Fara í efni

Kulnun í starfi

Til baka
Berglind og Guðrún Rakel
Berglind og Guðrún Rakel

Kulnun í starfi

Berglind Stefánsdóttir og Guðrún Rakel Eiríksdóttir sálfræðingar og verkefnastjórar hjá VIRK

Inngangur

Haustið 2020 var sett af stað þróunarverkefni innan VIRK tengt kulnun (e.burnout). Upphaf verkefnisins má að mörgu leyti rekja til aukinnar umræðu um kulnun á vinnumarkaði, en sú umræða hefur verið töluverð síðastliðin ár. Á sama tíma hafa rannsóknir á þessu fyrirbæri aukist í stöðugum mæli í alþjóðasamfélaginu. Það hafa þó verið gríðarlega mismunandi áherslur í þessum rannsóknum og stuðst við ólíkar skilgreiningar á kulnun. Eins hafa mismunandi viðmið verið notuð þegar kemur að því að meta hvort um starfstengda kulnun sé að ræða. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) gefur út alþjóðlegt flokkunarkerfi sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála1,2. Samkvæmt WHO er skilgreining kulnunar eftirfarandi:

„Kulnun er heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á. Einkenni kulnunar eru á þrem víddum: 1) Orkuleysi eða örmögnun; 2) Andlega fjarverandi í vinnu, neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað; 3) Minni afköst í vinnu. Kulnun vísar til fyrirbæris í tengslum við vinnuumhverfið og ætti ekki að vera nýtt til að lýsa reynslu á öðrum sviðum lífsins2”.

Einnig er það tekið fram í skilgreiningu WHO að mikilvægt sé að mismunagreina, það er hvort einkenni geti skýrst af öðrum orsökum svo mögulegt sé að veita rétta og viðeigandi meðferð. WHO undanskilur eftirfarandi geðraskanirnar; aðlögunarröskun, raskanir tengdar streitu, kvíði eða óttatengdar raskanir og lyndisraskanir.

Skilgreining WHO varð kjarni verkefnis VIRK þar sem mikilvægt er að skerpa á viðmiðum og aðlaga verkferla þegar kemur að ofangreindum vanda. Markmið slíkrar vinnu er ávallt að veita einstakling viðeigandi þjónustu á réttum tíma.

Verkefnið

Þegar kulnun eða langvarandi streita tengd starfi kemur fram í tilvísunarbeiðni læknis um starfsendurhæfingu á vegum VIRK eru þær yfirfarnar af verkefnastjórum kulnunar. Næst tekur við skoðun þeirra gagna sem fyrir liggja en verkefnastjórar eru sálfræðingar sem hafa m.a. starfað við greiningar, meðferðir og endurhæfingu innan heilbrigðiskerfisins. Viðmið fyrir þessari flokkun er fyrrnefnd skilgreining WHO (Sjá mynd 1).

Í ákveðnum tilvikum er hringt í einstaklinga, þá til að afla viðbótar upplýsinga, en það er einnig gert við inntöku annarra mála hjá VIRK. Auk þess getur komið til þess að einstaklingar koma í viðtal til að hægt sé að skera úr um ástæðu og aðdraganda þess að einstaklingur hefur orðið óvinnufær.

Lýsandi tölfræði

Nú þegar rúmlega ár er liðið frá því verkefnið hófst er hægt að birta lýsandi tölfræði. Mikilvægt er að taka fram að lýsandi tölfræði er notuð til að lýsa vissum eiginleikum gagna en ekki er hægt að draga ályktanir um orsakasamhengi. Því er þarft að hafa í huga þennan fyrirvara þegar slík gögn eru skoðuð og túlkuð. Heildarfjöldi beiðna sem bárust til VIRK á þessu tímabili frá nóvember 2020 til október 2021 voru alls 3.291. Af þeim heildarfjölda beiðna voru 10,7% sem flokkuðust í kulnunarverkefnið. Eftir að verkefnastjórar höfðu farið í gegnum fyrirliggjandi upplýsingar í samræmi við viðmið flokkana voru 3,8% beiðna sem uppfylltu viðmið WHO fyrir kulnun í starfi (sjá mynd 2).

Hér eftir verður eingöngu fjallað nánar um þau 10,7% mála sem komu inn í kulnunarverkefnið, flokkun þeirra og lýsandi tölfræði. Sá hluti beiðna sem flokkast ekki inn í verkefnið er því 89,3% en á þeim beiðnum koma ekki fram vísbendingar um kulnun í starfi og eru þá aðrar ástæður sem skýra óvinnufærni eða skerta starfsgetu.

Flokkarnir

Verkefnið leiddi til sjö ólíkra flokka með tilliti til meginástæðu óvinnufærni einstaklingana. Þá voru það mál sem flokkuðust sem starfstengd kulnun samkvæmt WHO (1), aðrir streituvaldar en vinnan (2), starfstengd kulnun og aðrir streituvaldar (3), starfstengd kulnun og skilgreindur heilsufarsvandi (4), annar og skilgreindur heilsufarsvandi (5), heilsufarsvandi og aðrir streituvaldar (6) og að lokum mál sem flokkast sem óljós (7). Þau mál sem talin voru óljós við inntöku var ýmist vísað áfram í frekara mat hjá lækni VIRK eða komu ekki í þjónustu þar sem einstaklingur sinnti hærra starfshlutfalli en viðmið VIRK kveða á um.

Í um 16% mála er viðmiðum WHO um kulnun í starfi náð að öllu leyti, þ.e. aðrir streituvaldar eru ekki til staðar né liggur fyrir geðgreining sem er undanskilin. Í um 19% mála er þó ekki að öllu leyti hægt að greina þarna á milli. Það þýðir að auk vinnutengds álagsþáttar eru til staðar aðrir streituvaldar eða formleg geðgreining. Hér er mjög mikilvægt að taka fram að um upphafsstöðu máls í starfsendurhæfingu er að ræða og miðast flokkunin við þær upplýsingar sem liggja fyrir á þeim tímapunkti. Á mynd 4 má sjá hvar þessir flokkar eru sameinaðir sem „vísbending um kulnun.“

Birtingamynd einkenna í öllum þessum flokkum getur að einhverju leyti verið svipuð en þegar kemur að því að veita viðeigandi þjónustu og setja upp áætlun um endurkomu til vinnu skiptir gríðarlegu máli að greina vel á milli. Til dæmis getur annar skilgreindur heilsufarsvandi, eins og t.d. þunglyndi, í sumum tilvikum leitt til þess að einstaklingur upplifir skert álagsþol í vinnu. Þá er mikilvægara að leggja áherslu á þann vanda fremur en að skoða álagsþætti í starfi eða álag tengt öðrum þáttum lífsins. Þetta getur haft mikil áhrif á líðan og batahorfur.

Kynjaskipting

Konur eru 78% hópsins og karlar 22%. Er þetta ögn ójafnari kynjaskipting en almennt leitar eftir þjónustu VIRK, þar sem til dæmis árið 2021 voru konur 68% þjónustuþega VIRK3 . Á mynd 5 má sjá hvernig mál kvenna annars vegar og karla hinsvegar skiptast milli flokkana sjö. Þegar litið er til kvenna er vísbending um kulnun í starfi hjá um 32,7% þeirra. Þar á eftir flokkast 26% kvenna með annan skilgreindan heilsufarsvanda og 25% með heilsufarsvanda og aðra streituvalda.

Á myndinni má einnig sjá hvernig mál karla skiptast eftir flokkunum sjö. Í um 44,9% mála er vísbending um kulnun í starfi. Þar á eftir flokkast 24% með annan skilgreindan heilsufarsvanda, líkt og hjá konunum. Talsverður munur kemur fram milli kynja þegar kemur að flokknum heilsufarsvandi og aðrir streituvaldar.

Aldursdreifing

Aldursdreifing þeirra 10,7% sem urðu hluti af verkefninu er nokkur eða frá 25 til 67 ára aldurs. Meðalaldurinn er 45,9 ára. Á mynd 6 má sjá aldursskiptingu þeirra sem eru skoðuð nánar út frá kulnun í starfi. Eins og sjá má er sú skipting nokkuð jöfn innan hópsins. Ekkert eitt aldursskeið virðist því skera sig úr en flestir eru þó á aldrinum 41-50 ára.

Menntunarstig

Sú breyta sem hleðst áberandi á einn þátt umfram aðra er menntunarstigið. Ólíkt því sem kom fram um jafna aldursdreifingu er dreifingin mun ójafnari þegar kemur að menntun. Af þeim málum sem vísbendingar voru um kulnun í starfi höfðu 71% lokið háskólamenntun en um 21% lokið við framhaldsskóla/iðnnámi. Þegar almennt er litið til menntunar þeirra sem þiggja þjónustu VIRK er dreifingin önnur. Á vefsíðu VIRK3 má sjá að árið 2021 höfðu 34% þjónustuþegar VIRK lokið grunnskólaprófi sem hæsta menntunarstigi og um 31% háskólanámi.

Starfsvettvangur

Til VIRK leitar fólk sem stundað hefur afar fjölbreytt störf á vinnumarkaði. Eðli málsins samkvæmt er til mikill fjöldi starfsheita. Hér eftir koma upplýsingar um starfsvettvang þess hóps þar sem vísbending um kulnun er til staðar (sjá mynd 8). Því er einungis um að ræða 3,8% af heildarfjölda beiðna sem barst VIRK á gefnu tímabili. Um er að ræða lýsandi tölfræði fyrir þennan afmarkaða hóp og því skal þetta skoðað með þeim fyrirvara. Mikilvægt er að hafa í huga að hlutfallslega endurspeglar þetta ekki þann fjölda fólks sem glímir við kulnun í starfi innan þessara starfsgreina.

Af þessum hópi eru flestir eða 27% sem starfa innan stjórnsýslu, fjármálaþjónustu, upplýsingatækni eða almennra skrifstofustarfa. Þar á eftir koma þeir sem starfa innan heilbrigðis- og félagsþjónustu eða um 20%. Þriðji í röðinni er hópur sem starfar innan kennslu,- uppeldis- eða tómstundastarfs sem nemur 17%. Tekið skal fram að ekki er verið að taka mið af menntun heldur einungis spurt út í starfsvettvang. Er því um að ræða nokkuð fjölbreytta hópa innan hvers hóps. Ekki eru forsendur til að skoða þetta eftir frekari sundurliðun, þar sem safna þarf frekari gögnum til þess. Birta þarf slíkar upplýsingar að lengri tíma liðnum þar sem þetta eru einungis 3,8% af heildarfjölda beiðna sem bárust VIRK á gefnu tímabili.

Starfsstöðvar VIRK

VIRK starfar um allt land og er þjónusta VIRK til staðar á öllum helstu þéttbýlisstöðum landsins. Sérhæfðir ráðgjafar eru staðsettir hjá stéttarfélögum víða um land, en þeir fylgja þeim er sækja starfsendurhæfingu í gegnum allan ferilinn og móta einstaklingsmiðaða áætlun um endurkomu til vinnu með einstaklingunum. Á mynd 9 má sjá hvernig málin í kulnunarverkefninu og jafnframt 10,7% heildarbeiðna sem bárust VIRK á tímabilinu skiptast milli helstu starfsstöðva VIRK og/eða landshluta.

Eins og sjá má eru flestir í stéttarfélögum BHM eða öðrum félögum sem ráðgjafar VIRK hjá BHM þjónusta. Til að mynda þjónusta ráðgjafar BHM Kennarasamband Íslands, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Læknafélag Íslands. Myndin er nokkuð stöðug um dreifingu mála hvort sem litið er á hóp verkefnisins í heild eða þann hóp þar sem vísbending er um kulnun í starfi. Þó dreifast málin í minna mæli innan kulnunarhópsins og hlaðast þau hvað helst á tvö stéttarfélög. Um 70% marga félagsmenn og þjónusta ráðgjafar VIRK hjá Eflingu talsverðan fjölda fólks í starfsendurhæfingu. Því er ávallt mikilvægt að undirstrika að þessar tölur eiga einungis við um 10,7% af heildarfjölda beiðna er bárust VIRK á gefnu tímabili.

Lokaorð

Til að draga saman eru hér verið að birta fyrstu tölur í tengslum við þróunarverkefni VIRK um kulnun í starfi. Tölurnar spanna 12 mánaða tímabil eða frá nóvember 2020 til og með október 2021. Mikilvægt er að byggja á gögnum og fyrirframgefnum forsendum í umræðu um kulnun. Um er að ræða flókið fyrirbæri sem enn er ekki sátt um hvernig eigi að nálgast í alþjóðasamfélagi. Af öllum þeim 3291 einstaklingum sem leituðu til VIRK á ofangreindu tímabili voru um 10,7% sem komu á forsendum langvarandi streitu eða kulnunar í starfi.

Þrátt fyrir að eingöngu sé um lýsandi tölfræði að ræða er margt áhugavert sem kemur fram í þessum tölum. Áframhaldandi rannsóknir innan VIRK munu svo skoða nánar ýmsa þætti þegar kemur að aðdraganda og afleiðingum langvarandi álags í starfi. Mikill fjöldi einstaklinga með háskólamenntun sem flokkast í verkefnið vekur til dæmis vangaveltur sem vert væri að skoða nánar. Rannsaka þyrfti eðli þessara starfa og mismunandi álagsþætti í vinnu. Hvað það er sem viðheldur ákveðnum vítahring þegar kemur að birtingamynd kulnunar er einnig eitthvað sem verður skoðað í framhaldinu.

Þá virðist aldur ekki hafa afgerandi áhrif á líkur þess að þróa með sér kulnun í starfi. Þessi jafna dreifing sem kemur hér fram er í samræmi við erlendar rannsóknir. Frekari rannsóknir eru í gangi í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Einnig er vert að nefna að í síðustu ársritum VIRK hefur verið fjallað nánar um skilgreiningu á kulnun í starfi4 og ofangreint verkefni VIRK5.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2022

Heimildir:

  1. World Health Organization. (1992). The ICD-10 classification of mental and behavioural disorders: Clinical descriptions and diagnostic guidelines. Geneva: World Health Organization.
  2. World Health Organization. (2019). International statistical classification of diseases and related health problems (11th ed.). Sjá á síðu: https://icd.who.int/
  3. VIRK starfsendurhæfingarsjóður (2022). VIRK í tölum. Sjá á síðu: https://www.virk. is/is/um-virk/upplysingar/virk-i-tolum
  4. Berglind Stefánsdóttir (2020). Skilgreining á kulnun samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO). Ársrit VIRK um starfsendurhæfingu (2020), 70-71.
  5. Berglind Stefánsdóttir og Guðrún Rakel Eiríksdóttir (2021). Þróunarverkefni VIRK – Kulnun í starfi. Ársrit VIRK um starfsendurhæfingu (2021), 68-69.

Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband