Fara í efni

Við viljum öll taka þátt og hafa hlutverk í samfélaginu

Til baka
Mynd: Fréttablaðið/Valli
Mynd: Fréttablaðið/Valli

Við viljum öll taka þátt og hafa hlutverk í samfélaginu

Frá því að VIRK hóf starfsemi fyrir um 12 árum hafa þúsundir einstaklinga nýtt sér þjónustuna og náð að koma sér aftur inn á vinnumarkaðinn. Starfsemi VIRK hefur því gríðarlega þýðingu fyrir samfélagið, einstaklinga og fyrirtækin í landinu. Mikilvægt er að hjálpa og fjárfesta í fólki.

Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri VIRK, var fyrsti starfsmaður starfsendurhæfingarsjóðsins og hóf störf rétt fyrir hrunið. „Þetta er auðvitað talsvert merkileg saga. Þá voru aðilar vinnumarkaðarins búnir að stofna VIRK og það var komin skipulagsskrá en það átti alveg eftir að útfæra starfið. Ég byrja 15. ágúst 2008, fékk lánaða eina skrifstofu hjá ASÍ, og er þá alein og fer að reyna að finna mér fagfólk til þess að vinna með.
Þegar hrunið skellur á er ég rétt svo að koma starfseminni af stað og þeir segja við mig, bæði fulltrúar verkalýðsfélaganna og Samtaka atvinnulífsins, að ég eigi bara að setja í fimmta gír, sem ég gerði. Það veitti ekkert af og strax á árinu 2009 vorum við farin að taka á móti fólki í þjónustu.“

Meirihluti í vinnu eða nám

Vigdís segir meirihluta þjónustuþega hafa náð virkni að lokinni endurhæfingu þó vissulega séu alltaf einhverjir sem hætti líka. „Í dag eru 2.624 einstaklingar hjá VIRK og frá upphafi hafa komið um 19.500 manns. Af þeim hafa tæplega 12.000 lokið þjónustu hjá okkur og af þeim eru 75-80% í einhverri virkni þegar þau útskrifast.“

Vigdís segir þetta auðvitað hafa áhrif á samfélagið. „Við erum að tala um mörg þúsund manns sem ná að útskrifast annaðhvort í vinnu eða nám. Við náum að sjálfsögðu aldrei árangri með alla, sumir eru kannski það illa staddir þegar þeir koma að það er ekki raunhæft að þeir komist á vinnumarkaðinn en meirihluti fólks sem fer í gegn hérna hjá okkur nær að fara í vinnu, annaðhvort að hluta eða öllu leyti. Margir ná að fara aftur í sitt fyrra starf og svo er alltaf ákveðinn hluti, sérstaklega unga fólkið, sem fer í nám og það er náttúrulega líka mjög verðmætt.“

Vigdís segir það að hjálpa og fjárfesta í fólki hafa gríðarlega mikla samfélagslega þýðingu. „Það á við um VIRK og allar aðrar stofnanir og fyrirtæki sem veita samfélagslega þjónustu og líka fyrir vinnumarkaðinn sem væri auðvitað mun fátækari ef allar þessar þúsundir einstaklinga hefðu ekki farið aftur í þátttöku á vinnumarkaði. Þetta skiptir máli varðandi verðmætasköpun í landinu og ekki síst fyrir líf og lífsgæði þessa fólks, það vilja allir vera þátttakendur í samfélaginu, það vilja allir hafa hlutverk.“

Það á við um VIRK og allar aðrar stofnanir og fyrirtæki sem veita samfélagslega þjónustu og líka fyrir vinnumarkaðinn sem væri auðvitað mun fátækari ef allar þessar þúsundir einstaklinga hefðu ekki farið aftur í þátttöku á vinnumarkaði. Þetta skiptir máli varðandi verðmætasköpun í landinu og ekki síst fyrir líf og lífsgæði þessa fólks, það vilja allir vera þátttakendur í samfélaginu, það vilja allir hafa hlutverk.“

Mörg úrræði í boði

Vigdís segir fjölda einstaklinga hjá VIRK um þessar mundir vera svipaðan og undanfarin tvö ár og að biðin sé ekki löng í dag. Ferlið hefst á því að fara til læknis og fá beiðni. „Ástæðan er sú að fólk kemur til okkar með heilsubrest og við þurfum að vita hver hann er svo við getum verið með ábyrga starfsendurhæfingaráætlun. Síðan er farið yfir hana af sérfræðingum hjá okkur og fólk svarar spurningalista svo við fáum sem bestar upplýsingar til þess að geta búið til góða áætlun,“ útskýrir hún.

„Því næst fær fólk úthlutað ráðgjafa en þeir eru staðsettir í flestum tilfellum hjá stéttarfélögunum um allt land. Þetta eru sérhæfðir starfsendurhæfingarráðgjafar sem eru yfirleitt með mjög góða menntun á sviði heilbrigðis- og félagsvísinda. Flestir ráðgjafarnir hjá okkur eru með mastersgráðu og hafa svo allir fengið sérstaka þjálfun hjá okkur. Þeir hafa þetta mikilvæga hlutverk að hvetja einstaklinginn áfram í sínu ferli og halda utan um hann,“ útskýrir Vigdís.

„Svo höfum við tök á að kaupa alls konar úrræði fyrir fólk hjá þjónustuaðilum um allt land, ýmis námskeið, sjálfsstyrkingu, sálfræðiþjónustu, sjúkraþjálfun og líkamsrækt. Við höfum möguleika á að veita einstaklingum mjög fjölbreytta þjónustu. Ef þjónustuþegarnir þurfa mikið utanumhald þá erum við með samninga við starfsendurhæfingarstöðvar víða um land sem veita daglega þjónustu, þá mætir fólk á hverjum degi og fær mjög mikið utanumhald og svo eru aðrir sem þurfa minna og koma þá bara til ráðgjafa öðru hvoru og eru síðan kannski að fá þjónustu frá sálfræðingi og hugsanlega einhver námskeið og líkamsrækt sem dæmi.“

Ekki okkar hlutverk að lækna

Vigdís segir mikið lagt upp úr því að kenna fólki ýmis bjargráð þannig að það geti bjargað sér sjálft. „Við erum að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Hver þjónustuþegi setur sér markmið um endurkomu til vinnu í upphafi starfsendurhæfingarinnar, gerir ætlun með ráðgjafa sínum um hvernig best sé að ná markmiðum sínum og við nýtum fjölbreytta þjónustu og leiðir til að vinna að þeim markmiðum.

Margir einstaklingar glíma við ýmsar skerðingar og heilsubrest, jafnvel ævina á enda. Við getum ekki alltaf breytt því og það er ekki okkar hlutverk að lækna eða veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu en við getum aðstoðað einstaklinga við að takast á við sinn heilsubrest og auka þannig vinnugetu sína og þátttöku í samfélaginu þrátt fyrir heilsubrestinn.“

Margir einstaklingar glíma við ýmsar skerðingar og heilsubrest, jafnvel ævina á enda. Við getum ekki alltaf breytt því og það er ekki okkar hlutverk að lækna eða veita sérhæfða heilbrigðisþjónustu en við getum aðstoðað einstaklinga við að takast á við sinn heilsubrest og auka þannig vinnugetu sína og þátttöku í samfélaginu þrátt fyrir heilsubrestinn.“

Hún segir flesta ná flugi út á vinnumarkaðinn en það sé alltaf ákveðinn hópur sem er með þannig skerðingar að hann eigi erfitt með það. „Þá erum við með svokallaða atvinnulífstengla sem fara í raun og veru svolítið út á örkina og reyna að finna störf fyrir þessa einstaklinga en oft eru þetta hlutastörf. Þetta er þjónusta sem hefur verið í þróun hjá okkur undanfarin ár og hefur gefið mjög góða raun. Við höfum náð samstarfi við nokkur hundruð fyrirtæki sem hafa verið ákaflega viljug og búa þá til hlutastörfin til að mæta þessum einstaklingum. Það hefur gengið ótrúlega vel að vera með þessa beinu tengingu við atvinnulífið þegar þess þarf.“

Forvarnir mikilvægar

Fyrir nokkrum árum var heimasíðan velvirk.is sett á laggirnar en Vigdís segir hana vera hluta af forvarnarverkefni VIRK. „Markmið þeirrar síðu er að reyna að koma í veg fyrir að fólk þurfi að koma til okkar með því að bjóða upp á fræðslu og ráðleggingar, bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Það er líka mikilvægt að fyrirtæki bjóði upp á heilsusamlegt starfsumhverfi og styðji fólkið sitt. Við erum alltaf að bæta við síðuna og þarna geta stjórnendur náð sér í alls konar fræðslu, tæki og tól og starfsmenn líka.“

Athygli vekur að um 80% þeirra sem leita til VIRK hafa ekki starfsgetu vegna andlegra sjúkdóma eða stoðkerfisvanda. „Ef þú ert að glíma við mikla verki þá hefur það áhrif á sálina og öfugt þannig að það er ekkert skrítið að þetta tvennt tengist. En þessi mikla fjölgun geðgreininga er auðvitað áhyggjuefni í samfélaginu. Það er eins og fólki líði ekki eins vel og að við séum að takast á við afleiðingar einhvers sem þarf að fara betur ofan í kjölinn á. Á sama tíma og við erum á réttri leið með marga hluti þá er þetta eitthvað sem við sem samfélag þurfum að horfast í augu við og athuga hvað við getum gert betur. Það eru margir hlutir í þessu samhengi sem þarf að skoða.“

Erfitt en ekki ómögulegt

Vigdís segir COVID hafa haft neikvæð áhrif á marga og þá ekki síst hjá þeim sem eru að glíma við atvinnumissi. „Því fylgir auðvitað mikið óöryggi og við finnum það vel hjá okkar þjónustuþegum sem eru að glíma við þunglyndi og kvíða og standa nú frammi fyrir enn meiri einangrun. Þetta hefur komið mjög illa við þá einstaklinga og það þarf að halda sérstaklega vel utan um þann hóp. Við bjóðum fólki upp á fjarviðtöl og hjá þeim sem þurfa að fá að hitta ráðgjafa er farið eftir ítrustu sóttvarnafyrirmælum. Áhrif COVID á vinnumarkaðinn hafa gert það að verkum að það er kannski erfiðara að koma fólki í vinnu en það er ekki ómögulegt.“

Við bjóðum fólki upp á fjarviðtöl og hjá þeim sem þurfa að fá að hitta ráðgjafa er farið eftir ítrustu sóttvarnafyrirmælum. Áhrif COVID á vinnumarkaðinn hafa gert það að verkum að það er kannski erfiðara að koma fólki í vinnu en það er ekki ómögulegt.“

Þá hafi þau líka orðið vör við að ákveðinn hópur hafi haft það betra í COVID, sennilega vegna þess að það hafi dregið úr hraða í samfélaginu. Það veki upp ýmsar spurningar. „Við hljótum að þurfa að spyrja okkur hvort við séum hreinlega að gera of miklar kröfur til okkar. Það þyki jafnvel eðlilegt að foreldrar sem eiga nokkur börn séu líka í fullu námi, stundi ræktina, sinni tómstundum og vinnu. Eru þetta eðlilegar kröfur sem við eigum að gera á okkur sjálf og aðra? Það eru margir sem hafa ekki möguleika á að uppfylla þessar kröfur eða forsendur til að standa undir svona væntingum. Þetta er margþætt og flókið og það skiptir máli fyrir okkur öll að byggja upp gott samfélag þar sem okkur líður vel.“

Viðtalið birtist í Konur í atvinnulífinu - sérblaði Fréttablaðsins 27. janúar 2021.


Fréttir

21.07.2023
18.07.2023

Hafa samband