06.05.2025
24.06.2025

Hafa samband