Fara í efni
Til baka

Tilkoma VIRK tímamót í starfsendurhæfingu

Tilkoma VIRK tímamót í starfsendurhæfingu

Hringsjá, húsið sem við heimsækjum að Hátúni 10D ber nafn með rentu. Þar hittum við Helgu Eysteinsdóttur forstöðumann sem ekki hefur neinar vöfflur á heldur drífur í að aðstaðan sé skoðuð aður en spjall við hana um starfsemina hefst.

Helga Eysteinsdóttir forstöðumaður Hringsjár

 

Hringsjá, húsið sem við heimsækjum að Hátúni 10D ber nafn með rentu. Þar hittum við Helgu Eysteinsdóttur forstöðumann sem ekki hefur neinar vöflur á heldur drífur í að aðstaðan sé skoðuð aður en spjall við hana um starfsemina hefst.

Helga opnar inn í kennslustofur sem eiga það sameiginlegt að vera ekki fyrir fjölmenna bekki enda segir hún markmiðið hjá Hringsjá að hafa ekki of marga nemendur í hverjum hópi. Einnig er þarna góð aðstaða fyrir margþætta kennslu og endurhæfingu – sem og fyrir þá sem starfa hjá Hringsjá.

Húsnæði Hringsjár er tvískipt, við Helga göngum eftir litríkum gangi inn í álíka stórt rými þar sem þjónustuþegar sem eru á styttri námskeiðum eða á matsbraut hafa sína sérstöku og þægilegu aðstöðu til náms og endurhæfingar, einnig þar eru kennslustofur, í þeirri stærstu er kennt bókhald. Þá er tölvuherbergi, skrifstofur fyrir náms-og starfsráðgjafa sem og iðjuþjálfa og annað starfsfólk og loks alrými þar sem er hægt að halda fyrirlestra en líka sitja og spjalla.

Við hittum fyrir ýmsa á þessari vegferð, til að mynda lesblindusérfræðing sem einmitt er að skila af sér greiningum nokkurra aðila. Þessi dagur er reyndar sérstakur því lokað er fyrir vatnið og skapar það eðlilega nokkurt uppnám vegna salernismála. „En það lagast nú fljótlega,“ segir Helga og brosir. Eftir þessa vettvangskönnun snúum við aftur til skrifstofu Helgu með viðkomu hjá nýrri kaffivél.

Nýtt þróunarverkefni í samstarfi VIRK og Hringsjár

„Í upphafi er gert stöðumat hjá þeim sem leita til Hringsjár í námsgreinunum íslensku, ensku og stærðfræði. Um sextíu prósent þeirra sem koma hingað í endurhæfingu koma að tilvísun VIRK, aðrir sem hingað leita hafa ríkissamning sem Vinnumálastofnun heldur utan um. Að mínu mati var tilkoma VIRK árið 2008 beinlínis tímamót í starfsendurhæfingu á Íslandi. Þar ríkir stefna sem skilar samkvæmt nýlegum könnunum um áttatíu prósent þjónustuþega út á vinnumarkað eða í nám því tengdu.

Mér finnst VIRK vera einskonar regnhlíf yfir endurhæfingarferli eins og það gerist best í okkar samfélagi. Hringsjá var fyrsta starfsendurhæfingastöðin sem gerði samning við VIRK þegar sú starfsemi hófst. Samstarfið hefur frá upphafi verið mjög gott,“ segir Helga þegar við erum sestar saman yfir kaffibolla til að ræða um starfsemi Hringsjár.

„Núna erum við með þróunarverkefni í gangi í samstarfi við VIRK, braut fyrir fólk af erlendum uppruna. Þetta er mjög spennandi verkefni sem vonandi er komið til að vera. Þar er gert raunhæft mat á þeirri færni sem viðkomandi býr yfir. Það er verið að þróa þetta áfram en margt hefur heppnast vel,“ heldur Helga áfram.

„Við fáum frá VIRK einstaklinga frá alls konar löndum og oft með erfiða lífsreynslu að baki. Flestir tala eitthvað smávegis í íslensku en oft er menningarmunurinn mikill. Það veldur ekki erfiðleikum nema helst hvað starfsreynslu varðar. Þau störf sem fólkið hefur gengt á sínum heimaslóðum eru kannski ekki til hér.

Okkar hlutverk er ekki síst að finna hvar styrkleikar fólks liggja. Við reynum að fá fólk til að hætta að hugsa um hvað það getur ekki en hugsa þess í stað um hvað það getur.

Við þurfum þá að finna vinnu sem á einhvern hátt tengist því starfi sem fólkið áður gegndi þannig að hægt sé að yfirfæra þá reynslu og þekkingu sem viðkomandi býr yfir. Sumt af þessu fólki hefur lokið námið í hinum ýmsu fræðum. Við erum með náms- og starfráðagjafa til að athuga hvort hægt sé að fá það nám metið hér og hvernig hægt sé að draga þessa þekkingu fram í ferilskránni þannig að það nýtist í ferlinu.

Oft er fólk erlendum uppruna með ótrúlega góða starfsreynslu að baki en hefur ekki fengið að njóta sannmælis á vinnumarkaði hér. En þetta er stundum flókið og erfið áfallasaga að baki. Þessi nýja braut stendur yfir í tvo mánuði og gengur töluvert út á að kynna íslenskt samfélag. Við fáum félagsfræðikennara til að segja fólkinu hvernig samfélagið er uppbyggt og félagsráðgjafa til að segja því frá réttindum og skyldum á vinnumarkaði hér. Síðan þarf að hjálpa viðkomandi að gera ferilskrá. Mikilvægt er að fólk fái tækifæri til að læra grunnatriðin í íslensku, þess vegna leggjum við mikið upp úr umræðum um dagleg málefni.

Fólk hefur oft mikla þörf fyrir að segja frá

Í fyrsta hópnum sem kom hingað í þessum erindum voru bara konur. Margar þeirra voru einangraðar en þarna myndaðist oft fallegur vinskapur. Konurnar eignuðust vinkonur sem voru í sömu stöðu og þær. Mér finnst að slíkt sé stór hluti af endurhæfingu þjónustuþega af erlendum uppruna. Sýna þeim að heimurinn er stærri hér á Ísland en virðist. Við höfum farið með þessa hópa, til dæmis í Alfreð til að kynna þeim störf sem þar eru í boði.

Við höfum sýnt þeim mismunandi vinnustaði og einnig heimsótt Rauða krossinn þar sem unnið er sjálfboðastarf. Borgarbókasafnið er einnig með flottar kynningar. Við reynum að víkka sjóndeildarhring þeirra varðandi hið nýja umhverfi sem það er komið í. Þetta er vandasamt verkefni. Fólk er að frá mismunandi menningarheimum en á það sameiginlegt að vilja þjálfa sig í að tala á íslensku.

Yfirleitt hefur fólk af erlendum uppruna sem hingað leitar ríka þörf fyrir að segja frá reynslu sinni. Það er þakklátt og hefur oftast mikla löngun til að komast út á vinnumarkaðinn og vera gildir samfélagsþegnar. Ég vona að Íslendingar taki almennt vel á móti fólki af erlendum uppruna. Við erum satt að segja hreykin af að geta boðið upp á svona heilstæða starfsendurhæfingu fyrir þennan hóp.

Hvað varðar þetta þróunarvekefni hef ég hins vegar áttað mig á að sumir sem koma þurfa lengri tíma. Ég hef fyrir mitt leyti áhuga á að þróa þetta verkefni lengra í samstarfi við VIRK ef unnt er. Þegar Íslendingar hafa lokið matsbrautinni þá koma þeir stundum hingað í skólann eða fara á námskeið en fólk af erlendum uppruna fær bara þessa tvo mánuði og síðan tekur ekki neitt við hér.

Það er erfitt að koma í nýtt samfélag eftir að hafa unnið jafnvel sérhæfð störf á sínum heimaslóðum. Þá er fyrir hendi fræðilegur grunnur sem væri hægt að nýta, einkum ef viðkomandi nær tökum á íslensku. Þetta er vissulega flókið og oft erfitt að finna starf við hæfi ef tungumálaerfiðleikar eru til staðar.“

Er meira af konum en körlum sem sækja til ykkar frá VIRK?
„Lengi vel leituðu fleiri konur til Hringsjár en karlar – áttatíu prósent á móti tuttugu prósent. En síðustu árin hefur þetta verið nokkurn veginn jafnt. Á síðri árum hefur svo komið til sögunnar fólk af öðrum kynjum sem hafa hér samheitið „aðrir“.

Á matsbrautinni fyrir Íslendinga eru karlmenn nú í meirihluta. Hingað koma gjarnan drengir sem hafa útskriftast úr grunnskóla en geta ekki enn lesið sér til gagns. Ekki endilega af því þeir séu lesblindir, heldur hafa þeir „týnst“ í kerfinu – kannski verið fyrirferðalitlir. Eftir hrunið var tekin sú ákvörðun að minnka sérkennslu og fjölga í bekkjum. Þetta er á kostnað þeirrar kynslóðar sem er fædd í kringum aldamótin.

Samhliða þessu hafa orðið miklar breytingar í tæknimálum, nefnum símana og tölvunotkunina. Margir líta þetta hornauga en við ættum frekar að fagna þessari breytingu og nota hana á réttan hátt. Orðaforðinn ólíkur milli kynslóða en líklega hefur unga fólkið alltaf átt sitt tungumál á hverjum tíma.

VIRK hefur gert starfsendurhæfingu markvissari

Óneitanlega heldur það manni ungum að umgangast ungt fólk. Við vorum með árshátíð í sal um daginn. Þar mættu um sjötíu nemendur. Við vorum með plötusnúð og dönsuðum og skemmtum okkur saman. Hluti af endurhæfingunni er einmitt að læra að taka þátt í slíkum félagslegum aðstæðum. Ég gaf nemendum leyfi til þess að skreyta salinn og fékk þeim í hendur ákveðna fjárhæð til þess en skipti mér að öðru leyti ekki að.

Fólk sem hingað kemur er á öllum aldri og kynjum. Það útskrifast eftir þrjár annir í námi sem í grunninn samanstendur af íslensku, stærðfræði, tölvuleikni og ensku.

Ég kom svo að skoða salinn og leist mjög vel á. Starfskona í salnum sagði að það hefði komið kona vegna fermingarveislu. Hún hafi haft orð á því hvað salurinn væri ofboðslega flottur og vildi vita hvaða fyrirtæki hefði séð um skreytinguna. Þetta var hópnum kærkomin viðurkenning, innan hans komu í ljós hæfileikar. Slíkt þarf að örva og benda á. Maður þarf að leggja áherslu á að manneskjan er fyrst og svo koma alls konar greiningar.

Ég hef starfað í fullorðinsfræðslu síðan 1999. Þá voru allir að gera þetta sitt í hvoru horninu en eftir að VIRK kom til sögunnar varð endurhæfing markvissari og fjölbreyttari, meira er nú vitað um þjónustuþega og sögu þeirra, það hjálpar við starfsendurhæfingu. VIRK er með sérfræðinga sem fylgjast vel með og gott að geta leitað til þeirra.

Hringsjá er sem fyrr greindi liður í starfsendurhæfingarferli hjá VIRK. Við gerum árangurskannanir reglulega, síðast 2020 og náði hún til áranna 2012 til 2019, þá voru áttatíu prósent af þeim sem höfðu útskrifast frá Hringsjá í námi eða starfi og tókum þó ekki með þá sem voru á skrá hjá Vinnumálastofnun.“

Hverjir leita til Hringsjár almennt?
„Fólk sem hingað kemur er á öllum aldri og kynjum. Það útskrifast eftir þrjár annir í námi sem í grunninn samanstendur af íslensku, stærðfræði, tölvuleikni og ensku,“ segir Helga og minnir á hópmyndir af úrskrifuðum nemendum Hringsjár sem prýða veggi húsnæðisins.

Meðalaldur nemenda Hringsjár nú tæp 29 ár

Hver stofnaði Hringsjá?
„Hringsjá hefur verið til frá 1987. Það er í eigu ÖBI. Fyrst var starfsemin á níundu hæð í Hátúni 10 en þetta hringlaga húsnæði hér var byggt 1995. Vísir að þessari starfsemi byrjaði 1983 sem tölvunám fyrir fatlaða. Öryrkjabandalag Íslands og félagsmálaráðuneytið komu svo að starfseminni í Hátúni og hún breyttist í tölvu- og skrifstofuskóla. SEM-samtökin – „Samtök endurhæfðra mænuskaddaðra“ börðust hart fyrir því að þessi skóli yrði til. Á þeim tíma var aðgengi að skólabyggingum almennt ekki gott og því var áherslan mest á skrifstofutengu nám fyrir mænuskaddaða í Hringsjá.

Í upphafi var námið tvær annir en varð fljótlega þrjár annir. Síðar komu lyftur og betra aðgengi í skóla og vinnustaði. Við það breyttist samsetning nemendahópsins rétt eins og samfélagið hefur líka gert. Segja má að nemendahópurinn hafi breyst í samræmi við breytingar og nýgengi örorku. Nú er meira hér um fólk með fjölþættan vanda sem hefur dottið út af vinnumarkaði vegna slysa eða veikinda. Ýmsir sem koma hingað þurfa að finna sér nýjan starfsvettvang. Smám saman hefur starfsemin því þróast á þann veg sem hún er í dag.

Þegar ég hóf störf hér árið 2006 var meðalaldur þeirra sem sóttu endurhæfingu hingað 37,4 ár. Núna, sautján árum seinna, er meðalaldurinn tæp tuttugu og níu ár. Stærsti hópurinn sem er hér við nám í dag er á milli tuttugu og þrjátíu ára. Margir þeirra hafa dottið úr námi í framhaldsskóla og jafnvel grunnskóla. Ástæðurnar eru ýmsar, svo sem skólaforðun, einelti og neysla. Það liggja því margvíslega ástæður að baki.

Þegar fólki er vísað hingað frá VIRK þá heldur það sambandi við ráðgjafa sinn þar, en við tökum yfir starfsendurhæfinguna, höldum utan um sjúkraþjálfun, sálfræðiviðtöl og fleira. Hringsjá er fyrst og fremst starfsendurhæfing og námið er hluti af henni. Kröfur vinnumarkaðarins eru ræddar. Stundum þarf fólk að læra að mæta á réttum tíma, láta vita ef það er veikt og fá leyfi ef það þarf að fara til læknis.

Einnig er lögð áhersla á að fólki geti unnið í hóp sem ekki er sérvalið í, rétt eins og er almennt á vinnustöðum. Þótt grunnurinn sé námið – íslenska, stærðfræði, enska og tölvuvinna – þá erum við að vinna með marga aðra þætti meðfram. Þessi fjögur fög eru eigi að síður grunnur að margvíslegu námi, sem fólk getur svo seinna farið í.

Varanlegasta endurhæfingin að mennta fólk til starfsréttinda

Við gerum alltaf úttektir öðru hverju á því hvernig staðan er á fólki sem útskrifast hjá okkur. Áður fyrr var miklu algengara að fólk færi héðan beint út á vinnumarkaðinn. Nú er meira um að fólk fari í nám í framhaldsskólum. Ég tengi þetta við það að við erum með yngri hóp núna og einnig þá samfélagslegu kröfu að fólk hafi einhverja menntun til þess að fá starf og halda starfi. Ég vil meina að varanlegasta endurhæfingin sé ef við náum að mennta fólk til einhverra starfsréttinda. Við erum í samstarfi við Fjölbrautarskólann í Breiðholti, Fjölbrautaskólann við Ármúla, Borgarholtsskóla og Tækniskólann.“

Hvað er erfiðast að eiga við varðandi erfiðleika fólks sem kemur til ykkar?
„Neyslan er erfiðust viðureignar. Allir sem koma inn í Hringsjá skrifa undir samstarfssamning. Hringsjá er vímuefnalaust hús og í samningum er kveðið á um leyfi til að athuga hvort fólk sé í neyslu. Við erum í samstarfi við Heilsugæsluna hvað það snertir. Viðkomandi fer þá einn í slíka prófun og það er skilyrði þess að hann geti haldið áfram að mæta hér. En yfirleitt þarf ekki að beita slíkum úrræðum því fólk er almennt hreinskilið og segir bara eins og er.“

Eruð þið í samstarfi við SÁÁ?
„Ef á þarf að halda þá vísum við fólki þangað, að fara í viðtal í Von eða við gerum tilvísun til inntökuteymis fíknideildar Landspítalans. Neyslusjúkdómar eru erfiðir og það þarf að taka á þeim strax, síðan er fólk velkomið að meðferð lokinni. Fólk sem er í neyslu getur ekki verið í endurhæfingu, né heldur í vinnu eða skóla.

Þeir sem líða af svokallaðri skólaforðun hafa oft upplifað erfiða hluti í skóla – beinlínis stirðna upp þegar þau sjá skólastofurnar. Í húsnæðinu sem við erum í hérna starfar skólinn en í hinni aðstöðunni er meira um námskeið og önnur úrræði. Þar er matsbrautin þar sem metið er hvar fólk er statt. Og þar eru líka námskeið fyrir fólk af erlendum uppruna sem kemur hingað á vegum VIRK.

Ég legg mikla áherslu á að starfsmenn læri nöfn þeirra sem koma hingað í endurhæfingu, að fólki sé heilsað með nafni og fái þar með þá tilfinningu að það tilheyri hóp. Það er svo mikilvægt. Stundum koma upp samskiptavandamál hér eins og annars staðar. Þá bendi ég viðkomandi aðilum á að gott sé að vandinn hafi komið upp hér í Hringsjá þar sem hægt er að vinna úr honum. Fyrir kemur að ég er hér með tvo til þrjá nemendur til að ræða slík mál.

Samskiptavandinn sprettur gjarnan upp af því að hér mætist ólíkt fólk. Sumir sem hingað leita eru á einhverfurófinu, aðrir eru með ADHD, síðan er fólk sem kemur úr neyslusamfélaginu sem hefur harðan skráp og harðara orðfæri, sem hinir eru kannski viðkæmir fyrir. Oft þarf maður að benda fólki á að reyna að setja sig í spor hins aðilans, en það gengur auðvitað misjafnlega. Einmitt vegna þess að hingað sækir fólk með fjölþættan vanda þá höfum við fáa í hverjum hóp.

Við leggjum höfuðáherslu á að við erum öll fyrst og fremst manneskjur og hver og ein er með sína sérvisku.

Stundum kemur hingað fólk sem er greint til dæmis með vefjagigt, en þegar nánar er að gætt þá er það ekki frumorsökin heldur eitthvað annað sem veldur spennu og vanlíðan. Ungt fólk fær nú í auknum mæli einhverfugreiningu. Það getur haft áhrif á sjálfsmynd viðkomandi. Ég ólst upp í litlu sveitafélagi og þar var mannfólkið misjafnt einsog annars staðar. Reynt var að finna hverjum og einum hlutverk við hæfi. Ég hef á tilfinningunni að það hafi ríkt meira umburðalyndi í þessum efnum hér áður fyrr. Á sama tíma og allskonar greiningum fjölgar gerir vinnumarkaðurinn auknar kröfur um færni, einkum er auglýst eftir fólki sem er frábærlega gott í samskiptum. Þetta fælir þá frá sem eru til dæmis nýbúnir að fá einhverfugreiningu. Þeir sækja bara ekki um.

Vissulega er ákjósanlegt að fólk hafi góða hæfni í mannlegum samskiptum en það eru ýmsir aðrir eiginleikar sem nýtast vel í starfi. Okkar hlutverk er ekki síst að finna hvar styrkleikar fólks liggja. Við reynum að fá fólk til að hætta að hugsa um hvað það getur ekki en hugsa þess í stað um hvað það getur. Það eru ekki allir á sama litrófinu í hinu mannlega samfélagi. Við reynum einnig að vekja athygli umhverfisins á því að fólk er ekki allt eins og hver og einn getur haft góða færni á sínu sviði.“

Gleðilegt að hitta nemendur Hringsjár á vinnumarkaði

Hvernig tekur fólk þessum greiningum, almennt?
„Stundum verða einstaklingar svo uppteknir af greiningunni að við liggur við að þeir segi frá henni áður en þeir segja nafn sitt. Við leggjum höfuðáherslu á að við erum öll fyrst og fremst manneskjur og hver og ein er með sína sérvisku. Við erum ekki að gera lítið úr greiningunum og vinnum vissulega út frá þeim. En yfirleitt ræðum við greiningar ekki við kennarana nema það beinlínis tengist náminu, til dæmis ef fólk greinist með lesblindu, ADHD, og á því erfitt með að einbeita sér og þar fram eftir götunum.

Sumt af því fólki sem kemur frá VIRK hefur nýlega fengið greiningu og sumum er það ákveðinn léttir að fá skýringu á því hvers vegna illa hefur gengið. Og það áttar sig á að það þarf að læra ákveðna tækni í námi og samskiptum. Ef fólk á erfitt með að vera lengi í nánd hefur það aðstöðu hér til að geta dregið sig í hlé og jafnað sig í einrúmi. En það er annað í sambandi við þessar greiningar sem við höfum orðið vör við. Foreldrarnir, eða aðrir aðstandendur, eru kannski algerlega á móti þeim. Þetta virðist vera þeim áfall og þeir sem fá greininguna þurfa stundum að glíma við afstöðu eins og „hvaða vitleysa er þetta“.

Fátt gleður mig meira en hitta nemendur Hringsjár sem komir eru í vinnu og gengur vel. Ég veiktist fyrir nokkru og varð að liggja á spítala í sjö daga. Á deildinni minni voru þrír sjúkraliðar sem höfðu útskrifast frá Hringsjá og ég var satt að segja alveg „dekruð í drasl“ – eins og þar stendur. Það er svo gaman að sjá fólkið sitt blómstra á vinnumarkaðinum.“

Viðtalið birtist fyrst í ársriti VIRK 2023.

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband