Fara í efni

Horft til framtíðar – Staða rannsókna hjá VIRK

Til baka
Rannsóknaráð VIRK 
Sitjandi frá vinstri: Svandís Nína Jónsdóttir, Jónína Waagfjörð, María Þóra Þorg…
Rannsóknaráð VIRK
Sitjandi frá vinstri: Svandís Nína Jónsdóttir, Jónína Waagfjörð, María Þóra Þorgeirsdóttir. Standandi frá vinstri: Guðrún Rakel Eiríksdóttir, Þórey Edda Heiðarsdóttir, Berglind Stefánsdóttir.

Horft til framtíðar – Staða rannsókna hjá VIRK

Svandís Nína Jónsdóttir verkefnastjóri hjá VIRK

 

Það er óumdeilt að rannsóknir – sem byggja á gagnreyndum rannsóknaraðferðum – eru grundvöllur að framþróun þekkingar. Þetta á sérstaklega við um hið þverfaglega eðli starfsendurhæfingar en þar reynir á aðkomu og samvinnu ólíkra fagstétta.

Annað flækjustig er varðar starfsendurhæfingu er staða vinnumarkaðar á hverjum tíma fyrir sig. Örar tæknibreytingar síðustu áratuga flýta óneitanlega fyrir úreldingu þekkingar og færni sem – eðli málsins samkvæmt – hefur víðtæk áhrif á þær manneskjur sem þar starfa1. Við þessum aðstæðum hefur starfsendurhæfing þurft að bregðast við og taka mið af. Framboð á úrræðum í starfsendurhæfingu hefur einnig áhrif á framgang hennar. Framboðið er mismikið eftir aðstæðum hverju sinni og í sumum tilvikum hefur VIRK tekið þátt í þróun nýrra úrræða sem eftirspurn er eftir.

Af þessum sökum hefur VIRK ákveðið að blása til sóknar í rannsóknum og auka umfang þeirra í starfseminni. Sérstaklega verður lögð áhersla á aukið rannsóknasamstarf við hina ýmsu úrræðaaðila, ýmist um árangursmælingar á úrræðum sem þeir bjóða upp á, þróun nýrra úrræða til að mæta nýrri eftirspurn eða nánari greiningu á því hvort úrræði séu viðeigandi fyrir alla eða hvort þau henti einstaklingum misvel eftir heilsufarsþáttum eða bakgrunni. Í þessu eru fólgin tækifæri fyrir þá aðila sem vilja þróa úrræðin betur og jafnvel eiga kost á að fá rannsóknaniðurstöður sínar birtar í fagtímaritum.

Rannsóknastefna VIRK

Eðli málsins samkvæmt þurfa rannsóknir hjá VIRK að uppfylla skilyrði nýlegrar rannsóknastefnu sem samþykkt var af framkvæmdastjórn VIRK 26. nóvember 2020. Stefnan markaði ákveðin tímamót í starfsemi VIRK, þá sérstaklega með tilliti til aukinna krafa á hendur þeirra sem sinna rannsóknum í samstarfi við sjóðinn.

Rannsóknastefnunni má skipta í nokkur höfuðatriði en hér verður fjallað um þrjú þeirra:

 • Mannhelgi og reisn einstaklinga og hópa
 • Aðgát og hófsemi
 • Vandaðar upplýsingaskrár

Mannhelgi og reisn einstaklinga og hópa 

Eitt af skilyrðum rannsókna hjá VIRK er að leitast sé við að vernda einstaklinga og hópa í þjónustu sjóðsins. Mannleg reisn er lykilatriði í velsæld einstaklinga og hefur áhrif á bataferli og framtíðarhorfur á vinnumarkaði. Því leggur VIRK sérstaka áherslu á að niðurstöður rannsókna vegi aldrei að ímynd og heiðri einstaklinga út á við með vísun í hópa sem þeir tilheyra. Þar af leiðandi er brýnt að rannsóknir á vegum VIRK séu gagnlegar og uppbyggjandi, að þær miði ætíð að því að bæta líf einstaklinga með heilsubrest og leiti leiða til að brúa bilið á milli fólks með skerta starfsgetu og vinnumarkaðar.

Aðgát og hófsemi

Þegar um er að ræða einstaklinga sem enn eru í þjónustu VIRK þarf að gæta hófsemi, þ.e. að þjónustuþegar fái nauðsynlegt næði til að ljúka starfsendurhæfingu án mikilla truflana. Það sem einnig skiptir máli hér – og rannsakendur þurfa að taka tillit til – er að fólk í starfsendurhæfingu er misjafnlega veikt og þola sumir lítið sem ekkert rask á endurhæfingartímabilinu. Þátttaka í rannsóknarverkefnum hentar því alls ekki öllum og þurfa þarfir þjónustuþega ætíð að vera í fyrirrúmi.

Í þessu tilliti er mikilvægt að spyrja sig nokkurra spurninga áður en haldið er af stað í þróun nýrra úrræða eða árangursmælinga þar sem gert er ráð fyrir þátttöku einstaklinga sem hafa ekki lokið þjónustu hjá VIRK:

 • Er úrræðið/meðferðin sem ætlunin er að þróa, viðeigandi fyrir einstaklinga í starfsendurhæfingu? Fellur hún vel að þörfum þeirra?
 • Þarf ef til vill að sérsníða úrræðið/ meðferðina með tilliti til bakgrunns þjónustuþega eða aðstæðna?
 • Ef um árangursmælingar er að ræða, hversu oft og við hvaða aðstæður er gert ráð fyrir að mælingar eigi sér stað? Eru mælitækin viðurkennd og gagnreynd?

Áreiðanlegar upplýsingaskrár sem fylgja ströngustu gæðakröfum

Grundvöllur góðra rannsókna eru réttmætar og áreiðanlegar upplýsingaskrár sem eru yfirfarnar reglulega og fylgja lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga í hvívetna. Til að sinna einstaklingum í þjónustu sem best – og jafnframt uppfylla lagalegar skyldur sínar gagnvart hinu opinbera - safnar VIRK tölulegum upplýsingum um stöðu einstaklinga í upphafi og lok þjónustu ásamt því að meta reglulega framvindu starfsendurhæfingarinnar. Þessar upp lýsingar eru grundvöllur þess að hægt sé að veita einstaklingsmiðaða þjónustu og leggja jafnframt grunninn að rannsóknum til uppbyggingar í starfsendurhæfingu.

Um þessar mundir vinna sérfræðingar VIRK hörðum höndum að því að aðlaga gögnin, búa til tímalínur og gera þau þannig úr garði gerð að þau henti til notk-unar í vísindarannsóknum. Vonast er til að í ársbyrjun 2024 verði hægt að fara í rannsóknasamstarf við vísindafólk á grundvelli gagnanna.

Rannsóknaráð VIRK

Til að fylgja rannsóknastefnunni úr hlaði var Rannsóknaráði VIRK komið á laggirnar. Í því sitja að jafnaði 6-7 sérfræðingar VIRK ásamt persónuverndarfulltrúa. Framkvæmdastjóri VIRK er ábyrgðarmaður ráðsins en tölfræðingur VIRK - sem jafnframt er verkefnastjóri rannsókna og greininga - leiðir ráðið og heldur utan um starfsemi þess. Helstu hlutverk Rannsóknaráðs er að taka á móti umsóknum um rannsóknasamstarf frá ytri aðilum, meta forsendur þeirra og vísindalegt gildi og liðsinna við gagnaöflun, ef umsóknir eru samþykktar. Ef af samstarfi verður er það þó ætíð háð gildandi lögum og reglum um persónuvernd og samþykki Vísindasiðanefndar, ef við á. Aðrar nauðsynlegar forsendur fyrir samstarfi eru m.a. eftirfarandi:

 • Að rannsóknarefnið sé á vettvangi starfsendurhæfingar
 • Að tilgangur og markmið rannsóknarinnar sé að bæta gæði úrræða og/ eða auka fjölbreytileika þeirra í starfsendurhæfingu
 • Að rannsóknin sé mikilvæg í samfélagslegu tilliti
 • Að rannsóknarferlið og birting niðurstaðna brjóti hvergi á mannhelgi og reisn þjónustuþega VIRK
 • Að markmið rannsóknaverkefna sé ekki þróun á markaðsefni, s.s. gerð markpósta og/eða kynninga á vörum eða þjónustu á almennum markaði.

Rannsóknastefnan er í heild sinni birt á vefsíðu VIRK og þar má lesa nánar um þessi atriði og aðra áhersluþætti.

Rannsóknir innanhúss hjá VIRK

Heilt á litið er VIRK í stöðugri þekkingaröflun í starfsemi sinni. Meðal annars var nýverið sett á laggirnar þekkingarsetur um kulnun undir stjórn Berglindar Stefánsdóttur og Guðrúnar Rakelar Eiríksdóttur, klínískra sálfræðinga og sérfræðinga í kulnun. Markmið þekkingarsetursins er meðal annars að sinna vísindalegum rannsóknum á kulnun og kulnunareinkennum og miðlun hagnýtrar þekkingar og bjargráða til einstaklinga og vinnustaða.

Einnig hefur VIRK haldið úti svonefndri eftirfylgdarkönnun um árabil á stöðu útskrifaðra einstaklinga á vinnumarkaði. Könnuninni má að einhverju leyti líkja við ferilrannsóknir (e. cohort studies) þar sem hópum einstaklinga er fylgt reglubundið eftir. Hringt er í einstaklinga sem lokið hafa þjónustu á u.þ.b. sex mánaða fresti í allt að þrjú ár eftir að þjónustu lýkur. Á næstu misserum er áætlað að nýta gögnin til að meta breytingar á stöðu einstaklinga á vinnumarkaði eftir bakgrunni.

Faraldsfræðilegar rannsóknir meðal almennings

Í byrjun síðasta árs fékk VIRK Maskínu til að framkvæma könnun á viðhorfi og þekkingu almennings á VIRK. Þátttakendur voru einnig spurðir um andlega og líkamlega heilsu sína, fjárhagsstöðu og heilsutengd lífsgæði (EQ5D). Þetta gafst svo vel að VIRK ákvað í lok síðasta árs að leggja í tvær rannsóknir af samskonar umfangi; aðra til að greina afdrif og líðan einstaklinga sem ljúka þjónustu hjá VIRK og hina til að meta algengi kulnunareinkenna hjá einstaklingum á íslenskum vinnumarkaði.

Rannsóknasamstarf við þjónustuaðila 2022

Hér verður sagt frá þremur rannsóknaverkefnum á vegum þjónustuaðila sem VIRK studdi síðastliðið ár (eitt þeirra er þó enn yfirstandandi) og eru nokkuð lýsandi fyrir áherslur VIRK þessi misserin. Á vefsíðu VIRK má finna stutt viðtöl við þessa aðila þar sem m.a. var spurt um mikilvægi rannsókna fyrir starfsendurhæfingu, megin áskoranir í rannsóknunum og mikilvægi samstarfs við VIRK.

Hafa ber í huga að rannsóknasamstarf VIRK við þjónustuaðila er af ýmsum toga og fer eftir aðstæðum og umfangi hverju sinni. Í sumum tilvikum er samstarfið fólgið í stuðningi sjóðsins við framkvæmd árangursmælinga – og birtingu á niðurstöðum þeirra – en í öðrum er samstarfið umfangsmeira og krefst meiri þátttöku af hálfu sérfræðinga VIRK.

Gott dæmi um hið síðarnefnda er aðkoma sérfræðinga og ráðgjafa VIRK í að skima fyrir heppilegum þátttakendum í rannsóknum sem uppfylla ákveðin skilyrði. VIRK stefnir að því að auka stuðning við slíkar rannsóknir þó með þeim fyrirvara að stuðningurinn krefjist ekki meiri mannafla og/eða annarra bjarga en VIRK hefur yfir að ráða á hverjum tíma fyrir sig.

Hugræn atferlismeðferð (HAM) við áföllum

Í tilraunaskyni var sett á laggirnar hugræn atferlismeðferð í formi hópmeðferðar fyrir karlkyns þolendur áfalla eða erfiðrar lífsreynslu í æsku annars vegar og kvenkyns þolendur hins vegar, undir stjórn Sjafnar Evertsdóttur, sérfræðings í klínískri sálfræði hjá Áfalla- og sálfræðimiðstöðinni.

Markmið meðferðarinnar er að draga úr áhrifum erfiðrar æsku á daglegt líf þátttakenda í dag og aðstoða þá við að þróa uppbyggileg bjargráð. Úrræðið hafði ekki verið í boði hjá VIRK og var því ákveðið að meta hentugleika þess fyrir starfsendurhæfingu áður en ákvörðun væri tekin um að bjóða upp á það reglubundið.

Sótt var um leyfi fyrir rannsókninni hjá Vísindasiðanefnd og lofa fyrstu niðurstöður afar góðu. Í byrjun árs 2023 var því ákveðið að endurtaka rannsóknina og er fyrirhugað að birta niðurstöður í ritrýndu fagtímariti. Sjá viðtal við Sjöfn Evertsdóttur.

Rannsókn á árangri ACT meðferðar

Skammstöfunin ACT stendur fyrir Acceptance and Commitment Therapy og byggir m.a. á hugmyndafræði HAM (hugræn atferlismeðferð). Eins og HAM er ACT gagnreynd sálfræðimeðferð þar sem lögð er áhersla á að einstaklingur gangist við stöðu sinni eins og hún er nú og átti sig á því að erfiðleikar og áskoranir séu órjúfanlegur þáttur lífsins.

Í rannsóknasamstarfinu við VIRK var árangur tveggja úrræða metinn, þ.e. annars vegar hópmeðferð við þrálátum verkjum og hins vegar hópmeðferð við fjölþættum geðvanda, að fengnu leyfi frá Vísindasiðanefnd. Notast var við einliðasnið (e. single-subject design) til að meta árangurinn en slíkar aðferðir eru vel til þess fallnar að meta breytingar á líðan og atferli einstaklinga meðan á meðferð stendur og í einhvern tíma eftir að henni lýkur.

Sjá nánari upplýsingar í viðtali við Dr. Rúnar Helga Andrason, sérfræðing í klínískri sálfræði og ábyrgðarmann rannsóknarinnar.

Rannsókn á áhrifum og árangri námskeiðsins Sigrum streituna

Sigrum streituna hjá heilsuræktarstöðinni Primal Iceland er vel nýtt námskeið hjá VIRK. Fagleg ábyrgð á námskeiðinu er í höndum Írisar Huldar Guðmundsdóttur, íþróttafræðings og heilsumarkþjálfa, og er fólgið í reglubundinni líkamsþjálfun, hreyfingu og öndunaræfingum ásamt almennri fræðslu um áhrif streitu á líkama og huga.

Öfugt við úrræðin tvö hér að ofan er Sigrum streituna ekki gagnreynt meðferðarúrræði sem slíkt og því ber að lesa rannsóknarniðurstöður um árangur þess með það í huga. Á hinn bóginn virðist námskeiðið gagnast þeim vel sem taka þátt í því. Tveir háskólanemar á B.S. stigi í sálfræði mátu árangur þess og birtu í lokaritgerð sinni sl. vor undir handleiðslu Dr. Tómasar Kristjánssonar, sálfræðings hjá Kvíðameðferðarstöðinni og aðjúnkts í sálfræði við HÍ. Sjá nánar í viðtali við Tómas.

Öll rannsóknaverkefnin þrjú hafa gengið vel og hafa skapað ný tækifæri í þróun úrræða í starfsendurhæfingu og skerpt á mikilvægi árangursmælinga á þeirri þjónustu sem í boði er. Þekkingin sem verður til í rannsóknasamstarfi er ómissandi fyrir áframhaldandi þróun starfsendurhæfingar. Til að geta mætt hinum síbreytilegu þörfum vinnumarkaðar í nútíma samfélagi þarf VIRK að eiga rödd á meðal þjónustuaðila og vísindafólks um þau úrræði sem í boði eru og eiga þannig kost á að finna bestu lausnina hverju sinni.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.

Heimild

Jeehee Min o.fl. (2019). The Fourth Industrial Revolution and Its Impact on Occupational Health and Safety, Worker‘s Compensation and Labor Conditions. Safety and Health at Work, 10 (4).


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband