Fara í efni

Stöðug þróun og góður árangur

Til baka

Stöðug þróun og góður árangur

Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK

 

Á þessu ári eru 15 ár síðan VIRK var stofnað. Samið var um stofnun og fjármögnun VIRK í kjarasamninngum fyrri hluta árs 2008 og þá undir nafninu „Endurhæfingarsjóður“. Síðar var nafninu breytt í „VIRK-Starfsendurhæfingarsjóður“ og oftast notum við eingöngu við nafnið „VIRK“.

Ég kom til starfa 15. ágúst 2008 og var þá fyrsti fastráðni starfsmaður VIRK. Gengið var frá ráðningu minni fyrr um sumarið og áður en ég hóf störf í ágúst fór ég í ferðalag til Svartfjallalands þar sem ég gekk um fagra náttúru og gat þá í ró og næði hugsað um þau nýju skref sem ég var að taka á mínum starfsferli.

Ég flaug á milli staða og í einni af þeim ferðum fannst mér ég þurfa að skrá niður eitthvað af hugsunum mínum og það eina sem ég hafði til að skrifa á voru ælupokarnir í flugvélinni. Þannig voru fyrstu hugmyndir mínar um uppbyggingu á VIRK skráðar á ælupoka frá Croatia Airlines, sjá mynd 1, og þá hafði ég í fórum mínum þegar ég mætti til starfa þann 15. ágúst 2008.

Ég fékk síðan í hendurnar skipulagsskrá fyrir Endurhæfingarsjóð og þáverandi forseti ASÍ og starfsmenn ASÍ tóku vel á móti mér og lánuðu mér eina skrifstofu í Guðrúnartúni 1. Á fyrstu dögunum setti ég niður fyrstu hugmyndir að framkvæmdaferli þar sem starfsemin var undirbúin og því ferli var fylgt fyrstu mánuðina, sjá mynd 2.

Þetta var upphafið á miklu ævintýri, verkefnum og tækifærum sem mig hefði í raun aldrei órað fyrir að gætu beðið mín á mínum starfsferli. Frá því að hefja störf ein og fá lánaða eina skrifstofu í Guðrúnartúni 1 hefur VIRK þróast í að vera stofnun sem hefur haft jákvæð áhrif á líf tugþúsunda einstaklinga.

Samkvæmt könnun Maskínu á árinu 2022 þá telja 81% landsmanna VIRK hafa mikla þýðingu fyrir íslenskt samfélag og um 8% einstaklinga hér á landi hafa notið þjónustu VIRK. Einnig kom það fram í könnun Maskínu að 6 af hverjum 10 einstaklingum hér á landi þekkja einhvern sér nákominn sem hefur verið í þjónustu VIRK.

Til viðbótar við þetta má síðan nefna eftirfarandi staðreyndir:

  • Um 21 þúsund einstaklingar hafa komið til VIRK undanfarin 15 ár og sumir oftar en einu sinni. Þannig eru skráðir um 25 þúsund starfsendurhæfingarferlar í upplýsingakerfi VIRK.
  • Undanfarin ár hafa um 2.200-2.600 einstaklingar verið í þjónustu VIRK á hverjum tíma.
  • Hjá VIRK starfa um 110 starfsmenn og ráðgjafar sem halda utan um mál einstaklinga og tryggja að allir njóti góðrar þverfaglegrar þjónustu. Starfsemi VIRK og þjónusta er á mörgum stöðum á höfuðborgarsvæðinu og um allt land.
  • Um 500 fagaðilar um allt land selja VIRK þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar. Tilvist VIRK hefur orðið til þess að efla og stuðla að nýjungum hjá mörgum þessara þjónustuaðila sem gagnast mun fleirum en þjónustuþegum VIRK.
  • 8 af hverjum 10 einstaklingum sem ljúka þjónustu hjá VIRK eru í einhverri virkni í lok þjónustu, annað hvort í vinnu, námi eða í atvinnuleit.
  • 90% einstaklinga sem ljúka þjónustu VIRK eru ánægðir með þjónustuna samkvæmt niðurstöðum þjónustukönnunar.
  • VIRK hefur stuðlað að mikilli faglegri þróun á sviði starfsendurhæfingar hér á landi í samstarfi við fagfólk bæði hérlendis og erlendis. Starfsendurhæfingarferill VIRK er þverfaglegur og ICF flokkunarkerfið er nýtt til að tryggja heildarsýn í gegnum allan ferilinn. VIRK er eina stofnunin hér á landi sem hefur innleitt ICF flokkunarkerfið inn í bæði upplýsingakerfi og allan þjónustuferil sinn.
  • Upplýsingakerfi VIRK heldur utan um þjónustuferil hvers einstaklings sem kemur til VIRK. Kerfið heldur utan um þjónustuferil allra einstaklinga í þjónustu, gefur einstaklingum tækifæri til að fylgjast með sínu máli í gegnum „Mínar síður“ og tryggir örugg og rafræn samskipti ólíkra aðila sem koma að þjónustunni. Úr upplýsingakerfinu er síðan hægt að vinna tölfræði til að meta bæði framgang og árangur.
  • VIRK er með ISO 9001 gæðavottun, ISO 27001 upplýsingaöryggisvottun og IST 85 2012 jafnlaunavottun á starfsemi sinni. VIRK er ein af mjög fáum, eða hugsanlega sú eina af stofnunum velferðarkerfisins, sem hefur náð þessum gæðavottunum á allri starfsemi sinni.
  • Frá því að hafa byrjað í einni skrifstofu til láns þá er starfsemi VIRK nú í eigin húsnæði í Borgartúni 18. Þetta húsnæði er gott og vel staðsett og hentar starfsemi VIRK einstaklega vel.

Þessi vegferð undanfarinna 15 ára hefur verið bæði skemmtileg og gefandi en líka stundum krefjandi og þroskandi. Ekkert af þeim störfum og verkefnum sem ég hef tekist á við á mínum starfsferli hefur kennt mér og þroskað mig eins mikið, bæði sem stjórnandi og manneskja. Menn tala oft um það að það sé erfitt að breyta innsta kjarna einstaklinga. Við séum jú bara eins og við erum og jafnvel þó við getum vissulega lært mikið og þróast í gegnum lífið þá breytum við ekki svo glatt okkar innsta kjarna, okkar gildismati og hugmyndum um lífið og tilveruna.

Ég hef samt stundum hugsað um það og einstöku sinni haft það á orði að það að byggja upp VIRK hefur þróað mig mikið sem manneskju og í raun breytt mér meira en önnur þau verkefni sem ég hef tekist á við á mínum starfsferli.

Starfsemi VIRK er flókin og krefst samstarfs við flestar stofnanir velferðarkerfisins. Verkefnið hefur því kallað á úrlausn margra flókinna og vandasamra áskorana bæði hvað varðar þjónustu og ferla og eins hefur það gert kröfu til innsæis og læsis á mismunandi menningu, sjónarmið og þarfir aðila vítt og breytt um landið. Það hefur einnig verið ómetanlegt að fá að vinna með öllu því frábæra fagfólki sem hefur starfað hjá VIRK í gegnum árin og af þeim öllum hef ég lært mjög mikið þar sem markmiðið hefur jú verið að þróa þjónustu sem getur tekið mið af margþættum og flóknum vanda einstaklinga þar sem sjaldan er allt sem sýnist.

Það sem hefur þó kannski þroskað mig mest er að fá innsýn inn í aðstæður og líðan þeirra einstaklinga sem leita til VIRK og að fá að heyra sögu þeirra til aukinnar vinnugetu og lífsgæða. Þessa innsýn hef ég t.d. fengið í gegnum þætti eins og þjónustukannanir, viðtöl og ýmsa rýnihópa þar sem markmiðið er að hlusta á sögur einstaklinga til að bæta þjónustuna. Það hefur verið ómetanlegt að fá innsýn inn í líf fólks sem oft hefur haft vindinn í fangið allt lífið og gengið í gegnum mikla erfiðleika og aðstæður en nær samt sem áður að byggja sig upp til aukinna lífsgæða og þátttöku í samfélaginu.

Í þessu samhengi er svo mikilvægt að við dæmum aldrei og séum meðvituð um það að það er aldrei neinn einn sannleikur, hlutirnir eru oft öðruvísi en við höldum og við þurfum því að vera reiðubúin til þess að mæta einstaklingum þar sem þeir eru staddir hverju sinni á þeirra eigin forsendum.

Fjöldi í þjónustu og þróun á árinu 2022

Fjöldi einstaklinga í þjónustu hjá VIRK hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin ár. Algengur fjöldi á hverjum tíma er um 2400 einstaklingar. Covid hefur ennþá ekki haft afgerandi áhrif á fjölda í þjónustu en þó er aðeins að fjölga þeim einstaklingum í þjónustu VIRK sem glíma við langvarandi afleiðingar Covid veikinda. Það bendir einnig margt til þess að það muni í heild sinni fjölga einstaklingum í þjónustu á árinu 2023. Umsóknir um þjónustu hafa verið mjög margar fyrstu mánuði ársins og aukið samstarf við bæði Vinnumálastofnun, Landspítalann og geðheilsuteymi heilsugæslunnar gæti haft áhrif til fjölgunar í þjónustu VIRK þegar líður á árið.

Í ársriti VIRK og vefsíðu VIRK er hægt að finna ýmsa tölfræði um þróun á þjónustunni undanfarin ár svo sem um þróun á fjölda, menntunarstigi og aldri. Þessa tölfræði er áhugavert að skoða en hafa þarf í huga að breytingar í tölfræði geta skýrst af mörgum þáttum og stundum er um að ræða ytri þætti sem VIRK hefur ekki stjórn á.

Meðaltími í þjónustu hjá VIRK hefur farið lækkandi undanfarin ár sem er jákvæð þróun og í takt við bæði stefnumótun innan VIRK sem og rannsóknir og reynslu hérlendis og erlendis sem benda til þess að lengri tími í starfsendurhæfingu skili ekki endilega betri árangri. Það skiptir mun meira máli að ferillinn sé bæði faglegur og markviss og taki að sjálfsögðu mið af þörfum hvers og eins einstaklings í þjónustu.

Þegar aldursdreifing einstaklinga sem byrjuðu í þjónustu undanfarin ár er skoðuð kemur í ljós áhugaverð þróun hvað varðar aldurshópinn 20-29 ára. Þar fækkar einstaklingum í þjónustu á meðan fjölgun á sér stað í eldri aldurshópum. Þessi þróun hefur verið skoðuð sérstaklega innan VIRK og í ljós kemur að fækkunin á sér einkum stað í hópi þeirra ungu einstaklinga sem eru oft í erfiðum félagslegum aðstæðum, með litla menntun og litla vinnusögu. Líklegasta skýringin á þessari fækkun er tilkoma geðheilsuteyma heilsugæslunnar um allt land.

Hjá geðheilsuteymunum býðst hluta af þessum hópi aukin geðheilbrigðisþjónusta sem er jákvæð þróun. Þetta getur haft þau áhrif að þessi hópur þurfi ekki á þjónustu VIRK að halda en þetta getur líka valdið því að þessi hópur komi seinna til VIRK og því sé um að ræða tímabundið ástand og það eigi síðar eftir að fjölga í þessum hópi. VIRK á í dag mjög gott samstarf við geðheilsuteymi um allt land og við höfum lagt okkur fram um að byggja brýr milli þjónustu VIRK og geðheilsuteymanna á þann hátt að einstaklingum sé tryggð viðeigandi þjónusta á hverjum tíma.

Aðstæður einstaklinga sem leita til VIRK

Einstaklingar sem leita til VIRK eru oft í erfiðum og flóknum aðstæðum. Þeir glíma oft á tíðum bæði við heilsubrest og ýmsan annan vanda sem getur verið bæði af félagslegum og fjárhagslegum toga. Einnig er ekki óalgengt að þjónustuþegar VIRK hafi gengið í gegnum erfiða lífsreynslu eða áföll af ýmsum toga. Hér fyrir neðan eru nokkur svör einstaklinga í þjónustukönnun VIRK þegar spurt var um ástæður þess að viðkomandi leitaði til VIRK, þessi svör eru um margt dæmigerð fyrir ýmsa hópa sem leita til VIRK:

Svör úr þjónustukönnun VIRK við spurningunni: Hvaða veikindi eða aðstæður urðu til þess að þú ákvaðst að sækja um starfsendurhæfingu hjá VIRK?

Mikil veikindi á heimili mínu (maki og sonur langveikir). Krefjandi vinna og eigin veikindi (stoðkerfi, gigt, kvíði og streita).

Á síðustu 10 árum barðist ég 2x við brjóstakrabbamein og meinvörp, hjartabilun og blóðtappa, margþætta áfallastreitu.

Mínar aðstæður voru að ég var ómenntuð á örorkubótum og mikið þunglynd, mig vantaði allan stuðning til að komast áfram t.d. í nám eða vinnu.

Mjög krefjandi fjölskylduaðstæður, m.a. veikindi og dauðsfall, flutningur milli landshluta, ný vinna, fósturbörn o.fl. Uppgjöf, lífsleiði og sjálfsvígshugsanir.

Kærði kynferðislega áreitni á vinnustað. Í kjölfarið breyttust allar aðstæður sem enduðu þannig að ég fór í veikindaleyfi og var mér þá sagt upp. Þessu fylgdi kvíði og þunglyndi sem undu upp á sig.

Langvarandi svefnvandi og tilheyrandi þreyta og heilaþoka. Mögulega hefur kvíði og jafnvel þunglyndi fylgt mér lengur en ég gerði mér grein fyrir og haft slæm uppsöfnuð áhrif. Við hjónin fórum líka illa út úr hruninu frá 2008 ..... og næstu ár á eftir reyndust okkur mjög erfið á ýmsa vegu.

Þunglyndi, kvíði og streita. Misnotkun í æsku. Lágt sjálfsmat, félagsleg einangrun.“

Það er algengt að einstaklingar sem leita til VIRK glími bæði við andlegan vanda og stoðkerfisvanda. Þetta má t.d. sjá á mynd 3 sem inniheldur upplýsingar um það hvernig einstaklingar meta eðli þess heilsubrests sem þeir glíma við þegar þeir leita til VIRK.

Heilsufarslegur vandi einstaklinga sem leita til VIRK er síðan oft margþættur og flókinn. Þetta kemur t.d. mjög skýrt fram í rannsókn sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði fyrir VIRK í samstarfi við sjúkrasjóði stéttarfélaga. Mynd 4 inniheldur upplýsingar úr þessari rannsókn. Þarna voru einstaklingar sem fá sjúkradagpeninga frá sjúkrasjóðum stéttarfélaga spurðir út í eðli veikinda sinna og þátttöku í starfsendurhæfingu hjá VIRK. Í ljós kom að þeir einstaklingar sem eru í starfsendurhæfingu hjá VIRK haka við fleiri sjúkdómaflokka og glíma frekar við andleg veikindi samanborið við þá sem ekki fóru í starfsendurhæfingu. Nánari umfjöllun um þessa rannsókn má finna á bls. 84 í ársriti VIRK 2023 og hér á vef VIRK.

Fjárhagsleg staða einstaklinga sem leita til VIRK er oft á tíðum erfið. Þannig telja um 40% þjónustuþega VIRK sig eiga erfitt með að ná endum saman samanborið við 11% almennings. Um helmingur þeirra einstaklinga sem leita til VIRK telja að fjárhagsstaða fjölskyldu sinnar sé verri en fjárhagsstaða annarra fjölskyldna á Íslandi, þetta má sjá á mynd 5.

Mikilvægi vinnu

Þó einstaklingar sem leita til VIRK glími oft við margþættan heilsubrest og flókinn vanda þá telja þeir almennt mjög mikilvægt að vera í vinnu og atvinnuþátttaka skiptir þá miklu máli. Mynd 6 sýnir svör einstaklinga sem leitað hafa til VIRK og mat þeirra á mikilvægi þess að vera í vinnu en samkvæmt henni þá skiptir atvinnuþátttaka miklu máli í öllum aldurshópum. Þetta er í takt við reynslu og upplifun bæði ráðgjafa og sérfræðinga VIRK. Þrátt fyrir að einstaklingar sem leita til VIRK glími við margþættan og flókinn vanda þá er vinnumarkaðsþátttaka þeim mjög mikilvæg og með þátttöku í þjónustu VIRK þá stefna þeir markvisst að því að auka þátttöku sína og lífsgæði.

Góður árangur VIRK á árinu 2022

Sjá má í umfjöllun og gögnum hér að framan að einstaklingar sem leita til VIRK glíma oft við flókinn og erfiðan vanda. En þrátt fyrir það þá hafa þeir mikinn vilja til að auka þátttöku sína á vinnumarkaði og flestir einstaklingar sem ljúka þjónustu hjá VIRK ná miklum árangri í starfsendurhæfingu og ná að verða aftur virkir þátttakendur á vinnumarkaði.

Árangur af starfsemi VIRK á árinu 2022 var mjög góður og 85% einstaklinga sem luku þjónustu hjá VIRK fóru að einhverju leyti í vinnu, í atvinnuleit eða í nám við útskrift. Þetta hlutfall hefur aldrei verið svona hátt en það hefur oftast verið í kringum 79%. Aðrir mælikvarðar svo sem hlutfall stöðugilda með laun á vinnumarkaði benda einnig til þess að starfsemi VIRK hafi skilað miklum árangri á árinu 2022.

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson heimsótti VIRK á vordögum 2023 og kynnti sér starfsemina.

Ástæður þessa góða árangurs eru margþættar. Nefna má gott ástand á vinnumarkaði en einstaklingum sem ljúka þjónustu VIRK hefur gengið betur að finna vinnu við lok þjónustu. Einnig er rétt að benda á það að hærra hlutfall einstaklinga sem kom til VIRK á árinu 2022 var ennþá á veikindalaunum hjá atvinnurekanda og því enn með vinnusamband við upphaf þjónustu sem bendir til þess að hærra hlutfall einstaklinga kemur fyrr til VIRK samanborið við fyrri ár. Almennt næst betri árangur í starfsendurhæfingu ef einstaklingar koma fyrr í þjónustu og ná að halda vinnusambandinu á meðan þeir eru í þjónustu. Í ársriti VIRK má sjá yfirlit yfir ýmsa árangursmælikvarða á starfsemi VIRK.

Rannsóknir og þróun

Hjá VIRK er lögð mikil áhersla á faglega þróun og rannsóknir sem styðja við hana. Auk þess hefur VIRK bæði haft frumkvæði að og styrkt rannsóknir á sviði forvarna með það að markmiði að benda á aðferðir og leiðir sem geta komið í veg fyrir að einstaklingar þurfi á starfsendurhæfingu að halda. Hér aftar í ársritinu - og á vef VIRK -  er fjallað um ýmsar rannsóknir sem VIRK hefur komið að í samstarfi við bæði fagaðila og sjúkrasjóði víða um landið. Þetta er þó aðeins brot af þeim verkefnum sem VIRK tekur þátt í.

Innan VIRK er síðan stöðugt verið að leita leiða til að tryggja að þjónusta VIRK sé í takt við það sem best gerist bæði hérlendis og erlendis. Sérfræðingar VIRK eru duglegir að viðhalda þekkingu sinni og viða að sér þekkingu og reynslu víða að. Reglulega er síðan tölfræði innan VIRK rýnd með það í huga að greina ný tækifæri til þróunar og árangurs.

Þekkingarsetur um kulnun hjá VIRK

Þær Berglind Stefánsdóttir og Guðrún Rakel Eiríksdóttir sálfræðingar og verkefnastjórar hjá VIRK hafa frá árinu 2020 unnið að áhugaverðu rannsóknar- og þróunarverkefni um kulnun. Þetta verkefni er samstarfsverkefni VIRK og Háskólans í Reykjavík. Fyrstu niðurstöður er varða kulnun hjá þjónustuþegum VIRK út frá skilgreiningu WHO (Alþjóðaheilbrigðismál astofnunarinnar) hafa þegar verið kynntar og hafa vakið mikla athygli. Þar hefur m.a. komið í ljós að á meðan um 57% þeirra sem sækja þjónustu VIRK telja sig vera með einkenni kulnunar á árinu 2022 þá eru það aðeins um 6% þjónustuþega sem falla undir skilgreiningu WHO á kulnun þar sem kulnun er skilgreind sem „.... heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á.....“. Þetta rannsóknar- og þróunarverkefni hefur meðal annars það markmið að þróa þjónustu VIRK þannig að við veitum öllum einstaklingum viðeigandi og árangursríka þjónustu út frá þeim aðstæðum sem þeir eru í hverju sinni. Markmiðið er einnig að hafa áhrif á umræðu um kulnun í samfélaginu þannig að hún verði í meira mæli fagleg og uppbyggileg.

Næsta skref í þessu verkefni er að gera rannsókn á kulnun á vinnumarkaði út frá skilgreiningu WHO og út frá þeim þáttum sem hafa verið notaðir í rannsókninni innan VIRK. Þessi rannsókn er í undirbúningi og verður framkvæmd á þessu ári í samstarfi við Háskólann í Reykjavík.

Það er óhætt að fullyrða að VIRK er í dag í fararbroddi rannsóknar- og þróunarvinnu á fyrirbærinu kulnun hér á landi og ákveðið hefur verið að stofna „Þekkingarsetur VIRK um kulnun“ sem er undir stjórn ofangreindra verkefnastjóra hjá VIRK. Þetta þekkingarsetur mun leiða alla umræðu og þróa faglega þjónustu VIRK hvað varðar kulnun allt frá forvörnum til starfsendurhæfingar og atvinnutengingar. Markmiðið er að auka þekkingu, efla forvarnir, tryggja góða og faglega starfsendurhæfingarþjónustu og stuðla að faglegri og uppbyggilegri umræðu á þessu sviði í samfélaginu.

Verkefni VIRK á sviði forvarna

VIRK hefur hlutverk í forvörnum samkvæmt skipulagsskrá og hefur verið að efla þjónustu á því sviði undanfarin ár með ýmsum verkefnum, oft í samstarfi við aðrar stofnanir svo sem Vinnueftirlitið og Landlæknisembættið. Verkefni VIRK á þessu sviði hafa verið fjölbreytt og munu þróast og breytast til framtíðar eftir þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Í ársritinu - og á vef VIRK - er gerð nánari grein fyrir þeim forvarnaverkefnum sem voru í gangi á árinu 2022.

„Það má ekkert lengur“

Eitt af þeim verkefnum sem VIRK fór inn í af fullum þunga á árinu 2022 var mótun vitundarvakningar vegna kynferðislegrar áreitni á vinnustöðum en rannsóknir hafa sýnt að hér er um að ræða samfélagslegt mein sem getur haft slæm áhrif á líðan og vinnugetu þeirra einstaklinga sem verða fyrir slíku áreiti.

Vitundarvakningin „Það má ekkert lengur“ var unnin í samstarfi við auglýsingastofuna Hvíta húsið og óhætt er að segja að hún hafi slegið í gegn. Hún fékk tvo Lúðra á Ímark verðlaunahátíðinni í mars sl., var valin sem besta kvikmyndaða auglýsingin í flokki almannaheilla og vitundarvakningin var valin besta herferðin í sama flokki.

Í könnun sem EMC Rannsóknir gerðu fyrir VIRK kemur fram að vitundarvakningin vakti mjög mikla athygli og vakti fólk til umhugsunar um kynferðislega áreitni á vinnustöðum. Meðal niðurstaða úr þessari könnun voru að níu af hverjum tíu töldu að auglýsingin veki athygli á mikilvægu málefni og um 72% töldu hana líklega til að hafa jákvæð áhrif á vinnustöðum.

Niðurstaða heildarúttektar á starfsemi VIRK

Í lok ársins 2022 skilaði nefnd um heildarúttekt á þjónustu VIRK–Starfsendurhæfingarsjóðs skýrslu með niðurstöðum sínum til félags- og vinnumarkaðsráðherra. Heildarúttektin var framkvæmd samkvæmt bráðabirgðaákvæði laga nr. 60/2012 um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða.

Markmið úttektarinnar var að leggja mat á hvort framlögum til VIRK hafi verið ráðstafað með sem skilvirkustum hætti í þágu þeirra markmiða sem stefnt var að og að kanna hvort þjónusta VIRK hafi haft mælanleg áhrif á örorkubyrði lífeyrissjóða og almannatrygginga og nýgengi örorku.

VIRK gerði ýmsar athugasemdir við aðferðarfræði og framsetningu í úttektarskýrslunni en engu að síður er heildarniðurstaða skýrslunnar jákvæð fyrir VIRK. Engar af þeim ábendingum og athugasemdum sem nefndin kom með fólu í sér gagnrýni eða aðfinnslur varðandi það hvernig VIRK hefur ráðstafað fjárframlögum í þágu markmiðs laga nr. 60/2012. Meginumfjöllunarefni skýrslunnar er gagnrýni á skort á heildstæðu kerfi endurhæfingar og samstarfi milli kerfa auk gagnrýni á þau lög sem um atvinnutengda starfsendurhæfingu gilda. VIRK getur tekið undir hluta af þessum ábendingum og hefur lýst yfir vilja til að vinna með ráðuneytinu í að vinna úr þessari skýrslu eins og unnt er með það að markmiði að bæta heildar þjónustukerfið.

Skýrslan inniheldur marga jákvæða þætti er varða starfsemi VIRK. Í úrtaksrannsókn sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir nefndina kemur fram að 72% af þjónustuþegum VIRK sem ljúka þjónustu telja að starfsendurhæfingin hafi nýst þeim mjög vel. Almennt er mikil ánægja meðal þjónustuþega með þjónustu VIRK í þessari úrtaksrannsókn sem kemur m.a. fram í eftirfarandi niðurstöðum:

  • 85% telja að markmið starfsendurhæfingaráætlunar hafi verið unnin í samráði við sig
  • 76% telja að markmið starfsendurhæfingaráætlunar hafi verið unnin í samráði við getu sína
  • 87% telja að sér hafi verið mætt af virðingu í starfsendurhæfingunni
  • 84% telja að aðstæðum þeirra hafi verið sýndur skilningur í starfsendurhæfingunni
  • 78% telja að úrræði hafi verið valin í samræmi við þarfir sínar
  • 79% telja að haldið hafi verið vel utan um mál sitt í endurhæfingarferlinu

Einnig kemur fram að jafnvel meðal þeirra sem ekki luku starfsendurhæfingunni hafi viðhorfið verið jákvætt.

Í þessari heildarúttekt voru gögn úr gagnagrunni VIRK gerð ópersónugreinanleg með dulkóðun og keyrð saman við gögn frá lífeyrissjóðum. Einnig var í skýrslunni sérstaklega skoðuð þróun á örorku og endurhæfingu bæði hjá lífeyrissjóðum og Tryggingastofnun og er niðurstaðan eftirfarandi:

  • Mun fleiri hafa endurhæfst á árunum 2015-2019 en vænta mátti samkvæmt reynslu áranna 2000-2004 (áður en VIRK var stofnað).
  • Örorkubyrði hjá Tryggingastofnun á árunum 2015-2019 er 2,4% lægri en hún var á árunum 2000-2004 (áður en VIRK var stofnað).•
  • Örorkubyrði hjá lífeyrissjóðum hefur dregist talsvert saman eða um 13,7% milli tímabilanna 2000-2004 og 2015-2019.
  • Fram kemur í skýrslunni að hjá lífeyrissjóðum hafi aukin endurhæfing „náð að eyða áhrifum aukins nýgengis“. 

Um er að ræða jákvæða þróun sem felur í sér aukningu í endurhæfingu og minnkandi örorkubyrði. Þessi þróun hefur átt sér stað þrátt fyrir mikil efnahagsleg áföll og breytingar í samfélaginu, sem ættu alla jafna að hafa þveröfug áhrif. Hér má benda á það að íslenskt velferðarkerfi hefur í heild sinni gert sitt besta til að auka þátttöku og getu einstaklinga á þessu tímabili, þrátt fyrir oft erfiðar aðstæður.

Rétt er að taka það fram að þessa þróun má ekki einungis rekja til tilkomu VIRK. VIRK hefur ávallt bent á að starfsemi VIRK geti ekki ein og sér borið ábyrgð á nýgengi örorku. Á bakvið hana séu mun fleiri samverkandi þættir og flókið samspil þeirra. Engu að síður er afar ánægjulegt að sjá þessa jákvæðu þróun nýgengis örorku í útreikningum og rannsóknum sem nefndin lét framkvæma.

Upplýsingaöryggisvottun ISO 27001 á allri starfsemi VIRK

Í lok árs 2022 hlaut VIRK upplýsingaöryggisvottun ISO/IEC 27001:2013 á alla starfssemi sína. Þar með náðist markmið sem hafði verið sett í stefnumótun og var endapunktur á tæplega tveggja ára innleiðingu gæðakerfis um upplýsingaöryggi. Helstu niðurstöður voru þær að engin frávik fundust og að augljóslega væri unnið að stöðugum umbótum innan gæðakerfisins.

Það er mikilvægt fyrir stofnun eins og VIRK að vera með svona viðurkenningu og vottun því starfsemi VIRK krefst þess að vistaðar séu viðkvæmar persónuupplýsingar um einstaklinga í þjónustu.

Að hafa þessa vottun þýðir að VIRK er með traust gæðakerfi sem heldur utanum upplýsingaeignirnar og gerir allt til að tryggja öryggi upplýsinga og gagna í kerfinu og tryggja að öll starfsemin standist ýtrustu kröfur um persónuvernd.

Stefna, framtíðarsýn, þróun og breytingar

Á árinu 2019 var farið í mikla stefnumótunarvinnu hjá VIRK þar sem m.a. var mótuð eftirfarandi framtíðarsýn til ársins 2025:

  • Þjónustan er straumlínulöguð og þrepaskipt út frá vanda einstaklinga
  • Skilvirkt og öflugt samstarf er við fagaðila, vinnustaði, stéttarfélög, lífeyrissjóði og stofnanir um allt land
  • Almenn vitneskja er um ávinning af starfi VIRK og rétt einstaklinga til þjónustu hjá VIRK
  • Atvinnutenging VIRK stuðlar að auknum tækifærum á vinnumarkaði fyrir einstaklinga með heilsubrest
  • Forvarnaverkefni VIRK stuðlar að heilsusamlegu starfsumhverfi og eykur þannig þátttöku einstaklinga á vinnumarkaði
  • VIRK er fyrirmyndar vinnustaður þar sem lögð er áhersla á vellíðan og árangur starfsmanna.

Frá árinu 2019 hefur verið unnið markvisst að því að raungera þessa framtíðarsýn og gaman er að segja frá því að verulegur árangur hefur náðst í nær öllum þeim þáttum sem skilgreindir eru hér að framan. Á árinu 2023 hafa verið skilgreind forgangsverkefni út frá ofangreindri stefnumótun og fyrirhugað er næsta vetur að fara aftur af stað í stefnumótunarvinnu þar sem framtíðarsýn til næstu 5 ára verður mótuð. Á þann hátt er tryggt að starfsemi VIRK sé markviss og í samræmi við þá stefnu og framtíðarsýn sem stjórn og hagaðilar móta á hverjum tíma.

Stofnun eins og VIRK þarf að þróast áfram á markvissan hátt í samræmi við stefnu og framtíðarsýn en á sama tíma er einnig mikilvægt að stofnunin þróist í takt við síbreytilegar þarfir samfélagsins á hverjum tíma. Til að ná þessu þurfum við sífellt að endurskoða vinnulag okkar, hlusta á aðra og hafa auðmýkt, hugrekki og vilja til stöðugra umbóta og þróunar. Aðeins á þann hátt tryggjum við að VIRK þjóni þörfum samfélagsins á hverjum tíma og veiti einstaklingum árangursríka og góða þjónustu til framtíðar.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband