Fara í efni
Til baka

Rannsóknir lykilatriði í endurhæfingu

Rannsóknir lykilatriði í endurhæfingu

Við hittum að máli Tómas Kristjánsson, aðjúnkt í sálfræði við Háskóla Íslands og starfandi sálfræðing á Kvíðameðferðarstöðinni. Tilefnið er að spyrja hann út í rannsókn sem hann og fleiri hafa gert á námskeiðinu Sigrum streituna, meðferðarúrræði sem Primal Iceland býður upp á og margir þjónustuþegar VIRK hafa sótt.

Tómas Kristjánsson sálfræðingur

Stundvíslega klukkan níu að morgni mætum við á Nýja Garð til þess að hitta þar að máli Tómas Kristjánsson, aðjúnkt í sálfræði við Háskóla Íslands og starfandi sálfræðing á Kvíðameðferðarstöðinni. Tilefnið er að spyrja hann út í rannsókn sem hann og fleiri hafa gert á námskeiðinu Sigrum streituna, meðferðarúrræði sem Primal Iceland býður upp á og margir þjónustuþegar VIRK hafa sótt.

„Þetta námskeið vakti áhuga minn af því að skjólstæðingar á Kvíðameðferðarstöðinni tóku allt í einu stökk í meðferðarárangri eftir að hafa verið á námskeiðinu Sigrum streituna. Bróðir minn sem er í meistaranámi í sjúkraþjálfun og er einkaþjálfari starfaði um tíma hjá Primal Iceland og sagði mér nokkrar atvikasögur, það er sögur einstaklinga, sem höfðu fengið mikla bót á umræddu námskeiði. Hann sagði Einari Carli Axelssyni hjá Primal frá áhuga mínum. Þetta leiddi skömmu síðar til fundar þar sem ég viðraði þá hugmynd mína að gera rannsókn á hvað skilaði þessum góða árangri,“ segir Tómas Kristjánsson.

„Ég hafði þá þegar tekið að mæla með þessu námskeiði við skjólstæðinga Kvíðameðferðarstöðvarinnar. Árangur þess var umtalsvert góður í bataferli og vandinn sem þátttakendur áttu í minnkaði svo að eftir var tekið. Ég vildi skoða námskeiðið betur, einkum hvað ylli góðum áhrifum þess á þunglyndi – það var ekki endilega vegna streituvanda sem ég hafði mælt með þessu meðferðarúrræði við skjólstæðinga. Ég sá að um var að ræða nokkuð sérstakt námskeið – ekki þetta sígilda líkamsræktarnámskeið. Þarna var lögð höfuðáhersla á fræðslu, stoðkerfisæfingar og öndun.“

Hver heldur þú að sé ríkasti þátturinn í hinum góða árangri umrædds námskeiðs?
„Stutta svarið er að við vitum ekki alveg ennþá hvers vegna þetta námskeið hjá Primal skilar svona góðum árangri. Einmitt þessi spurning leiddi til þess ágæta samstarfs sem ég og nemendur mínir hafa átt við Einar Carl Axelsson, eiganda Primal Iceland. Ég vissi ekki svarið við þessari spurningu og veit það reyndar ekki enn. Samkvæmt fræðum er frekar óvenjulegt að námskeið sem ekki inniheldur hreyfingu, né meðferðarvinnu af sálfræðilegum toga, sé að skila svona miklum árangri.

Atvikasögur ekki vísindalegur grundvöllur

Við fórum því af stað með rannsókn því nokkrar atvikasögur um góðan árangur eru ekki vísindalegur grundvöllur og ekki er hægt að alhæfa út frá því. Í rannsókninni kom okkur mjög á óvart hve mikil breytingin var. Að meðaltali lækkaði fólk úr miðlungsalvarlegu þunglyndi niður í eðlileg þunglyndiseinkenni. Og lækkaði úr vægum til meðalalvarlegra kvíðaeinkenna niður í eðlileg slík einkenni – og úr meðalalvarlegum streituvanda niður í eðlilega streitu. Þetta hafðist á fjögurra vikna námskeiði sem byggist aðallega á fræðslu, stoðkerfis- og öndunaræfingum. Það er ótrúlegt. Vandinn er hins vegar sá, að vísindalega getum við ekki ennþá svarað þeirri spurningu hvað það er sem skapar þennan árangur.

Í rannsókninni kom okkur mjög á óvart hve mikil breytingin var. Að meðaltali lækkaði fólk úr miðlungsalvarlegu þunglyndi niður í eðlileg þunglyndiseinkenni.

Einar Carl og þeir sem vinna að námskeiðinu starfa út frá ákveðinni hugmyndafræði. En það er ekki nóg – ég vil sjá gögn. Í framhaldsrannsókn er ég með hóp frá Primal og samanburðarhóp – hlaupahóp. Í fyrri rannsókninni var aðeins mæld líðan fólks í upphafi og lok námskeiðsins og ekki var neinn samanburðarhópur. Í síðari rannsókninni stunduðu báðir hóparnir hreyfingu tvisvar í viku. Við bárum svo saman hvort árangurinn hafi verið meiri í þeirri tegund af hreyfingu sem Primal Iceland og Einar Carl leggja upp með miðað við hina sígildu hreyfingu – að skokka. Niðurstöður úr þeirri rannsókn liggja ekki fyrir enn.“

Er samstarf Háskólans við einkarekið heilsuræktarfyrirtæki óvenjulegt?
„Já, það er frekar óvenjulegt að meta á þennan hátt árangur í úrræðum á vegum einkaaðila, sem Primal Iceland er. Fyrirtækið kallar sig hreyfifærnistöð en ekki líkamsræktarstöð með þeim tækjum sem eru þar venjulega. Verið er að selja alls konar meðferðarúrræði, bæði til einstaklinga og stofnana, fyrir háar fjárhæðir. En það liggja afskaplega lítil gögn fyrir um það hvaða árangri þessi úrræði skila í raun. Þetta er synd. Spurningin er því: Er þetta námskeið að skila einhverjum árangri?

Rannsóknir af þessu tagi eru bæði erfiðar og flóknar. Það er erfitt að svara spurningunni „af hverju líður þátttakendum betur í úrræðum?“ – Fólk sem kemur inn á námskeið er misleitur hópur. Í háskólaumhverfinu er hins vegar reynt að hafa samanburðarhópana eins einsleita og mögulegt er. Þátttakendur hópsins þurfa að hafa sama vanda við að stríða og jafn mikið af honum. Þann hóp þarf svo bera saman við annan hóp sem er alveg eins en á ekki í sama vanda og fyrri hópurinn.

Í meðferðarúrræðum er alls konar fólk með alls konar vanda og það helst mislengi í úrræðunum. Þar við bætist að sumir eru í annarri meðferð jafnframt en aðrir ekki og þannig mætti telja. Þetta flækir vitaskuld rannsóknir. Mér finnst hins vegar að slíkir annmarkar megi ekki stöðva rannsóknir. Það þarf að komast að því hvaða árangri úrræði eru að skila.

Sótt um styrki fyrir þriðju rannsókninni

Það er auðvelt að kaupa auglýsingar og fullyrða að úrræði skili hinu og þessu en svo er ekki endilega sýnt fram á að sú sé raunin. Mér finnst því frábært að verið sé að fara af stað með rannsóknir í auknum mæli. Maður hefur ýmsar rannsóknarhugmyndir í akademíunni en þær komast ekki allar í framkvæmd.

Hvað varðar rannsóknir mínar og nemenda minna á úrræðinu Sigrum streituna þá er þar mikilvæg breyta, sú að Einar Carl leyfir okkur hjá Háskólanum að stýra ferðinni. Það er mikilvægt að eigendur eða þjálfarar viðkomandi stöðvar séu ekki með í því að gera rannsóknirnar – það kemur í veg fyrir hagsmunaárekstur. Einar Carl vill sjálfur fá að vita hvað það er sem er að virka og hvað ekki. Hann sá því í rannsóknunum leið til hugsanlega að laga og bæta meðferðina.

Í fyrstu rannsókninni voru tveir nemar í sálfræði með mér, í þeirri síðari vorum við fleiri sem stýrðum rannsóknarstarfinu. Í fyrri rannsókninni kom í ljós að námskeiðið Sigrum streituna var að virka ótrúlega vel. Það kallaði svo aftur á rannsókn númer tvö. Og nú erum við búin að sækja um styrki fyrir þriðju rannsókninni þar sem við förum meira út í líffræðilegar mælingar. Tengjum þær meira inn í kenningar og hugmyndafræði sem Primal Iceland vinnur eftir.

Á framhaldsnámskeiðinu hjá Primal, sem er þrír mánuðir, er hreyfing mikilvægur hluti. Hreyfing er vel þekkt sem gott úrræði gegn bæði streitu- og þunglyndiseinkennum. Hreyfing hefur áhrif á mörg efni í líkamanum, meðal annars endorfín og dópamín, og hún hefur líka streitulosandi áhrif – hún losar um spennu í líkamanum. Við getum líka nefnt hugrænar skýringar, svo sem að fólk upplifi að það sé að afkasta einhverju miklu, að komast í mark og það gerir það ánægt og stolt. Slíkt hefur mjög góð áhrif á bæði steitu- og þunglyndiseinkenni. Rannsóknir sýna að regluleg hreyfing er eins árangursrík og lyfjameðferð við vægum og miðlungsalvarlegum þunglyndiseinkennum.“

Gæti orðið millistig í geðheilbrigðisúrræðum

Hefur þú skoðað þessa þætti umtalsvert?
„Undanfarið hef ég verið í starfi fagstjóra hjá Píeta samtökunum, sem eru leiðandi sjálfsvígsfræðslu- og forvarnarsamtök. Við bjóðum upp á stuðningsviðtöl og meðferð, bæði fyrir fólk sem glímir við sjálfsvígshugsanir eða hefur gert sjálfsvígstilraunir, og einnig fyrir aðstandendur þeirra sem eru í sjálfsvígshættu eða hafa tekið eigið líf. Þar eru streita og þunglyndi gríðarlega algeng vandamál. Þunglyndi er algengasta geðröskun þeirra sem taka eigið líf. Ef við getum sýnt fram á hvernig svona úrræði vikar og fyrir hverja, gæti komið til sögunnar eins konar millistig í tröppugangi geðheilbrigðisúrræða.

Reyndin er sú að fyrsta úrræðið við þunglyndiseinkennum er gjarnan lyfjagjöf. Hún getur verið mjög mikilvæg, en í klínískum leiðbeiningum landlæknis á lyfjagjöf ekki að vera fyrsta úrræði við vægu og miðlungsalvarlegu þunglyndi. Í alvarlegu þunglyndi á lyfjaúrræði hins vegar að vera fyrsta úrræði ásamt samtalsmeðferð. En staðan núna er sú að það vantar úrræði og alls staðar eru biðlistar.

Staðreyndin er að mjög margir upplifa depurð og streitueinkenni. Það koma upp atvik í lífinu sem slá okkur út af laginu, áföll eins og missir ástvina, atvinnumissir og breytingar á lífshögum, sem og alvarleg og langvarandi veikindi. Þá er eðlilegt að streitu- og kvíðaeinkenni komi fram. Í slíkum aðstæðum geta lyf vissulega hjálpað en þau vinna oft á einkennunum en leysa kannski ekki undirliggjandi vanda. Í alvarlegum tilvikum geta lyf virkað mjög vel meðfram samtalsmeðferð.

Hversvegna nær þetta úrræði árangri?
Það veitir fólki óneitanlega sjálfstraust ef það kemst í gegnum erfiða kafla í lífi sínu og sest við stjórnvölinn í eigin lífi. Námskeið eins og Sigrum streituna gætu verið samfélagslega hagkvæmara úrræði en lyfjakaup eða þjónusta sálfræðings, sem er mjög dýr því hún er ekki niðurgreidd. Ef hægt væri að sýna fram á að þetta úrræði virkaði, gæti það jafnvel komið í veg fyrir að fólk þróaði með sér alvarlegri vanda og kæmist þá hjá lyfja- og sálfræðimeðferð.

Rannsóknirnar sem við framkvæmdum hjá Primal voru í sjálfu sér einfaldar. Við mældum streitu, kvíða og þunglyndiseinkenni. Fengum bakgrunnsupplýsingar og mældum hversu lengi einstaklingur heldur frá sér andanum án áreynslu. Mældum þessi atriði í upphafi námskeiðsins og aftur í lokin. Þetta er einföld árangursmæling og ópersónugreinanleg. Við vorum ekkert endilega viss um í byrjun að við sæjum breytingu, að við sæjum kvíða og þunglyndi minnka og svefngæði aukast. En það gerðist.

Mér finnst því að það ætti að vera miklu algengara að úrræði séu rannsökuð á markvissan hátt og hvort þau séu að skila þeim árangri sem haldið er fram svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um hvert eigi að beina fólki.

Frá akademísku sjónarmiði hefði verið heppilegra að árangur hefði verið sýnilegur varðandi eitt eða tvö einkenni. En við sitjum uppi með þá niðurstöðu að það geta verið margvíslegar ástæður fyrir þessum árangri og þá þurfum bara að að halda áfram og gera víðtækari mælingar. Þetta er spennandi.

Í þriðju rannsókninni, sem við erum að leita eftir styrkjum fyrir, er hugmyndin að mæla laktósa í blóði. Hvernig mismunandi tegundir hreyfingar hafa mismunandi áhrif á laktósann og hvernig laktósinn tengist svo andlegri líðan hvað snertir þunglyndis- og kvíðaeinkenni. Auðvitað verður um að ræða annað fólk en námskeiðið er hið sama – Sigrum streituna. Mig langar mikið til að finna svar við þeirri spurningu hvers vegna þetta námskeið beri svona góðan árangur? Vil helst ekki hætta fyrr en ég get svarað þeirri spurningu almennilega.“

VIRK hefur unnið frábært starf

Skipta svona rannsóknir verulegu máli fyrir starfsendurhæfingu?
„Algjörlega. VIRK hefur unnið frábært starf, þar sem tekið er mið af mörgum atriðum – félagslegum, andlegum og líkamlegum þörfum. Fólki er beint þaðan í úrræði þar sem verið er að vinna með þessi mál svo það komist aftur út á vinnumarkað. En í raun eru rannsóknir á slíkum úrræðum takmarkaðar. Auðvitað eru allir að gera sitt allra besta, en „atvikasögur“ eru ekki vísindaleg rök og sýna ekki fram á árangur meðferðar með óyggjandi hætti.

Mér finnst því að það ætti að vera miklu algengara að úrræði séu rannsökuð á markvissan hátt og hvort þau séu að skila þeim árangri sem haldið er fram svo hægt sé að taka upplýstar ákvarðanir um hvert eigi að beina fólki. Þetta snýst ekki bara um peninga, þetta snýst líka um tíma og vinnu fólks sem kemur inn í starfsendurhæfingu – að það sé ekki að eyða löngum tíma í úrræði sem skila ekki viðunandi árangri. Rannsóknir eru lykilatriði fyrir starfsendurhæfingu að mínu mati.“

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband