Fara í efni

Forvarnarverkefni VIRK

Til baka

Forvarnarverkefni VIRK

Ingibjörg Loftsdóttir, sviðsstjóri rýni og forvarna hjá VIRK

 

Í byrjun árs 2018 ýtti VIRK úr vör forvarnarverkefninu VelVIRK. Markmið verkefnisins er að styðja við starfsmenn og stjórnendur til að sporna við brotthvarfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests sem hægt er að rekja til langvarnandi álags bæði í starfi og einkalífi.

Undirrituð hefur verið verkefnastjóri verkefnisins en auk þess var stofnaður stýrihópur sem hefur stutt við verkefnið frá upphafi. Í stýrihópnum sitja auk framkvæmdastjóra og nokkurra sérfræðinga VIRK fulltrúar stærstu stéttarfélaganna, Samtaka atvinnulífsins, félagsmálaráðuneytisins, Embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins. Þeir sérfræðingar sem helst hafa unnið að forvarnarverkefninu hjá VIRK eru María Ammendrup, Sara Lind Brynjólfsdóttir og Líney Árnadóttir auk þess sem mun fleiri hafa komið að einstökum liðum þess.

Fljótlega var ljóst að við vildum freista þess að hafa áhrif á umræðuna í samfélaginu, leggja til fræðslu og verkfæri fyrir vinnustaði, komast að því hvað væri að valda brottfalli af vinnumarkaði vegna álagstengdra þátta og loks að stuðla að heilsueflingu á vinnustöðum. Verkefnið hefur því tekið yfir fjóra megin þætti og verður staða hvers þáttar fyrir sig rakin hér að neðan.

Er brjálað að gera?

Miklar og fjörugar umræður voru í stýrihópi forvarnarverkefnisins um hvort og hvernig væri hægt að hafa áhrif á umræðuna í samfélaginu og vekja fólk til umhugsunar um hvort að við hefðum almennt of mikið að gera. Við værum jafnvel farin að gangast upp í því að hafa helst „brjálað að gera“.

Upp komu hugmyndir að þemum sem vert væri að leggja áherslu á og var m.a. haldinn fundur með heimskaffisniði til að leggja grunn að hnyttnum auglýsingum. Eftir umræður og speglun við nokkrar auglýsingastofur var ákveðið að fara í samstarf við Hvíta húsið og kannast nú flestir við auglýsingarnar sem eru alls átta og hafa birst í sjónvarpi, kvikmyndahúsum og á samfélagsmiðlum. Einnig hafa styttri auglýsingar verið í gangi í útvarpi, þá sérstaklega yfir sumartímann.

VelVIRK auglýsingarnar virka

Það er gaman að segja frá því að skoðanakönnun sem VIRK og Hvíta húsið stóðu fyrir sýnir að auglýsingarnar hafa fallið í jákvæðan jarðveg og vakið þá sem upplifa hvað minnst jafnvægi á milli vinnu og einkalífs til umhugsunar.

Niðurstöður könnunarinnar sýna að auglýsingarnar hafa vakið eftirtekt en 86% svarenda hafa séð þær. Næstum helmingi líkar vel við auglýsingarnar, 42% hvorki vel né illa og einungis um 12% líkar illa við þær.

Flestir, eða meira en þrír af hverjum fjórum segja auglýsingarnar hafa vakið sig til umhugsunar um mikilvægi þess að hafa jafnvægi í starfi og einkalífi. Þá höfðuðu auglýsingarnar meira til kvenna, til fólks 35-54 ára og þeirra sem eru ólíklegri til að upplifa jafnvægi. Verið er að skoða framleiðslu á nýjum auglýsingum með það í huga að ná til enn fleiri hópa.

www.velvirk.is

Vefsíðan velvirk.is fór í loftið 1. desember 2018. Vefsíðunni hefur verið mjög vel tekið og samkvæmt skráningu yfir fjölda notenda hverju sinni eru allt frá nokkrum tugum til nokkur hundruð notenda inn á síðunni hverju sinni.

Frá upphafi var lagt af stað með þá hugsun að síðan ætti að veita stuðning bæði til einstaklinga á vinnustöðum og einnig leiðtoga og stjórnenda. Búið er að safna miklu efni á síðuna og hefur ritstjórn síðunnar það að leiðarljósi að eingöngu sé um vandað efni að ræða sem unnið er af sérfræðingum á hverju sviði. Nýtt efni fer inn á síðuna nánast vikulega. Sem dæmi um vinsælt efni á velvirk síðunni er „Streitustiginn“ sem er að danskri fyrirmynd og getur nýst vel fyrir vinnustaði og einstaklinga til að meta sína streitu hverju sinni.

Nýleg viðbót á síðunni eru stutt viðtöl við stjórnendur sem hafa verið að fara nýjar leiðir á sínum vinnustöðum. Svo má nefna að þessar vikurnar má finna efni á síðunni sem talar sérstaklega til ástandsins vegna COVID-19 svo sem ýmis góð ráð bæði til starfsmanna og stjórnenda um fjarvinnu.

Rannsókn á brottfalli og endurkomu

Þegar stýrihópur forvarnarverkefnisins fór að reyna að átta sig á hvað væri einkum að valda brotthvarfi af vinnumarkaði vegna álagstengdra þátta komu ýmsar kenningar fram en fátt sem var fast í hendi. Þær rannsóknir sem fundust hér á landi þóttu ekki veita nægileg svör svo það var ákveðið að ráðast í rannsókn. Kannaðar voru ýmsar leiðir til að standa að slíkri rannsókn og ákveðið að hefjast handa í samstarfi við Vinnueftirlitið og sjúkrasjóð VR.

Tilgangur rannsóknarinnar er að freista þess að finna breytur sem eru öðruvísi hjá þeim sem komast aftur til starfa eftir langvarandi veikindi samanborið við þá sem komast ekki aftur til starfa. Að undangengnu óformlegu útboði var ákveðið að fara í samstarf við Félagsvísindastofnun HÍ um framkvæmd rannsóknarinnar og fengin umsögn bæði frá Vísindasiðanefnd og Persónuvernd.

Sendir voru spurningalistar til 1414 einstaklinga sem höfðu fengið greiðslur frá sjúkrasjóði VR og bárust 590 svör eða 42%, 19% karlar og 81% konur. Spurningalistinn samanstóð af spurningum er m.a. lúta að mati á eigin heilsu, streitu, aðstæðum í starfi og afstöðu til vinnustaðar. Notast var við stöðluð mælitæki þegar hægt var sem oft gefa tilefni til að draga tölfræðilegar ályktanir af niðurstöðum og bera saman við aðrar rannsóknir. Þó úrvinnsla gagna sé rétt að hefjast og frekari greining eigi eftir að eiga sér stað eru þegar komnar fram áhugaverðar vísbendingar um niðurstöður.

Í fyrsta lagi virðist eðli starfa hafa áhrif á það hvort fólk komist aftur til starfa eður ei að loknu veikindaleyfi. Þeir hópar sem komast helst til starfa eru sérfræðingar og/ eða tæknar, síðan fólk í gæslu-, lager eða framleiðslustörfum og síðan stjórnendur.

Í öðru lagi virðast stjórnendur með mannaforráð líklegri en þeir sem ekki eru með mannaforráð til að komast aftur til starfa.

Í þriðja lagi eru vísbendingar um það að menntun og aldur séu mikilvægar skýribreytur varðandi endurkomu til vinnu. Háskólamenntaðir eru líklegastir til að komast aftur til starfa en einstaklingar með grunnskólapróf síst líklegir. Áhrif aldurs á endurkomu til vinnu fylgir hefðbundinni sveiglínukúrfu; 40-49 ára einstaklingar hafa mestar líkur á endurkomu en ungir og aldnir minnstar líkur.

Frekari niðurstöður úr rannsókninni verða birtar síðar. Mögulega verður rannsóknin keyrð hjá fleiri stéttarfélögum í framtíðinni.

Heilsueflandi vinnustaður

Á vormánuðum 2019 var ákveðið að VIRK færi í formlegt samstarf með embætti landlæknis og Vinnueftirlitinu við að taka saman viðmið fyrir „Heilsueflandi vinnustað“.

Við gerð viðmiðanna hefur verið horft til þeirra viðmiða sem embætti landlæknis er þegar með fyrir Heilsueflandi skóla og Heilsueflandi samfélög og eins rannsókna og þeirrar vinnu sem liggur fyrir erlendis auk heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Í nóvember síðastliðnum var haldinn fundur þar sem hluti viðmiðanna voru rýnd auk þess sem viðmiðin hafa verið rýnd hjá samstarfsaðilunum. Drög að viðmiðunum eru nú komin í prufukeyrslu hjá tíu vinnustöðum og hjá stofnununum þremur.

Ef allt gengur eftir ættu viðmiðin að geta orðið aðgengileg fyrir alla vinnustaði í lok ársins eða byrjun árs 2021. Í samstarfinu hafa einnig verið haldnir fjórir morgunfundir þar sem áherslan hefur verið á fræðslu um allt sem getur stuðlað að vellíðan á vinnustað. Næsti morgunfundur var áætlaður í maímánuði og þá átti Christina Maslach, heimsþekktur sálfræðingur á sviði kulnunar, að fræða okkur um helstu áhættuþætti kulnunar og hvernig hægt sé að fyrirbyggja kulnun í starfi en verið er að skoða hvenær sá fundur getur orðið.


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband