Fara í efni
Til baka

Markmiðið að koma fólki til fyrri getu

Markmiðið að koma fólki til fyrri getu

„Ef ég skynja að eitthvert ákveðið vandamál sé hindrun fyrir einstakling að komast á skrið þá vinn ég með það. Ég reyni að hjálpa fólki að öðlast þau lífsgæði að komast út á vinnumarkaðinn eða í skóla, og að njóta sín þar.“ 

Eiríkur Jón Líndal sálfræðingur

Sálfræðingar gegna stóru hlutverki í endurhæfingu þjónustuþega VIRK. Dr. Eiríkur Jón Líndal hefur verið meðferðaraðili í samstarfi við VIRK um árabil. Hann útskrifaðist sem sálfræðingur frá Háskólanum í Lundi í Svíþjóð og tók doktorspróf frá sama skóla 1992. Doktorsverkefni hans fjallaði um samspil bakverkja og andlegrar líðan.

„Áður en VIRK varð til tók ég í fjögur ár þátt í verkefni sem unnið var á vegum ráðuneyta og var nefnt Hvert, samstarfsverkefni um starfsendurhæfingu. Um mitt þetta tímabil var VIRK stofnað. Ráðuneytið ákvað að leggja verkefnið Hvert niður og styrkja þess í stað VIRK sem byggt er á nokkuð annarri hugmyndafræði. Er verkefninu Hvert lauk kom ég til hlutastarfa hjá VIRK jafnframt því að reka eigin sálfræðistofu sem ég stofnaði 1992. Ég hafði raunar lengi starfað sem sjálfstæður meðferðaraðili meðfram fullri vinnu á Geðdeild Landspítala, en þar ég hóf ég störf 1986 og starfaði til ársins 2008. Ég hef í um sjö ár sinnt fólki frá VIRK og einnig fólki sem kemur til mín á eigin vegum eða frá fyrirtækjum sem ég er í samstarfi við,“ segir Eiríkur Jón Líndal.

Koma margir til þín fyrir tilstilli VIRK?
„Já það hefur verið aukning á komum fólks sem er þar í endurhæfingu. Ég hef haft að leiðarljósi, frá því ég vann við verkefnið Hvert og eftir að ég tók að starfa fyrir VIRK, að koma fólki sem er í starfsendurhæfingu í starf eða í skóla. Það er markmiðið – ekki hitt að leysa allan vanda sem hver og einn einstaklingur hýsir. Að dvelja lengi við vandamál sem tengjast ekki beint vinnugetu reyni ég að gera sem minnst af.“

Hvernig gengur að meta hverju þarf að taka á?
„Í því efni læt ég ráða það sem mér finnst skynsamlegt að leggja áherslu á svo að einstaklingurinn nái sínu markmiði. Engir tveir einstaklingar eru eins. Ef ég skynja að eitthvert ákveðið vandamál sé hindrun fyrir einstakling að komast á skrið þá vinn ég með það. Ég reyni að hjálpa fólki að öðlast þau lífsgæði að komast út á vinnumarkaðinn eða í skóla, og að njóta sín þar. Markmiðið er alltaf að einstaklingarnir komist til fyrri getu sem fyrst, sé það mögulegt með endurhæfingu.“

Álagsþættir koma inn í myndina

Gengur þetta upp?
„Mjög oft. Fyrir utan algeng andleg vandamál tengd kvíða og depurð, er gjarnan leitað til mín vegna vinnu minnar með einstaklinga með langvinna líkamlega sjúkdóma ásamt þeim sem eru að takast á við verkjavandamál. Æði oft valda afleiðingar af slysum eða líkamlegir kvillar því að einstaklingurinn hefur dottið út af vinnumarkaði. Álagsþættir koma einnig koma inn í myndina. Afleiðingar slysa eða óhappa eru þó algengari orsök hjá því fólki sem beint er til mín frá VIRK.“

Hvað er fólk lengi í meðferð hjá þér að jafnaði?
„Það er misjafnt eftir því hver vandinn er. Meðaltalið er líklega átta til tíu skipti. Ég hitti fólk vikulega í byrjun meðan verið er að ná utan um vandamálið. Stundum lengi ég í komutímunum og stundum ekki. Ég met það sjálfur hvort heppilegt sé að láta líða lengra á milli viðtala eða hvort betra sé að þau séu þétt áfram. Ég sé gjarnan mun á líðan fólks milli mánaða.“

Vill fólk alltaf mæta í meðferðina hjá þér?
„Hjá þeim sem koma frá VIRK gilda svolítið aðrar forsendur en fólki sem kemur utan úr bæ. Meðferð fólks sem kemur til mín frá VIRK gerir það sem hluta af áætlun sem það hefur mótað í samstarfi við ráðgjafa sinn. Það mætir því yfirleitt mjög vel. Eftir að ég tók upp þau vinnubrögð að minni á fyrirhugað viðtal með sms-sendingu daginn áður er sjaldgæft að fólk mæti ekki.“

Ég var í mörg ár í rýniteymi hjá VIRK. Í slíku teymi voru sálfræðingur og sjúkraþjálfari. Teymið rýndi með viðkomandi ráðgjafa, í hvernig gengi hjá þeim einstaklingi sem ráðgjafinn var með í starfsendurhæfingu og reynt var að gefa ráð um hvernig hægt væri að gera endurhæfinguna ennþá markvissari. Þannig vann ég við rýni tvisvar í viku á vegum VIRK. Þetta fyrirkomulag hefur þó síðar breyst með nýjum verkferlum.“

Yoda er öruggt kerfi

Hver er reynsla þín af upplýsingakerfinu Yoda?
„Það tók dálítinn tíma að venjast þeirri nýjung. Áður var annað kerfi þar sem þurfti sérstaka tengingu. Í nýja kerfinu þarf svipaða tengingu og rafræn skilríki að auki. Yoda er algjörlega öruggt kerfi og það var hitt raunar líka. Yoda hefur reynst ágætlega. Allt frá því að ég hóf að hitta einstaklinga á vegum VIRK hef ég látið þá kvitta fyrir mætingu á sérstakt blað sem ég geymi svo í skjölum einstaklingsins. Ég hætti þessu um tíma eftir Yoda kom í gagnið. En ætlast er til þess að það sé merkt við í Yoda hvenær einstaklingur mætir eða mætir ekki hjá mér. Ég hef hins vegar tekið aftur upp mína gömlu venju með mætingakvittun, þannig að það er tvöföld skráning í gangi. Ég geri þetta af því að ég tók eftir því að einstaklingarnir töpuðu gjarnan sambandi við hve oft þeir væru búnir að koma og á hve löngum tíma. En ef þeir gátu virt fyrir sér dagsetningar fyrri mætinga, virtist það verða hvatning um að huga vel að markmiði meðferðarinnar.“

Hvað með beiðnir og greinargerðir?
„Ég gæti þess að svara fljótt og vel beiðnum sem beint er til mín um meðferð og reyni að koma skjólstæðingum mjög fljótt að í fyrsta viðtal og tekst það yfirleitt. Einnig ganga skil á greinargerðum yfirleitt fljótt fyrir sig.  Ég er verktaki og í góðu sambandi við viðkomandi ráðgjafa eins og aðrir verktakar hjá VIRK. Ráðgjafinn er miðlægur og heldur utan um alla þræði og skipuleggur starfsendurhæfinguna. Við sem erum meðferðaraðilar megum vera í sambandi við hvern annan ef brýna þörf ber til, undir það skrifa þjónustuþegar í upphafi. En það er sjaldan sem sá háttur er hafður á.

Samskipti mín við ráðgjafa eru góð. Ég bý að því að hafa unnið með þeim flestum meðan rýnihóparnir voru við lýði. Í Yoda er svokölluð Talblaðra. Hún gegnir vafalaust vel sínu hlutverki – er í raun smáskilaboð – en ég nota hana lítið. Ef ég fæ hins vegar tölvupóst um að ég eigi skilaboð ólesin í Yoda og hef þá snarar hendur að svara þeim. Fái ég nýjan einstakling til meðferðar frá VIRK þá fæ ég skilaboð þar um og upplýsingar um símanúmer og netfang. Í framhaldi af því set ég mig í samband við viðkomandi og við ákveðum hvaða tími henti til viðtala.“

Algjör trúnaður um málefni skjólstæðinga

Er eitthvað sem þér finnst að væri til bóta í samstarfi meðferðaraðila við VIRK?
„Það gæti verið heppilegt að hinir ýmsu meðferðaraðilar væru í aðeins meira sambandi sín á milli til þess að árangurinn yrði ennþá betri og markvissari. Það gæti hraðað því ferli að einstaklingar kæmust fyrr til vinnu. Ég er vanur því að vinna í þverfaglegri teymisvinnu. Að öðru leyti er þetta gott fyrirkomulag.“

Heldur fólk sem þú hefur haft til meðferðar sambandi við þig eftir að meðferð líkur?
„Yfirleitt ekki, nema eitthvert sérstakt sé. Ég áttaði mig fljótlega á því þegar ég vann á geðdeildinni að það ekki væri ekki endilega við hæfi að heilsa fólki sem hefur verið í meðferð þar þegar ég hitti þessa einstaklinga eftir útskrift af deildinni. Slík tímabil eru oft einstaklingnum erfið – að sjá mig minnir á það. Ég heilsa því ekki að fyrra bragði nema ef ég hitti á þá einslega. Ella tek ég bara undir ef viðkomandi heilsar mér. Þetta er vinnuregla sem ég tel heppilega fyrir þjónustuþegana.“

Hvernig verð þú þig gegn því tilfinningalega áreiti sem sálfræðingar óhjákvæmilega verða fyrir?
„Sem sálfræðingar fáum við þjálfun í að setja mörk og að taka ekki alla hluti inn á okkur. Ég er einnig sérfræðingur í klínískri sálfræði sem er sérstakt viðbótarnám sem við getum farið í eftir að við fáum starfsleyfi. Handleiðsla er hluti af því námi auk þess sem ég hef lært handleiðslu sértaklega og er því stundum með heilbrigðisstarfsfólk í handleiðslu. Einnig venst það líka að halda algjörum trúnaði við skjólstæðing og að ekki ræða við neinn annan um hans málefni.

Í starfi mínu reyni ég að varast að segja fólki að þetta eða hitt sé rétta leiðin. Ég velti upp möguleikum og leiðum sem viðkomandi einstaklingur getur skoðað og tekið svo í framhaldinu upplýsta ákvörðun. Ég er tiltölulega sáttur við það sem ég hef sagt og gert í þessum efnum.“

Hvernig hefur þér þótt að vinna með VIRK?
„Mér finnst að starfsemi VIRK hafi bætt samfélagið. Þar er tekið vel á málum og mikið gert til að hindra að fólk detti út af vinnumarkaði til langframa. Hjá VIRK er reynt að grípa inn svo fljótt og unnt er og vinna eins hratt sem aðstæður leyfa. Þetta styttir tímann sem einstaklingar eru frá vinnu.

Endurhæfingin heppnast yfirleitt vel. Fyrir kemur þó að fólk geti einfaldlega ekki heilsu sinnar vegna farið út á vinnumarkaðinn. Þá tekur við örorka til langframa. Miklu skiptir að viðkomandi hafi áður gert heiðarlega tilraun til endurhæfingar, látið reyna til þrautar á starfsgetuna. Reynist það árangurslaust er bæði einstaklingnum og samfélaginu ljóst að lengra verður ekki komist og ríkari sátt verður um niðurstöðuna.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband