Fara í efni

Úrræði í atvinnutengdri starfsendurhæfingu í takt við færni einstaklings og hindranir til atvinnuþátttöku

Til baka

Úrræði í atvinnutengdri starfsendurhæfingu í takt við færni einstaklings og hindranir til atvinnuþátttöku

Ásta Sölvadóttir sviðsstjóri úrræða hjá VIRK

 

Vorið 2018 var nýtt upplýsingakerfi tekið í notkun hjá VIRK þar sem innleitt var nýtt flokkunarkerfi fyrir upplýsingar sem tengdust starfsendurhæfingunni sem byggði á ICF módelinu (International Classification of Function, Disability and Health) frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO).

Þróun á kerfinu hjá VIRK hefur haldið áfram alveg frá útgáfu þess og í lok árs 2021 lauk þróun á nýrri uppsetningu á flokkun þessara upplýsinga þar sem sérstakir færniflokkar koma til sögunnar (Mynd 1). Í hverjum færniflokki fyrir sig metur ráðgjafi VIRK færni einstaklings út frá hindrunum til atvinnuþátttöku. Að þróuninni komu sviðsstjórar og sérfræðingar á starfsendurhæfingarsviði VIRK auk ráðgjafa VIRK.

Þegar einstaklingur sækir um að komast að í starfsendurhæfingu hjá VIRK hefur borist beiðni frá tilvísandi lækni og í framhaldinu svarar hann spurningalistum í upplýsingakerfi VIRK. Hluti af þessum spurningum er sérstaklega kóðaður eftir ICF módelinu þannig að svörin hlaðast inn í færniflokkana.

Upplýsingarnar frá færniflokkunum, ýmsar persónutengdar upplýsingar ásamt upplýsingum úr beiðni tilvísandi læknis eru síðan nýttar í inntökuferlinu. Með þessu móti fæst yfirlitsmynd af færni einstaklingsins m.t.t. hindrana til vinnu. Ef starfsendurhæfing er metin raunhæf er viðkomandi boðin þjónusta VIRK.

Einstaklingur í þjónustu VIRK fær ráðgjafa sem heldur utan um starfsendurhæfingu viðkomandi. Í sameiningu fara þjónustuþegi og ráðgjafi yfir upplýsingar sem fyrir liggja. Færni er metin, markmið sett og áætlun um endurkomu á vinnumarkað útbúin. Að þessari kortlagningu lokinni hefst markviss atvinnutengd starfsendurhæfing. Í henni er unnið með styrkleika einstaklings og aðstoð veitt við að yfirvinna hindranir til atvinnuþátttöku.

Færniflokkar, markmiðssetning og tegundir þjónustu

Á mynd 1 hér að ofan má sjá færniflokkana. Ráðgjafi VIRK metur færni einstaklings í hverjum færniflokki fyrir sig í upphafi ferils og tekur, í samráði við hann, ákvörðun um hvaða markmiðum skal vinna að í starfsendurhæfingunni. Markmiðin stefna öll að því að auka möguleika þjónustuþegans á farsælli endurkomu á vinnumarkaðinn. Þessi vinna mun síðan hafa mikil áhrif á hvaða tegund úrræða er valin í framhaldinu. Í gegnum allt ferlið endurmetur ráðgjafi færniflokkana til að fylgjast með framgangi starfsendurhæfingar og þannig nýtast þeir eins og mælitæki á árangur.

Þrepaskipting úrræða

Þegar ráðgjafi og einstaklingur hafa lokið við að setja markmið í viðeigandi færniflokki er komið að því að velja viðeigandi úrræði. Við val á úrræðum er tekið mið af færni einstaklings og hindrunum til atvinnuþátttöku. Úrræðum er skipt í fjögur þrep í upplýsingakerfi VIRK og eru þau flokkuð eftir alvarleika hindrana til atvinnuþátttöku. Því meiri sem hindrun einstaklingsins er, því sértækara úrræði verður fyrir valinu hjá viðeigandi fagaðilum.

Gæði í þjónustu og góð samskipti skila árangri í starfsendurhæfingu

Góð samskipti þjónustuaðila, einstaklinga, ráðgjafa og sérfræðinga VIRK gegna lykilhlutverki í árangursríkri starfsendur hæfingu. Þjónustuaðilar upplýsa um framgang meðferðar. Ráðgjafar taka ákvarðanir um næstu skref í samráði við þjónustuþega og sérfræðinga VIRK. Ráðgjöfum VIRK stendur til boða, í gegnum starfsendurhæfingarferilinn, aðstoð frá sérstökum fagteymum skipuðum sérfræðingum hjá VIRK þar sem lagt er mat á hvort framgangur sé í starfsendurhæfingu, hvort úrræði skili tilætluðum árangri eða hvort fara þurfi aðra leið. Árangursrík starfsendurhæfing er samvinnuverkefni margra aðila.

500 þjónustuaðilar með virkar pantanir

VIRK átti í samstarfi við fjölda fagaðila vegna úrræða á árinu 2021. Kostnaður vegna kaupa á úrræðum jókst lítillega og nam 1639 milljónum króna sem fylgt hefur fjölgun einstaklinga í þjónustu hjá VIRK. Mynd 2 sýnir þróun útgjalda vegna aðkeyptrar þjónustu á föstu verðlagi. Í árslok 2021 voru rúmlega 500 þjónustuaðilar með virkar pantanir í upplýsingakerfi VIRK og er það svipaður fjöldi virkra þjónustuaðila og undanfarin ár.

Mynd 3 sýnir hlutfallslega skiptingu útgjalda vegna aðkeyptrar þjónustu frá samstarfsaðilum á árinu 2021. Hæstri fjárhæð er varið til kaupa á sérhæfðum starfsendurhæfingarúrræðum hjá starfsendurhæfingarstöðvum um land allt, um 52% útgjalda. Um 24% fjárhæðar er varið til kaupa á sálfræðiþjónustu. Úrræði tengd hreyfingu og sjúkraþjálfunar nema samtals um 10%.

Þróun hefur orðið á þjónustuframboði tengt Covid faraldrinum. Mikil fjölgun varð í fjarúrræðum á árinu 2020. Þegar litið er til veittrar þjónustu árið 2021 er ljóst að fjarúrræði eru komin til að vera. Þessi þróun felur í sér margvísleg tækifæri bæði fyrir þjónustuaðila VIRK sem geta boðið þjónustu fyrir stærri hóp en áður. Eins fylgja fjarúrræðum fleiri tækifæri fyrir þjónustuþega á landsbyggðinni hvað varðar aðgengi að úrræðum. Á endanum eru það ávallt gæði þjónustunnar sem stýra kaupum á þjónustu og því mikilvægt að þjónustan sem í boði er sé í takt við þarfir VIRK.

Skipting þjónustuaðila VIRK

Um 160 sálfræðingar veittu sálfræðiþjónustu hjá VIRK á árinu 2021. Sálfræðingar veita einstaklingum með geðrænan og streitutengdan vanda einstaklingsviðtöl og sérfræðiráðgjöf auk ýmissa námskeiða og hópmeðferða sem byggja á gagnreyndum aðferðum. Þjónustunni er þrepaskipt eftir eðli vanda einstaklings og styðjast sálfræðingar við klínískar leiðbeiningar í meðferðarvinnu. Sálfræðingar auk fleiri fagstétta bjóða einnig upp á fjölda úrræða á sviði náms- og vinnumiðaðrar sjálfseflingar sem miða að endurkomu til vinnu. Fjöldi sjúkraþjálfara sem starfa með VIRK er um 140 og hefur sá fjöldi haldist stöðugur undanfarin ár. Sjúkraþjálfarar veita fjölbreytta einstaklings- og hópþjónustu fyrir einstaklinga með stoðkerfisvanda og styðjast þeir einnig við klínískar leiðbeiningar í meðferðarvinnu. Þeir styðja auk þess einstaklinga til að gera hreyfingu að lífstíl. Um 110 aðrir þjónustuaðilar bjóða upp á ýmsa heilsueflandi þjónustu eins og líkamsrækt með stuðningi íþróttafræðings eða þjálfara, vatnsleikfimi og jóga.

Við val á úrræðum er tekið mið af færni einstaklings og hindrunum til atvinnuþátttöku. 

Um 40 fræðsluaðilar og símenntunarmiðstöðvar veita ráðgjöf og fræðslu sem eykur möguleika einstaklinga á vinnumarkaði. Hér er um mjög fjölbreytta þjónustu að ræða sem getur falið í sér áhugasviðsgreiningar, hæfnigreiningar, raunfærnimat, nám á vottuðum námsleiðum auk fjölmargra styttri námskeiða sem auka möguleika á vinnumarkaði.

Talsverður fjöldi þjónustuaðila veitir atvinnutengda þjónustu. Þar má nefna vinnuprófanir, úttekt á vinnuumhverfi, ráðgjöf og stuðning á vinnustað við endurkomu til vinnu sem og ýmis úrræði sem miða að því að undirbúa þjónustuþega sem best undir atvinnuleit. Fagaðilum sem veita ráðgjöf og þjónustu hefur fjölgað talsvert á undanförnum árum og voru 59 talsins árið 2021. Þá er VIRK einnig í samstarfi við nokkurn fjölda markþjálfa.

Hópur útlendinga í þjónustu VIRK fær einnig ýmsan sértækan stuðning eins og íslenskunámskeið og túlkaþjónustu. Úrræðum fyrir útlendinga hefur fjölgað á undanförnum árum og eru fleiri þjónustuaðilar farnir að bjóða upp á úrræðin sín á öðrum tungumálum en íslensku.

VIRK er í samstarfi við níu starfsendurhæfingarstöðvar sem eru staðsettar um land allt en þrjár þeirra eru staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Samstarfssamningar við starfsendurhæfingarstöðvar eru liður í því að tryggja að til staðar sé fagleg þekking og reynsla á sviði starfsendurhæfingar um land allt. Samstarf VIRK og stöðvanna byggir á reglulegum þverfaglegum rýnifundum með sérfræðingum VIRK og ráðgjafa einstaklings þar sem farið er markvisst yfir mál einstaklinga sem eru í þjónustu stöðvanna á vegum VIRK.

Úrræðasvið VIRK

Á úrræðasviði VIRK starfa fjórir starfsmenn. Hlutverk sviðsins er að hafa umsjón með þeirri þjónustu sem VIRK kaupir, sinna eftirliti með þjónustukaupum og tryggja upplýsingastreymi varðandi úrræði til þjónustuaðila, ráðgjafa og sérfræðinga VIRK. Þá er þróunar- og umbótastarf fyrirferðarmikið á sviðinu.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2022


Fréttir

27.04.2024
30.04.2024

Hafa samband