Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi
Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi
Elísa Kristinsdóttir ráðgjafi hjá VIRK
Elísa kemur til dyra þegar blaðamaður sækir hana heim til þess að ræða um Ung VIRK, þjónustuleið hjá VIRK sem sótt hefur í sig veðrið undanfarið og mælst vel fyrir.
„Sumir sem til mín koma í Ung VIRK vita að ég er hlaupari og vilja ræða það, en aðrir hafa ekki hugmynd um þetta. Hitt er annað að ég tel að reynsla mín sem íþróttamanneskja gagnist í mínu starfi fyrir VIRK – ég veit hve mikils virði aginn er. Ég ræði því óhikað þessa reynslu mína. Erfitt er stöku sinnum að meta hversu langt á að ganga til þess að veita fólki innblástur en víst er að það hafa nokkrir byrjað að hlaupa út frá upplýsingum frá mér og ég er mjög ánægð með það.
Ég legg mikið upp úr hreyfingu, ég vil að allir sem eru í þjónustu hjá mér stundi hreyfingu af einhverju tagi. Þess vegna skoða ég vel hjá öllum hvar þeirra áhugamál liggja á því sviði. Það er fullt af góðum þjónustuaðilum sem bjóða upp á hreyfingu af ýmsu tagi. Það er mikilvægt að það sé einhver hreyfing, hvort sem það eru stuttar göngur, hlaup, sund eða ræktin, svo eitthvað sé nefnt,“ segir Elísa og býður upp á kaffi.
Þegar leitað er upplýsinga um Ung VIRK verkefnið segir Elísa það hafa verið sett á fót hjá VIRK með það að markmiði að auka atvinnu- og eða námsþátttöku hjá ungu fólki.
Við leggjum helsta áherslu á að aðstoða fólk við að komast í vinnu eða nám með því að vinna með þær hindranir sem fólk er að glíma við þegar það kemur til VIRK.
„Í byrjun árs 2019 var sett af stað samstarfsverkefni um bætt lífskjör og lífsgæði ungs fólks með skerta starfsgetu á vegum félagsmálaráðuneytisins, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Tryggingastofnunar ríkisins, velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, Vinnumálastofnunar og VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs.
Ákveðið var að markmið verkefnisins væri að hækka virknihlutfall ungs fólks á aldrinum 16 til 29 ára með aukinni samvinnu þjónustukerfa á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Elísa.
Á hvað leggið þið sem vinnið við Ung VIRK helst áherslu?
„Við leggjum helsta áherslu á að aðstoða fólk við að komast í vinnu eða nám með því að vinna með þær hindranir sem fólk er að glíma við þegar það kemur til VIRK. Það er þétt utanumhald um þessa einstaklinga, Ung VIRK er í stanslausri þróun og við erum ávallt að reyna að finna leiðir til þess að þjónusta þennan mikilvæga hóp betur.
Einstaklingum á einhverfurófi hefur fjölgað í Ung VIRK hópnum á undanförnum árum og og hefur VIRK lagt aukna áherslu á sérhæfð úrræði fyrir þennan hóp. Til dæmis er lögð sérstök áhersla á þróun úrræða fyrir einstaklinga á einhverfurófinu í styrkveitingum VIRK þetta árið.“
Vann áður hjá Félagsþjónustunni í Reykjavík
Hvenær fórst þú að vinna hjá VIRK?
„Ég hóf störf hjá VIRK í ágúst 2023. Ég hafði heyrt góða hluti um VIRK og mig langaði að breyta til. Áður hafði ég unnið hjá Félagsþjónustunni í Breiðholti og þar áður í Grafarholti. Ég er félagsráðgjafi að mennt og langaði alltaf til að vinna með börnum og ungu fólki. Einstaklingar innan átján ára eru samkvæmt lögum enn börn og sum þeirra eru illa stödd, andlega og félagslega, eru að koma úr neyslu, glíma við einangrun og hafa kannski ekki lokið skólanámi sem skyldi.
Við hjá Ung VIRK viljum efla þennan hóp, koma honum í nám eða vinnu. Sumir koma úr erfiðum félagslegum aðstæðum en það er þó ekkert algilt. Gert er ráð fyrir að kominn sé stöðugleiki í líf þeirra einstaklinga sem hafa verið í einhverri neyslu þegar þeir koma í endurhæfingu. En ef leikur grunur á að fólk sé í neyslu þá þarf það að skila inn fíkniefnaprófi.“
Nýtist bakgrunnur þinn vel í þessu starfi?
„Já, sérstaklega starfið í Félagsþjónustunni. Margir sem þangað komu áttu erfitt og glímdu við félagslega erfiðleika. Til að ná að sinna sínu daglega lífi, ná betri heilsu eða árangri í einhverju þá skiptir góð skipulagning og ákveðinn agi alltaf miklu máli.
Það þarf líka að passa upp á næringu, svefn og hreyfingu. Við ræðum þennan lífsstíl hjá Ung VIRK. Búum til ramma utan um það sem gera skal. Bara það að labba hringinn í kringum húsið getur verið virkilega gott fyrsta skref í átt að skipulegri hreyfingu.
Margt fólk sem til okkar leitar er haldið kvíða og þunglyndi. Það markar þennan hóp töluvert. Þess vegna er mikilvægt að grípa inn í sem fyrst. Eigi að síður þurfa þau sem hingað leita að fara í gegnum sama ferli og allir aðrir; heimilislæknir sækir um, beiðni er afgreidd af inntökuteymi hjá VIRK.
Ef beiðnin er samþykkt þá fer viðkomandi til ráðgjafa. Við erum nokkrar sem erum ráðgjafar hjá Ung VIRK teyminu. Við hittum viðkomandi mjög reglulega fyrstu vikurnar og heyrum í þeim líka í síma, athugum hvernig gengur og gefum þeim greiðan aðgang að okkur.“
Hef ekki of þétt prógramm í byrjun
Hvernig telur þú að best sé að koma fram við ungt fólk í þessari stöðu?
„Ég er ákveðin en ber alltaf virðingu fyrir þeim, reyni að mæta þeirra þörfum eins vel og hægt er. Sé einstaklingur að koma úr mikilli einangrun og hefur lítið sem ekkert verið inni í samfélaginu, er mikilvægt að fara ekki of geyst af stað.
Það er frábært þegar fólk í slíkri stöðu snýr sér til VIRK og við reynum allt sem við getum til að hjálpa þeim að komast á betri stað í lífinu.
Hins vegar legg ég mikla áherslu á að þjónustuþegi mæti í þau úrræði sem við í sameiningu höfum skráð hann í. Það er oft erfitt og krefst hugrekkis að mæta, en allt verður auðveldara með tímanum. Ég legg því áherslu á að hafa ekki of þétt prógramm í byrjun. Byrja gjarnan á að senda viðkomandi til sálfræðings, það getur verið stórt og krefjandi skref. En flestir þessir einstaklingar hafa staðfastan vilja og löngun til að komast út úr þeirri einangrun sem þeir eru í og ná bata, fara í nám eða fá vinnu.“
Hvers vegna einangrast fólk svona?
„Sumir einangrast heima við tölvuna, aðrir hafa orðið fyrir miklu einelti í grunnskóla og einangra sig í kjölfarið á því. Einnig eru sumir mjög hræddir við höfnun. Það er mikilvægt að vinna með þessa þætti. Það er frábært þegar fólk í slíkri stöðu snýr sér til VIRK og við reynum allt sem við getum til að hjálpa þeim að komast á betri stað í lífinu.
Fólk þarf að stefna annað hvort á nám eða vinnu þegar það kemur til VIRK. Í sambandi við nám höfum við gott úrræði, sem er Hringsjá símenntun, sem aðstoðar fólk við nám. Þar getur fólk látið meta kunnáttu sína og fengið aðstoð við framhaldsskólanám. Þar er unnið þverfaglegt og gott starf.
Hvað atvinnu snertir þá hjálpa IPS-atvinnulífstenglar hjá VIRK einstaklingum við gerð ferilskráa, kynningarbréfs, undirbúa fyrir atvinnuviðtöl, aðstoða með Alfreð-prófíl, fara með í atvinnuviðtöl ef þjónustuþeginn vill það og veita eftirfylgni inn í vinnu. Við leggjum áherslu á snemma í ferlinu að tengja við IPS-atvinnulífstengil (Individual Placement and Support). Rannsóknir hafa sýnt að því fyrr sem fólk kemst út á vinnumarkað því farsælli verður ferill þess.“
Vinnan mín er fjölbreytt og gefandi
Hvernig gengur að fá störf fyrir einhverft fólk?
„Það gengur ekkert síður en fyrir aðra einstaklinga, en mikilvægt er að finna starf sem hentar viðkomandi. Það er hægt að fara í svokallaðar vinnuprófanir og oft á tíðum fær einstaklingur vinnu í kjölfar þess. Þjónustuþegar okkar fara í ýmis störf í samfélaginu.“
Hentar kannski betur fyrir fólk almennt að fara í vinnu frekar en í nám?
„Allur gangur er á því. En vissulega passar betur fyrir suma að fara beint út á vinnumarkaðinn. Svo kemur kannski að því að fólk fer í nám síðar.“
Hefurðu einhverja sérstaka tækni til að fá fólk til að opna sig í fyrsta viðtalinu?
„Ég hef lært viðtalstækni og beiti henni. Ég legg mikið upp úr að vera hress í bragði, hlýleg og láta fólk finna að það sé velkomið. Einnig að viðkomandi hafi samband við mig ef hann er ósáttur við eitthvað sem við leggjum til. Ég tek á móti fólki í húsakynnum VIRK í Borgartúni, allt að sex einstaklingum á dag.“
Hvaða áhrif hefur þetta starf á þig sjálfa?
„Sum mál fá meira á mann en önnur. Ef ég finn að eitthvað er mér verulega þungt þá fæ ég aðstoð með handleiðslu. Það er mikilvægt að nýta handleiðslu til að halda út í starfi. En vinnan mín er fjölbreytileg og gefandi og ég er mjög ánægð að starfa hjá VIRK.“
Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Myndir: Lárus Karl Ingason, Sportograf
Viðtalið birtist í ársriti VIRK 2025.