Fara í efni
Til baka
Andleg heilsa

Ég er minn eigin fjársjóður

Ég er minn eigin fjársjóður

Guðni Örn Jónsson var útbrunninn en vann úr erfiðri reynslu af miklilli þrautseigju, tókst að bæta líf sitt og snúa aftur til vinnu.

Guðni Örn Jónsson

Ég var útbrunninn, það var aðdragandi þess að ég leitaði til VIRK,“ segir Guðni Örn Jónsson húsasmíðameistari og byggingartæknifræðingur. Ég hitti hann á heimili hans, þar sem hann hefur í krafti þekkingar sinnar og færni breytt óinnréttuðum kjallara í fallega og frumlega íbúð.

Efri hæðir hússins eru nú að fá nauðsynlega andlitslyftingu og viðgerðir. Segja má að þetta ferli hússins sé sambærilegt við það mikla starf sem Guðni Örn hefur unnið með erfiða reynslu sem hann hefur af hugrekki og þrautseigju tekist á við til að bæta líf sitt. Nú síðasta ár með ríkulegu samstarfi við VIRK.

„Ég byrjaði á grunninum og hef svo unnið mig hægt og rólega upp úr vanlíðan. Ég gekk á eigin fjármuni og fékk endurhæfingarlífeyri hjá Tæknifræðingafélaginu og Lífeyrissjóði verkfræðinga til þess að geta af alhug beitt mér í því mikla ferli sem við tók þegar ég ákvað að hætta að byrgja sára reynslu inni. Ég var sem barn og unglingur misnotaður af eldri mönnum sem ég treysti vel. Þeir nýttu aðstæður og yfirburði til þess að gera mér þetta. Það kostaði mig mikið sálarstríð að fara út í að opna þetta mál. Ég leitaði til Stígamóta og Drekaslóðar og vann þar í hópastarfi og fékk einkasamtöl. Allt þetta var mikil hjálp,“ segir Guðni Örn Jónsson.

Hann sýnir mér stóra möppu þar sem hann hefur skráð ýmsar hugsanir sem farið hafa í gegnum huga hans í bataferlinu. Þar má sjá bæði bréf og frásagnir sem tengjast uppgjöri hans við liðinn tíma. Sem og sýnir hann mér dagbók þar sem hann færir inn líðan sína dag frá degi.

„Bataferlið tók langan tíma. Hófst í mínum huga fyrir alvöru árið 2011, en ég var farinn að reyna að losna miklu fyrr og með hléum allt fram á þennan dag. Heimilislæknirinn minn hefur verið stoð og stytta og árið 2006 fór ég í Hveragerði, það gerði mér gott,“ segir hann. Árið 2002 skildu Guðni og eiginkona hans til tuttugu ára og það gerðist ekki átakalaust sem eðlilegt má teljast.

Sjálfsmyndin raskaðist

„Við giftumst ung og vorum dugleg, komum okkur upp íbúð og eignuðumst þrjú börn, en smám saman var ekki lengur forsenda fyrir þessu hjónabandi. Um tíma komu upp verulegar deilur, en ég dró mig út úr þeim,“ segir Guðni. Þessir erfiðleikar voru aðeins forsmekkurinn að því sem við tók er Guðni tók að gera upp við hina erfiðu reynslu úr fortíðinni. „Ég ólst upp hjá góðum foreldrum og systkinum en allt breyttist þegar misnotkunin hófst. Ég sagði engum frá því sem gerst hafði. Beindi reiði minni yfir í keppnisskap. Tók þátt í íþróttum og fékk þar mikla útrás. Ég varð ekki læs fyrr en ég var tólf ára gamall. En þá breyttist margt. Einkunnir mínar tókubeinlínis heljarstökk upp á við. Ég hafði náð tökum á lestrartækni, hafði gaman af að læra og nýtti mér það tækifæri vel. Ég varð húsasmíðameistari og síðar byggingartæknifræðingur og starfaði lengi hjá virtri verkfræðistofu. Þar hætti ég samkvæmt samkomulagi til að vinna í mínum málum. Annað var ekki hægt, mér leið orðið svo illa. Sjálfsmynd mín hafði raskast verulega við misnotkunina og það var afskaplega erfitt þegar mér varð ljóst að ég gat ekki treyst fólki á eðlilegan hátt. Ég hafði vegna reynslu minnar ranga mynd af trausti. Það var verulega sárt að uppgötva þetta, það er ekki langt síðan ég gerði það. En þessi uppgötvun hefur samt hjálpað mér, ég er að vinna í því að leiðrétta þessa skekkju. Ég hef stundum ekki einu sinni getað treyst sjálfum mér, – en þetta er allt að koma.

Reiðin varð keppnisskap

Mér hefur einnig verið það sár vissa að keppnisskapið mitt kom til af innibyrgðri reiði. En á hinn bóginn hefði þetta getað farið ver, svo sannarlega. Ég tók í sjálfu sér góða ákvörðun þar sem strákur. Ég fór ekki í óreglu sem unglingur. Það gerðist síðar en á því hef ég líka tekið. Ég sagði við föður minn fyrir nokkrum árum: „Ég er hættur að drekka.“ Og hef staðið við það. Ég drakk til að deyfa sársauka en ég ákvað að hætta því og vinna á sársaukanum á annan og uppbyggilegri hátt. Og mér tókst það.

Svo fjölmargt hefur breyst við alla þá sjálfsvinnu sem ég hef innt af hendi og vegna þeirrar aðstoðar sem ég hef fengið, meðal annars fyrir tilstilli VIRK.

Segja má að ég hafi löngum verið sjálfum mér harður húsbóndi. Ég gerði meiri kröfur á mig heldur en umhverfi mitt og loks gat ég ekki staðið undir þeim. Ég tók að mér fleiri verkefni en möguleiki var á að sinna og átti til að vaka sólarhringum saman til að ljúka þeim. Þetta hafði ekki góð áhrif á andlega heilsu mína. Ég kunni ekki að setja sjálfum mér eða öðrum mörk. Aldurinn færðist yfir mig og loks gat ég ekki meira, þá var það sem ég „brann út“ um tíma.

Svona gekk þetta, dálítið upp og niður þar til árið 2011 að ég gat alls ekki meira. Þegar ég var orðinn mjög þreyttur helltist yfir þunglyndi sem án efa á rætur í misnotkun þeirri sem ég varð fyrir sem barn og unglingur. Lengi vel afneitaði ég þessari reynslu. Og sennilega hefur það verið bjargráð hugans á þeim tíma. En árið 2011 kom að því að ég tók ákvörðun um að gera eitthvað verulegt í þessum málum.

„Ég hef fengið góð ráð sem ég gríp til þegar ég þarf. Ramminn er svo afskaplega mikilvægur.“

Fékk erfið þunglyndisköst

Lengi vel fékk ég erfið þunglyndisköst en eftir að ég hóf að vinna úr reynslu minni hefur þunglyndið verið auðveldara viðfangs, ég kann núna að vinna úr því og er fljótur að finna einkennin og bregðast við. Ég segi stundum: Fortíðin var þunglyndið, framtíðin er kvíðinn. Þá er lítið pláss fyrir líðandi stund. Nú hefur orðið breyting á. Vil gera hlutina mjög vel, hef ljósmyndaminni og stundum hefur verið sagt við mig að ég hafi einhverfueinkenni.

Í framhaldi af slíkum athugasemdum ákvað ég að leita eftir greiningu hjá lækni. Í ljós kom að ég er haldinn ofvirkni og athyglisbresti. Þetta kann að hljóma sem ókostir en þessu má líka snúa upp í kosti. Ég hef komið miklu í verk. En ég hef með aðstoð, meðal annars frá ráðgjöfum frá VIRK, sálfræðingi og geðlækni sem ég komst í samband við, komist að raun um að ég þarf að setja sjálfum mér ramma og halda mig innan hans. Vandræði mín hafa oft verið þau að ég tek allt of mikið að mér og fæ svo verkkvíða og í framhaldi af því frestunaráráttu. Síðan komu alltof miklar vinnutarnir. Þetta leiðir eðlilega til þess að fólk brennur út. Ég vil ekki vera svona, ég vil vera „venjulegur“ og hef þess vegna sett mér rammann.

Hef alltaf risið upp aftur

Misnotkunin hefur verið mér sár en ég veit ekki hvernig líf mitt hefði orðið hefði ég ekki orðið fyrir henni. Það er erfitt að tala í viðtengingarhætti. Ég hef oft gefist upp um tíma en alltaf risið upp aftur. Það eru góðu fréttirnar. Ég hef marga góða eiginleika sem ég met æ meira. Ég veit líka núna að ég er ekki sá eini í heiminum sem hefur liðið illa vegna reynslu minnar.

Ég sagði foreldrum mínum árið 2000 fyrst frá misnotkuninni sem ég varð fyrir á vettvangi trúfélags sem barn og frá misnotkun sem ég nokkru síðar varð fyrir af hendi golfkennara. Stundum hef ég verið reiður við þau fyrir að passa mig ekki betur. En jafnframt veit ég að þau gátu það ekki. Þau eru bestu foreldrar sem hægt er að hugsa sér. Þöggunin var líka mikil á þessum tíma. Ég er fæddur 1958 og þegar ég var að alast upp var svona hlutum tekið með mikilli tortryggni, jafnvel þótt maður reyndi að segja frá. Ég átti líka í höggi við menn sem voru í yfirburðastöðu gagnvart mér.

Hjá VIRK komst ég strax í samband við mjög góðan ráðgjafa og í framhaldi af því var mér vísað á námskeið og einnig hafði ég frumkvæði sjálfur í þeim efnum. Ég fór á batanámskeið hjá Guðfinnu Eydal sem gerði mér gott. Einnig fór ég í líkamsrækt hjá Heilsuborg í fyrravetur. Í janúar í fyrra varð svo vendipunktur í mínum málum. Þá var mér beint af VIRK á námskeið til Profectus. Þar hitti ég ráðgjafa sem las mig gjörsamlega og hjálpaði mér gríðarlega mikið. Ég hafði haft litla trú á sjálfum mér en þarna hitti ég mann sem sagði fallega hluti við mig og stoppaði mig af, sagði mér að loka, hætta að vinna í misnotkunarmálunum. Ég hafði skrifað greinar og ýmislegt annað gerði ég. En þetta var í raun búið að skila mér því sem mögulegt var. Þetta sá ráðgjafinn hjá Profectus. Ég fór að sinna sjálfum mér meira og það leiddi til góðs. Allt breyttist til hins betra.

Er nú eigin húsbóndi

Mér var líka kennt að taka mér öðru hvoru frí frá erfiðum uppgjörsmálum. Einu sinni var sagt við mig hjá Stígamótum: „Nú ferð þú í jólafrí Guðni.“ Það er ótrúlega gott að hvíla sig á stöðugum hugsunum um erfið úrlausnarefni. Þetta er gott ráð.

Núna líður mér vel innra með mér. Ég ætlaði að taka fjögur ár, heilt kjörtímabil, til að vinna í mínum málum. En það tók skemmri tíma að ná árangri en ég bjóst við. Sálfræðitímarnir á vegum VIRK og tímarnir hjá geðlækninum vegna ofvirkninnar og athyglisbrestsins hafa skilað mér miklu. Ég hef fengið góð ráð sem ég gríp til þegar ég þarf. Ramminn er svo afskaplega mikilvægur. Ég hef gert mér ljóst að ég á aðeins eitt líf, ég er minn eigin fjársjóður og þarf að halda vel utan um hann.

Nú er ég eigin húsbóndi á vinnumarkaðinum, vinn við ráðgjafastörf í sambandi við endurbætur á byggingum og sem dómskvaddur matsmaður. Ég er með starfsmann í hlutastarfi og þetta gengur vel.

Ég er lánssamur maður og er hægt og rólega að nálgast drauma drauma minna. Ég er sáttur við stöðu mína eins og hún er og mér hefur tekist að skapa mér gott líf, þar hefur margt komið til, meðal annars gott samstarf við VIRK.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

 

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband