Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa Kulnun

Þrautseigja er ekki alltaf kostur

Þrautseigja er ekki alltaf kostur

„Ráðgjafinn hjálpaði mér að taka þessa ákvörðun. Á eftir var mér létt. Læknirinn sagði við mig þessi yndislegu orð: „Farðu nú heim og hvíldu þig og gættu þess að láta fara vel um þig í sófanum.“ Ég gerði það og geri enn ef á þarf að halda.“

Anna Njálsdóttir sérfræðingur hjá VIRK

Anna Njálsdóttir sálfræðingur hefur nokkuð óvenjulega reynslu, hún starfar sem sérfræðingur hjá VIRK en hafði áður notið þjónustu VIRK vegna kulnunar.°

„Ég lauk sálfræðinámi frá Háskóla Íslands árið 2011. Ég hóf störf hjá VIRK í byrjun árs 2019, stuttu eftir að ég kom úr veikindaleyfi vegna vefjagigtar og langvarandi þreytu. Ég hafði, áður en ég fór í veikindafríið, sótt um starf hjá VIRK. Mér var boðið í viðtal en dró umsókn mína til baka. Þá var ég nýkomin í veikindaleyfið og var ráðlagt hjá Streituskólanum að hvíla mig,“ segir Anna Njálsdóttir. Við sitjum saman við eldhúsborðið í fallegri íbúð sem Anna hefur átt í aldarfjórðung. Frá glugganum blasir við glæsilegt útsýni yfir höfuðborgarsvæðið og til fjalla.

„Ég var svo heppin að aftur var auglýst eftir sérfræðingi hjá VIRK skömmu eftir að ég kom á ný til starfa sem sálfræðingur á félagslegum vettvangi hjá Reykjavíkurborg. Þar hafði ég starfað í fimm ár. Áður vann ég sem ráðgjafi hjá Vinnumálastofnun. Ég hafði því yfirgripsmikla reynslu hvað „kerfið“ snerti. Ég fékk starfið hjá VIRK og fátt hefur lyft mér meira upp og glatt mig,“ segir Anna og býður mér súkkulaðikex og vínber með kaffinu.

Leið eins og ég væri utanveltu

„Hvers vegna fórstu í veikindaleyfi?
„Öfugt við ýmsa aðra þá var ég ekki ofhlaðin verkefnum á vinnustað mínum. Þvert á móti fannst mér ég ekki fá næg verkefni þrátt fyrir að þau væru fyrir hendi. Mér leið því smám saman eins og ég væri utanveltu, hefði ekki tilgang í starfinu. Ég ræddi þetta nokkrum sinnum við yfirmann minn og samstarfsfólk en þær viðræður leiddu ekki til að mér liði betur í starfi. Þetta ástand olli vanlíðan, viðvarandi þreytu og verkjum í líkamanum. Ég reyndi að þrauka, þrautseigjan er mér í blóð borin, en svo kom að því að yfirmaður minn benti mér á að leita mér aðstoðar hjá Streituskólanum. Þar var mér hjálpað til að taka þá ákvörðun að biðja um veikindaleyfi. Ég átti rétt á tæplega sex mánaða veikindafríi sem opinber starfsmaður. Þá tók við veikindaréttur hjá stéttarfélagi mínu, BHM í tæplega hálft ár,“ svarar Anna.

Telur þú að veikindi þín hafi átt sér langan aðdraganda?
„Ég hef líklega verið með vefjagigt frá því ég var um tvítugt þótt ég fengi ekki greiningu fyrr en ég fór til gigtarlæknis árið 2014, þá 49 ára. Mér hefur samt aldrei fundist ég mjög verkjuð vefjagigtarkona, ef svo má segja. Ég er fædd og uppalin í sveit í átta systkinahópi. Eins og gengur komu upp ýmsir erfiðleikar, þannig er jú lífið. Ég hef þó verið tiltölulega heppin, ekki lent í slæmum áföllum. Mér fór smám saman að finnast ég vera mjög þreytt þótt ung væri, þoldi illa hávaða og fann fyrir viðkvæmni í húð.

Ég flutti til Reykjavíkur tvítug og vann ýmis störf, meðal annars var ég á símanum hjá SÁÁ í fjögur ár. Ég eignaðist son tuttugu og sjö ára og varð einstæð móðir með öllu því sem því fylgir. Ég hafði ekki mikinn bakstuðning hér í Reykjavík.

Þar kom að mér fannst ég þurfa að mennta mig meira. Ég hafði verið einn vetur í heimavistarskóla eftir grunnskólanám. Hátt í fertugt ákvað ég að taka stúdentspróf og lauk því frá Borgarholtsskóla. Það var nokkur sigur, ég hafði átt í erfiðleikum vegna ógreindrar lesblindu en yfirsté þá. Síðan lá leið mín til Akureyrar þar sem ég lagði stund á sálfræðinám. Ég ætlaði fyrst í næringarfræði en hætti við vegna stærðfræðinnar. Ég hef alla tíð haft áhuga fyrir manneskjunni sem slíkri og fann fljótt að sálfræðinámið átti harla vel við mig. Árin á Akureyri voru góð og skemmtileg þótt ég væri dálítið blönk – ég var svo sem vön því úr láglaunastörfunum sem ég hafði verið í frá sextán ára aldri. Ég lauk BA-prófi frá Háskólanum á Akureyri og fór því næst hingað suður til Reykjavíkur og lauk framhaldsnámi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2011, sem fyrr sagði.

Eftir námið tók við svolítið erfiður tími. Illa gekk að fá vinnu eftir hrunið. Ráðgjafastarfið hjá Vinnumálastofnun gaf mér góða reynslu. Ég opnaði svo sálfræðistofu og réð mig síðar sem sálfræðing á hinum félagslega vettvangi.

Á öllu þessu tímabili var ég mjög þreytt. Ég hafði lengi átt í erfiðleikum sem tengdust hinum mánaðarlegu blæðingum, fann til óeðlilega mikillar þreytu. Frá unglingsaldri glímdi ég við járnskort og þoldi illa töflur sem ég þurfti að taka vegna þess, þurfti stundum að fá járnsprautur. Ekki bætti úr skák að ég vann illa B12-vítamín úr fæðu. Það fékk ég að vita eftir að ég fór í veikindafríið.

Ég hlakkaði satt að segja til tíðahvarfa, hélt að þá myndi þreytan og vanlíðanin hverfa. En það var öðru nær. Þreytan tók þá algjörlega yfirhöndina og verkirnir urðu meiri en áður þar til ég loks gat ekki meira og fór í veikindaleyfi sem fyrr greindi. Þá var ég búin að eiga við svefnerfiðleika að stríða í sex ár.“

Hélt andlegri heilsu og einbeitingu

Hjálpaði sálfræðimenntunin þér í þínum erfiðleikum?
„Ég hugsa að ég hafi haft not af henni hvað andlega líðan snerti. Ég hélt andlegri heilsu og minni allan tímann en einbeiting fór þverrandi undir lokin. Ég gerði mikið til þess að takast á við þreytuna, hreyfði mig, sótti skemmtileg námskeið og stundaði göngur. Mér finnst ég hafa gert allt sem mér var ráðlagt og vissi að gæti hjálpað mér. En þetta hjálpaði ekki hvað líkamlega heilsu snerti, hún versnaði með árunum. Ég fór á Heilsustofnunina í Hveragerði í lok árs 2016 en kom eiginlega verr á mig komin aftur heim. En ég hélt áfram að vinna heilt ár eftir það þrátt fyrir yfirþyrmandi þreytu. Þrautseigjan hélt mér við efnið. Ég vildi ekki gefast upp – kunni það ekki.“

Hvað gerðist eftir að þú varst komin í veikindaleyfið?
„Ég var fyrst hjá ráðgjafa í Streituskólanum. Mér fannst ég samt ekki vera haldin streitu. Ég þekkti vel til í þeim efnum, hafði sótt námskeið um streitu og kennt sjálf það efni. Ég fór í jólafrí í lok árs 2017. Þegar ég átti að mæta til vinnu eftir það átti ég bágt með svefn og fannst ég óskaplega þreytt. Þá áttaði ég mig endanlega á að vinnan var stór þáttur í minni slæmu líðan. Ég játaði mig sigraða, pantaði sem sagt tíma hjá ráðgjafanum hjá Streituskólanum. Fyrst snerist málið um hvort ég gæti gert eitthvað sem gerði vinnuna bærilegri. Það stoðaði lítt, ég var búin að reyna allt sem ég gat. Ég fór til ráðgjafans aftur og í framhaldi af því skrifaði geðlæknir hjá Streituskólanum upp á vottorð um að ég þyrfti að fara í veikindaleyfi. Ráðgjafinn hjálpaði mér að taka þessa ákvörðun. Á eftir var mér létt. Læknirinn sagði við mig þessi yndislegu orð: „Farðu nú heim og hvíldu þig og gættu þess að láta fara vel um þig í sófanum.“ Ég gerði það og geri enn ef á þarf að halda.“

Hvenær snerir þú þér til VIRK eftir aðstoð?
„Strax og ég gat. Mér fannst ég fyrst ekki vera að standa mig, komin heim í sófa að hvíla mig. Segja má að þrautseigjan hafi komið mér í koll, hún er ekki alltaf kostur. Ég reyndi of lengi að „standa mína pligt“. Maður var vanur því úr sveitinni, ég hefði átt að fara í veikindaleyfi tveimur til þremur árum fyrr, þá hefði ég ekki farið svona langt niður heilsufarslega. Þess í stað var ég alltaf að reyna – borða þetta en ekki hitt – hreyfa mig – en gerði svo of mikið – og þannig gekk það. Streitan hélt mér í klóm sér. Það sást samt ekki neitt á mér þótt ég væri skjálfandi innra með mér af spennu vegna ótta við hvað væri að mér. Hvernig sem ég reyndi þá lagaðist ég ekki neitt. Ég hef alltaf reynt að vinna úr því sem upp hefur komið í mínu lífi en líkaminn hefur sitt minni – hann gleymir ekki.

Meðan ég var í Streituskólanum var send fyrir mig beiðni frá heimilislækni til VIRK. Það tók tvo mánuði að komast í þjónustu þar. Þegar það var í höfn fannst mér það einskonar viðurkenning á því að ég væri í raun og veru veik, væri að gera eitthvað í mínum málum – sem auðvitað er ekki rétt. Um leið og beiðnin var komin til VIRK útskrifaðist ég úr Streituskólanum. Þar hafði ég verið sett í hóp með nokkrum konum. Við náðum vel saman og erum enn að hittast hver heima hjá annarri okkur til mikils gagns og gleði. Við tölum sama tungumál, ef svo má segja, skiljum hver aðra og styðjum hver aðra í öllu sem á gengur“.

Ekkert grín að komast úr svona ástandi

Hvað gerðist þegar þú varst komin til VIRK?
„Eftir á að hyggja tel ég að ég hafi verið of veik til að fara í starfsendurhæfingu strax. Þurfti meiri orku. Það er ekkert grín að komast út úr svona ástandi. Það líður langur tími og manni finnst ekkert gerast í bataferlinu. Ég komst varla í göngutúra og átti erfitt með að sinna því sem starfsendurhæfing krefst. Meðan ég beið eftir að komast að hjá VIRK fór ég í Þraut, miðstöð vefjagigtar- og tengdra sjúkdóma, til þess að skoða hvort ég gæti gert betur í sambandi við vefjagigtina. Í ljós kom að ég hafði verið að gera allt rétt nema hvað varðar félagslega þáttinn. Þegar maður „brennur út“ þá hættir manni til að sinna ekki félagslífi, bæði í starfi og einkalífi. Ég var og í vatnsleikfimi og fór á Jóga Nidranámskeið áður en ég fór til VIRK.

Það var gott að hitta ráðgjafann hjá VIRK. Hann leiðbeindi mér. Ég fór á námskeið hjá Heilsuborg og einnig á streitunámskeið. Ég hef stundað hugleiðslu til margra ára og jók hana til muna í veikindaleyfinu til að róa taugakerfið. Ég fór líka til sálfræðings á vegum VIRK, þótt ég væri í upphafi óviss um að það myndi gagnast mér. Það gerði það. Ég hafði auðvitað verið í handleiðslu sem sálfræðingur í starfi, þarna gat ég talað og það var gott. Við, sem sálfræðingar, gátum vel talað saman.

Einnig komst ég í meðferð hjá sjúkraþjálfara. Ég þurfti að bíða nokkurn tíma eftir meðferðinni hjá honum en hún gagnaðist mér mjög vel. Ég hafði áður fyrr verið í sjúkraþjálfun en ekki haft gott af. Ég hef verið slæm í mjöðmum og fékk í fyrri meðferðum meiri verki. Hjá sjúkraþjálfaranum, sem ég fór til fyrir tilstilli VIRK, fékk ég bót. Hann tók öðruvísi á mér og ég ræð betur við verkina en áður. Ég þarf þó að hafa fyrir því. Líkaminn er síbreytilegur og það þarf að vinna í að halda niðri verkjum. Ekki síst hjálpaði svo hvíldin mér og sá lærdómur að ofgera mér ekki. Ég lærði að eftir hæfilegar göngur er best að hvíla sig.“

Hvernig leið þér svo að koma á ný til vinnu?
„Í svona veikindum er erfitt að finna hinn rétta tímapunkt til að byrja aftur í vinnu. Tilhugsunin um að fara á gamla vinnustaðinn aftur, sem álitið er heppilegt, tafði bataferli mitt töluvert. Mér fannst óaðlaðandi að fara þangað aftur. Ég og ráðgjafinn köstuðum á milli okkar hugmyndum um hvað ég ætti að gera. Loks lét ég það eftir að fara aftur á minn gamla vinnustað, fyrst í fimmtíu prósent vinnu og síðar í áttatíu prósent starf. Ég vissi þó innra með mér að ég myndi ekki hafa þar langa viðdvöl, taldi ólíklegt að breytingar yrðu í því starfi. Ég vann þar í tvo mánuði en leitaði jafnframt að annarri vinnu. Svar við umsókninni um starfið hjá VIRK fékk ég skömmu fyrir jól 2018. Það voru dásamleg tíðindi. Ég beinlínis sveif og fann að ég efldist öll.“

Fólk þarf að leyfa sér að jafna sig

Fannst þér erfitt að fara í starfsviðtalið hjá VIRK eftir það sem á undan var gengið?
„Nei, ég hafði sem sálfræðingur fylgst með starfsemi VIRK frá því hún hófst og vissi hve mikið og gott starf er þar unnið. Ég hafði sjálf beint mörgum af skjólstæðingum míns þáverandi vinnustaðar til VIRK. Mér fannst því ofboðslega gaman að fá tækifæri til að starfa þar sjálf. Ég sagði frá veikindunum í viðtalinu en þau voru ekki talin koma að sök. Ekki heldur að ég hefði verið í þjónustu hjá VIRK, slíkt var jafnvel talin dýrmæt reynsla. Ef einhver getur skilið kulnun þá er það einstaklingur sem sjálfur hefur gengið í gegnum slíkt. Mín fyrri reynsla af starfi á félagslegum vettvangi og þekkingin sem ég hef öðlast á samfélaginu kom mér líka til góða. Þegar ég var að hefja störf hjá VIRK kom beinlínis „holskefla“ af fólki með kulnun, stærri hlutinn konur.

Mitt starf hjá VIRK er að vera hluti af teymi sem heldur utan um samskipti við ráðgjafa víðs vegar að af landinu. Fara með þeim yfir erfið mál, skoða úrræði og meta hvort rétt stefna sé í starfsendurhæfingunni og styðja ráðgjafana í þeirra starfi.

Sem starfsmaður hjá VIRK nýtist reynsla mín vel og sú vitneskja mín að fólk á ekki að fara of snemma í starfsendurhæfingu. Fólk þarf að leyfa sér að jafna sig og hvíla sig. Það getur gert svo mikið sjálft til að hjálpa sér. Mín reynsla er sú að hættumerkin varðandi kulnun séu þegar fólk á orðið erfitt með svefn, vaknar þreytt. Hættir að geta hvílst á kvöldin og hvorki helgar né frí duga til að safna orku. Þá er rétt að staldra við og skoða stöðu sína.“

Texti: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband