Ákvörðun sem hefur margborgað sig
Ákvörðun sem hefur margborgað sig
Heiðrún Björk Gísladóttir formaður stjórnar VIRK 2025-2026
Það var djörf og framsýn ákvörðun hjá aðilum vinnumarkaðarins þegar samið var um stofnun VIRK Starfsendurhæfingarsjóðs í kjarasamningum Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins árið 2008. Á þessum 17 árum frá stofnun hefur mikið vatn runnið til sjávar. Starfsemin hófst með einni manneskju með metnaðarfulla áætlun en telur nú um 120 starfsmenn og ráðgjafa á fjölda starfsstöðva um allt land. Árangurinn talar sínu máli og reynslusögur einstaklinga sem hafa öðlast nýtt líf með aðkomu VIRK eru margar.
Í upphafi átti VIRK að vera hluti af heildstæðara kerfi þar sem tekið yrði upp starfsgetumat almannatrygginga auk þess sem settur yrði á laggirnar sérstakur áfallatryggingasjóður. Sem stendur er VIRK eina úrræðið sem hefur raungerst. Þrátt fyrir það hefur verið sýnt fram á gríðarlegan þjóðhagslegan ávinning af starfseminni, sem nam t.d. um 20,2 milljörðum króna árið 2024, og jafnframt hefur VIRK lagt sitt af mörkum til að draga úr nýgengi örorku hérlendis enda útskrifast að jafnaði um 80% skjólstæðinga frá VIRK í vinnu, atvinnuleit eða nám. Á síðustu árum hafa um 2.300 einstaklingar hafið þjónustu hjá VIRK á hverju ári og um 1.800 útskrifast.
VIRK hefur skapað sér sess meðal þjóðarinnar sem hluti af velferðarkerfinu og verður órjúfanlegur hluti af nýju örorkulífeyriskerfi sem tekur gildi 1. september nk. Með hinu nýja kerfi verður horft til styrkleika einstaklinga og getu þeirra til virkni í stað þess að einblína á skerðingar. Þessi hugmyndafræði rímar vel við það starf sem unnið er hjá VIRK.
Vandamálin sem skjólstæðingar VIRK glíma við eru fjölbreytt og oft marglaga. Inntökuteymi VIRK er skipað sérfræðingum með fjölþættan bakgrunn sem skilar sér í faglegu mati á styrkleikum umsækjenda og hvaða þjónustuúrræði henta hverjum og einum best. Þrátt fyrir að starfsemi VIRK miði að því að koma fólki út á vinnumarkað aftur eftir heilsubrest fá einstaklingarnir að njóta vafans ef óljóst er hvort þeir eigi erindi í starfsendurhæfingu strax. Áskoranirnar eru víða og ljóst að kulnun eða annar heilsubrestur fer ekki í manngreinarálit. Með ítarlegu mati á getu einstaklinga er tryggt að þjónustuþegar komist í úrræði sem hjálpa þeim. Það er þessi persónulega nálgun sem gerir VIRK ólíkt mörgum öðrum úrræðum sem í boði eru.
Forvarnir skipta höfuðmáli
Hraði einkennir íslenskt samfélag með tilheyrandi streitu. Það takmarkast þó ekki við Ísland en á áhugaverðum morgunfundi VIRK í febrúar síðastliðnum ræddi Jósef Sigurðsson, dósent við Hagfræðideild Stokkhólmsháskóla um efnahagsleg áhrif vinnutengdrar streitu og kostnað samfélagsins vegna kulnunar. Þar fór hann yfir rannsókn sem gerð var á þessum þáttum á sænskum vinnumarkaði og t.d. hvernig streituþol einstaklinga og val þeirra á starfi hefur veruleg áhrif á hættu á kulnun. Við vitum að einstaklingar velja sér hins vegar ekki alltaf starf út frá eigin streituþoli og því er mikilvægt að finna aðrar leiðir til að fyrirbyggja óheilbrigða vinnutengda streitu.
Rannsóknir sýna í auknum mæli fram á mikilvægi forvarna þegar kemur að því að draga úr líkum á óvinnufærni vegna kulnunar eða vinnutengdrar streitu. Stjórnendur VIRK eru meðvitaðir um þetta og í kjölfar stefnumótunarvinnu síðasta árs var forvarnasvið VIRK endurvakið. Sviðið veitir einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum þjónustu sem hefur að markmiði að auka vinnugetu einstaklinga og þátttöku þeirra á vinnumarkaði. Unnið er markvisst að því að fyrirtæki á íslenskum vinnumarkaði séu upplýst um þjónustuna og geti nýtt sér hana til að bæta vinnuumhverfi og líðan starfsmanna sinna. Þjónustan er veitt samhliða vinnumarkaðsþátttöku einstaklinga og miðar þannig að því að grípa þá áður en kemur til veikinda. Við sem stöndum að VIRK erum stolt af starfseminni og þeim árangri sem náðst hefur. Hagsmunir atvinnurekenda og starfsfólks af þjónustunni eru því gagnkvæmir.
Við sem stöndum að VIRK erum stolt af starfseminni og þeim árangri sem náðst hefur.
Kombakk
Rannsóknir sýna að virkni getur spilað talsverðan þátt í starfsendurhæfingu einstaklings. Þátttaka á vinnumarkaði hefur jákvæð áhrif á bæði líkamlega heilsu og andlega líðan. Eftir heilsubrest er hins vegar mikilvægara en ella að huga að samspili virkni og hvíldar.
Atvinnulífstenglar VIRK aðstoða fólk við endurkomu til vinnu í lok starfsendurhæfingar. Þeir tengja saman einstaklinga og fyrirtæki eða stofnanir, veita stuðning og fræðslu og fylgja einstaklingum eftir. Þannig brúa þeir bilið milli starfsendurhæfingar og vinnumarkaðar. Vitundarvakningin „Kombakk” vakti athygli á starfsárinu og hlaut nýlega verðlaun, tvo lúðra, á Ímark deginum. Herferðinni var ætlað að ná til fyrirtækja og stofnana og vekja athygli þeirra á starfsemi atvinnutengingar VIRK. Til þess að hún virki sem skyldi er samstarf við atvinnurekendur nauðsynlegt. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem auglýsingaherferðir VIRK vinna til verðlauna en þær eru almennt mjög vel heppnaðar og til þess fallnar að vekja fólk til umhugsunar. Skemmst er að minnast ,,Er brjálað að gera?” herferðarinnar sem fangaði þjóðarsálina með ólíkindum vel. Þessar auglýsingar eru ekki bara skemmtilegar, þær skila árangri.
Hin djarfa ákvörðun aðila vinnumarkaðarins árið 2008 hefur sannarlega verið gæfuspor og árangurstölurnar tala sínu máli. Við sem stöndum að VIRK erum stolt af starfseminni og þeim árangri sem náðst hefur. Að baki tölunum er velferð einstaklinga sem hafa fundið sína fjöl á ný eftir heilsubrest. Höldum áfram á sömu braut!
Greinin birtist í ársriti VIRK 2025.