Sjöfn Evertsdóttir sálfræðingur
Áfalla- og sálfræðimiðstöðin í Kópavogi hefur verið með þjónustuþega frá VIRK á námskeiði í hugrænni atferlismeðferð. „Þetta er jafnframt áfallamiðuð rannsókn sem við erum með í samvinnu við VIRK Starfsendurhæfingarsjóð,“ segir Sjöfn Evertsdóttir, sérfræðingur í klínískri sálfræði sem er ábyrgðaraðili rannsóknarinnar. Við hittum Sjöfn í húsnæði Áfalla- og sálfræðimiðstöðvarinnar að Hamraborg 11.
„Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna nánar árangur hópmeðferðarúrræðisins sem þróað var sérstaklega fyrir fólk með sögu um áföll eða erfiða lífsreynslu í æsku,“ segir Sjöfn.
Hafa áföll í bernsku áhrif á starfsgetu fólks?
„Já, þau geta haft það. Saga um áföll í æsku á borð við ofbeldi, missi eða vanrækslu getur haft hamlandi áhrif á fólk á fullorðinsárum meðal annars á vinnumarkaði. En það þarf þó ekki að vera því áföll geta líka haft eflandi áhrif, gert fólk næmari fyrir líðan annarra og aukið því þrautseigju gegn erfiðleikum. Oft stríða þeir sem alast upp við erfiðleika í æsku samt við ofurárverkni og eiga erfitt með að treysta fólki.
Áföll geta birtst í forðun – til dæmis að forðast ákveðnar aðstæður. Þá höndlar fólk ekki aðstæðurnar vegna þess að þær minna á eitthvað sem það hefur gengið í gegnum í æsku, meðvitað eða ómeðvitað. Alla jafna viljum við öll forðast sársauka eða upplifa hann hvort sem er líkamlega eða andlega. Ekki síst á þetta við um börn sem geta ekki forðað sér úr aðstæðum sem þau ráða ekki við. Þá eru viðbrögðin gjarnan að aftengja sig tilfinningalega og líkamlega. Það kallast á ensku dissociation. Þá aftengir barnið sig aðstæðum. Það er stundum eina bjargráðið sem það hefur til að geta lifað af erfiðar aðstæður.“
Tilgangur rannsóknarinnar er að kanna nánar árangur hópmeðferðarúrræðisins sem þróað var sérstaklega fyrir fólk með sögu um áföll eða erfiða lífsreynslu í æsku.
Hvernig hefur reynst að hafa saman í hóp fólk sem stríðir við margvíslegan vanda?
„Bara vel. Við höfum skipulagt þetta meðferðarúrræði og rannsókn því tengdu áður í samvinnu við VIRK. Þá fóru tveir hópar frá VIRK í gegnum svona námskeið, annar var fyrir konur og hinn fyrir karla. Árangurinn hefur reynst góður. Sérfræðingar hjá VIRK völdu í hópana. Áður fór fram ákveðið mat á einstaklingum hjá VIRK og einnig hér – inntökuviðtöl. Við matið var skoðað hvort viðkomandi ætti erindi inn í svona hóp. Ef svo var var honum boðið að taka þátt ef hann hafði áhuga. Árangur þeirra hópa reyndist góður og því erum við að halda áfram. Það hefur gengið ágætlega að safna í nýja hópa.“
Þurfa sálfræðingar að aftengja sig eigin minningum við aðstæður sem þessar?
„Hver og einn tengir við mismunandi reynslu. Hjá sálfræðingi er þetta að vissu leyti eins og að ganga inn í hlutverk. Að sjálfsögðu finnur maður til með fólki sem á að baki erfiða æsku en mitt hlutverk er að reyna að hjálpa einstaklingum og ég geri það ekki ef ég fer inn í sorgina með þeim. Sem sálfræðingur hefur maður uppi það hugarfar að vera ljósið í myrkrinu. Í þessu starfi þarf að hafa fræðin í forgrunni.“
Markmiðið að draga úr áhrifum erfiðra æskuára
Styðjið þið ykkur við erlenda fyrirmynd í svona námskeiði?
„Þetta námskeið var í upphafi byggt upp hjá Oxford Cognitive Therapy Center í Bretlandi og ætlað átján ára fólki og eldra sem hefur upplifað þungbær áföll í æsku og er að takast á við langvarandi sálrænan vanda. Í gegnum árin hefur verið byggt á fagþekkingu og gagnreyndum áfallamiðuðum aðferðum hugrænnar atferlismeðferðar (HAM). Einnig því sem þátttakendur námskeiðs hafa sagt og faglegri þekkingu þeirra meðferðaraðila sem hafa séð um námskeiðið hverju sinni. Þetta hefur komið meðferðinni í það form sem hún er í núna. Það hefur verið slípað til, bæði erlendis og hér.
Sem dæmi munum við á næsta námskeiði nýta okkur þá þekkingu sem við öðluðumst á síðasta námskeiði þar sem eingöngu voru þjónustuþegar frá VIRK. Eitt af því sem þátttakendur á báðum fyrrgreindu námskeiðum nefndu var að þeir vildu hafa einstaklingstíma um miðbik meðferðar. Næsta námskeið verður því átján meðferðartímar og einn einstaklingstími. Í einstaklingstímunum mun fólkið fara dýpra í sín mál en í hópmeðferðinni. Ræða atriði sem það vildi ekki endilega tala um í hópnum – skoða líðan sína og sýn á æskuna og afleiðingar hennar. Hópurinn vinnur saman við ákveðna hluti og því ekki hægt að einblína á aðstæður hvers og eins. En ef þátttakandi fær einstaklingstíma þá er sjónarhornið á honum í fimmtíu mínútur. Við tökum mest tíu manns í hóp sem tveir sálfræðingar sjá um. Tímarnir eru 90 mínútur í senn, tvisvar í viku.“
Vinnið þið verkefni í þessari meðferð?
„Já. Fólkið gerir verkefni eftir hvern meðferðartíma. Markmið meðferðarinnar er að draga úr áhrifum erfiðrar æsku á daglegt líf þátttakenda og aðstoða þá við að þróa uppbyggileg bjargráð. Við byrjum meðferðina á að lýsa því hvernig hún á að ganga fyrir sig en bjóðum jafnframt uppá að breyta röð viðfangsefna ef ástæða þykir til. Við erum einnig með matslista í hverjum tíma. Við skilgreinum líka ákveðnar hópreglur þar sem hópurinn ákveður hvernig reglur hann vill setja varðandi samveruna í hóptímum.
Við leggjum ríka áherslu á að enginn þarf að tala meira en hann vill. Okkur finnst skipta gríðarlegu máli að umhverfið sé öruggt. Í lok hvers tíma er hverjum og einum velkomið að eiga orð við okkur fagaðilana ef þörf krefur. Sumir þátttakendur eru auðvitað opnari en aðrir en það tekur tíma fyrir fólk að átta sig hvert á öðru. Fljótlega myndast þó góð samheldni í hópunum. Það sama hefur gerst í hópum þar sem hafa verið þátttakendur sem ekki hafa komið frá VIRK.“
Er einhver munur á hópum sem koma frá VIRK og öðrum þátttakendum?
„Þeir sem koma frá VIRK eru allir í starfsendurhæfingu. Greinilega var töluverður léttir fyrir það fólk að byggja á sama grunni. Fyrr en varði myndaðist sameiginleg stemning í hópnum, skilningur og samkennd ríkti milli fólks. Því leið vel að finna að það er ekki eitt í heiminum. Í hópum hjá okkur núna eru einungis þjónustuþegar VIRK.“
Hvað er helst að hrjá þá sem koma á áfalla-HAM námskeið hjá ykkur?
„Þungbær reynsla í æsku veldur því oft að fólk finnur fyrir skömm og sjálfsmatið getur verið bágborið. Þá er oft erfitt fyrir fólk að vera ekki á vinnumarkaði. Íslendingar spyrja yfirleitt hvern annan: „Hvað gerir þú?“ – Eins og það sé mælikvarði á okkar persónulegu gæði. Það er berskjaldandi að ganga inn í hóp og vera með erfiða sögu að baki, en á námskeiðunum sem við höldum í samstarfi við VIRK er sameiginlegur grunnur og sameiginleg reynsla.“
Hvaða einstaklingum hentar þetta námskeið?
„Þetta námskeið er fyrir fólk sem hefur hlotið áföll eða erfiða lífsreynslu í æsku af ýmsu tagi og glímir við hamlandi áhrif þess á fullorðinsárum – svo sem líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi, ástvinamissi, einelti, erfiðum heimilisaðstæðum eða hafa búið við einhvers konar aðrar bágbornar aðstæður eða vanrækslu.“
En hvernig getur svona meðferð hjálpað fólki í starfsendurhæfingu?
„Þetta er góð spurning en svarið er flókið. Flest höfum við gott af því að þekkja okkur sjálf aðeins betur og margir að efla sjálfsmynd sína. Miðað við svörin sem gefin voru á matslistum í fyrri rannsóknarhópum þá batnaði sjálfsmynd fólks á námskeiðinu og það skildi betur af hverju það bregst við eins og það gerir á fullorðinsárum. Við sáum athugasemdir einsog: „Palli er ekki lengur einn í heiminum – núna skil ég hvað kom fyrir mig og af hverju ég er svona – ég er ekki sú klikkaða lengur – eða skrýtna.
Þeir sem hafa gengið í gegnum erfiða reynslu í æsku skilja ekki endilega afleiðingarnar til fulls. Þolendur eru gjarnan viðbrigðnir og geta jafnvel átt í erfiðum samskiptum við aðra því þeir eiga erfitt með traust. Allt getur þetta átt sér ákveðna skýringu í sögulegu samhengi.“
Skoðum í rannsóknum hvað virkar
Hvernig hjálpar þetta námskeið fólki að fara út á vinnumarkaðinn?
„Með því að skilja sjálft sig betur, líðan sína og viðbrögð og setja í samhengi getur fólk lært að takast á við vanda sinn á annan hátt og höndla líðan sína betur. Við það getur sjálfsmyndin aukist og fólk þá treyst sér fremur út á vinnumarkaðinn aftur, ýmist í sitt gamla starf, eða í meira krefjandi starf en áður og sumir taka jafnvel það skref að breyta um starfsvettvang.
Við höfum sem fyrr sagði gert rannsóknir á tveimur hópum og auk VIRK voru þar með okkur tveir mastersnemar frá Háskólanum í Reykjavík. Niðurstöður þeirra rannsókna lofuðu góðu og nú viljum við halda áfram, það er Áfalla- og sálfræðimiðstöðin í samstarfi við VIRK. Þar hugsum við okkur að nýta þær niðurstöður sem fengust í fyrrgreindum námskeiðum. Ég var og er ábyrgðarmaður þessara rannsókna og við viljum safna frekari gögnum til að sjá hvort þessi meðferð sé í raun að bera árangur í starfsendurhæfingu. Skoða hvað virkar og hvað má bæta. Í hinni fyrirhuguðu nýju rannsókn ætlum við meðal annars að skoða hvort einstaklingsviðtölin geti jafnvel gefið okkur enn betri niðurstöðu.“
Samstarf okkar við VIRK hefur gengið mjög vel og rannsóknin sem við gerðum með VIRK og mastersnemunum gaf þýðingarmiklar upplýsingar um hvað í okkar meðferð er að virka.
Hvernig eru svona námskeið byggð upp?
„Í fyrstu tímunum erum við mikið í að byggja upp færni en þegar frá líður förum við í þyngri málefni. Þetta er því samvinna og svo heimavinna á milli tíma. Markmiðið er að draga úr hamlandi áhrifum þungbærrar lífsreynslu í æsku og gefa fólki tæki og tól til að takast á við framhaldið og loks að „skila skömminni“. Eitt af því sem við til dæmis gerum á námskeiðunum er að tala um sorg. Mörgum fannst það gagnlegt á fyrri námskeiðum – það að geta syrgt æsku sem aldrei var – syrgt barnið sem aldrei fékk að blómstra. Sorgin og skömmin yfir því að lífið hafi verið svona í æsku getur verið gríðarlega mikil en fólk áttar sig ekki alltaf á tengingunni nema í svona samtali.
Skömmin og forðunin getur valdið því að fólk áttar sig ekki á því að á þessu skeiði var viðkomandi bara barn og ábyrgðin var ekki þess. Það er áhugavert, eins mikið og við höfum talað um áföll, þá kemur alltaf upp í þessum hópum sem ég hef verið með þessi setning: „Já – ég hef bara ekki áttað mig á þessu!“. Okkur finnst ýmislegt rökrétt þegar við horfum á aðra en sjáum hið sama hjá okkur ekki fyrr en við lítum inn á við og náum að setja æskuna í samhengi. Fólk er kannski orðið vant því að telja sig ómögulegt, að það hafi á einhvern hátt verið „rangt“. Barn sem elst upp við að ekki er hlúð að því, hefur verið beitt ofbeldi eða lagt í einelti – hvernig á það að fá þá hugmynd um sjálft sig að það sé mikils virði?
Sem betur fer ná flestir bata eftir áföll, en þegar þau eru langvarandi, eins og þegar um er að ræða flókna áfallastreituröskun, þá er þetta orðið víðtækara. Hvernig börn taka áföllum fer eftir aldri og ýmsum aðstæðum. Við erum með mjög færa barnasálfræðinga hér á landi en það er spurning hvort nógu fljótt sé gripið inn í, hvort samfélagið sé nægilega vakandi. Og svo eru það tilvikin þar sem börn átta sig ekki á ofbeldinu eða segja ekki frá og fá þar af leiðandi enga hjálp – þau þurfa þá gjarnan að vinna úr áföllum æskuáranna á fullorðinsárum. Það koma alltaf einhverjir úr öllum þessum hópum á svona námskeið.“
Mikilvæg stefna VIRK að auka rannsóknir
Nú er VIRK að stórefla rannsóknir í samráði við þjónustuaðila. Hvernig líst þér á þá stefnu?
„Mér finnst þetta gríðarlega mikilvæg stefna. Samstarf okkar við VIRK hefur gengið mjög vel og rannsóknin sem við gerðum með VIRK og mastersnemunum gaf þýðingarmiklar upplýsingar um hvað í okkar meðferð er að virka. Þar gafst okkur líka tækifæri til þess að líta inn á við og efla starfsemi okkar. Við viljum starfa á faglegum grunni og byggja á gagnreyndum aðferðum. Komast að því hvað þátttakendum finnst gagnlegt og þannig hvað sé að bera árangur.“
Sjáið þið fyrir ykkur svona rannsóknarstarf í auknum mæli?
„Já, við höfum þegar sótt um styrki til frekari rannsókna og erum með fleiri meðferðarúrræði sem okkur langar að skoða með íslensku þýði og sem gæti líka gagnast fólki sem er í starfsendurhæfingu. Fjöldi úrræða eru í boði hér á landi en við verðum að vita hvort þau eru hjálpleg og það fáum við ekki að vita nema með faglegum rannsóknum.“
Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir