Fara í efni

„Björgunarhringur á ólgandi hafi“

Til baka

„Björgunarhringur á ólgandi hafi“

Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK

 

Árið 2021 var gott ár í þjónustu VIRK þrátt fyrir sérstakar aðstæður vegna Covid. Í starfsemi VIRK var lögð mikil áhersla á það að halda uppi eins mikilli þjónustu og mögulegt var þrátt fyrir samkomutakmarkanir.

Starfsstöðvum VIRK var aldrei lokað á þessum tíma, einstaklingum var boðið upp á viðtal hjá ráðgjöfum eða viðtal í gegnum öruggan fjarfundarbúnað eftir þörfum og óskum hvers og eins. Mjög margir þjónustuaðilar sem starfa með VIRK voru öflugir við að aðlaga þjónustu sína að aðstæðum á hverjum tíma. Einnig var aukið úrval af þjónustu þróað á stuttum tíma í gegnum netið til að mæta þörfum einstaklinga á tímum Covid.

Þessi þróun mun síðan nýtast okkur til framtíðar þar sem fjölbreytni í þjónustumöguleikum er orðin mun meiri og aukið framboð af þjónustu í gegnum netið hefur t.d. komið landsbyggðinni mjög til góða og tryggt þar meiri fjölbreytni í þjónustu.

Árangur VIRK á árinu 2021 var góður og mikill fjöldi einstaklinga útskrifaðist með starfsgetu og í virka þátttöku á vinnumarkaði, sjá nánari upplýsingar og tölur um árangur VIRK í ársriti VIRK 2022 og á vefnum hér.

Fjöldi í þjónustu

Fjöldi í þjónustu VIRK hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin 3 ár. Algengur fjöldi einstaklinga í þjónustu er um 2400 einstaklingar á hverjum tíma. Covid hefur ekki ennþá haft afgerandi áhrif á fjölda í þjónustu VIRK en það bendir ýmislegt til þess að fjöldinn gæti aukist á næstu mánuðum og árum m.a. vegna áhrifa Covid. Áhrif efnahagsáfalla koma oft ekki strax fram í aukinni þörf fyrir starfsendurhæfingu.

Afleiðingarnar koma í ljós síðar eins og gerðist t.d. eftir efnahagshrunið 2008 en einstaklingar sem lentu illa í hruninu 2008 komu oft ekki í starfsendurhæfingu fyrr en nokkrum árum síðar. Við áföll missa einstaklingar ekki endilega heilsu strax. Þeir reyna að þrauka og finna oft ýmsar leiðir til þess í langan tíma. Sumum tekst að ná flugi aftur en ekki öllum enda eru aðstæður og geta einstaklinga eðlilega mjög mismunandi1.

Góð þverfagleg starfsendurhæfing getur hins vegar skipt sköpum fyrir marga einstaklinga sem missa vinnugetu í kjölfar stórra áfalla eins og Covid og við hjá VIRK höfum undirbúið okkur undir að veita þessum einstaklingum góða þjónustu á næstu mánuðum og árum í samstarfi við aðrar stofnanir velferðarkerfisins.

Að segja sögu

„VIRK var eins og björgunarhringur á ólgandi hafi, það skipti mig öllu að geta komist í skjól meðan ég vann í að ná heilsu.”
„Þetta úrræði bjargaði lífi mínu. Fannst algerlega frábært að það er tekið heildrænt á vandanum, ekki bara á augljósustu einkennunum.”
„Hjá VIRK tók ég þúsund skref áfram og hef ekki tekið eitt skref aftur á bak. Þökk sé ykkur.”
„Ég get með sanni sagt að starfsendurhæfingin hjá VIRK hafi bjargað mér og gefið mér líf á ný eftir áratuga veikindi.”
„VIRK bjargaði lífi mínu og geðheilsu – og ég stend í lappirnar í dag. Það að hafa komist í gegnum þennan kafla í lífi mínu heil og sterkari eru bestu meðmælin sem ég get gefið.”

Hér að ofan eru nokkur ummæli einstaklinga sem svöruðu þjónustukönnun VIRK í kjölfar þjónustuloka. Þjónustukönnun er eitt af þeim verkfærum sem notuð eru til að meta gæði og árangur af þjónustu VIRK með það að markmiði að gera betur og þróa þjónustuna áfram. VIRK mælir árangur þjónustunnar á fjölbreyttan máta, bæði út frá fjárhag, upplifun og gæðum. Það er samt sem áður þannig að sögur einstaklinga snerta alltaf mest. Þær eru alltaf einstakar, verðmætar og mikilvægar og á þær þurfum við að hlusta.

Það er líka mikilvægt að hafa það í huga að einstaklingar eiga fjölskyldur og vini sem eru hluti sögunnar og líðan og árangur hvers einstaklings í þjónustu VIRK hefur áhrif á fjölda annarra einstaklinga í samfélaginu. Saga okkar hefur áhrif á svo marga og það er mikilvægt að við styðjum hvert annað – sérstaklega þegar á móti blæs.

Það er hlutverk VIRK að aðstoða einstaklinga á erfiðum tímum í þeirra lífi. Einstaklingar koma til VIRK þegar þeir hafa misst vinnugetu sína, að hluta eða öllu leyti, í kjölfar heilsubrests og ýmis konar áfalla.

VIRK hefur veitt þjónustu á sviði atvinnutengdrar starfsendurhæfingar núna í tæplega fjórtán ár í samstarfi við fjöldann allan af fagaðilum, fyrirtækjum og stofnunum um allt land. Nálægt 20 þúsund einstaklingar hafa leitað til VIRK og tæplega 14 þúsund hafa lokið þjónustu. Af þeim sem lokið hafa þjónustu hafa um 78%, eða um 11 þúsund einstaklingar, útskrifast með einhverja vinnugetu (í vinnu, nám eða atvinnuleit). Þetta eru margir einstaklingar og margar sögur sem hafa haft áhrif víða í íslensku samfélagi.

Ýmsar upplýsingar um árangur VIRK út frá fjölbreyttum mælikvörðum og sögum má finna í ársriti VIRK 2022. Þetta eru áhugaverðar upplýsingar og ljóst má vera að starfsendurhæfing á vegum VIRK skilar bæði einstaklingum og samfélaginu miklum verðmætum.

Viðhorf og þekking á VIRK

Ég hef verið svo lánsöm að hafa fengið það verkefni að byggja VIRK upp frá grunni. Fyrsti vinnudagurinn minn hjá VIRK var 15. ágúst 2008 og mér er hann minnisstæður. Ég fékk í hendurnar samþykkta skipulagsskrá og fékk lánaða eina skrifstofu hjá ASÍ í Guðrúnartúni 1. Næsta skref var síðan að kaupa tölvu, ná netsambandi og skipuleggja fyrstu skrefin. Í ljós kom að verkefnið var gríðarlega stórt og mikið og þess eðlis að stöðug þróun og nýsköpun væri nauðsynleg. Starfsemi VIRK er ekki og verður ekki greypt í stein. Hún mun alltaf taka mið af þörfum og þróun samfélagsins á hverjum tíma.

Fyrstu árin var eðlilega ekki mikil þekking á VIRK í samfélaginu og oftar en ekki þurftu starfsmenn VIRK að útskýra starfsemina vel fyrir þeim sem spurðu út í starf þeirra og vinnustað. Þetta hefur hins vegar breyst mikið á undanförnum árum. Ástæða þess er sú að VIRK hefur snert fleiri og fleiri einstaklinga í íslensku samfélagi. Annað hvort með beinum hætti með því að veita þeim þjónustu eða á þann hátt að hafa veitt þjónustu til náinna ættingja og vina viðkomandi eða miðlað þekkingu og hvatningu til heilsueflingar í gegnum vefsíður, viðburði og auglýsingar.

Í febrúar á þessu ári var framkvæmd könnun á viðhorfi og þekkingu almennings á starfsemi VIRK. Könnunin var framkvæmd af Maskínu og lögð fyrir Þjóðgátt Maskínu sem er hópur fólks sem dreginn er með slembiúrtaki úr Þjóðskrá. Hópurinn sem tók þátt í könnuninni endurspeglar þjóðina út frá kyni, aldri og búsetu og svarendur voru af öllu landinu, 18 ára og eldri. Í þessari könnun kom meðal annars í ljós að um það bil annar hver Íslendingur þekkir einhvern nákominn sem hefur verið í þjónustu á vegum VIRK og um 8% höfðu sjálfir verið í þjónustu VIRK – sjá nánari upplýsingar í myndinni hér að ofan.

Samkvæmt könnuninni eru viðhorf almennings gagnvart VIRK í samfélaginu almennt jákvæð. Nær 8 af hverjum 10 eru jákvæðir gagnvart VIRK og aðeins 3% aðspurðra eru neikvæðir.

81% svarenda telja jafnframt að starfsemi VIRK hafi mikla þýðingu fyrir íslenskt samfélag. Þessar niðurstöður eru skýrar og gefa sterklega til kynna að almenningur telur að tilkoma VIRK hafi verið mikilvægt skref til velferðar í íslensku samfélagi.

Sjálfbærni, heilsa og jöfnuður

Í samfélagi nútímans þurfum við öll að hugsa um sjálfbærni. Við þurfum að vera meðvituð um hversu takmarkaðar auðlindir við höfum á ýmsum sviðum. Á sama tíma þurfum við öflugt atvinnulíf og góða verðmætasköpun m.a. til að tryggja gott og sterkt félagslegt kerfi og sjá til þess að samfélagið verði einnig félagslega sjálfbært til að unnt sé að tryggja velsæld, heilsu og frið. Sýnt hefur verið fram á með ótal rannsóknum að það er sterkt samband á milli heilsu, félagslegra þátta og jöfnuðar í samfélaginu. Þar sem efnahagslegur ójöfnuður er mikill og takmarkað aðgengi er að velferðarþjónustu þar búa menn almennt við verri lífsgæði og heilsufar2,3.

Í áhugaverðri grein Svandísar Nínu Jónsdóttur í ársritinu 2022 er m.a. fjallað um heilsufar, lýðheilsu og misskiptingu tekna og bent á mikilvægi þess að allir einstaklingar geti bætt lífsgæði sín og möguleika í samfélaginu.

Þjónusta VIRK stendur öllum landsmönnum á aldrinum 16-70 ára til boða að uppfylltum ákveðnum skilyrðum sem sett eru fram í lögum nr. 60/2012 og snúa að mestu að því að þjónustan sé faglega viðeigandi á þeim tíma sem hún er veitt. Þjónustan er að mestu leyti gjaldfrjáls og skiptir miklu máli bæði fyrir einstaklinginn sem nýtur hennar, fjölskyldu hans og sem þáttur í að auka jöfnuð og sjálfbærni í samfélaginu.

Þeir einstaklingar sem leita til VIRK eru oft í miklum vanda. Ekki einungis eru þeir að glíma við heilsubrest heldur er oft til staðar fjölþættur vandi. Um 40% einstaklinga sem leituðu til VIRK árið 2021 sögðust eiga erfitt með að ná endum saman samanborið við um 11% svarenda í fyrrnefndri könnun Maskínu – sjá myndina hér að ofan. Það skiptir því miklu máli fyrir þessa einstaklinga að geta gengið að gjaldfrjálsri starfsendurhæfingarþjónustu hjá VIRK eins og eftirfarandi tilvitnanir úr þjónustukönnun VIRK gefa til kynna:

„Að fá aðgang að mörgum úrræðum sem ég hefði annars ekki haft efni á og væri því ekki eins vel stödd í dag og ég er.“
„Aðgengi að fjölbreyttri fagþjónustu frítt.“
„Frábært aðhald og ókeypis aðgang að allri þjónustu.“
„Gott samband við ráðgjafann, góð samtöl þar sem skilningur ríkti sem var ómetanlegt. Einnig var gott að eiga þess kost að fá aðgang að þjónustu ýmiskonar sér að kostnaðarlausu.“
„Ég fékk mjög góða þjónustu. Ég hefði ekki farið í sjúkraþjálfun og til sálfræðings án þeirra hjálpar.“
„Viðmótið, úrræðin, ég hefði ekki lifað af ef ekki hefði verið fyrir þetta tímabils.“

Trú á eigin getu

Í þessu samhengi er einnig áhugavert að velta fyrir sér áhrifum sálfélagslegra þátta á heilsufar einstaklinga og viðbrögð þeirra við veikindum og/eða erfiðum aðstæðum. Ýmsar rannsóknir hafa sýnt fram á að trú einstaklinga á eigin getu hafi umtalsverð áhrif á endurkomu til vinnu í kjölfar veikinda.

Í sænskri rannsókn (2017) á árangri starfsendurhæfingar ungs fólks (<30 ára) kom í ljós að einstaklingar sem mældust hærri á trú á eigin getu kvarðanum voru líklegri en þeir sem mældust lægri til að fara út á vinnumarkaðinn að nýju, þó leiðrétt hafi verið fyrir áhrifum bakgrunnsþátta og umfangi veikinda4. Svipað má segja um fólk í fleiri aldurshópum; trú á eigin getu til að ná auknu starfsþreki hefur tölfræðilega marktæk áhrif á vinnumarkaðsþátttöku fólks, burtséð frá aldri5.

En hvað er trú á eigin getu og hvað veldur því að sumir einstaklingar hafa meiri trú á eigin getu en aðrir? Til einföldunar má segja sem svo að trú á eigin getu sé fólgin í hugmyndum einstaklinga um eigið sjálf og getu sína eða hæfni til að komast í gegnum andstreymi, þ.e. að þeir geti náð tökum á nýjum eða breyttum aðstæðum í lífi sínu og tileinkað sér nýja færni ef nauðsyn krefur6.

Af þessu leiðir að geta einstaklinga er að einhverju leyti huglæg og þ.a.l. háð hugmyndum þeirra um eigin getu og færni. Að baki slíkra viðhorfa – eða hugmyndakerfa öllu heldur – er þó langur ferill sem á sér rætur í bernsku einstaklinga, þroska þeirra og mótun sjálfsmyndar. Til að gera langa – og flókna – sögu stutta er trú okkar á eigin getu í sífelldri mótun allt æviskeiðið og geta aðstæður í lífi okkar bæði aukið og dregið úr trú okkar á eigin getu.

Af þessum sökum er mikilvægt að starfsendurhæfing taki mið af þessum þætti í fari fólks og leitist við að styrkja einstaklinga og efla tiltrú þeirra7,8. Þetta dregur þannig einnig fram mikilvægi þess að tryggja einstaklingum og ekki síst börnum góðan aðbúnað, tækifæri og félagslegar aðstæður í gegnum lífið.

Þróunarverkefni VIRK um kulnun

Á undanförnum árum hefur átt sér stað mikil umræða um kulnun hér á landi. Það er í sjálfu sér jákvætt að menn ræði í auknum mæli um líðan og aðstæður einstaklinga á vinnumarkaði. Það er hins vegar að sama skapi einnig mikilvægt að skilgreina betur hvað menn eiga við þegar rætt er um kulnun með það að markmiði að auka gæði umræðunnar, tryggja að einstaklingar fái þjónustu við hæfi og efla og tryggja viðeigandi forvarnir.

Hjá VIRK er í gangi stórt rannsóknar- og þróunarverkefni tengt kulnun og hér í ársritinu eru kynntar fyrstu niðurstöður í þessu verkefni. Verkefnið er hins vegar rétt að hefjast og markmiðið er að ná enn betur utan um bæði skilgreiningar, þjónustu og forvarnir á þessu sviði. Í þróunarverkefni VIRK um kulnun er gengið út frá skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismá lastofnunarinnar (WHO) á kulnun sem er eftirfarandi:

„Kulnun er heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á. Einkenni kulnunar eru á þrem víddum: 1) Orkuleysi eða örmögnun; 2) Andlega fjarverandi í vinnu, neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað; 3) Minni afköst í vinnu. Kulnun vísar til fyrirbæris í tengslum við vinnuumhverfið og ætti ekki að vera nýtt til að lýsa reynslu á öðrum sviðum lífsins”9.

Samkvæmt þessari skilgreiningu ættum við einungis að nota hugtakið „kulnun“ yfir þær aðstæður þegar langvarandi streita í vinnuumhverfi hefur haft ákveðnar afleiðingar en ekki við aðrar aðstæður – jafnvel þó einkennin séu svipuð. Í þessu samhengi má einnig nefna að einkenni heilsufarsvanda eins og kvíða, þunglyndis og áfallastreitu eru oft ekki ósvipuð einkennum kulnunar eins og þeim er lýst hér að ofan í skilgreiningu WHO en þessir sjúkdómar kalla hins vegar á allt aðra nálgun í þjónustu og meðferð og því er mjög mikilvægt að greina þarna á milli.

Áður en einstaklingar koma í þjónustu VIRK svara þeir rafrænum spurningalista á Mínum síðum í upplýsingakerfi VIRK. Þar snýr ein spurningin að kulnun í starfi og telja 40-50% einstaklinga að óvinnufærni þeirra sé unnt að rekja meðal annars til kulnunar. Þessi svörun endurspeglar hugsanlega þá miklu umræðu sem hefur átt sér stað í samfélaginu um kulnun því einkenni kulnunar svipa oft til einkenna annarra algengra heilsufarsvandamála. Þegar farið er yfir læknisbeiðnir sem til staðar eru fyrir alla einstaklinga hjá VIRK þá kemur í ljós að í um 10,7% þeirra er kulnun talin vera meginástæða tilvísunar í starfsendurhæfingu.

Þegar sérfræðingar á vegum VIRK skoðuðu síðan nánar þessai 10,7% beiðna og höfðu samband við einstaklingana til að fá nánari upplýsingar um aðstæður þeirra og líðan og spegluðu þær upplýsingar við ofangreinda skilgreiningu WHO á kulnun þá kemur í ljós að í um 3,8% beiðnanna er kulnun (samkvæmt skilgreiningu WHO) hin raunverulega ástæða óvinnufærni og tilvísunarinnar til VIRK. Í hinum beiðnunum var vandinn ekki síður alvarlegur og oft alvarlegri en ástæðan var ekki kulnun heldur annar heilsufarsvandi. Sjá myndræna framsetningu á þessu ferli í myndinni hér að ofan.

Hér er eingöngu um að ræða skoðun á beiðnum sem berast til VIRK og því varhugavert að draga af þessu ályktanir um fjölda einstaklinga sem glíma við afleiðingar kulnunar í samfélaginu. Það má t.d. gera ráð fyrir að talsverður fjöldi einstaklinga sem glímir við afleiðingar kulnunar þurfi ekki að leita til VIRK heldur nái fyrri heilsu með leiðbeiningum og aðstoð frá heilbrigðiskerfinu.

Þróunar- og rannsóknarverkefni VIRK hefur það að markmiði að kynna og innleiða með markvissari hætti skilgreiningu WHO á kulnun með það að markmiði að veita öruggari og markvissari þjónustu bæði í starfsendurhæfingu sem og annars staðar í velferðarkerfinu.

Skýr skilgreining á kulnun aðstoðar okkur ennfremur við að ná betri tökum á þessum vanda. Ef við nálgumst verkefnið með umræðu þar sem hugtakið „kulnun“ er orðið eins og regnhlíf yfir alls kyns heilsufarsvanda sem á sér mismunandi orsakir þá getum við hvorki verið markviss eða fagleg í forvörnum eða aðstoð við þessa einstaklinga.

Nánari upplýsingar um þetta verkefni er að finna í grein Berglindar Stefánsdóttur og Guðrúnar Rakelar Eiríksdóttur, sálfræðinga og verkefnastjóra hjá VIRK, í ársriti VIRK 2022.

Þessi þrengri skilgreining á kulnun dregur hins vegar ekkert úr vanda mjög margra einstaklinga sem kljást við heilubrest og erfiðar aðstæður af ýmsum toga. Í þessu samhengi má nefna að stór hluti einstaklinga sem leitar til VIRK er að glíma við afleiðingar ýmiss konar ofbeldis og áfalla á lífsleiðinni og á því þurfum við að taka sem samfélag, bæði með forvörnum og aukinni aðstoð. Oft kalla aðstæður þessara einstaklinga á enn meiri þjónustu á sumum sviðum en þörf væri á ef um væri að ræða afleiðingar kulnunar. Hjá VIRK á sér nú stað þróun í þá veru að auka þjónustu við einstaklinga sem kljást við afleiðingar ofbeldis bæði á sviði forvarna og starfsendurhæfingar.

Áherslur næstu mánuði

Starfsemi VIRK er alltaf í stöðugri þróun til að mæta þörfum samfélagsins á hverjum tíma. Það eru margir þættir sem hafa áhrif á starfsemina og þróun hennar og má þar m.a. nefna þarfir einstaklinga og atvinnulífs auk þess sem velferðarkerfið þróast og breytist og það hefur eðlilega áhrif á starfsemina. VIRK hefur verið að vinna í samræmi við stefnumótun sem kynnt var í ársriti VIRK árið 2020. Á árinu 2022 verður sérstaklega lögð áhersla á eftirfarandi þætti:

Stöðug fagleg þróun í starfsendurhæfingu

VIRK er stöðugt að þróa faglegt starf með það að markmiði að veita betri þjónustu og ná betri árangri. Mikil þróun á sér nú stað á starfsendurhæfingarlíkani VIRK sem byggir m.a. á ICF flokkunarkerfi WHO um færni, fötlun og heilsu. Sérstaða líkans VIRK er að það tekur mið af færni einstaklings og hindrunum til atvinnuþátttöku.

Þegar einstaklingur er kominn í þjónustu gera ráðgjafi og einstaklingur áætlun um endurkomu til vinnu í sameiningu. Áætlunin inniheldur markmið og viðeigandi þrepaskipt úrræði sem byggja á færni einstaklings og hindrunum til atvinnuþátttöku. Þar sem áhugahvöt og seigla hefur áhrif á framvindu í starfsendurhæfingunni er mikilvægt að fá endurgjöf frá þjónustuaðilum reglulega varðandi framgang meðferða. Til að tryggja að starfsendurhæfingin sé markviss er færni einstaklings til atvinnuþátttöku uppfærð reglulega og eru mál einstaklinga rýnd eftir þörfum með viðeigandi sérfræðingum. Sett eru fram ný markmið þegar það á við þar til þjónustu lýkur og einstaklingur útskrifast með starfsgetu í atvinnu/atvinnuleit, fer í nám eða hann er tengdur við önnur kerfi.

Í öllu starfsendurhæfingarferlinu hafa ráðgjafar VIRK aðgang að mjög reyndum sérfræðingum á mismunandi sviðum svo sem sálfræðingum, sjúkraþjálfum, iðjuþjálfum, félagsráðgjöfum og læknum. Þessir sérfræðingar fara yfir mál einstaklinga með ráðgjöfum og aðstoða við stefnu og ákvörðunartöku í starfsendurhæfingarferlinu. Einstaklingar hitta líka þessa sérfræðinga eftir þörfum. Nánar má lesa um starfsendurhæfingarlíkan VIRK og úrræði í starfsendurhæfingu í grein Ástu Sölvadóttur, sviðsstjóra hjá VIRK í ársritinu 2022.

Aukin atvinnutenging í starfsendurhæfingu

Áfram er unnið að aukinni atvinnutengingu í starfsendurhæfingu í samstarfi við atvinnurekendur um allt land. Ráðgjafar VIRK hafa alltaf verið í góðu samstarfi við atvinnulífið og flestir einstaklingar sem ljúka þjónustu VIRK eiga greiða leið aftur út á vinnumarkaðinn með aðstoð ráðgjafa. Hins vegar er alltaf hópur einstaklinga sem býr við þannig heilsubrest að þörf er á meiri og sérhæfðari aðstoð við að finna störf við hæfi. Hér hefur VIRK komið inn með þjónustu sérhæfðra atvinnulífstengla. Atvinnulífstenglar hjá VIRK vinna að því hörðum höndum alla daga að byggja upp samstarf og tengsl við fyrirtæki og stofnanir með það að markmiði að fjölga störfum fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu.

Þessi þjónusta hefur verið í stöðugri þróun hjá okkur undanfarin ár og sífellt bætast við fleiri og fleiri samstarfsaðilar. Yfir 1400 fyrirtæki og stofnanir eru skráð í upplýsingakerfi VIRK í dag og um 350 þessara fyrirtækja og stofnana hafa undirritað sérstakan samstarfssamning við VIRK. Á árinu 2021 urðu til 294 störf í þessu samstarfi og flest þessara starfa eru hlutastörf sem sérstaklega mæta einstaklingum með skerta starfsgetu. Þessi fjöldi starfa kemur til viðbótar við allan þann fjölda einstaklinga sem fer beint í starf í kjölfar starfsendurhæfingar hjá ráðgjöfum VIRK. Í ársriti VIRK 2022 er umfjöllun og ýmsar tölfræðilegar upplýsingar um þennan þátt þjónustu VIRK og árangur hennar.

Starfsendurhæfing samhliða vinnu

Einstaklingar hafa möguleika á að koma í starfsendurhæfingu hjá VIRK samhliða vinnu. Þetta getur verið árangursríkt og viðeigandi ef starfsmenn treysta sér ekki til að sinna fullu starfi vegna heilsubrests en draga úr starfshlutfalli tímabundið og sinna starfsendurhæfingu á móti þar sem markmiðið er að ná aftur fullri starfsgetu. Á þennan hátt halda starfsmenn alltaf tengingu við vinnustaðinn og samstarf getur orðið milli starfsmanns, vinnustaðar og ráðgjafa um að viðkomandi nái aftur fullri starfsgetu. Þessi möguleiki hefur alltaf verið til staðar hjá VIRK og margir hafa nýtt sér hann en þessa dagana er verið að leggja meiri áherslu á að kynna þennan möguleika í þjónustu meðal annars með það að markmiði að fá einstaklinga fyrr inn í starfsendurhæfingarferlið. Nánari umfjöllun um starfsendurhæfingu samhliða vinnu er að finna í grein Jónínu Waagfjörð, sviðsstjóra hjá VIRK, í ársriti VIRK.

Aukið samstarf við sjúkrasjóði stéttarfélaga

VIRK starfar náið með aðilum vinnumarkaðarins og hefur átt mjög gott samstarf við bæði samtök atvinnurekenda og samtök og stéttarfélög launamanna um allt land. Ráðgjafar VIRK eru staðsettir hjá stéttarfélögunum og gott samstarf er við stéttarfélög og sjúkrasjóði þeirra. Þessa dagana er verið að útfæra og þróa enn meira samstarf við þessa aðila sem hefur það að markmiði að auka upplýsingagjöf og ráðgjöf til einstaklinga sem og að auka snemmbærni í starfsendurhæfingu þegar það á við. Tilraunaverkefni í þessa veru fara af stað með nokkrum félögum núna í sumar og í haust og ef vel tekst til þá er stefnt að því að auka samstarf VIRK í þessa veru við sjúkrasjóði stéttarfélaga um allt land.

Forvarnir

Stofnað hefur verið sérstakt fagsvið hjá VIRK vegna þjónustu og rannsókna á sviði forvarna. Markmiðið er að styðja við starfsmenn og stjórnendur til að sporna við brotthvarfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Fjölmörg verkefni eru nú þegar til staðar á þessu sviði enda hefur forvarnarverkefni verið í gangi hjá VIRK síðan 2018. Til upplýsinga má m.a. nefna eftirfarandi:

  • Vefurinn www.velvirk.is inniheldur mikið af fræðsluefni og verkfærum bæði fyrir einstaklinga og stjórnendur í atvinnulífinu þar sem markmiðið er að stuðla að heilsueflingu og auka starfsgetu. Ýmsar hugmyndir eru í gangi um nýtt gagnvirkt efni á vefnum sem starfsmenn og stjórnendur gætu nýtt til aukinnar heilsueflingar, betri stjórnunar og betri lífsgæða.
  • Heilsueflandi vinnustaður. Þetta verkefni er unnið í samstarfi VIRK, embættis landlæknis og Vinnueftirlitsins þar sem mótuð hafa verið heilsueflandi viðmið fyrir vinnustaði og byggð upp vefsíða (www.heilsueflandi.is). Vinnustaðir geta notað vefsíðuna til að máta sig inn í viðmiðin og halda utan um heilsueflingu á vinnustaðnum. Sjá nánari umfjöllun um þetta verkefni í umfjöllun Ingibjargar Loftsdóttur, sviðsstjóra VIRK, og Líneyjar Árnadóttur, sérfræðings, í ársriti VIRK 2022.
  • Rannsókn á áhrifaþáttum vinnugetu. Núna í vor er von á niðurstöðum rannsóknar sem VIRK stendur að í samstarfi við um 10 sjúkrasjóði stéttarfélaga um allt land. Markmiðið með rannsókninni er að greina áhrifaþætti starfsgetu þeirra einstaklinga sem fá dagpeningagreiðslur frá sjúkrasjóðum stéttarfélaga. Þ.e. hvað verður til þess að sumir einstaklingar fara aftur til starfa í kjölfar langs veikindaleyfis og aðrir einstaklingar ná ekki aftur fullri starfsgetu og fara jafnvel á örorku.
  • Vitundarvakningar. Hluti af forvarnarverkefni VIRK er að móta og keyra vitundarvakningar sem hafa það að markmiði að vekja samfélagið í heild sinni, vinnustaði og einstaklinga til umhugsunar um það sem mætti betur fara til að sporna við brotthvarfi af vinnumarkaði vegna álagstengds heilsubrests og streitu. Þetta verkefni er í sífelldri þróun og endurskoðun.
  • Aukin þjónusta við einstaklinga og fyrirtæki á sviði forvarna. Þessa dagana er unnið að hugmyndum um aukna þjónustu við einstaklinga og fyrirtæki á sviði forvarna. Til þess verða meðal annars notaðar vefsíður VIRK m.a. með gagnvirku efni og fleiri möguleikar eru í þróun.

Þróun og breytingar

Starfsemi VIRK þróast stöðugt og breytist í takt við áherslur og þarfir samfélagsins á hverjum tíma. Það er ekkert hoggið í stein hjá VIRK og við leggjum okkur fram um það að vera sífellt opin fyrir nýjum verkefnum, tækifærum og samstarfi. Þannig hefur þetta verið undanfarin 14 ár og þannig mun þetta sjálfsagt alltaf verða hjá VIRK. Það er ekki unnt að ná árangri í starfsendurhæfingu nema í samstarfi við aðra aðila sem einnig breytast og þróast. Starfsendurhæfing þarf síðan að aðlaga þjónustu sína og áherslur í takt við síbreytilegt umhverfi, þarfir og áherslur samfélagsins á hverjum tíma.

Við slíkar aðstæður er mikilvægt að vera opinn fyrir breytingum og nýjungum og þá er líka mikilvægt að vera tilbúinn til að þora að takast á við ný verkefni, beygja af leið ef þarf og vera opinn fyrir gagnrýni, ábendingum og nýjum hugmyndum. Það sem er kannski mikilvægast af öllu í þessu samhengi er að minna sig reglulega á að starfsemin er fyrst og fremst til fyrir einstaklingana sem þurfa á þjónustunni að halda og allar ákvarðanir okkar og áherslur verða sífellt að endurspegla þá staðreynd.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2022

Heimildir

  1. Bryant, R. (2019). Post-traumatic stress disorder: A state-of-the-art review of evidence and challenges. World Psychiatry, 18(3).
  2. Kate Pickett. 2015. 5 reasons why we need to reduce global inequality. World Economic Forum: https://www.weforum. org/agenda/2015/09/5-reasons-why-weneed-to-reduce-global-inequality/?fbclid=I wAR18hl6gx5_0NAP4SJ_qzEtaoLhBDlxz seQzrwDpHdumFoIYoyFyYqB3B-U
  3. Helgertz o.fl. (2013). Relative deprivation and sickness absence in Sweden. International Journal of Environmental Research and Public Health, 10(9).
  4. Andersen o.fl. (2018). The relationship between self-efficacy and transition to work or studies in young adults with disabilities. Scandinavian Journal of Public Health, 46(2), 272-278.
  5. Black o.fl. (2017). The Effect of SelfEfficacy on Return-to-Work Outcomes for Workers with Psychological or Upper-Body Musculoskeletal Injuries: A Review of the Literature. Journal of Occupational Rehabilitation, 28(1), 16-27.
  6. Beatson, o.fl. (2019). The influence of self-efficacy beliefs and prior learning on performance. Accounting and Finance, 60(2), 1271-1294.
  7. Wood o.fl. (2017). Emerging Adulthood a Critical Stage in the Life Course, í Halfon o.fl. (ritstj.) Handbook of life course health development, 123-145. Springer International Publishing.
  8. Alessandri o.fl. (2018). Job burnout: The contribution of emotional stability and emotional self-efficacy beliefs. Journal of Occupational and Organizational Psychology, 91(4), 823-851.
  9. World Health Organization. (2019). International statistical classification of diseases and related health problems (11th ed.). Sjá á síðu: https://icd.who.int/

Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband