Fara í efni

Samvinna og samstarf

Til baka

Samvinna og samstarf

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK

 

„Hlutverk VIRK er að efla starfsgetu einstaklinga með heilsubrest sem stefna að aukinni þátttöku á vinnumarkaði“ og framtíðarsýn VIRK til ársins 2025 er að VIRK skili „Samfélagslegum ávinningi með árangursríkri og markvissri starfsendurhæfingu sem mætir þörfum einstaklinga og atvinnulífs.“

Þessum setningum er ætlað að fanga meginhlutverk og framtíðarsýn VIRK á einfaldan og auðskilinn hátt og er þetta einn hluti af afurðum stefnumótunarvinnu sem farið var í hjá VIRK haustið 2019. Að þessari vinnu komu vel á annað hundrað einstaklingar. Þar á meðal stjórn VIRK, starfsmenn og ráðgjafar VIRK og margir af helstu samstarfs- og hagaðilum VIRK. Starfsemin var rædd í þaula og allir fengu að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Helstu niðurstöður þessarar stefnumótunarvinnu eru m.a. settar fram í ársriti VIRK 2020, á heimasíðu VIRK og í sérstökum bæklingi.

Niðurstaða og afurð svona vinnu verður ekki sett fram nema að mjög takmörkuðu leyti sem orð á blaði. Það sem skiptir ekki síður máli í þessu samhengi er hversu margir gáfu sér tíma til að taka þátt í vinnunni og svo hvernig hún mun skila sér í áherslum og verkefnum til framtíðar. Í framhaldi af stefnumótunarvinnunni hafa verið skilgreind lykilverkefni með verkefnastjórum og þeim verður fylgt eftir á skipulagðan hátt næstu mánuði og ár. Ég er þakklát öllum þeim aðilum sem komu að stefnumótunarvinnu VIRK á síðasta ári og mun leggja áherslu á að unnið sé markvisst með þá þætti sem þar komu fram.

Árið 2019 var viðburðaríkt og annasamt hjá VIRK, aldrei hafa borist fleiri beiðnir um þjónustu og aldrei hafa fleiri verið í þjónustu VIRK. Á sama tíma átti sér stað mikil þróun í ýmsum verkefnum sem hafa það að markmiði að auka árangur og velferð. Hér á eftir verður farið yfir nokkra þætti úr starfsemi VIRK en greinar, viðtöl og tölulegar samantektir hér í ársritinu gefa nánari upplýsingar og innsýn inn í það fjölbreytta starf sem á sér stað á vegum VIRK á hverjum degi í samstarfi við þúsundir einstaklinga og nokkur hundruð fagaðila og stofnanir um allt land.

Fjöldi beiðna

3308 beiðnir um þjónustu VIRK bárust á árinu 2019. Af 3308 einstaklingum hófu 2092 einstaklingar þjónustu hjá VIRK. Um er að ræða metfjölda nýrra einstaklinga frá upphafi. Aukningin í fjölda nýrra einstaklinga milli áranna 2018 og 2019 er 6,6%. Skýringar á þessari aukningu eru margar, einstaklingum hefur bæði fjölgað á vinnumarkaði og svo má gera ráð fyrir að sífellt fleiri einstaklingar og fagaðilar séu meira meðvitaðir um starfsemi VIRK og því er fleirum beint inn í þjónustuna en áður.

Ástæður frávísana

Eins og sjá má á tölunum hér að ofan þá koma aðeins um 2/3 hlutar þeirra sem sækja um þjónustu inn í VIRK. Um 1216 einstaklingar sem sóttu um á árinu 2019 komu ekki inn í þjónustu. Hvað veldur því og hvað verður um þessa einstaklinga? Á myndinni hér á síðunni má sjá upplýsingar um helstu ástæður þess að einstaklingar koma ekki í þjónustu VIRK þrátt fyrir umsókn. Eins og sjá má þá er um 41% af þessum hópi vísað í heilbrigðiskerfið eða til félagsþjónustunnar, þar af er langflestum vísað í heilbrigðiskerfið. Þessi hópur er yfirleitt að glíma við heilsufarsvanda sem er það alvarlegur að starfsendurhæfing er ekki talin geta skilað árangri á þessum tímapunkti. Dæmi um þetta er þegar heilsufarsvandi hefur ekki verið greindur eða meðhöndlaður innan heilbrigðiskerfisins á þann hátt að starfsendurhæfing geti hafist. Oft koma þessir einstaklingar síðar í þjónustu VIRK þegar staðan er orðin betri.

Aðrar ástæður þess að einstaklingar koma ekki í þjónustu VIRK þrátt fyrir umsókn eru jafnframt þær að einstaklingur fylgir umsókn sinni ekki eftir með því að svara spurningum eða mæta í viðtal. Eins geta verið ýmsar aðrar ástæður svo sem að heilsubrestur sé ekki til staðar og ekki sé þörf fyrir þjónustuna á þeim tímapunkti sem umsóknin er skoðuð. Rétt er að taka það sérstaklega fram að í langflestum tilfellum er einstaklingurinn sáttur við niðurstöðuna eftir að umsókn hefur verið skoðuð og ákvörðunin er oft tekin eftir samtal við viðkomandi einstakling.

Fleiri konur en karlar

Mun fleiri konur (71%) en karlar (29%) komu í þjónustu VIRK á árinu 2019 og svo hefur verið frá upphafi. Þó er þessi munur heldur að aukast. Á þessu er engin ein skýring og í raun þá er það verðugt athugunarefni að finna út úr ástæðum þessa. Það hefur verið bent á marga þætti sem eru líklegir eins og að konur gegni ennþá fleiri hlutverkum í daglegu lífi meðfram vinnu en karlar t.d. þegar kemur að umönnun barna og fjölskyldna almennt og svo að konur séu duglegri en karlar að leita sér aðstoðar í vanda. Þetta eru án efa líklegir og sterkir áhrifaþættir en þó þarf að rannsaka þetta betur og athuga hvort aðrir þættir geti líka skipt miklu máli í þessu samhengi.

Menntun

Einstaklingar sem leita til VIRK eru í öllum starfsstéttum, á öllum aldri og með fjölbreytta menntun og reynslu. Á undanförnum árum hefur fjöldi háskólamenntaðra einstaklinga aukist umtalsvert í þjónustu VIRK eins og sjá má á mynd í kaflanum „VIRK í tölum“ í ársritinu og á vefsíðu VIRK. Um er að ræða 78% fjölgun háskólamenntaðra einstaklinga í þjónustu VIRK frá 2016 til 2019. Fjöldi einstaklinga með grunnskólapróf eða minna hefur alltaf verið umtalsverður hjá VIRK en þó má sjá á framangreindri mynd að það fjölgaði einnig talsvert í þessum hópi milli áranna 2018 og 2019.

„Með því að skilgreina kulnun á þann veg sem gert er í nýju flokkunarkerfi WHO og tengja það eingöngu við atvinnu einstaklinga þá getum við hugsanlega verið markvissari í þeirri aðstoð sem veitt er auk þess sem ábyrgð vinnustaðarins verður skýrari og meira afmörkuð en verið hefur.“

Andleg vanlíðan og kulnun

Stór hluti þeirra einstaklinga sem leitar til VIRK glímir við vandamál af andlegum toga og hefur þess vegna átt erfitt með að sinna starfi. Eins og áður hefur verið nefnt hefur hlutfall háskólamenntaðra einstaklinga í þjónustu VIRK hækkað og þá sérstaklega sá hópur einstaklinga sem sinnir umönnunar- og framlínustörfum. Rannsóknir hafa sýnt að stærra hlutfall umönnunarstétta en annarra hópa glímir við einkenni kulnunar og tölur í gagnagrunni VIRK gefa einnig þessar vísbendingar. Á sama tíma hefur umræða um kulnun aukist mikið í samfélaginu og menn eru orðnir óhræddari við að stíga fram og tjá sig um reynslu sína af kulnun og örmögnun.

En hvað er kulnun? Er um það að ræða að aðstæður einstaklinga séu almennt verri nú hvað þetta varðar en áður eða er umræðan einfaldlega orðin opnari og viðurkenndari í samfélaginu? Og hvert leiðir þessi umræða okkur? Verður hún til þess að vekja okkur til umhugsunar um að bæta vinnuaðstæður og huga betur að andlegri og líkamlegri heilsu okkar eða getur umræða af þessum toga haft einhverjar neikvæðar afleiðingar? Er t.d. hætta á því að einstaklingar með alvarleg einkenni spegli sig of mikið í umræðunni sem getur þá orðið til þess að þeir fá ekki rétta aðstoð eða meðferð við sínum raunverulega heilsubresti?

Í grein Berglindar Stefánsdóttur, sálfræðings og sérfræðings hjá VIRK, í ársriti VIRK 2020, sem sjá má á vefnum hér, er fjallað um skilgreiningu á kulnun samkvæmt flokkunarkerfi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Þar kemur m.a. fram að WHO skilgreinir ekki kulnun sem röskun eða sjúkdóm heldur þátt „sem hefur áhrif á heilbrigðisástand og samskipti við heilbrigðisþjónustu“. WHO hefur jafnframt í uppfærðu flokkunarkerfi sínu (ICD-11) farið frá því að flokka kulnun sem vandamál tengt einstaklingnum sjálfum og erfiðleikum hans við að stjórna sínu lífi, í að flokka það sem vandamál tengt atvinnu eða atvinnuleysi. Í nýju flokkunarkerfi er þannig sjónum beint eingöngu að vinnu einstaklingsins en ekki öðrum persónulegum þáttum. Þetta nýja flokkunarkerfi var gefið út síðasta sumar og verið er að innleiða það víða um heim. Það hefur ekki enn verið innleitt hér á landi.

Það er mikilvægt að ná samstöðu um skilgreiningu á kulnun til að unnt sé að aðstoða einstaklinga á réttan hátt í þeim vanda sem þeir takast á við í sínu lífi. Með því að skilgreina kulnun á þann veg sem gert er í nýju flokkunarkerfi WHO og tengja það eingöngu við atvinnu einstaklinga þá getum við hugsanlega verið markvissari í þeirri aðstoð sem veitt er auk þess sem ábyrgð vinnustaðarins verður skýrari og meira afmörkuð en verið hefur. Skýrari ábyrgð allra aðila getur síðan orðið til að gera aðstoð og meðferð skilvirkari og árangursríkari.

Þetta er hins vegar ekki einfalt því oft er það þannig að um er að ræða samspil erfiðra aðstæðna bæði í einkalífi og starfi sem verður til þess að einstaklingar glíma við alvarleg einkenni kulnunar, kvíða og þunglyndis og það er ekki alltaf auðvelt að greina orsök og afleiðingu. Það hlýtur þó alltaf að vera vænlegra til árangurs að reyna að afmarka, skýra og skilgreina þá þætti sem unnið er með hverju sinni í stað þess að fella undir eina skilgreiningu mjög fjölbreytt einkenni, aðstæður og líðan einstaklinga sem geta átt grunn í alvarlegum vanda og fjölbreyttum aðstæðum. Það er líka mjög mikilvægt að skilgreina vel ábyrgð mismunandi aðila í þessum aðstæðum þannig að hver og einn geti raunverulega tekist á við sinn þátt vandans. Þannig geta atvinnurekendur vel borið ábyrgð á því að vinnuaðstæður einstaklinga séu góðar og stuðningur á vinnustað sé nægur og góður en við getum ekki ætlað atvinnurekendum að bera ábyrgð á líðan einstaklinga sem skapast af erfiðum persónulegum aðstæðum og áföllum utan vinnustaðarins. Á sama hátt þurfa einstaklingar að fá stuðning við hæfi bæði í vinnu og utan vinnu eftir aðstæðum hverju sinni.

„Það má sjá á öllum þeim mælikvörðum sem notaðir hafa verið um árangur VIRK að hann er mikill og þá gildir einu hvort skoðaðir eru fjárhagslegir mælikvarðar eða mat einstaklinga á áhrifum þjónustunnar á líðan þeirra og starfsgetu.“

Árangur VIRK

Það er mikilvægt að finna leiðir til að meta og mæla árangur VIRK á hverjum tíma og unnt er að fá mikilvægar vísbendingar um árangur og ávinning af starfsemi VIRK á grundvelli upplýsinga í gagnagrunni VIRK. Fyrirtækið Talnakönnun hefur undanfarin 7 ár reiknað ávinning af starfi VIRK á grundvelli ópersónugreinanlegra gagna úr gagnagrunni VIRK að gefnum ákveðnum forsendum. Einnig eru einstaklingar í þjónustu beðnir um að meta eigin ávinning af þjónustunni í gegnum þjónustukönnun í lok þjónustu. Niðurstöður allra þessara mælinga má sjá í ársriti VIRK 2020 í kaflanum „Árangur VIRK“.

Samanburður á starfsemi VIRK við þróun á fjölda örorkulífeyrisþega er eðlileg í ljósi þess markmiðs VIRK að koma í veg fyrir að einstaklingar detti út af vinnumarkaði og verði örorkulífeyrisþegar. Það er þó hægara sagt en gert því í því felst sú áskorun að áætla hver þróun nýgengis örorku hefði orðið ef þjónustu VIRK hefði ekki notið við. Mat á árangri VIRK verður að byggja á þeim þáttum sem VIRK hefur stjórn á. Árangursrík starfsendurhæfing er vissulega mikilvæg forsenda þess að unnt sé að draga úr nýgengi örorku en hún dugar ekki til ein og sér.

Mikilvægir þættir sem VIRK hefur enga stjórn á ráða miklu um nýgengi örorku. Áhrifaþættirnir eru fjölmargir og flóknir og rannsóknir og reynsla sýna að árangur næst yfirleitt ekki nema tekið sé heildstætt á öllum þáttum sem skipta máli. Um það hefur verið ítarlega fjallað í fyrri ársritum VIRK (sjá t.d. ársrit 2017 bls. 6-19).

Stofnaðilar VIRK litu svo á að aukin starfsendurhæfing væri einn þáttur í kerfisbreytingu sem þyrfti að eiga sér stað til að sporna gegn vaxandi örorkutíðni. Sú kerfisbreyting hefur ekki átt sér stað. Það er því ekki sanngjarnt eða raunhæft að meta árangur af starfsemi VIRK út frá stærðum sem eiga sér fjölmarga og sterka áhrifavalda aðra en þá sem snúa að starfsendurhæfingu og skipulagningu hennar.

Það má sjá á öllum þeim mælikvörðum sem notaðir hafa verið um árangur VIRK að hann er mikill og þá gildir einu hvort skoðaðir eru fjárhagslegir mælikvarðar eða mat einstaklinga á áhrifum þjónustunnar á líðan þeirra og starfsgetu. Við munum halda áfram að mæla ávinning VIRK á allan mögulegan máta og leita fleiri leiða til að þróa og bæta þær aðferðir sem mögulegt er að nota til að mæla árangur VIRK á hverjum tíma.

Þróun og breytingar

VIRK er ung stofnun. Það eru tæplega 12 ár síðan skipulagsskrá VIRK var sett saman og fyrsti starfsmaðurinn var ráðinn til starfa í ágúst 2008. Þróunin hefur verið hröð og á hverju ári hafa átt sér stað umtalsverðar breytingar í starfseminni. Það er eðlilegt í ljósi aðstæðna og einnig í ljósi þess að starfsendurhæfing er í raun nokkuð nýtt fag og á heimsvísu á sér stað mikil þróun og miklar breytingar innan fagsins. Rannsóknum fer fjölgandi og þekking eykst. Starfsendurhæfingarferillinn hjá VIRK hefur þannig breyst mjög mikið á undanförnum árum sem og hlutverk allra sem koma að ferlinu, einstaklingsins sjálfs, ráðgjafa og sérfræðinga VIRK sem og utanaðkomandi fagaðila. Þessi þróun mun halda áfram í takt við aukna þekkingu og reynslu.

Á undanförnum tveimur árum hefur einnig átt sér stað mikil þróun hjá VIRK í bæði forvörnum og atvinnutengingu. Stjórn VIRK ákvað á árinu 2018 að fara af stað með sérstakt þróunarverkefni um forvarnir til þriggja ára. Verkefnið hefur gengið mjög vel og gerð er grein fyrir stöðu verkefnisins í grein Ingibjargar Loftsdóttur í ársritinu 2020, sem sjá má á vefnum hér.

Atvinnutenging í starfsendurhæfingu hefur verið aukin gríðarlega hjá VIRK á undanförnum árum með tilkomu sérstakra atvinnulífstengla sem eru í virku samstarfi við fyrirtæki og stofnanir um allt land. Hér er um að ræða verkefni sem hefur það að markmiði að aðstoða sérstaklega þá einstaklinga sem ekki hafa fulla vinnugetu í lok starfsendurhæfingarferlis hjá VIRK og þurfa því sértæka og aukna aðstoð út á vinnumarkaðinn. Í dag eru starfandi 13 atvinnulífstenglar hjá VIRK í 11,8 stöðugildum. Um 1200 fyrirtæki eru skráð í gagnagrunn VIRK og hafa þannig á einn eða annan hátt tekið þátt í verkefninu og af þessum 1200 fyrirtækjum hafa 300 fyrirtæki undirritað sérstakan samstarfssamning við VIRK. Á árinu 2019 urðu til 179 störf hjá þessum fyrirtækjum fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu. Þetta eru störf sem unnt er að fullyrða að annars hefðu ekki staðið þessum einstaklingum til boða og því er ljóst að þetta verkefni skilar miklum ávinningi fyrir bæði viðkomandi einstaklinga og samfélagið í heild sinni. Sjá nánari umfjöllun um VIRK atvinnutengingu í grein Jónínu Waagfjörð í ársritinu 2020, sem sjá má hér.

Starfsendurhæfing á tímum COVID-19

Þegar þetta er skrifað hefur COVID-19 haft mjög mikil áhrif á samfélagið allt. Samkomubann er í gildi umfram 20 manns og búið er að loka aðgengi að fjölbreyttri þjónustu í samfélaginu. Við svona aðstæður þarf að fara nýjar leiðir í starfsendurhæfingu og tryggja þjónustu og stuðning í aðstæðum sem enginn hefur reynt áður.

Starfsmenn og ráðgjafar VIRK hafa undanfarnar vikur lagt sig alla fram um að aðlaga starfsemi VIRK að þeim aðstæðum sem hafa skapast í samfélaginu í kjölfar COVID-19. Mikil áhersla hefur verið lögð á það hjá VIRK að halda úti eins góðri þjónustu og unnt er í gegnum fjarfundabúnað, síma og net og var strax farið í að fjárfesta í öruggum fjarfundabúnaði til að taka viðtöl við einstaklinga í þjónustu. Auk þess var ákveðið að auka fjölda viðtala við þá einstaklinga í þjónustu sem það þyrftu þannig að þeir myndu upplifa þétt utanumhald og góða þjónustu á þessum tímum. Sérstakir þjónustupakkar voru útbúnir fyrir einstaklinga í starfsendurhæfingu hjá VIRK sem gerir þeim kleift að sinna ákveðinni endurhæfingu heima fyrir og þjónustuaðilar um allt land hafa einnig brugðist vel við kalli um að auka framboð af fjarúrræðum.

Flestir starfsmenn og ráðgjafar VIRK vinna að heiman og þrátt fyrir að aðstæður séu misjafnar til heimavinnu milli manna þá hafa allir lagt sig fram um að gera sitt besta við að veita góða þjónustu og hvatningu til einstaklinga í erfiðum aðstæðum.

Það var einnig ákveðið í samráði við Tryggingastofnun ríkisins að halda sérstaklega utan um þá einstaklinga sem voru komnir að útskrift en höfðu hvorki starf né tryggan stuðning frá öðrum kerfum á meðan þetta ástand hefur varað. Þessir einstaklingar hafa getað verið áfram í þjónustu VIRK og hafa fengið stuðning, hvatningu og aðstoð í formi sérstakra „bakslagsvarna“ til að fleyta þeim í gegnum þennan tíma.

Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að sjá fjölda starfsmanna og ráðgjafa VIRK vinna saman sem einn maður í að breyta og finna nýjar leiðir í þjónustu á örskömmum tíma. Á svona tímum kemur það vel í ljós hversu hæfir starfsmenn og ráðgjafar VIRK eru til að aðlagast breyttum aðstæðum og krefjandi umhverfi. Það er líka mjög ánægjulegt að upplifa mismunandi og ólíkar stofnanir vinna saman á þessum tíma í að finna góðar lausnir með hagsmuni einstaklinganna í huga.

„Í flóknu kerfi er alltaf hægt að gera betur og það er hlutverk allra aðila velferðarkerfisins að leita sífellt nýrra leiða til að bæta þjónustu og samvinnu milli kerfa og stofnana.“

Vinnum saman

VIRK gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi. Á hverjum tíma eru þúsundir einstaklinga í þjónustu VIRK og ná flestir mjög góðum árangri. Vandamál einstaklinganna eru flókin, einstaklingsbundin og kalla á lausnir sem geta þar af leiðandi einnig orðið flóknar, einstaklingsbundnar og krefjast samstarfs við marga ólíka aðila.

Þjónusta og starfsemi VIRK byggir á góðu samstarfi margra ólíkra aðila. Í stjórn VIRK sitja fulltrúar allra helstu aðila vinnumarkaðarins hér á landi auk fulltrúa Landssamtaka lífeyrissjóða og félagsmálaráðuneytisins, samtals 14 aðilar. VIRK vinnur náið með stéttarfélögum um allt land, lífeyrissjóðum, heilsugæslustöðvum og öðrum heilbrigðisstofnunum, félagsþjónustu sveitarfélaga, endurhæfingaraðilum, Tryggingastofnun ríkisins og Vinnumálastofnun auk nokkur hundruð úrræðaaðila sem koma með beinum hætti að þjónustu við einstaklinga í starfsendurhæfingu. Starf VIRK er því flókið og vandasamt og það skiptir verulegu máli bæði fyrir VIRK, velferðarkerfið í heild sinni og ekki síst fyrir einstaklinga í þjónustu að samstarf allra þessara aðila sé gott og að það sé ávallt sameiginlegt markmið allra aðila að auka þátttöku og velferð einstaklinga í vanda.

Í flóknu kerfi er alltaf hægt að gera betur og það er hlutverk allra aðila velferðarkerfisins að leita sífellt nýrra leiða til að bæta þjónustu og samvinnu milli kerfa og stofnana. Til að slíkt sé mögulegt þá er mikilvægt að menn komi sér saman um sameiginlega sýn þar sem hagsmunir einstaklinga og samfélagsins í heild sinni eru í forgrunni. Til viðbótar við það þá þurfum við að hlusta, miðla og bera virðingu fyrir sjónarmiðum og aðstæðum hver annars. Við erum á margan hátt á góðri leið en getum gert betur og það er verkefni okkar allra að taka þátt í þeirri vegferð af ábyrgð og einurð.


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband