Fara í efni

Kom sterkari til vinnu

Til baka

Kom sterkari til vinnu

Ungur maður á norðurland

,,Þessir fundir sem ég hef setið hjá ráðgjafanum eru náttúrlega bara búnir að vera gull. Þarna situr maður í rólegheitum og getur talað um allt og ekkert. Maður fær svör við því sem brennur á manni og sem maður hefur kannski ekki skilið annars staðar í kerfinu. Ef upplýsingarnar liggja ekki fyrir þegar ég spyr þá er þeirra aflað og svo eru þær tilbúnar á næsta fundi.“

Þetta segir ungur Norðlendingur um samskipti sín við Elsu Sigmundsdóttur, ráðgjafa í starfsendurhæfingu stéttarfélaganna við Eyjafjörð. Ungi maðurinn, sem greindist með eitlakrabbamein í fyrra, óskar nafnleyndar.

,,Ég greindist í lok mars í fyrra en var búinn að vera með það sem ég hélt að væri væg flensa í tvo mánuði. Samanlögð einkenni urðu þó til þess að ég fór loks til læknis. Ég var með stingi í öxl, handarkrika og brjóstkassanum sem voru að ágerast og stöðugt nefrennsli. Ég var alltaf að sjúga upp í nefið en þegar ég var hættur að geta það hélt ég að það væri vegna ofnotkunar á vöðvunum milli rifbeinanna. Það reyndist hins vegar vera allt annað.“

Líffærin ekki á réttum stað

Þegar hann leitaði fyrst til læknis vegna veikindanna var hann sendur heim með lyfseðil upp á púst við berkjubólgu. ,,Það virkaði ekkert. Ég fór þá aftur til læknis og í þetta skiptið að degi til sem ég gerði ekki í fyrra skiptið. Ég var sendur í röntgenmyndatöku og þá sást meðal annars að líffærin í brjóstholinu voru ekki á réttum stað. Við sneiðmyndatöku sást að ég var með krabbamein í eitli milli lungnanna. Það var það stórt að það hafði ýtt öðru lunganu út í horn.“

Við tók lyfjameðferð sem ungi maðurinn fór í á þriggja vikna fresti. ,,Þetta urðu alls átta skipti. Maður fær kokteil af lyfjum og lyfjagjöfin tók sex klukkustundir í hvert sinn. Maður er alveg sleginn niður við þetta og fær svo ekki næsta skammt fyrr en maður er svo hress að maður höndli hann.“

Í ágúst í fyrra eða um svipað leyti og lyfjameðferð lauk hringdi Elsa ráðgjafi í Norðlendinginn unga. ,,Hún boðaði mig á fund til sín og kynnti mér það sem var í boði. Ég var búinn að fara í sjúkraþjálfun, sundleikfimi og skipulagðar gönguferðir sem var mánaðarprógramm. Elsa kom mér í áframhaldandi endurhæfingu hjá sjúkraþjálfara. En það er ekki bara verið að koma manni í líkamlega endurhæfingu, heldur andlega líka og ég ákvað að þiggja tíma hjá sálfræðingi.“

Hræðslan fer með mann

,,Mér finnst í rauninni meiri þörf á sálfræðiaðstoð eftir að meðferð líkur. Maður er bölvandi á meðan á henni stendur þannig séð en sér samtímis alltaf einhvern endapunkt, það er að segja að þetta eigi eftir að klárast og að manni eigi ekki eftir að líða svona illa líkamlega endalaust. Þá hefur maður líka um annað að hugsa en að mæta á fundi hjá sálfræðingi úti í bæ. En svo þegar lyfjameðferðinni er lokið gerir hræðslan um að þetta komi aftur vart við sig og hún fer alveg með mann. Þá er gott að fá einhvern til þess að hræra í hausnum á manni og benda manni á að þótt manni líði kannski ekki vel sé maður ekki geðveikur. Ég kem sterkari til vinnu vegna þeirrar hjálpar sem ég hef fengið á vegum Starfsendurhæfingarsjóðs. Ég hefði lent í dýpri holu eftir hálft til eitt ár ef ég hefði ekki fengið þessa hjálp.“

Hann kveðst jafnframt afar þakklátur fyrir þær upplýsingar sem hann fékk hjá ráðgjafanum um réttindi sín í tengslum við veikindin. ,,Ég var eins og í móðu á meðan ég var í meðferð og meðtók ekki alveg þær upplýsingar sem ég fékk hjá læknum. Kerfið gerir heldur ekki ráð fyrir því að þeir hafi tíma til þess að ganga úr skugga um að sjúklingurinn hafi skilið allt rétt. Það var þess vegna gott að fá hjá ráðgjafanum allar upplýsingar um þann rétt sem maður á í sambandi við fjarveru frá vinnu vegna veikinda.“

Hægt að velta öllu upp

Það var í byrjun mars síðastliðins sem hann gat snúið aftur til vinnu og þá í hálft starf. ,,Elsa benti mér á að ég þyrfti ekki að byrja í 100 prósenta starfi. Ég ákvað þess vegna að byrja í hálfu starfi í tvo mánuði í stað þess að sitja heima mánuði lengur og gera ekkert. Að fara út og kíkja í vinnuna virkar í raun eins og geðlyf. Maður grípur í eitthvað þótt maður sitji ekki í 10 klukkustundir og svitni yfir excel. Það er gott að sitja í smástund, skilja eitthvað eftir sig og fara svo. Ég vil hvetja alla, ef aðstæður á vinnustað bjóða upp á það, að byrja ekki alveg á fullu. Þá þarf heldur ekki að troða í mann pillum og niðurgreiða þær. Það er ódýrara fyrir þjóðarbúið.“

Ungi maðurinn fer enn á fund Elsu, að því er hann greinir frá. ,,Ég hitti hana á þriggja vikna til mánaðarfresti. Það er mjög gott og ég veit í rauninni ekki hvar ég væri án þess. Á þessum fundum er hægt að velta öllu upp og pæla í. Þessi þjónusta Starfsendurhæfingarsjóðs er algjörlega frábær.“

Lestu fleiri reynslusögur einstaklinga hér.


Hafa samband