Fara í efni
Til baka

Úrræði VIRK reyndust vel við kulnun

Úrræði VIRK reyndust vel við kulnun

„Hætta er á kulnun þegar álagið fer yfir ákveðin mörk. Þá er mikilvægt að traust og trúnaður ríki og fólk þori að koma og segja sínum yfirmanni frá líðan sinni. Þýðingarmikið er þá að því sé vel tekið og viðkomandi fái stuðning frá yfirmanni og starfsfélögum. Mikilvægt er líka að starfsmanni sé gert ljóst að hann eigi afturkvæmt á vinnustaðinn.“

Ragnheiður S. Einarsdóttir, yfirsjúkraþjálfari á Landspítala Háskólasjúkrahúsi

„Ég hafði tekið eftir að Halldóra Eyjólfsdóttir væri tekin að lýjast í starfi áður en hún varð að taka veikindafrí.“

„Við höfðum rætt þetta áður en hún varð alvarlega veik. Kulnun í starfi er ekki eitthvað sem kemur skyndilega. Þetta vindur upp á sig, fólk er betra um tíma en svo versnar því á milli, einkum ef ákveðnar aðstæður skapast, svo sem óvenjulega mikið álag.

Halldóra hefur alltaf verið mjög áhugasöm, tilbúin að taka að sér verkefni og full af góðum hugmyndum. Það er kannski viss tilhneiging til þess að bæta verkefnum á fólk sem hefur reynst vel og lýsir sig tilbúið til að bæta á sig vinnu. Þá kann í dagsins önn að gleymast að viðkomandi er þegar með mikið á sinni könnu. En það er auðvitað mjög gott að hafa starfsfólk sem býður fram krafta sína þegar mikið liggur við.

Við Halldóra höfðum lengi átt mikið samstarf þar sem hún var á þessum tíma minn staðgengill hér á Hringbraut. Við ræddum því oft saman á föstum fundum og þess utan líka.“

Er margt starfsfólk undir þinni stjórn?
„Ég er yfir allri sjúkraþjálfun á LSH, undir minni stjórn eru um hundrað manns á átta starfseiningum og því er í mörg horn að líta. En vegna þess hve náið samstarf okkar Halldóru var hafði ég tekið eftir ákveðnum breytingum í skaphöfn hennar, það var „styttri í henni þráðurinn“, eins og hún orðaði það sjálf. Eftir að Halldóra hafði fengið áfall í vinnunni þá kom hún til mín og við ákváðum að hún „fengi aðeins að hvíla sig,“ svo enn sé notað orðalag hennar. Hún kom svo aftur en þá var greinilegt að hún gat ekki valdið öllu því sem hún þurfti að gera, þetta var einfaldlega of mikið fyrir hana eins og hún var þá orðin til heilsunnar.“

Hefur þú áður séð kulnun í starfi?
„Já, ég er búin að vinna sem yfirmaður í mörg ár og veit að kulnun er til í ýmsum myndum og á ýmsum stigum. Í tilviki Halldóru reyndist kulnunin langt gengin. En Halldóra hefur þannig persónuleika að það ástand duldist kannski lengur en ella vegna þess hve hress hún er að jafnaði í bragði og hve dugleg hún hefur verið við allskyns verkefni utan vinnunnar líka. Hún hefur til dæmis aldrei sagt: „Ég er svo þreytt, ég fer beint heim að sofa.“ Mikilvægt er að gera sér grein fyrir að það er margt sem spilar inn í þegar einstaklingur fær kulnun. Segja má að þetta tengist lífsstíl viðkomandi manneskju að töluverðu leyti. Fólk getur orðið þreytt á vinnunni sinni án þess að um kulnun sé að ræða. Kannski er þetta orð ofnotað. Oft grípur fólk til þess ráðs, ef það finnur fyrir vinnuleiða, að finna sér ný verkefni. Það getur hjálpað í vægum tilvikum en ekki þegar fólk er virkilega með kulnun í starfi, eins og var í tilviki Halldóru.“ 

„Já við höfum öll lært mikið af þessu, einkum mikilvægi þess að grípa fljótt inn í. Á LSH erum við með starfsmannastefnu þar sem fram kemur mikilvægi þess að yfirmaður hafi samband við starfsmann í veikindaferli. Sem og þýðingu þess að starfsmaðurinn haldi reglulegu sambandi við vinnustað sinn. Einnig er fjallað um endurkomu og að skoðað sé hvort ástæða sé til að breyta vinnufyrirkomulagi viðkomandi einstaklings."

Samkennd mikilvæg í samskiptum

Hefur þú sótt námskeið um kulnun?
„Já, ég hef gert það. Hætta getur verið á slíku ástandi þar sem álag er óhóflegt eins og gerist stundum á hinum fjölbreytilegustu vinnustöðum, inni á heimilum og jafnvel í tómstundastarfi. Sé hið óhóflega álag utan vinnustaðar getur hann orðið griðastaður. Hætta er á kulnun þegar álagið fer yfir ákveðin mörk. Þá er mikilvægt að traust og trúnaður ríki og fólk þori að koma og segja sínum yfirmanni frá líðan sinni. Þýðingarmikið er þá að því sé vel tekið og viðkomandi fái stuðning frá yfirmanni og starfsfélögum. Mikilvægt er líka að starfsmanni sé gert ljóst að hann eigi afturkvæmt á vinnustaðinn.

Í tilviki Halldóru þá byrjaði ég á að tala við hana, síðan, þegar ég áttaði mig á hve brýn nauðsyn var á að grípa inn í, þá vísaði ég henni á stuðningsteymi hér á spítalanum, sem tekur á móti starfsfólki sem á við veikindi eða kulnun að stríða. Ég get leitað til stuðningsteymisins og það getur í raun allt starfsfólk hér á LSH. Sjálf hef ég fundið fyrir álagi stundum en aldrei fyrir kulnun í starfi. En allir lenda í margvíslegum áföllum á lífsleiðinni, svona lagað er eitt af því. Samkennd er afar mikilvæg í samskiptum við fólk.“

Hvernig fundust þér úrræði VIRK?
„Mér fannst þau virka mjög vel. Halldóra var í sambandi við mig í gegnum allt endurhæfingarferlið. Ég hvatti hana til þess að koma og vera í sambandi við vinnustaðinn. Hún gerði það. Hún skrifaði líka samstarfsfólkinu bréf um líðan sína. Mér fannst það einkar heppileg ráðstöfun. Þegar hún kom svo aftur til starfa þá kom hún á öðrum forsendum en áður. Fólk breytist við svona áföll. Halldóra er núna með markvissari stefnu í sínu starfi og hefur lært að setja sjálfri sér þau mörk sem gefast vel.“

Hefur þú lært á þessari reynslu Halldóru?
„Já við höfum öll lært mikið af þessu, einkum mikilvægi þess að grípa fljótt inn í. Á LSH erum við með starfsmannastefnu þar sem fram kemur mikilvægi þess að yfirmaður hafi samband við starfsmann í veikindaferli. Sem og þýðingu þess að starfsmaðurinn haldi reglulegu sambandi við vinnustað sinn. Einnig er fjallað um endurkomu og að skoðað sé hvort ástæða sé til að breyta vinnufyrirkomulagi viðkomandi einstaklings. Þetta hefur allt átt við í tilviki Halldóru.“ 

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband