Fara í efni

Úrræði á tímum heimsfaraldurs - Ár sjálfseflingar, seiglu og aukins framboðs fjarúrræða

Til baka

Úrræði á tímum heimsfaraldurs - Ár sjálfseflingar, seiglu og aukins framboðs fjarúrræða

Ásta Sölvadóttir, sviðsstjóri úrræða hjá VIRK

 

Árið 2020 fór ósköp hefðbundið af stað á úrræðasviði VIRK þar sem unnið var eftir megin hlutverkum sviðsins sem er að hafa umsjón með þeirri þjónustu sem VIRK kaupir, sinna eftirliti með þjónustukaupum og tryggja upplýsingastreymi til þjónustuaðila, ráðgjafa og sérfræðinga VIRK. Í janúar var haldin vinnusmiðja um IPS hugmyndafræðina fyrir starfsfólk á starfsendurhæfingarstöðvum og í tengslum við fræðsludaga VIRK í mars var haldin vel heppnuð úrræðamessa á Grand hóteli þar sem fjölmargir þjónustuaðilar kynntu starfsemi sína fyrir ráðgjöfum og sérfræðingum VIRK.

Tækifærið var einnig nýtt til þess að vera með fræðslufund fyrir þjónustuaðila um upplýsingakerfi VIRK og kynntar voru ýmsar nýjungar sem snúa að þjónustuaðilum. Fræðslufundum fyrir nýja þjónustuaðila var breytt í fjarfundi það sem eftir lifði árs og í ljós kom að það er hentug leið til þess að koma upplýsingum áleiðis til þjónustuaðila og þá sérstaklega þeirra sem búa á landsbyggðinni.

Seigla, lausnamiðuð hugsun og nýsköpun í úrræðaflórunni

Þegar fyrsta bylgja Covid19 heimsfaraldursins gekk yfir brettu allir upp ermar sem koma að starfsendurhæfingu hjá VIRK. Þjónustuaðilar voru skjótir að aðlaga úrræðin að aðstæðum í þjóðfélaginu með hagsmuni einstaklinga í huga. Þar sem tæknin var til staðar lærðu allir að nýta fjarfundabúnað til samskipta, hvort sem um var að ræða einstaklinga í þjónustu, þjónustuaðila, ráðgjafa og/eða starfsfólk VIRK.

Staðúrræðum var umbylt yfir í fjarúrræði þar sem því var við komið. Einstaklingsviðtöl fóru fram með fjarfundabúnaði eða á staðnum og ýmis hreyfitengd úrræði fóru fram utandyra eða heima í stofu hjá fólki þegar líkamsræktarstöðvum var lokað. Einstaklingar fengu áfram þá þjónustu sem þeir þurftu á að halda þótt með breyttu sniði væri. Einhver úrræði féllu þó niður eða hófust síðar en ráð var fyrir gert vegna lokana í samfélaginu, en reynt var að bregðast við slíku og setja úrræðin af stað um leið og vilyrði fékkst til þess.

Sérfræðingar VIRK settu inn fróðleik og ráð á erfiðum tímum á forvarnarvefinn Velvirk. Má þar nefna tengla á námstengd úrræði, efni tengt hreyfingu og útivist á tímum sóttvarna o.fl. gagnlegt fyrir einstaklinga og vinnuveitendur. Þjónustuaðilar voru einnig hvattir til þess að nýta þessi verkfæri í vinnu sinni með einstaklingum. Má þar nefna ýmsar bakslagsvarnir og úrræði sem þróuð voru í ljósi aðstæðna.

Það sem stendur upp úr nú þegar sér fyrir endann á faraldrinum eru skjót viðbrögð þjónustuaðila sem sýndu mikla seiglu og fagmennsku í að aðlaga starfsemi sína að þeim veruleika sem blasti við í þjóðfélaginu. Skapandi og lausnamiðuð hugsun hefur leitt af sér fjölda nýrra og endurbættra úrræða og t.d. hefur framboð á fjarúrræðum aukist mikið. Vonandi er sú þróun komin til að vera, þar sem fjarúrræði nýtast fólki í starfsendurhæfingu alls staðar á landinu og því má segja að heimsfaraldurinn hafi verið nýttur til nýsköpunar úrræða í starfsendurhæfingu hjá VIRK.

Yfir 500 þjónustuaðilar á landsvísu

VIRK átti í samstarfi við fjölda þjónustuaðila á landsvísu á árinu 2020. Kaup á úrræðum jukust á árinu og námu þau 1540 milljónum króna eins og sjá má á mynd 1. Myndin sýnir þróun útgjalda vegna aðkeyptrar þjónustu á föstu verðlagi. Í árslok 2020 voru rúmlega 500 þjónustuaðilar um allt land með virkar pantanir í upplýsingakerfi VIRK.

Á mynd 2 má sjá skiptingu útgjalda milli mismunandi tegunda þjónustu á árinu 2020. Kostnaður vegna sálfræðiþjónustu og sjúkraþjálfunar hélst svipaður milli ára og kostnaður vegna sérhæfðrar starfsendurhæfingarþjónustu dróst saman um 1%. Kostnaður vegna náms og námskeiða dróst saman um 2% og einnig varð 3% samdráttur í heilsutengdum úrræðum enda voru líkamsræktarstöðvar lokaðar um tíma. Atvinnutengd úrræði drógust líka saman, markþjálfun stóð í stað og aukning var í öðrum úrræðum eins og ráðgjöf og þjónustu. Þá bættist við nýr flokkur, sjálfsefling, en úrræði úr öðrum flokkum voru færð í þennan flokk og skýrir það m.a. samdrátt í öðrum flokkum.

Þjónustuaðilar VIRK

Tæplega 150 sálfræðingar veittu sálfræðiþjónustu hjá VIRK á árinu 2020. Sálfræðingar veita einstaklingum með geðrænan og streitutengdan vanda einstaklingsviðtöl og hópmeðferðir sem byggja á gagnreyndum aðferðum. Búið er að þrepaskipta þjónustu sálfræðinga eftir eðli vanda einstaklinga og mælst er til þess að sálfræðingar styðjist við klínískar leiðbeiningar í meðferð. Sálfræðingar auk fleiri fagstétta bjóða auk þess upp á fjölda úrræða á sviði sjálfseflingar.

Með VIRK starfa tæplega 140 sjúkraþjálfarar sem veita fjölbreytta einstaklings og hópþjónustu fyrir einstaklinga með stoðkerfisraskanir. Þeir styðja auk þess einstaklinga til að gera hreyfingu að lífstíl. Sjúkraþjálfurum í samstarfi við VIRK fjölgaði á árinu og standa vonir til að sjúkraþjálfurum fjölgi enn frekar meðal þjónustuaðila á árinu 2021 þar sem umsýsla vegna þjónustupantana er mun skilvirkari í nýja upplýsingakerfinu og þörf einstaklinga í þjónustu VIRK hefur ekki dregist saman.

Um 125 þjónustuaðilar um land allt bjóða upp á ýmsa heilsueflandi þjónustu og má þar nefna líkamsrækt með stuðningi íþróttafræðings eða þjálfara, vatnsleikfimi og jóga. Talsverður fjöldi nýrra fagaðila bættist í hóp þjónustuaðila á árinu.

Um 60 fræðsluaðilar og símenntunarmiðstöðvar um allt land veita ráðgjöf og fræðslu sem auka möguleika einstaklinga á vinnumarkaði. Þjónustan felur meðal annars í sér áhugasviðsgreiningar, hæfnigreiningar, raunfærnimat, nám á vottuðum námsleiðum auk fjölmargra styttri námsleiða og námskeiða sem auka möguleika á vinnumarkaði. Fjöldi þjónustuaðila veitir atvinnutengda þjónustu og má þar helst nefna vinnuprófanir, úttekt og ráðgjöf og stuðning á vinnustað við endurkomu til vinnu sem og úrræði sem miða að því að búa einstaklinga undir atvinnuleit. Fagaðilum sem veita ýmsa ráðgjöf og þjónustu fjölgaði á árinu 2020. Hópur útlendinga leitar einnig til VIRK og er veittur ýmiss sértækur stuðningur fyrir þennan hóp t.d. túlkaþjónusta og íslenskunámskeið. Þörf er á fleiri úrræðum fyrir útlendinga meðal allra hópa þjónustuveitenda.

VIRK hefur átt í farsælu samstarfi við 9 starfsendurhæfingarstöðvar um allt land á undanförnum árum. Samstarfssamningar við starfsendurhæfingarstöðvar eru liður í því að tryggja að til staðar sé fagleg þekking og reynsla á sviði starfsendurhæfingar um allt land. Samstarf VIRK og starfsendurhæfingarstöðva byggist m.a. á reglulegum þverfaglegum rýnifundum þar sem farið er markvisst yfir mál einstaklinga sem eru í þjónustu starfsendurhæfingarstöðva á vegum VIRK.

Almenn ánægja er með samstarfið og nýtist upplýsingakerfið vel við miðlun á framvindu í starfsendurhæfingunni. Sem hluti af fræðslu og samstarfi við starfsendurhæfingarstöðvar bauð VIRK kynningu á IPS aðferðafræðinni fyrir allar starfsendurhæfingarstöðvar á landinu þann 17. janúar 2020 og kom þar fram mikill áhugi á að skoða betur hvort og þá hvernig væri hægt að vinna eftir aðferðafræðinni hér á landi. VIRK hefur verið í samstarfi við Laugarás meðferðargeðdeild (LMG) undanfarin ár þar sem IPS atvinnulífstenglar frá VIRK sinna þjónustuþegum LMG sem hafa sýnt áhuga á endurkomu til vinnu.

Starfsendurhæfingarlíkan VIRK byggir á heildrænni sýn og þrepaskiptingu úrræða

Atvinnutengd starfsendurhæfing hjá VIRK er einstaklingsmiðuð og byggir starfsendurhæfingarlíkan VIRK meðal annars á ICF flokkunarkerfi WHO um færni, fötlun og heilsu. Starfsendurhæfingin tekur mið af færniskerðingu og heilsu einstaklingsins og er ICF flokkunarkerfið nýtt til þess að fá heildræna sýn á heilsubrest hvers og eins. Tekið er tillit til persónutengdra þátta, sjúkdómsgreiningar, umhverfis, andlegrar heilsu, líkamlegrar virkni, þátttöku og athafna einstaklings.

Á mynd 3 má sjá hvernig úrræðum í starfsendurhæfingu er skipt niður í þrep sem taka mið af áhrifum á færni til atvinnuþátttöku. Skýrivísar í ICF flokkunarkerfinu eru nýttir til þess að flokka úrræðin í rétt þrep sem taka mið af hindrun á færni til atvinnuþátttöku. Fagaðilar í starfsendurhæfingu styðjast við klínískar leiðbeiningar í meðferðum og viðurkennd mælitæki eru nýtt til að meta árangur í starfsendurhæfingunni þar sem það á við.

Unnið hefur verið að því í nokkur ár hjá VIRK að þrepaskipta úrræðum með það að markmiði að starfsendurhæfingin sé við hæfi hvers og eins. Á árinu 2020 fór fram gagnger endurskoðun á starfsendurhæfingarlíkani VIRK og verður ný uppfærsla þess tekin í notkun á árinu 2021. Framundan eru kynningar á breytingunum fyrir þjónustuaðila VIRK en þeir eru mikilvægir samstarfsaðilar í teymi einstaklinga í starfsendurhæfingu.

„Ef það er eitthvað sem árið 2020 hefur kennt okkur þá er það mikilvægi þess að vera alltaf tilbúin til að hugsa hlutina upp á nýtt. Það er ekkert meitlað í stein og þegar við erum tilbúin að hugsa út fyrir kassann finnast oft nýjar leiðir og í sumum tilvikum eru þær jafnvel árangursríkari en þær gömlu.“

Úrræðasvið VIRK

Á úrræðasviði starfa Ásta Sölvadóttir, Anna Lóa Ólafsdóttir, Freyja Lárusdóttir og Fjalar Þorgeirsson. Stærstu verkefni sviðsins þessa dagana eru þrjú stór verkefni sem koma til með að gera þjónustu við einstaklinga enn skilvirkari og betri.

Verkefnin eru:

  1. Þrepaskipting þjónustu, þjónustuleiðir, úrræði og tímamörk.
  2. Skilgreining hópa í þjónustu, þjónustuframboð og árangur fyrir hópa.
  3. Samstarf við þjónustuaðila vegna úrræða aukið m.a. með meiri fræðslu og þjálfun. Þróa betra mat á árangri í úrræðum í samstarfi við þjónustuaðila.

Ef það er eitthvað sem árið 2020 hefur kennt okkur þá er það mikilvægi þess að vera alltaf tilbúin til að hugsa hlutina upp á nýtt. Það er ekkert meitlað í stein og þegar við erum tilbúin að hugsa út fyrir kassann finnast oft nýjar leiðir og í sumum tilvikum eru þær jafnvel árangursríkari en þær gömlu.

Hvort sem við erum að tala um TEAMS, ZOOM, grímufundi, fjarráðgjöf, fjarúrræði, útileikfimi, náttúruhreyfingu, heimalíkamsrækt, jóga á netinu o.fl. þá hefur úrræðaflóran hjá VIRK líklega aldrei verið fjölbreyttari. Landsbyggðin hefur fagnað þessu og ráðgjafar þar talað um að líklega hafi aldrei verið jafn fjölbreytt úrræði í boði og sl. vetur. Lærdómur tvö er því líklega; fátt er svo með öllu illt að ei boði gott.

Greinin birtist fyrst í ársriti VIRK 2021


Fréttir

23.06.2022
20.06.2022

Hafa samband