Fara í efni
Til baka

Ráðningar fyrir tilstilli VIRK skiluðu mannauði

Ráðningar fyrir tilstilli VIRK skiluðu mannauði

„Mín upplifun af þessum tveimur vinnusamningum sem Hringbraut gerði við einstaklinga sem komu úr samstarfi við VIRK er þess eðlis við að ég tel að vinnumarkaðurinn hefði misst af miklum mannauði hefði þessum starfsmönnum ekki auðnast að komast til starfa þar á ný.“

Rakel Sveinsdóttir fyrrverandi framkvæmdastjóri Hringbrautar

Eitt af því sem VIRK hefur gert til að aðstoða fólk við að komast út á vinnumarkaðinn í lok starfsendurhæfingar er að tengja það við fyrirtæki, hlutast til um ráðningar og veita stuðning fyrstu mánuðina í starfi.

Í upphafi starfs er gerð vinnuáætlun um aðlögun að starfinu og stundum eru líka gerðir vinnusamingar við fyrirtækið fyrstu mánuðina í starfi á meðan starfsmaður er að endurhæfast og ná tökum á starfinu. Sjónvarpsstöðin Hringbraut hefur ráðið til sín tvo starfsmenn í samstarfi við VIRK þar sem gerðar voru bæði vinnuáætlanir og vinnusamningar.

Rakel Sveinsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Hringbrautar, lætur mjög vel af samstarfi fyrirtækisins við VIRK og frammistöðu þeirra tveggja starfsmanna sem komu til starfa hjá Hringbraut á þennan hátt.

Hvernig hefur samstarfið við VIRK gengið?
„Það hefur gengið í alla staði frábærlega. Með hverri ráðningu fylgja samskipti við ráðgjafa viðkomandi starfsmanns. Í mínu tilviki var ég í samskiptum við tvo ráðgjafa fyrir sinn hvorn starfsmanninn og auk þess fulltrúa frá VIRK. Í alla staði hefur samstarfið við þessa aðila verið mjög gott.“

Í hverju felst samráðið við ráðgjafana og fulltrúa VIRK?
„Í flestum tilvikum er um að ræða einhvers konar markmiðssetningu sem er rædd í upphafi. Rætt er um starfshlutfall, jafnan er í svona samningum byrjað í lágu hlutfalli og það síðan aukið eftir því hvernig gengur. Sömuleiðis er gott fyrir fyrirtækið að geta rætt við ráðgjafa um styrkleika viðkomandi starfsmanns annars vegar og þess sem ber að gæta að sérstaklega hins vegar. Ég held líka að þessi góðu samskipti við ráðgjafa VIRK séu að nýtast á þeim vettvangi einnig. Það er vegna þess að vinnuveitandinn miðlar auðvitað umsögnum og yfirsýn til ráðgjafans varðandi það, hvernig viðkomandi starfsmanni gengur á vinnumarkaðinum.“

„Ráðningin þarf því að vera gerð með því hugarfari að viðkomandi vinnuveitandi ætli sér að gefa einstaklingnum, sem kemur frá VIRK, meiri tíma eða öðruvísi svigrúm í þjálfun en almennt gengur og gerist. Mín reynsla er að sú að mannauðurinn og starfskraftarnir sem fyrirtækið fær með ráðningunum vegi svo langtum þyngra en nokkuð annað í ferlinu."

Réttur maður á réttum stað

Er mikið mál að taka á móti einstaklingum sem hafa verið í samstarfi við VIRK?
„Ég myndi alls ekki segja að það væri mikið mál. Hins vegar þarf vinnuveitandinn að vera meðvitaður um að ekki er um hefðbundna ráðningu að ræða. Ráðningin þarf því að vera gerð með því hugarfari að viðkomandi vinnuveitandi ætli sér að gefa einstaklingnum, sem kemur frá VIRK, meiri tíma eða öðruvísi svigrúm í þjálfun en almennt gengur og gerist. Mín reynsla er að sú að mannauðurinn og starfskraftarnir sem fyrirtækið fær með ráðningunum vegi svo langtum þyngra en nokkuð annað í ferlinu. Það þarf líka að gæta þess að vanda vel til ráðningarinnar sjálfrar gagnvart starfsmanninum. Til þess að láta þetta takast frábærlega þarf maður að vera nokkuð sannfærður um að þarna sé réttur maður á réttum stað.“

Hvernig hefur þessum tveimur einstaklingum gengið að vinna með samstarfsfólkinu?
„Í þessum tveimur tilvikum sem ég hef reynslu af hefur einstaklingunum sem voru ráðnir með stuðningi Virk gengið framúrskarandi vel að vinna með fólkinu sem fyrir var. Í því sambandi tel ég að það skipti afar miklu máli að samstarfsfólk sé upplýst um það fyrirfram að ráðningin sé unnin í samstarfi við VIRK. Ég lagði mikla áherslu á það í upphafi að fyrirtækið og starfsmenn þess væru jákvæðir í viðhorfum sínum gagnvart samstarfinu við VIRK. Reynsla mín er að þegar starfsmenn fá upplýsingar um VIRK og þá starfsemi sem fer þar fram þá séu þeir strax mjög jákvæðir. Það er einmitt þetta jákvæða viðhorf sem hjálpar til, bæði fyrir starfsmanninn sem er að koma úr endurhæfingunni og jafnframt við alla þjálfun. Í raun má segja að þjálfun nýrra starfsmanna fari að stórum hluta fram með samstarfi við þá sem fyrir eru í viðkomandi deild fyrirtækisins.“

Hæfileikar fram úr vonum

Höfðu þessir tveir starfsmenn sérmenntun á einhverju sviði?
„Já, annar þeirra er lærður í kvikmyndagerð og í því starfi er hann vægast sagt mjög hæfileikaríkur. Það sem kom mér svo skemmtilega á óvart var að hæfileikarnir hans og frumkvæði í starfi náðu svo langt umfram það sem ég hafði nokkurn tíma gert mér vonir um. Umræddur starfsmaður er mjög hæfur og hefur reynst allt í senn kvikmyndatökumaður, ljósmyndari og grafískur hönnuður.

Hvað hinn einstaklinginn snertir kom það mér einnig skemmtilega á óvart að sá starfsmaður er svo röskur til verka að fljótt kom í ljós að verkefnasviðið varð fljótlega miklu fjölþættara en ég hafði gert ráð fyrir.“

Mælir með vinnusamningum

„Ég hvet fyrirtæki hiklaust til þess að skoða vinnusamninga í samstarfi við VIRK, einkum þegar um er að ræða hlutastörf sem gætu með tíð og tíma aukist í full stöðugildi,“ segir Rakel.

„Oft er það þannig að fyrirtæki bíða með slíkar ráðningar í lengstu lög vegna kostnaðar. Með vinnusamning skapast tækifæri til þess að leysa úr þessu á einfaldan hátt. Annars vegar með ráðningu hæfileikaríkra einstaklinga og hins vegar með mótframlagi sem lækkar launakostnað meðan á samningnum stendur. Ég held að það séu alltof fá fyrirtæki sem gera sér grein fyrir hve mikil tækifæri felast í vinnusamningi og mæli með því, einkum fyrir smærri fyrirtæki, að þessi leið sé skoðuð.“

Hvað standa svona vinnusamningar lengi?
„Þeir eru oftast miðaðir við sex mánuði en það er of stuttur tími samkvæmt minni reynslu. Í báðum tilfellum hef ég talað fyrir framlengingu á samningi – og það ekkert síður fyrir starfsmanninn en vinnuveitandann. Ég hef komist að raun um að svigrúmið sem þarf til starfsþjálfunar og svigrúmið sem þarf bæði fyrir starfsmanninn og vinnuveitandann til þess að læra á styrkleika og getu viðkomandi tekur lengri tíma en þessa sex mánuði. Ég myndi mæla með því að fyrirtæki sem gera vinnusamninga við fólk sem hefur verið í samstarfi við VIRK ræði þetta strax í upphafi. Með tólf mánaða samingum eru miklu meiri líkur á að vinnustaðasamningur sé búinn að skila af sér framtíðarráðningu eða í það minnsta að starfsmaðurinn hafi öðlast fulla starfsgetu.“

Hafa þessi tveir einstaklingar verið kvíðnir vegna þessa að samningurinn rennur fljótt út?
„Já, ég tel að sex mánaða vinnusamningar búi til óþarfa kvíða hjá nýráðnum starfsmönnum því oftar en ekki eru þetta einstaklingar sem þú vildir mjög gjarnan byggja upp meira sjálfstraust hjá.“

Hefur þú sagt forráðamönnum annarra fyrirtækja frá reynslu þinni af samstarfi við VIRK?
„Já ég hef gert það og væri til í að gera meira af því. Mín upplifun af þessum tveimur ráðningum sem Hringbraut gerði við einstaklinga sem komu úr samstarfi við VIRK er þess eðlis að ég tel að vinnumarkaðurinn hefði misst af miklum mannauði hefði þessum starfsmönnum ekki auðnast að komast til starfa þar á ný. Það er þess vegna sem ég tel að það sé allra hagur að kynna sér vel út á hvað ráðning gengur við þá einstaklinga sem koma úr samstarfi við VIRK.“

Viðtal: Guðrún Guðlaugsdóttir
Mynd: Lárus Karl Ingason

Getum við bætt efni síðunnar?

Hafa samband