Fara í efni

Að þróast og breytast

Til baka

Að þróast og breytast

Vigdís Jónsdóttir framkvæmdastjóri VIRK

Árið 2018 komu 1965 nýir einstaklingar inn í þjónustu VIRK og 1346 einstaklingar útskrifuðust úr þjónustunni á árinu.

Um er að ræða metfjölda bæði nýrra og útskrifaðra einstaklinga frá upphafi. Orsakir þessarar þróunar eru án efa margþættar og erfitt að benda á einn eða einfalda áhrifaþætti.

Ein mikilvæg ástæða er eflaust sú að þjónusta VIRK er orðin vel þekkt í samfélaginu sem veldur því bæði að fleiri einstaklingar sjá VIRK sem mögulegan kost í erfiðum aðstæðum og fagfólk vísar einstaklingum til VIRK í auknum mæli.

Einnig má sjá í gögnum VIRK að einstaklingar koma nú fyrr í þjónustu en áður – þ.e. þeir hafa verið styttra frá vinnumarkaði þegar þeir leita sér aðstoðar og er sú þróun mjög jákvæð þar sem betri árangur næst að jafnaði í starfsendurhæfingu ef komið er snemma að málum.

Fleiri háskólamenntaðir einstaklingar

Mun fleiri háskólamenntaðir einstaklingar leituðu til VIRK á síðasta ári samanborið við fyrri ár. Þetta má m.a. sjá á myndinni um menntunarstig hér að neðan. Sjá má að fjöldi einstaklinga með minni menntun helst nokkuð stöðugur á milli ára en 130 fleiri háskólamenntaðir einstaklingar leituðu til VIRK á síðasta ári samanborið við árið 2017. Í raun er hægt að skýra fjölgun einstaklinga í þjónustu VIRK milli áranna 2017 og 2018 að mestu með fjölgun háskólamenntaðra einstaklinga í þjónustu VIRK.

 

Andleg vanlíðan

Annað sem vekur athygli þegar gögn um einstaklinga sem leitað hafa til VIRK undanfarin ár eru skoðuð er fjöldi þeirra sem glímir við vandamál af andlegum toga og hafa af þeim sökum átt erfitt með að sinna starfi sínu áður en þeir leita til VIRK. Þetta má m.a. sjá á myndinn hér að neðan um líðan í vinnu þar sem hlutfall þeirra sem telja að starfið hafi verið andlega erfitt og innihaldi of mikið álag fer hækkandi á undanförnum árum.

Við þetta má síðan bæta að um þriðjungur einstaklinga sem kom til VIRK á síðasta ári telur að kulnun hafi haft áhrif á starfsgetu sína og um þriðjungur nefnir áföll í þessu samhengi. Ekki eru til samanburðarhæfar tölur um kulnun og áföll frá fyrri árum þar sem fyrst var farið að spyrja um þessa þætti í upplýsingakerfi VIRK á síðasta ári.

 

Mikil umræða hefur átt sér stað í samfélaginu um kulnun og streitu á undanförnum mánuðum og árum og menn velta því fyrir sér hvort um sé að ræða alvarlegt samfélagslegt mein sem mikilvægt er að ná tökum á og snúa þróuninni við. Ljóst er að vandinn er til staðar og hann er alvarlegur en við höfum hins vegar ekki vissu fyrir því að hann sé alvarlegri núna en fyrir nokkrum árum síðan því okkur skortir samanburðarhæfar tölur á milli ára.

Það er einnig rétt að benda á það að ýmis einkenni kulnunar eru svipuð og einkenni annarra sjúkdóma svo sem kvíða, þunglyndis og vefjagigtar og frá upphafi hafa mjög margir einstaklingar leitað til VIRK með einkenni þessara sjúkdóma. Einnig er eðlilegt að einstaklingar spegli sig í þeirri umræðu og upplýsingum sem fyrir liggja á hverjum tíma.

En það er sama hvernig við skoðum og veltum fyrir okkur þessum talnalegu upplýsingum, sú staðreynd liggur fyrir að of Þessi jákvæða nálgun kallar á ýmsar breytingar og öflugar forvarnir sem hafa það að markmiði að styðja og efla getu einstaklinga til sjálfshjálpar og til að takast á við áskoranir og áföll á lífsleiðinni.“ margir einstaklingar og þar á meðal talsvert af ungu fólki í okkar samfélagi glímir við mjög alvarlegan vanda af andlegum toga. Vinna þarf með þennan vanda og mikilvægast af öllu er að reyna að finna rót vandans og koma í veg fyrir að þessi þróun haldi áfram. Í því samhengi þarf að skoða mjög marga þætti og ég hef áður í greinum mínum í ársriti VIRK bent á fjölmarga þætti í okkar velferðarkerfi sem þarf að breyta og bæta til að styðja og hvetja einstaklinga betur til sjálfshjálpar.

Ný skilgreining á heilbrigði

Í þessu samhengi er einnig áhugavert að velta því fyrir sér hvernig orðræða okkar er um heilsu og líðan í samfélaginu, hvaða kröfur við gerum til lífsgæða og hvaða þættir það séu sem hafa áhrif á getu okkar til að mæta áskorunum lífsins. Það er til dæmis umhugsunarvert að opinber skilgreining á heilbrigði hefur haldist óbreytt frá árinu 1948 þegar Alþjóða heilbrigðisstofnunin setti fram þá fullyrðingu að heilbrigði væri „það að njóta fullkomlega líkamlegrar, andlegrar og félagslegrar vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og heilsubrest“.

Á þessum tíma voru smitsjúkdómar ein helsta ógn við heilsu fólks en í dag eru langvarandi lífsstílssjúkdómar ein helsta vá hins vestræna heims og í þeim veruleika er mjög varhugavert að heilsa geri kröfu um fullkomna vellíðan á öllum sviðum. Slík skilgreining getur auðveldlega leitt til sjúkdómsvæðingar t.d. í kjölfar áfalla og ýmissa erfiðra atburða í lífi hvers manns.

Machteld Huber, læknir og heimspekingur, flutti erindi á afmælisráðstefnu VIRK 2018 en hún hefur sett fram nýja skilgreiningu á heilbrigði sem er sú að heilsa sé „getan til að aðlagast og stjórna ferðinni þegar við mætum líkamlegum, andlegum og félagslegum áskorunum í lífinu“. Hún nefnir þessa skilgreiningu jákvæða heilsu (Positive Health) og telur mikilvægt að sjá hlutina í samhengi, vera við stjórnina, sjá tilganginn og fara ekki í fórnarlambshlutverkið. Nálgunin snýst um þrautseigju og það að vera sjálfur við stjórnvölinn í sínu lífi. Þessi jákvæða nálgun kallar á ýmsar breytingar og öflugar forvarnir sem hafa það að markmiði að styðja og efla getu einstaklinga til sjálfshjálpar og til að takast á við áskoranir og áföll á lífsleiðinni.

Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að bæði starfsmenn og stjórnendur í atvinnulífinu geri sér grein fyrir ábyrgð sinni þegar kemur að kröfum, aðbúnaði og samskiptum á vinnustöðum þar sem mikilvægt er að skapa góðar vinnuaðstæður, stuðla að góðum samskiptum og möguleikum á jafnvægi vinnu og einkalífs. Hér bera allir ábyrgð bæði, starfsmenn og stjórnendur.

VelVIRK – forvarnir, stuðningur og rannsóknir

Í byrjun árs 2018 ákvað stjórn VIRK að hrinda af stað og fjármagna sérstakt forvarnarverkefni til þriggja ára þar sem markmiðið er að koma í veg fyrir að einstaklingar hverfi af vinnumarkaði vegna heilsubrests. Verkefnið er unnið í samstarfi við Félagsmálaráðuneytið, Vinnueftirlitið og Landlæknisembættið auk þess sem fulltrúi Velferðarráðuneytisins hefur setið í stýrihóp verkefnisins. Verkefnið inniheldur m.a. eftirfarandi þætti:

Með því að fara í forvarnarverkefni af þessum toga mun VIRK í samstarfi við aðrar stofnanir og sérfræðinga nýta á uppbyggilegan hátt alla þá þekkingu og reynslu sem safnast hefur innan VIRK og samstarfsstofnana á aðstæðum og möguleikum einstaklinga sem lenda í vanda af ýmsum toga með það að markmiði að koma í veg fyrir aðstæður sem leiða til óvinnufærni einstaklinga til lengri tíma. Nánar má lesa um forvarnarverkefnið í viðtali við teymið sem stendur að baki verkefninu hér og hagnýt hollráð má nálgast á velvirk.is.

VIRK atvinnutenging í starfsendurhæfingu

Á fyrstu árum starfsemi VIRK var lögð mikil áhersla á það að byggja upp góðan starfsendurhæfingarferil sem uppfyllir tilteknar faglegar viðmiðanir í samstarfi við fagaðila um allt land. Samhliða var gæðakerfi innleitt til að tryggja gæði og öryggi þjónustunnar. Þessi uppbygging hefur verið árangursrík og skilað stórum hópi einstaklinga með aukna vinnugetu í virka atvinnuþátttöku.

Á undanförnum þremur árum hefur síðan verið þróuð mjög markviss þjónusta – VIRK atvinnutenging - sem miðar að aukinni atvinnutengingu í starfsendurhæfingu og ráðnir hafa verið inn sérhæfðir atvinnulífstenglar sem aðstoða einstaklinga við að finna störf við hæfi í lok starfsendurhæfingarferils. Litið er á þessa þjónustu sem hluta af starfsendurhæfingarferlinu og stendur hún þeim einstaklingum til boða sem ekki hafa getu til að finna sjálfir starf á vinnumarkaði í lok starfsendurhæfingar.

VIRK atvinnutenging hefur skilað mjög góðum árangri sem Jónína Waagfjörð, sviðsstjóri hjá VIRK, gerir betur grein fyrir í grein hér. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt að vinna með fyrirtækjum um allt land í þessu verkefni og það er ljóst að það eru til staðar ótal tækifæri í atvinnulífinu fyrir einstaklinga með skerta starfsgetu ef tryggður er viðunandi stuðningur og þjónusta.

Þróun og samstarf

VIRK hefur á undanförnum 10 árum verið að þróa stöðugt þjónustu sína í takt við reynslu, árangur og rannsóknir hérlendis og erlendis. Markmiðið er ávallt að bjóða upp á faglega þjónustu af bestu gæðum sem skilar árangri fyrir bæði einstaklinga og samfélag.

Starfsendurhæfing er tiltölulega ný faggrein sem er í stöðugri þróun um allan heim. Einstaklingar sem þurfa á starfsendurhæfingu að halda eru undantekningarlítið að glíma við flókinn vanda og flóknar aðstæður sem kallar á það að mismunandi fagstéttir vinni saman að því að veita meðferð og finna lausnir auk þess sem nauðsynlegt er að ólíkar stofnanir velferðarkerfisins vinni saman út frá þeim fjölbreyttu þörfum sem einstaklingar hafa.

Það er enginn einn sem finnur lausnina heldur næst árangurinn fyrst og fremst í samstarfinu þar sem framlag allra er mikilvægt og mikilvægast af öllu er að hlusta á einstaklinginn, hvetja hann og styðja til aukinnar getu og sjálfshjálpar. Það er því mikilvægt þegar byggð er upp þjónusta á sviði starfsendurhæfingar að nálgast það verkefni með bæði auðmýkt og í vissu um að sífellt sé unnt að gera betur og læra af reynslu og rannsóknum.

Hafa þarf það einnig í huga að þjónusta á sviði starfsendurhæfingar mun alltaf taka mið af því velferðarkerfi og þeim samfélagslega veruleika sem er til staðar á hverjum tíma. Þjónustan getur því aldrei átt sér stað í tómarúmi heldur aðeins í samstarfi við fjölda ólíkra aðila þar sem hver um sig leggur sitt af mörkum og ávallt með hagsmuni einstaklinga í forgrunni.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2019 - sjá fleira áhugavert úr ársritinu hér.


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband